fimmtudagur, 7. júlí 2005

Kreppa

Ég fór ekki á Queens of the Stone Age og Foo Fighters. Það hefði vissulega verið gaman en einnig dýrt. Ég er alltaf að spara núna eins og kom fram um daginn. Spara til mögru áranna. Fólk er allt of öruggt með sitt núna. Hvað ef það kemur kreppa aftur? Hvað ef andskotans kommarnir ná völdum? Þá fer allt í bál og brand og skattarnir lóðrétt upp, upp í það óendanlega. Þá er eins gott að hafa verið duglegur að spara. Karlinn í Landsbankaauglýsingunum segir: "Þegar Jóna dóttir okkar fékk spangirnar þá bara hættum við hjónin að brosa". Þetta var ástæðan fyrir því að hann fór að eyða í sparnað. Það nefnir enginn yfirvofandi kreppu þegar kommaskrattarnir ná völdum. Þjóðin verður aftur fátæk og leggst veðurbarin á moldargólfið og nagar sviðakjamma og hungurlýs. Þeir liggja einhversstaðar í leyni núna, kommarnir, og undirbúa valdarán.

Kim Larsen ætlar að halda aðra aukatónleika á Nasa seint í ágúst. Það er gefið að ég fer. Nema kreppan verði skollin á.