Flugferð með Iceland Express
Í fyrrakvöld tók ég flugrútuna frá BSÍ á völlinn. Ég var mættur nokkuð tímanlega fyrir átta klukkutíma seinkað flug mitt með Iceland Express. Rölti um brottfararverslunina í leit að æti. Fann nammipoka og tvo geisladiska. Við innritunina hafði ég verið sniðugur og beðið um sæti framarlega í vélinni. Ég fékk sæti 1F úthlutað, nokkuð gott.Um 23:10 var farið að hleypa ferðalöngum um borð í vélina. Að vísu var tekið fram að sætin sem fólk átti giltu ekki, menn urðu bara að finna sér einhver sæti þegar komið væri í vélina, fyrstur kemur, fyrstur fær. Ha? Klúður? Ekki þó hjá Iceland Express? Ég fékk sem betur fer sæti sæmilega framarlega, en 1F? Neeeeei.
Áhöfnin reyndi að slá öllu upp í létt grín, sveiflaði framan í þreytt og pirrað fólk (sumir höfðu nefnilega eytt mestöllum deginum í flugstöðinni) þvílíkum hressleika að Hemmi Gunn gæti verið stoltur af. "Hva, átta tíma seinkun? Eru menn ekki bara hressir? Hohoho". Jamm. Ekki leið á löngu þar til allir voru sestir í sæti sín og gátu andað léttar, ja, allir nema einn, nú tilkynnti flugstjórinn í kallkerfið að einn farþega vantaði "Jeremías Sesar, er hann hér?" Ekkert svar. Jeremías Sesar (eða hvað sem hann hét, nafnið var a.m.k. eitt það heimskulegasta sem ég hef heyrt) var ekki mættur. Hann hafði sennilega guggnað á lokasprettinum eða sofnað á klósettinu. Hann var í það minnsta ekki mættur. Nú þurfti að losa allan farangur úr farangursgeymslum vélarinnar til að finna farangur mannsins og skilja eftir. Hálftíma seinkun í viðbót. Sumum eldri farþegum þótti það svolítið spaugilegt: "Hva, bara enn meiri seinkun? Haha". Ég veit ekki hvaðan þetta fólk fær svona frábært skopskyn. Jæja, þegar búið var að finna farangur Jermíasar og fleygja frá borði var hægt að hefja vélina á loft, loksins.
Þegar þarna var komið var ég við það að verða bandsjóðandi vitlaus á öllu þessu bölvaða kjaftæði. Ég íhugaði alvarlega að standa upp úr sæti mínu og hlaupa trylltur um vélina, brjóta allt og bramla innanstokks og garga eins og górilla. En þegar ég hugsaði aðeins lengra og sá sjálfan mig fyrir mig, dauðuppgefin eftir tíu mínútur af tryllingi, standandi í miðri vélinni og öll reiðu og/eða undrandi andlitin starandi á mig, þá hætti ég við. Reyndar snarjókst ergelsið aftur þegar ein flugfreyjan otaði breiðum bakhluta sínum gróflega í mig, næstum því í andlitið á mér. Mig fór að gruna að verið væri að spila með mig. Hvað þolir drengurinn mikið áður en hann tryllist gjörsamlega? Áhöfnin gerði líka tilraun til að friða farþega með því að deila út þurrum langlokum með skinku og osti og litlum drykk að eigin vali handa þeim. Vá! Þessi þurra langloka og vondi epladjús voru bara næstum því átta og hálfstíma tafarinnar virði! Þarna sat ég örmagna, japlandi á þurri skorpunni, búið að friða mig í bili. Reyndar sofnaði ég fljótlega eftir þetta eins og aðrir farþegar. Kannski hefur verið svefnlyf í drykkjunum, þeir kunna þetta, þessir þrjótar. Ég dormaði meira og minna alla leið, þar til við lentum á Kastrup. Það var klukkan rúmlega fimm. Nú tilkynnti flugstjórinn að ekkert hlið væri tilbúið fyrir vélina við flugstöðina, við yrðum að bíða í tíu mínútur eftir að önnur vél færi frá hliðinu. Mmm, meiri töf.
Klukkan var orðin vel yfir fimm að dönskum tíma og lestin mín góða frá Aðaljárnbrautarstöðinni átti að fara af stað til Álaborgar stundvíslega klukkan 6:00. Þetta var farið að minna ískyggilega mikið á bandaríska raunveruleikaþáttinn The Amazing Race. Ég steig út úr flugvélinni og gekk hröðum skrefum um ganga Kastrup, niður að færiböndunum til að bíða eftir töskunni minni. Ekkert var komið á skjáinn um flug mitt, FHE903 frá Keflavík. Þegar loksins komu upplýsingar um farangur þess flugs, þá stóð: "DELAYED". Gaman. Klukkan var orðinn 5:36 þegar ég fékk töskuna mína. Ég rauk út með hana, að lestasvæðinu fyrir utan. Reyndi að kaupa miða yfir á Aðaljárbrautarstöð í sjálfsala því afgreiðslan var lokuð, það gekk seint og illa, en gekk þó að lokum. 5:43. Ég fór niðu rúllustigann og á lestarpallinn. Þar stóð lest, ég leit á skjáinn, átti þessi lest að fara um Aðaljárnbr.? Já! Ég ætlaði að hlaupa í hana, en of seint, hún þaut af stað. Þetta var síðasta hálmstráið, næsta lest var væntanleg 5:56 sem var of seint til að ég næði lestinni minni inni á Aðalj.
Ég tók lestina 5:56 og hitti systur mína á Aðaljárnbrautastöðinni sem var þar mætt með miðana mína í lestina til Álaborgar. Þeir voru útrunnir svo við tókum lest yfir á stöðina í Sjælør (rétt hjá þar sem mamma og Nína búa). Þar keyptum við miða fyrir mig með næstu mögulegri lest til Álaborgar og fengum okkur að borða. Miðinn kostaði 4000 ISK aðra leið. Versta ferðalagi sem ég hef upplifað var loksins lokið.
|