miðvikudagur, 13. júní 2007

Spánskt fólk

Sumt fólk sem verður á vegi mínum kemur gríðarlega spánskt fyrir sjónir. Þannig var að í morgun átti ég að mæta á stað hér í borginni á vegum vinnunnar til þess að fara á lyftaranámskeið. Þegar á staðinn var komið byrjaði ég að leita að innganginum. Hann fann ég fljótlega og gekk inn í húsið sem var á nokkrum hæðum og innihélt nokkur fyrirtæki, banka, skrifstofur o.fl. Þar kom kona aðvífandi og tilkynnti mér öskupirruð í óspurðum fréttum: "BANKINN OPNAR EKKI FYRR EN KLUKKAN NÍU!" og þrammaði síðan rakleiðis niður stiga svo glumdi í klossunum og bergmálaði í veggjunum. Í nokkrar sekúndur á eftir stóð ég kyrr og gapti af undrun. Síðan labbaði ég upp stigann þar sem námskeiðið átti að vera.

Ef konan hefði mætt mér þarna urrandi brjáluðum að berja á dyr bankans, gargandi: "HVERNIG ER ÞAÐ, ER ENGIN AFGREIÐSLA HÉRNA?!...ER ÉG AÐ BORGA FYRIR ÞESSA ÞJÓNUSTU?!" o.s.frv. hefði ég skilið stundarbrjálæði hennar. Þá hefði tilkynning hennar líklega róað mig niður og ég hefði sagt: "ó..úbbs...afsakið..." og hrökklast á brott. Þetta var hins vegar ekki þannig, eina tilefnið að viðbrögðum konunnar var það að ég gekk inn í þriggja hæða byggingu, pollrólegur, á leið á lyftaranámkeið og það vildi svo til að banki var staðsettur í sama húsi. Það virtist konan nánast túlka sem stórfellda árás.

Kannski er daglegt brauð að kolvitlausir viðskiptavinir bankans mæti á staðinn fyrir níu með uppsteyt og ókvæðisorð. Kannski þarf konan sífellt að flæma slíkt fólk burt og er farin að beita fyrirbyggjandi aðgerðum, þ.e. að æsa sig við þá áður en þeir fara að berja á dyr og garga. Kannski hef ég drepið köttinn hennar í fyrra lífi eða eitthvað. Kannski átti hún bara slæman dag. Hvað veit maður? Hitt er annað mál að ég hafði frekar gaman að þessari uppákomu og mátti passa mig að hlæja ekki að konunni. En sem betur fer gerði ég það ekki því þá hefði hún eflaust steinrotað mig á staðnum.