Grilldagur og hjól
Árlegur Grilldagur Kirkjugarðanna var haldinn í Fossvogi í dag. Lambakjöt og pylsur voru grilluð. Pylsurnar vorur reyndar ekki grillaðar. Þær fóru á grillið í 2 sekúndur og síðan beint af aftur. Nammi og ís var einnig í boði. Viðurkenningar voru veittar fyrir framúrskarandi stundvísi og fengum við Hólavallapakkið 7 af 13 viðurkenningum. Því miður fékk ég ekki vegna þess að ég hafði einu sinni á tímabilinu stimplað mig inn klukkan 08:02 sem er tveimur mínútum of seint. Þar fór 15.000 kall í vaskinn. 15 þús. fyrir tvær mínútur er ekki amalegt kaup. Fótboltamót kirkjugarðanna er síðan á morgun.Mig langar í nýtt hjól. Gamla hjólið hef ég átt síðan ég bjó í sveitinni og það eru rúm sjö ár síðan það var. Gírarnir eru leiðinlegir og svo er dekkið líka djöfull leiðinlegt. Einhvern daginn ætla ég samt að skrönglast á helvítis hjólinu upp í Breiðholt og hafa með mér skeiðklukku. Svo ætla ég að leggja hjólinu á milli Select og stóru Breiðholtsblokkanna. Síðan ætla ég að labba í hæfilega fjarlægð og ræsa skeiðklukkuna og athuga hve langur tími líður þar til litlir fingralangir Breiðholtsbófar taka hjólið og fara með það. Þeir ættu að vera nógu fingralangir til að næla sér í varahluti líka einhversstaðar og gera við það. Held að þetta sé mjög góð leið til að losna við gamla skranið.
|