fimmtudagur, 31. ágúst 2006

Aumkunarverður smjörkúkur

Þegar tónlistarmenn endurgera lög og fara betur með þau en upprunalegir flytjendur er alltaf skemmtilegt. U2 náðu vinsældum með lagi sínu, One, á sínum tíma. Síðar endurgerði Johnny Cash lagið með góðum árangri. Hann gerði það algerlega að sínu og útgáfan er margfalt betri en sú upphaflega frá U2. Þetta sannreyndi ég með því að hlusta á útgáfu Cash og síðan U2 beint á eftir. Reyndar varð ég að slökkva á útgáfu U2 því ég fékk nóg.

Söngvarinn Bono hljómaði eins og slepjulegur aumkunarverður smjörkúkur að apa eftir gott lag sem hann hafði stolið úr höndum meistara og skemmt. Samt er hann upprunalegur flytjandi.

Annað sem ég tók eftir var hvernig merking textans breyttist eftir því hvora útgáfuna ég hlustaði á. Það var akkúrat engin merking í textanum þegar Bono gaulaði hann, en frá Johnny hljómaði þetta eins og speki. Gamalreyndur jálkur að þylja speki.

U2 er með ofmetnustu hljómsveitum heims að mínu mati. Sum lögin eru sæmilega grípandi við fyrstu hlustun, en síðan fær maður virkilegt ógeð af þessu ef maður hlustar oftar.

Annars var ég að fá mér einn disk enn í safnið með Johnny Cash, Ring of Fire: The Legend of Johnny Cash. Hann inniheldur m.a. Hurt, Get Rhythm, A Boy Named Sue, Folsom Prison Blues, Personal Jesus og fleiri meistarastykki. Aldeilis óhætt að mæla með honum.

Niðurstaða: Johnny Cash er klassík, U2 eru langt frá því.

miðvikudagur, 30. ágúst 2006

Englandsmeistarar vorið 2007

Liverpool. Ekkert annað lið kemur til greina. Chelsea verða slappari en í fyrra. Manchester United byrja mjög vel, en spilaborgin mun hrynja mjög fljótlega vegna þess að nokkuð vantar upp á breiddina (hvað ætla þeir að gera ef Rooney meiðist?). Arsenal byrja tímabilið frekar illa, en þó á ég von á að þeir endi í öðru sæti.

Spá fyrir fimm efstu:
  1. Liverpool
  2. Arsenal
  3. Manchester United
  4. Chelsea
  5. Tottenham.

þriðjudagur, 29. ágúst 2006

Shawashama kebab

Tók strikið niður Strikið í dag (Hefði höfundur Spurningar dagsins í Fréttablaðinu getað orðað þetta betur?). Eftir langan gang virtist segull í maganum leiða mig á lykt af kebabi. Ég rann á lyktina. Shawashama kebab. Orð sem enginn veit hvað þýðir og "kebab" skeytt aftan við. Hljómar ekki dónalega.

Ég gæddi mér á kebabinu og niðurstaðan er sú að kebab er vanmetnasti skyndibiti heims í dag. Þetta var frábært kebab. Hamborgarar, pítsur og Subway verða þreytandi til lengdar. Hví ekki að fá sér kebab í hádeginu og kebab á kvöldin? Súrmjólk í hádeginu, Cheerios á kvöldin er mjög vafasamur matseðill, en kebab, ja, hví ekki?

Það vantar aukið úrval af kebabi á Íslandi.

Áðan hjólaði ég á Fisketorvet. Hjólaði ég á kvenhjóli. Systir mín hjólaði á öðru hjóli. Það var rigning og myrkur og meinlegir skuggar og trukkur brunaði framhjá og skvetti vatnspolli yfir mig, ég lét hann heyra það, en hann heyrði ekkert, hann var farinn lengra út í rigninguna og myrkrið. Nú veit ég hvernig er að hjóla í Danmörku.

Neytendur

NEI:

  • Iceland Express.
  • Kringlan.
  • Smáralind.
  • Síminn.
  • Og Vodafone.
  • Prikið
  • Kaffibarinn.

JÁ:

  • Flugleiðir
  • Laugarvegur
  • Vinnufatabúðin
  • Strikið, Kaupmannahöfn
  • Sko, 0 kr. Sko í Sko fyrir öll númer.
  • Barinn.

laugardagur, 26. ágúst 2006

Flugferð með Iceland Express

Í fyrrakvöld tók ég flugrútuna frá BSÍ á völlinn. Ég var mættur nokkuð tímanlega fyrir átta klukkutíma seinkað flug mitt með Iceland Express. Rölti um brottfararverslunina í leit að æti. Fann nammipoka og tvo geisladiska. Við innritunina hafði ég verið sniðugur og beðið um sæti framarlega í vélinni. Ég fékk sæti 1F úthlutað, nokkuð gott.

Um 23:10 var farið að hleypa ferðalöngum um borð í vélina. Að vísu var tekið fram að sætin sem fólk átti giltu ekki, menn urðu bara að finna sér einhver sæti þegar komið væri í vélina, fyrstur kemur, fyrstur fær. Ha? Klúður? Ekki þó hjá Iceland Express? Ég fékk sem betur fer sæti sæmilega framarlega, en 1F? Neeeeei.

Áhöfnin reyndi að slá öllu upp í létt grín, sveiflaði framan í þreytt og pirrað fólk (sumir höfðu nefnilega eytt mestöllum deginum í flugstöðinni) þvílíkum hressleika að Hemmi Gunn gæti verið stoltur af. "Hva, átta tíma seinkun? Eru menn ekki bara hressir? Hohoho". Jamm. Ekki leið á löngu þar til allir voru sestir í sæti sín og gátu andað léttar, ja, allir nema einn, nú tilkynnti flugstjórinn í kallkerfið að einn farþega vantaði "Jeremías Sesar, er hann hér?" Ekkert svar. Jeremías Sesar (eða hvað sem hann hét, nafnið var a.m.k. eitt það heimskulegasta sem ég hef heyrt) var ekki mættur. Hann hafði sennilega guggnað á lokasprettinum eða sofnað á klósettinu. Hann var í það minnsta ekki mættur. Nú þurfti að losa allan farangur úr farangursgeymslum vélarinnar til að finna farangur mannsins og skilja eftir. Hálftíma seinkun í viðbót. Sumum eldri farþegum þótti það svolítið spaugilegt: "Hva, bara enn meiri seinkun? Haha". Ég veit ekki hvaðan þetta fólk fær svona frábært skopskyn. Jæja, þegar búið var að finna farangur Jermíasar og fleygja frá borði var hægt að hefja vélina á loft, loksins.

Þegar þarna var komið var ég við það að verða bandsjóðandi vitlaus á öllu þessu bölvaða kjaftæði. Ég íhugaði alvarlega að standa upp úr sæti mínu og hlaupa trylltur um vélina, brjóta allt og bramla innanstokks og garga eins og górilla. En þegar ég hugsaði aðeins lengra og sá sjálfan mig fyrir mig, dauðuppgefin eftir tíu mínútur af tryllingi, standandi í miðri vélinni og öll reiðu og/eða undrandi andlitin starandi á mig, þá hætti ég við. Reyndar snarjókst ergelsið aftur þegar ein flugfreyjan otaði breiðum bakhluta sínum gróflega í mig, næstum því í andlitið á mér. Mig fór að gruna að verið væri að spila með mig. Hvað þolir drengurinn mikið áður en hann tryllist gjörsamlega? Áhöfnin gerði líka tilraun til að friða farþega með því að deila út þurrum langlokum með skinku og osti og litlum drykk að eigin vali handa þeim. Vá! Þessi þurra langloka og vondi epladjús voru bara næstum því átta og hálfstíma tafarinnar virði! Þarna sat ég örmagna, japlandi á þurri skorpunni, búið að friða mig í bili. Reyndar sofnaði ég fljótlega eftir þetta eins og aðrir farþegar. Kannski hefur verið svefnlyf í drykkjunum, þeir kunna þetta, þessir þrjótar. Ég dormaði meira og minna alla leið, þar til við lentum á Kastrup. Það var klukkan rúmlega fimm. Nú tilkynnti flugstjórinn að ekkert hlið væri tilbúið fyrir vélina við flugstöðina, við yrðum að bíða í tíu mínútur eftir að önnur vél færi frá hliðinu. Mmm, meiri töf.

Klukkan var orðin vel yfir fimm að dönskum tíma og lestin mín góða frá Aðaljárnbrautarstöðinni átti að fara af stað til Álaborgar stundvíslega klukkan 6:00. Þetta var farið að minna ískyggilega mikið á bandaríska raunveruleikaþáttinn The Amazing Race. Ég steig út úr flugvélinni og gekk hröðum skrefum um ganga Kastrup, niður að færiböndunum til að bíða eftir töskunni minni. Ekkert var komið á skjáinn um flug mitt, FHE903 frá Keflavík. Þegar loksins komu upplýsingar um farangur þess flugs, þá stóð: "DELAYED". Gaman. Klukkan var orðinn 5:36 þegar ég fékk töskuna mína. Ég rauk út með hana, að lestasvæðinu fyrir utan. Reyndi að kaupa miða yfir á Aðaljárbrautarstöð í sjálfsala því afgreiðslan var lokuð, það gekk seint og illa, en gekk þó að lokum. 5:43. Ég fór niðu rúllustigann og á lestarpallinn. Þar stóð lest, ég leit á skjáinn, átti þessi lest að fara um Aðaljárnbr.? Já! Ég ætlaði að hlaupa í hana, en of seint, hún þaut af stað. Þetta var síðasta hálmstráið, næsta lest var væntanleg 5:56 sem var of seint til að ég næði lestinni minni inni á Aðalj.

Ég tók lestina 5:56 og hitti systur mína á Aðaljárnbrautastöðinni sem var þar mætt með miðana mína í lestina til Álaborgar. Þeir voru útrunnir svo við tókum lest yfir á stöðina í Sjælør (rétt hjá þar sem mamma og Nína búa). Þar keyptum við miða fyrir mig með næstu mögulegri lest til Álaborgar og fengum okkur að borða. Miðinn kostaði 4000 ISK aðra leið. Versta ferðalagi sem ég hef upplifað var loksins lokið.

fimmtudagur, 24. ágúst 2006

Aldrei aftur Iceland Express

Ég flýg því miður með Iceland Express til Kaupmannahafnar. Flugið átti að vera klukkan 15:30 en var seinkað um fjóra klukkutíma, til 19:30. Svo kíkti ég klukkutíma seinna á flugáætlun og þá er flugið áætlað kl. 23:30 í kvöld. Það gerir átta klukktíma seinkun. Ég ætla rétt að vona að ég eigi rétt á bótum frá þeim fyrir þetta. Ég þarf að ná lest klukkan 6:00 að dönskum tíma frá Kaupmannahöfn en það fer að verða tæpt að ég nái henni úr þessu.

Svo var ég að heyra af nokkrum sem hafa lent í sóðalegum seinkunum með félaginu upp á síðkastið.

Niðurstaða: Beinið viðskiptum annað en til Iceland Express. Lægra verð réttlætir ekki margra klukkutíma seinkanir.

miðvikudagur, 23. ágúst 2006

Sumarfrí

Sumarfíið mitt hófst í dag. Skólar eru víða byrjaðir eða að byrja. Margir eru að mæta til vinnu eftir frí. Einmitt þá fer ég í frí. Mér finnst ógeðslega gaman að þá verði margir í skóla og sumir jafnvel í harðri vinnu. Ég ætla að hlæja tryllingslegum hlátri hátt að því í flugvélinni á leiðinni til Danmerkur á morgun og syngja hástöfum eins og flugdólgur af því að það er lífið, er það ekki?

Svo kem ég aftur heim 30.ágúst og skólinn byrjar 1.sept.

mánudagur, 21. ágúst 2006

Evrópumeistaramótið í mýrarbolta 2006

Mýrarboltamót var haldið á Ísafirði laugardaginn 12.ágúst. Keppendur voru rúmlega 200. Keppt var í kvennaflokki og karlaflokki. Bandýmannafélagið Viktor sendi lið til keppni sem var skipað svo:

Mark: Tómas
Vörn: Ég og Haraldur.
Miðja: Arnór.
Sókn: Þórður og Róbert.
Engir skiptimenn voru til staðar hjá okkar liði og það þótti sumum heimamönnum sniðugt. Í einum þriggja opnunarleikja mótsins tókum við á móti Kormági/Fúsíjama sem innhélt aðallega karla í súmóglímubúningum nokkurs konar. Sá leikur var haldinn á velli 1 sem var áberandi versti völlurinn á svæðinu og innihélt svokallaðan pitt. Pitturinn var kviksyndi í einu horni vallarins þar sem leðjan náði mönnum upp að hnjám og erfitt var um vik. Keppendur forðuðust að lenda á því svæði af skiljanlegum ástæðum. Leikurinn var nokkuð fjörugur, menn ýttu hraustlega hver við öðrum og lítið var gefið eftir. Úrslit leiksins voru 2-1 fyrir okkur með marki frá Þórði og öðru frá Arnóri. Þetta lofaði góðu fyrir framhaldið.
Róbert í baráttunni í opnunarleiknum. Mynd: Myrarbolti.com
Í næsta leik kepptum við við Langa Manga glommara og var sá leikur ágætur eins og sá fyrsti. Lokatölur: 0-0.
Í þriðja leik kepptum við gegn Gemlingunum. Þeir mættu allir með sólgleraugu og blindfullir (tekið skal fram að flestir keppendur drukku bjór á milli leikja og voru nokkuð léttir) og það sem meira var ofbeldisfullir. Bolabrögð þeirra voru slík að ég hef aldrei séð annað eins í íþróttum. Þeir hrintu okkur og toguðu niður sama þótt boltinn væri hvergi nærri og voru mjög dólgslegir almennt. Dómarinn sá ekkert athugavert nema þegar þeir skoruðu mark með höndinni. Þeim var einnig nokkuð í mun að láta koma fram að þeir væru hommaliðið á mótinu. Okkur gáfust lítil sem engin færi á að spila boltanum. Lokatölur: 0-1 fyrir Gemlingunum. Þessi leikur átti ekkert
skilt við knattspyrnu eða íþróttir yfirhöfuð.
Eftir þennan þriðja leik var okkur gjörsamlega misboðið og hættum keppni þrátt fyrir að eiga einn leik eftir í riðlinum og möguleika á að komast áfram. Þrátt fyrir að meira sé leyft í mýrarbolta en venjulegum fótbolta var of mikið leyft í þessum leik. Misræmi í dómgæslu var nokkurt á mótinu. T.d. sá ég annan leik þar sem dæmdar voru aukaspyrnur á fólskuleg brot enda ekkert vit í að láta menn komast upp með hvað sem er, því ef reglur eru engar verða alltaf einhverjir keppendur sem nýta sér það til hins ýtrasta.
Arnór í sveiflu. Mynd: Myrarbolti.com
Sem betur fer var lið Gemlinganna stöðvað eftir riðlakeppnina. Svo fór að lokum að áberandi besta lið mótsins vann, Englarnir. Þar léku menn nánast eins og þeir væru á góðum gervigrasvelli og létu þrususkot frá miðju dynja í netinu.
Lokahóf Mýrarboltans var haldið í skíðaskálanum fyrir utan bæinn. Þar voru sýndar myndir frá mótinu og næstum allur salurinn púaði á Gemlingana sem voru vel að því komnir. Kræsilegt hlaðborð var á boðstólnum fyrir alla þátttakendur.


Niðurstaða: Sjaldan hafa menn verið sáttari við að vera hreinir eins og eftir þetta mót. Maður var eitthvað svo frábærlega hreinn og kunni mun betur að meta það en venjulega. Engar líkur eru taldar á að Bandýmannafélagið sendi lið til keppni að ári. Samt sem áður var þetta ekki alslæmt, þarna komu menn saman og skilja siðmenntun eftir heima í einn dag. Líklega er öllum mönnum hollt að prófa slíkt.

fimmtudagur, 17. ágúst 2006

Auðfengnir peningar

Titillinn hljómar eins og auglýsingatölvupóstur með gylliboðum. En slíkt er langt frá hinu sanna.

Allir þeir sem eiga bækur sem þeir þurfa að losna við úr menntaskóla ættu að fara rakleiðis í Skólavörubúðina. Ef hægt er að tala um eitthvað byltingarkennt á skiptibókamarkaðnum ætti að nefna þá búð. Þar getur fólk selt gömlu bækurnar og fengið peninga fyrir, þ.e. seðla beint í lúkuna en ekki einhverja djöfulsins inneignarnótu. Ég nýtti mér þessa þjónustu í dag. Losnaði við slatta af glötuðum bókum og kom út með fulla vasa fjár. Ekki á hverjum degi sem maður fer í búðir og kemur út ríkari en þegar maður fór inn. Þeir tóku meira að segja tvær bækur sem ég hafði ekki getað selt í fyrra og árið þar áður. Höfnuðu reyndar tveimur bókum sökum aldurs.

Niðurstaða: Gróði.

Næst: Umfjöllun um Mýrarboltamótið síðustu helgi.

mánudagur, 14. ágúst 2006

Mótmælendur við Kárahnjúka

Mótmælendur við Kárahnjúka hafa verið í fréttum upp á síðkastið. Hafa þeir ítrekað farið inn á svæði þar sem mannaferðir eru takmarkaðar vegna hættu. Þeir hafa síðan kvartað sáran þegar lögregla hefur komið og fjarlægt þá.

Hvurs konar fíflalæti eru þetta? Þessir mótmælendur virðast vera að mótmæla eingöngu upp á sportið. Það er svo ægilega töff að koma til Íslands frá útlöndum og reisa tjaldbúðir rétt hjá framkvæmdasvæðinu. Lítum á staðreyndir málsins:

  1. Framkvæmdir við Kárahnjúka eru hafnar fyrir löngu. Úr þessu verður ekki aftur snúið, sama þótt nokkur fífl komi frá útlöndum, hlekki sig við vinnuvélar, fari inn á bannsvæði og annað þvíumlíkt.
  2. Mótmælendurnir fá ekki leyfi fyrir mótmælum frá lögreglu heldur mæta bara á staðinn. Er það töff? Er það líklegra til árangurs?
  3. Hvers vegna koma allir þessir útlendingar gagngert til landsins til þess að mótmæla framkvæmdum á hálendi Íslands? Þeir hafa nákvæmlega ekkert um ráðstöfun þessa lands að segja. Fólk búsett á Íslandi hefur um þessi mál að segja, aðrir ekki.

Ég ætla ekkert að þykjast vera hrifinn af framkvæmdum við Kárahnjúka, ég var á móti þeim í upphafi og er enn. Það var vitað hvernig þetta yrði, erlent skítaverktakafyrirtæki sér um framkvæmdina, flytur fullt af erlendu vinnuafli til landsins og býður þeim skítakjör og skítaaðbúnað uppi á hálendi. Íslenska ríkið kaupir framkvæmdina af þeim. Hins vegar eiga menn ekki að berja hausnum við steininn núna, það er einfaldlega allt of seint. Mótmælendurnir gætu kannski notað aðrar aðferðir næst og beint kröftum sínum að því að mótmæla álverum sem fyrirhuguð eru víðsvegar um landið.
LEIÐRÉTTING kl. 23:15.: Ég hafði skrifað "hlekkji" í stað hlekki. Það var æðislega heimskulegt.

fimmtudagur, 10. ágúst 2006

Veðurhorfur fyrir landið næstu daga (næstu vikur?)

Stöku súld á morgnana. Rigning um miðjan dag. Ausið úr fötu um kvöld og nætur. Alskýjað.
-------
Veðurspá fyrir landið næsta sólarhring:
Fagurhólsmýri, SSV 2, skyggni ágætt. Gengur á með éljum síðdegis en snýst síðan í hæhga breytilega átt.
Garðskagaviti, NNA 4, alskýjað með morgninum en hvessir síðan snögglega klukkan 17. Næturfrost.
Stórhöfði Mikið rok. Rigning.
Staðir þar sem einhverjar lifandi hræður finnast verða ekki tilgreindir í spánni.

laugardagur, 5. ágúst 2006

Afi sofa

Nú er ég kominn norður í land ættaróðalið Lón II í Kelduhverfi. Hér er hálf ættin stödd þessa Verslunarmannahelgi. Áðan fór ég upp í stofuna á efri hæðinni, þar sem ég hef svefnaðstöðu. Þegar ég opnaði dyrnar fékk ég létt aðsvif af skítafýlu. Þá var litli frændi búinn að skíta á sig og velta blómapotti. Afi hans og eftirlitsmaður við þetta tækifæri var sofnaður í sófanum. Stráksi tilkynnti mér: "Afi sofa!". Við það vaknaði afinn, fann skítafýluna, sýndi skjót viðbrögð og fór og skipti um bleyju á stráksa.

Ég missti af Sigur Rós í Ásbyrgi. Þeir spiluðu nefnilega í gærkvöldi og við komum ekki hingað fyrr en rúmlega ellefu svo það datt upp fyrir.

föstudagur, 4. ágúst 2006

Sigur Rós á Miklatúni 30.júlí

Lagði leið mína á útitónleika Sigur Rósar á Miklatúni á sunnudagskvöld ásamt félögum. Aðstæður voru eins og best verður á kosið, veður stillt og milt, ekki of heitt, ekki of kalt. Sviðið var til fyrirmyndar og hljóðkerfi að mestu í lagi. Upphitunarbandið Amina var allt í lagi, ekki mikið meira.

Eftir að Amina lauk sínu framlagi var djúpur tónn látinn glymja í hljóðkerfinu í tuttugu mínútur, þar til Sigur Rós steig á stokk. Þessi tónn hljómaði svolítið eins og dómsdagur væri kominn, en það reyndist ekki raunin. Hljómsveitin byrjaði og stóð sig framar mínum væntingum enda er ég ekki annálaður aðdáandi. Lagið Hoppípolla sem kom snemma í dagskránni var tvímælalaust hápunktur tónleikanna. Þá var myndbandið sem varpað var á skjáinn fyrir aftan mjög gott líka. Annars var ekkert sérstaklega merkilegt eða eftirtektarvert að gerast á sviðinu í öðrum lögum.

Systir mín horfði á smávegis af tónleikunum í sjónvarpi en slökkti vegna þess að hún þoldi ekki andlitsgeiflur Jónsa. Ég stóð nógu aftarlega til að greina ekki andlitin á sviðinu svo ég missti af því - sem var kannski ágætt.

Þar sem ég hef ekki mikið hlustað á hljómsveitina þekki ég ekki öll lögin. Ég þekkti þó lag sem ég veit ekkert hvað heitir en það fer þannig fram að Jónsi gaular í sífellu "Isæjjóóóóó" út allt lagið. Þótt það lag væri frekar einhæft skemmdi það ekki fyrir tónleikunum í heild sem voru framúrskarandi. Ekki spillti veðurblíðan og almenn ánægja tónleikagesta auk ferska útiloftsins og fínn félagsskapur. Ég segi með góðri samvisku að þetta voru bestu tónleikar sem ég hef farið á. Ég vil lýsa mikilli ánægju með framtak hljómsveitarinnar að fara túr um landið og halda ókeypis tónleika fyrir alla þá sem vilja. Ég hlakka til að sjá þá í Ásbyrgi um Verslunarmannahelgina.

Einkunn: 9,85.

þriðjudagur, 1. ágúst 2006

Ibiza!

Granni minn virðist vera partýljón. Í gær sá ég garðinn hjá honum og þá var búið að fjarlægja allt gras og fagurgulur skeljasandur kominn í staðinn í garðinn. Svo var sólstólunum raðað pent upp og strandboltarnir létu sig ekki vanta. Ég hugsa að ég kíki þangað í strandpartý fljótlega.