mánudagur, 21. ágúst 2006

Evrópumeistaramótið í mýrarbolta 2006

Mýrarboltamót var haldið á Ísafirði laugardaginn 12.ágúst. Keppendur voru rúmlega 200. Keppt var í kvennaflokki og karlaflokki. Bandýmannafélagið Viktor sendi lið til keppni sem var skipað svo:

Mark: Tómas
Vörn: Ég og Haraldur.
Miðja: Arnór.
Sókn: Þórður og Róbert.
Engir skiptimenn voru til staðar hjá okkar liði og það þótti sumum heimamönnum sniðugt. Í einum þriggja opnunarleikja mótsins tókum við á móti Kormági/Fúsíjama sem innhélt aðallega karla í súmóglímubúningum nokkurs konar. Sá leikur var haldinn á velli 1 sem var áberandi versti völlurinn á svæðinu og innihélt svokallaðan pitt. Pitturinn var kviksyndi í einu horni vallarins þar sem leðjan náði mönnum upp að hnjám og erfitt var um vik. Keppendur forðuðust að lenda á því svæði af skiljanlegum ástæðum. Leikurinn var nokkuð fjörugur, menn ýttu hraustlega hver við öðrum og lítið var gefið eftir. Úrslit leiksins voru 2-1 fyrir okkur með marki frá Þórði og öðru frá Arnóri. Þetta lofaði góðu fyrir framhaldið.
Róbert í baráttunni í opnunarleiknum. Mynd: Myrarbolti.com
Í næsta leik kepptum við við Langa Manga glommara og var sá leikur ágætur eins og sá fyrsti. Lokatölur: 0-0.
Í þriðja leik kepptum við gegn Gemlingunum. Þeir mættu allir með sólgleraugu og blindfullir (tekið skal fram að flestir keppendur drukku bjór á milli leikja og voru nokkuð léttir) og það sem meira var ofbeldisfullir. Bolabrögð þeirra voru slík að ég hef aldrei séð annað eins í íþróttum. Þeir hrintu okkur og toguðu niður sama þótt boltinn væri hvergi nærri og voru mjög dólgslegir almennt. Dómarinn sá ekkert athugavert nema þegar þeir skoruðu mark með höndinni. Þeim var einnig nokkuð í mun að láta koma fram að þeir væru hommaliðið á mótinu. Okkur gáfust lítil sem engin færi á að spila boltanum. Lokatölur: 0-1 fyrir Gemlingunum. Þessi leikur átti ekkert
skilt við knattspyrnu eða íþróttir yfirhöfuð.
Eftir þennan þriðja leik var okkur gjörsamlega misboðið og hættum keppni þrátt fyrir að eiga einn leik eftir í riðlinum og möguleika á að komast áfram. Þrátt fyrir að meira sé leyft í mýrarbolta en venjulegum fótbolta var of mikið leyft í þessum leik. Misræmi í dómgæslu var nokkurt á mótinu. T.d. sá ég annan leik þar sem dæmdar voru aukaspyrnur á fólskuleg brot enda ekkert vit í að láta menn komast upp með hvað sem er, því ef reglur eru engar verða alltaf einhverjir keppendur sem nýta sér það til hins ýtrasta.
Arnór í sveiflu. Mynd: Myrarbolti.com
Sem betur fer var lið Gemlinganna stöðvað eftir riðlakeppnina. Svo fór að lokum að áberandi besta lið mótsins vann, Englarnir. Þar léku menn nánast eins og þeir væru á góðum gervigrasvelli og létu þrususkot frá miðju dynja í netinu.
Lokahóf Mýrarboltans var haldið í skíðaskálanum fyrir utan bæinn. Þar voru sýndar myndir frá mótinu og næstum allur salurinn púaði á Gemlingana sem voru vel að því komnir. Kræsilegt hlaðborð var á boðstólnum fyrir alla þátttakendur.


Niðurstaða: Sjaldan hafa menn verið sáttari við að vera hreinir eins og eftir þetta mót. Maður var eitthvað svo frábærlega hreinn og kunni mun betur að meta það en venjulega. Engar líkur eru taldar á að Bandýmannafélagið sendi lið til keppni að ári. Samt sem áður var þetta ekki alslæmt, þarna komu menn saman og skilja siðmenntun eftir heima í einn dag. Líklega er öllum mönnum hollt að prófa slíkt.