föstudagur, 15. júní 2007

Gjöf fyrir gjöf

Niðri í miðbæ í dag mætti ég manni sem gaf sig á tal við mig. Veifaði hann lítilli bók að nafni Greið leið til annarra hnatta. Síðan lýsti hann því ítrekað yfir að hann væri ekki að selja neitt og hvernig bókin leiddi menn í allan sannleika um innri frið og ég veit ekki hvað og hvað. Lét hann fylgja máli að bók þessi kostaði 1500 krónur út úr búð en í dag hefðu hann og menn hans ákveðið að gefa hana á götum úti. Enn fremur að nú væri hún loksins fáanleg á íslensku.

Mér þótti einhver skítafýla af þessu öllu saman og kom það á daginn. Bókin var ekki gefins í hefðbundnum skilningi þess orðs heldur fór hann fram á ölmusu í skiptum fyrir bókina. M.ö.o. var hann að selja bókina. Ég sagði honum að þessi bók væri til heima (sem var satt, hef séð hana í hillu hjá systur minni) og þá spurði hann hvort ég vildi nú ekki samt "þiggja" bókina, kannski þekkti ég einhvern sem hefði gaman að lestri, og lýsti því hvað fólk gæfi í staðinn, sumir gæfu hundraðkall, sumir þúsund kall, sumir nammipoka úr vasanum eða þess háttar. Þá fór ég að velta fyrir mér hvernig ég segði nægjusemi á ensku, því ég ætlaði að segja honum að ég væri svo nægjusamur að ég vildi ekki þessa bók þegar slík væri til á heimilinu (eflaust hefði það fallið vel að slíkum trúarbrögðum). Mundi það ekki svo ég tók upp veskið, vitandi að í því væri svo gott sem ekki neitt í reiðufé og fiskaði upp það sem þar var, fjórar krónur og lét hann hafa. Mér fannst ég greina ákveðin vonbrigði í svip hans en ekki gat hann hætt við að láta mig hafa bókina eftir fyrri yfirlýsingar. Hann fór frekar flatt út úr þessum viðskiptum og hafði í raun sóað tíma sínum til einskis. Hins vegar sóaði hann mínum tíma líka, auk þess sem ég hef ekkert með þessa bók að gera.

Man næst að segja strax "nei takk" við slíka menn og labba í burtu.

Þessi prangari var ekki jafnferskur og sá sem stendur stundum í Austurstrætinu, otandi bókum framan í fólk, hrópandi "LJÓÐ!". Langt síðan hann hefur látið sjá sig.