sunnudagur, 24. júní 2007

Ævintýralegir tónleikar The Who á Glastonbury

Vaknaði á hádegi í dag. Dagurinn hefur að mestu leiti farið í að þvo þvott ásamt öðrum tilfallandi húsverkum ásamt því að reyna að lesa blöðin með mismikilli einbeitingu. Hef verið frekar afundinn og þreyttur eftir helgina og það var eins og ég hefði farið vitlausum megin fram úr "í morgun".

Í kvöld hef ég síðan fylgst með Glastonbury tónleikahátíðinni á BBC 2, BBC 3 og BBC 4. Sá hluta af Kaiser Chiefs, Manic Street Preachers og sonum Bob Marley að flytja slagara eftir föður sinn. Þetta var allt saman gott og blessað og ég svona fylgdist með með öðru auganu og öðru eyranu. Eitt og eitt lag var grípandi. En klukkan tíu var röðin komin að The Who að stíga á stokk í beinni. Á meðan ég fylgdist með fyrsta laginu var ég ekki alveg sannfærður um að kommbakk þeirra eftir áralangt hlé (sem reyndar hófst formlega í fyrra ef ég veit rétt) hefði verið góð hugmynd. Rödd söngvarans virtist hafa látið á sjá og þeir virkuðu allir hálfstirðir og stirðbusalegir. Það kom ekkert endilega á óvart, kommbökk eru oft flopp. Svona u.þ.b. í miðju öðru lagi sem þeir tóku, Who Are You? virtist söngvarinn vera að ná fyrri raddstyrk og hinir voru mjög þéttir í spilamennskunni. Veit ekki hvernig hann fór að þessu, hlýtur að hafa staupað WD-40 til þess að smyrja raddböndin eða eitthvað og hinir hafa sturtað í sig Lýsi og Liðamíni til að losna við stirðleikann. Ég fann hressleikann koma yfir mig við þetta. Frá og með þessum tímapunkti var ekki veikan blett að finna á þessum tónleikum. Þessir gömlu karlar hikuðu ekki við að stökkva fram og aftur um sviðið og söngvarinn sveiflaði hljóðnemasnúrunni eins og hann væri að fara að snara mannýgt naut á milli þess sem hann söng. Áður en þeir tóku lagið Relay minntust þeir á að það hefðu þeir samið árið 1971, og þetta var líka örugglega eins og þeir væru komnir aftur á gullaldarskeiðið fyrir tæpum fjörtíu árum. Slögurunum var rúllað út á færibandi - Baba O' Reilley, Pinball Wizard, Won't Get Fooled Again, Relay, The Seeker og svo framvegis og svo framvegis.

Þetta var hreinlega magnað að sjá og heyra og ég hefði gefið mikið fyrir að vera á staðnum. Sjaldan eða aldrei man ég eftir að tónlist hafi breytt skapi mínu eins mikið og núna. Áður en ég varð vitni að þessu var ég þreyttur og afundinn, en núna er ég orðinn dúndrandi hress og óþreyttur. Tónlistarmenn ættu að taka sér þessa tónleika The Who til fyrirmyndar, en þetta verður varla toppað. Enda náðu þeir múgnum algjörlega á sitt band með frammistöðunni og voru vel að því komnir, höfðu sjálfir greinilega mjög gaman að því að spila þarna og það smitaði út frá sér. Ég get ekki ímyndað mér annað en að þetta hafi verið hápunktur Glastonbury-hátíðarinnar þetta árið.

Einkunn: 10. Engin spurning.