laugardagur, 30. júlí 2005

Þvottameistarinn

Nú er örstutt í að mamma hypji sig héðan út með sitt hafurtask og hyski (þ.e. systur mína). Flyst hún þá af landi brott og ég verð eigin herra hér á Íslandi. Áðan afhenti hún mér síðan lista með leiðbeiningum um notkun þvottavélarinnar. Listann mun ég nú birta hér í fullri lengd og óritskoðaðan, lesendum til glöggvunar og fróðleiks:
  1. Skrúfa frá vatni.
  2. Setja þvottinn í - sortera í ljósan (hvítt sensitive þvottaefni), dökkan (blátt þvottaefni eða þvottaefni fyrir svart eða color) og loks milli.
  3. Hafa hita stilltan á 40 - 50° C.
  4. Stilla á þvottakerfi FJÖGUR.
  5. Loka vélinni.
  6. Setja í gang.
  7. U.þ.b. tveimur og hálfri klukkustund síðar: Opna vélina, taka úr henni og hengja upp.
  8. Skrúfa fyrir vatnið.

Ekki mun langur tími líða þar til ég verð þvottameistari og þvæ eins og ég hafi verið fæddur í þvottavélinni. Þá mun ég án efa taka að mér þvotta fyrir gesti og gangandi og rukka ríflega fyrir.