miðvikudagur, 6. júní 2007

Vaktavinna

Í sumar starfa ég í álveri í vaktavinnu. Það þýðir að ég vinn tvær helgar í mánuði þangað til skólinn byrjar aftur í haust. Unnar eru 12 tíma vaktir í fimm daga törnum og ég er á svokallaðri A-vakt, sem hefur vaktaplan langt fram í tímann eins og hinar vaktirnar, B, C og D. Á mánudagsmorgun kláraði ég síðustu næturvakt í þeirri fimm daga törn, sem innhélt tvær dagvaktir og þrjár næturvaktir. Mér virðist koma betur og betur í ljós að með þessu fyrirkomulagi missi ég nokkurn veginn af öllu í sumar. Þar sem ég var að vinna um liðna helgi missti ég t.d. af einni stórveislu. Ef gluggað er í vinnuplanið lengra fram á sumarið kemur í ljós að ég missi algerlega af verslunarmannahelginni sökum vinnu, en þá var ég búinn að 80% lofa að mæta á Mýrarboltamótið á Ísafirði. Líklega verður ekkert af því. Einnig missi ég af litlu verslunarmannahelgi sumarsins, þ.e. fyrstu helginni í júlí. Ég sá auglýsta afar spennandi tónleika í dag með Dúndurfréttum og Sinfóníunni 29.júní (flutt verður verk Pink Floyd, The Wall), leit síðan á vaktaplanið og hvað kom í ljós? Júbb, vinna. Svona mætti áfram telja, sennilega missi ég bara af öllu þetta sumarið. Veit að minnsta kosti ekki af neinum atburði sem hittist þannig á að ég missi ekki af honum, en það hlýtur að koma.

Hitinn á milli kera getur orðið nánast óbærilegur og rykið og drullan eru ekki alltaf af skornum skammti.

Kostirnir við slíka vinnu eru einnig fyrir hendi, t.d. kann ég frekar vel að meta þessi fimm daga frí inn á milli, a.m.k núna eftir fyrstu rimmuna og býst við að svo verði áfram. Kaupið er rjúkandi gott og svo er matur í boði fyrirtækisins á staðnum og kaffipásurnar eru frekar margar og stundum mjög langar (reyndar stundum of langar). Það mun reyndar væntanlega breytast fljótlega, þegar föstu starfsmennirnir fara að detta í sumarfrí einn af öðrum.