föstudagur, 4. ágúst 2006

Sigur Rós á Miklatúni 30.júlí

Lagði leið mína á útitónleika Sigur Rósar á Miklatúni á sunnudagskvöld ásamt félögum. Aðstæður voru eins og best verður á kosið, veður stillt og milt, ekki of heitt, ekki of kalt. Sviðið var til fyrirmyndar og hljóðkerfi að mestu í lagi. Upphitunarbandið Amina var allt í lagi, ekki mikið meira.

Eftir að Amina lauk sínu framlagi var djúpur tónn látinn glymja í hljóðkerfinu í tuttugu mínútur, þar til Sigur Rós steig á stokk. Þessi tónn hljómaði svolítið eins og dómsdagur væri kominn, en það reyndist ekki raunin. Hljómsveitin byrjaði og stóð sig framar mínum væntingum enda er ég ekki annálaður aðdáandi. Lagið Hoppípolla sem kom snemma í dagskránni var tvímælalaust hápunktur tónleikanna. Þá var myndbandið sem varpað var á skjáinn fyrir aftan mjög gott líka. Annars var ekkert sérstaklega merkilegt eða eftirtektarvert að gerast á sviðinu í öðrum lögum.

Systir mín horfði á smávegis af tónleikunum í sjónvarpi en slökkti vegna þess að hún þoldi ekki andlitsgeiflur Jónsa. Ég stóð nógu aftarlega til að greina ekki andlitin á sviðinu svo ég missti af því - sem var kannski ágætt.

Þar sem ég hef ekki mikið hlustað á hljómsveitina þekki ég ekki öll lögin. Ég þekkti þó lag sem ég veit ekkert hvað heitir en það fer þannig fram að Jónsi gaular í sífellu "Isæjjóóóóó" út allt lagið. Þótt það lag væri frekar einhæft skemmdi það ekki fyrir tónleikunum í heild sem voru framúrskarandi. Ekki spillti veðurblíðan og almenn ánægja tónleikagesta auk ferska útiloftsins og fínn félagsskapur. Ég segi með góðri samvisku að þetta voru bestu tónleikar sem ég hef farið á. Ég vil lýsa mikilli ánægju með framtak hljómsveitarinnar að fara túr um landið og halda ókeypis tónleika fyrir alla þá sem vilja. Ég hlakka til að sjá þá í Ásbyrgi um Verslunarmannahelgina.

Einkunn: 9,85.