þriðjudagur, 3. febrúar 2004

Erna G lamin í klessu: NÝKOMIN ÚR BRJÓSTASTÆKKUN!

Þessi fyrirsögn var á nýjasta Séð og heyrt. Er ég sá eini sem sé ekki alveg samhengið þarna á milli? Eru algjörir fávitar að vinna á Séð og heyrt? Erna hefur örugglega hringt í blaðið og sagst vera nýkomin úr brjóstastækkun. Þá hafa þeir sagt:"Tjah, já, það er nú eiginlega ekki alveg nógu mikil frétt. Það vantar eitthvað bitastætt í þetta". Þá hefur Erna hóað í mömmu gömlu og beðið hana að lúberja sig. Mamma hennar hefur ekki látið segja sér það tvisvar og buffað dóttur sína. Síðan hefur Erna hringt á sorpritið og sagst hafa almennilega frétt og nú yrðu sko slegnar tvær flugur í einu höggi. Ég tek fram að þetta er bara tilgáta um atburðarásina og þarf ekki að eiga sér neina stoð í raunveruleikanum.

Inni í blaðinu var fjallað um árásina sem Erna ku hafa orðið fyrir á skemmtistað í bænum. Hún var nýkomin úr silikonaðgerð og varði brjóstin á sér þannig að árásarkonan lét höggin dynja á andlitinu á henni. Þetta afsakar samt varla ekki fyrirsögnina. Erna var síðan öll marin og blá í andlitinu á forsíðumyndinni en brjóstin voru ósködduð og það er fyrir öllu eins og maðurinn sagði.

Nú hafa forsetahjónin, Ólafur og Dorrit, oft spókað sig í Séð og heyrt. Ólafur hefði nú kannski getað slegið svona tvær flugur í einu höggi eins og Erna þegar hann datt af hestbaki um árið. Séð og heyrt hefði getað komið með forsíðufyrirsögnina: "Forsetinn datt af hestbaki: NÝKOMINN ÚR TIPPASTÆKKUN Í USA!" og "Dorrit segir sýna skoðun!". Það hefði verið jafnfáránlegt og Ernu G. fréttin. Ekkert nema helvítis sýndarmennska og skrum, þetta Séð og heyrt. En kemur alltaf ferskt með nýjustu fréttir.
----------------------------------
DV er slúðurpési. DV er ekki dagblað. Einhvern tíma í gamla daga var DV dagblað, held ég. DV er með flennistórar fyrirsagnir og myndir og flytur oft fréttir sem virðast algjörlega úr lausu lofti gripnar og sjást ekki á öðrum fjölmiðlum. Ég renndi í gegnum nokkur nýleg eintök af DV um daginn og þetta var ótvíræð niðurstaða. Þó finnast mér ritstjórar blaðsins, Illugi Jökulsson og Mikael Torfason stundum segja eitthvað af viti. En DV er ekki að dansa þessa dagana. Það er morgunljóst.