sunnudagur, 17. júní 2007

Á mannamótum

Margir kannast við að mæta fólki á förnum vegi sem heilsar, án þess að geta með nokkru móti komið því fyrir sig hver heilsar eða frá hvaða samhengi menn þekkja viðkomandi. Ég þykist vera frekar glöggur á að þekkja fólk þótt ég hafi ekki séð það lengi. Ég hef samt lent í þessu - einhver heilsar kumpánlega, "Nei, blessaður Guðmundur!..." o.s.frv. Við slík tækifæri verður gjarnan einhver innri togstreita, spurningarnar dynja inni í heilabúinu:
  • Hver í fjáranum er þetta?
  • Af hverju veit hann/hún hvað ég heiti?
  • Á ég að þekkja þennan/þessa?
Svo fara menn að reyna að hraðskanna í upplýsingum í heilabúinu allt það fólk sem þeir hafa umgengist yfir ævina, beita útilokunaraðferð og reyna að finna viðkomandi á óralöngum lista fólks. Þetta getur verið erfitt og flókið ferli að fara í gegnum á einu augnabliki.

En þetta er ekki allt, því að einhverra hluta vegna virðast flestir hafa þau ósjálfráðu viðbrögð í aðstæðunum að þykjast þó muna eftir þeim sem heilsar, sem gerir allt saman enn flóknara. Erfitt getur verið að þykjast þekkja viðkomandi og reyna af veikum mætti að halda uppi einhverju spjalli af viti, flestir koma einmitt upp um sig þegar á þetta reynir. Fólk getur þá gert aðstæðurnar pínlega vandræðalegar og haft spjallið mjög almennt með spurningum eins og "Hva, alltaf í boltanum?" og síðan haldið áfram á fullu að reyna að skanna listann og finna út hver sá "ókunni" er.

Sumir vilja forðast allan misskilning og segja alltaf í byrjun hverjir þeir eru og hvaðan þeir þekkja mann. "Blessaður, ég er afi þinn, þú heimsóttir mig í síðustu viku" - þarna er afinn sniðugur og kemur strax í veg fyrir allan misskilning og pínleg augnablikin sem hefðu getað litið dagsins ljós ef Brjánn sonarsonur hans hefði ekki þekkt hann þegar þeir mættust úti á götu. Líkurnar á því voru kannski hverfandi, en afinn vill greinilega halda sig "on the safe side" í þessu tilviki, hann hefur lært af áralangri reynslunni að kæfa vandræðin í fæðingu.