fimmtudagur, 28. júní 2007

Á asnaeyrunum

Spennuþættirnir Lost njóta gríðarlegra vinsælda hér á landi og víðar. Þegar þeir hófu göngu sína fylgdist ég með og hafði bara nokkuð gaman að. Síðan þetta var hafa sennilega birst 10.000 þættir eða ég veit ekki hvað. Nú eru þættirnir meira og minna allir eins og ganga út á það eitt að teygja lopann. Áhorfendur, þeir sem eftir eru (og þeir eru reyndar mjög margir einhverra hluta vegna), eru teymdir í gegnum hvern þáttinn á fætur öðrum á asnaeyrunum þar sem látið er líta út fyrir að ótrúleg atburðarás eigi sér stað, gríðarleg spenna liggi í lofti og næsti þáttur? Tjah, hann verður sko enn meira spennandi - "you ain't seen nothing yet!"

Um daginn "neyddist" ég til þess að horfa á heilan þátt af þessu vegna þess að ég var staddur í húsi þar sem viðstaddir ákváðu að horfa á þáttinn. Ég hafði kannski einhverja möguleika í stöðunni:
  • Fá skyndilega herfilegt hóstakast og fá þá strax spurninguna: "Er allt í lagi með þig?" og svara inn á milli hósta: "...já...ekkert að mér...bara...ofnæmi...verð að fara...ofnæmislyfin.........heima..." og skakklappast síðan út.
  • Setjast með fólkinu fyrir framan imbann og þykjast horfa, en stara í staðinn allan tímann á hilluna við hliðina á sjónvarpinu og finna umhverfishljóð til þess að einbeita mér algjörlega að á meðan, s.s. suð í flugu eða umferð fyrir utan. Þetta hefði verið mjög erfitt því að tónlistin í þáttunum er svo hádramatísk að maður hefði líklegast ekki haldið út að einblína á flugnasuðið.
Hver einasti maður á eyðieyjunni þar sem þátturinn á að gerast virðist eiga gjörsamlega ótrúlega fortíðarsögu. Stuttar glefsur úr fortíð hvers og eins eru sýndar í þáttunum og eiga að varpa ljósi á atferli viðkomandi við ákveðnar aðstæður. Og það bregst ekki að fortíðarglefsan er eitthvað gjörsamlega yfirgengilega ótrúlegt:
Í fortíðinni vann Andy sem garðyrkjumaður heima hjá Tiger Woods. Einn daginn var hann að klippa runnana þegar þrír grímuklæddir menn komu askvaðandi utan að götu, rændu honum og fóru með hann í rússnesknan frystitogara og notuðu hann sem gólfmoppu til þess að skúra vélarúmið. Síðan mundi hann ekkert fyrr en hann vaknaði upp, bundinn á höndum og fótum, í loftræstiröri í verslunarmiðstöð einhversstaðar í Bandaríkjunum

Eftir að slík endemisvitlaus fortíðarglefsa hefur verið sýnd er áhorfandanum ætlað að hugsa: "Aha, þetta útskýrir ýmislegt!"

Þessi glataði þáttur var í gangi þegar ég kveikti á sjónvarpinu í kvöld og að sjálfsögðu var tónlistin með dramatískasta móti og einhver kona sýndi eyrnalokk sem hún hélt á í lófanum, en þetta var sko enginn venjulegur eyrnalokkur, hann tengdist atburðarás sem áhorfendur hefði aldrei getað órað fyrir og svo fylgdu óborganleg viðbrögð viðstaddra í atriðinu við eyrnalokknum, sem var svo miklu meira en bara eyrnalokkur:








Hvað þarf kjaftæðið að ganga langt í þessum þáttum til þess að áhorfendur láti ekki bjóða sér meira?