Nýtt! Skiptinemar innanlands
Ég kýs að viðra þá hugmynd núna að komið verði á skiptinemakerfi innanlands; að AFS opni innanlandsdeild hér á Íslandi og annarsstaðar. Það mundi opna gríðarlega möguleika fyrir ævintýraþyrst fólk sem er kannski ekki alveg tilbúið í heimshornaflakk en langar í smá svona landshornaflakk. Það hefði þann ótvíræða kost að það væri miklu ódýrara en dvöl erlendis sem getur kostað vel yfir hálfa milljón. Þetta þyrfti ekki að kosta nema 20.000 - 30.000 kall hálfsársdvöl einhversstaðar úti á landi. Þeð væri nú munur að fara t.d. í hálft ár sem skiptinemi til Akureyrar og stunda nám við MA eða VMA (sem frændi minn segir að standi fyrir Verri Menntaskólinn á Akureyri). Þar tæki fósturfjölskylda á móti manni opnum örmum. Svo væri hægt að bregða sér til Hvanneyrar og hefja nám við Landbúnaðarháskólann þar eða til Eyja í Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum. Jafnvel væri hægt að bjóða upp á skiptinemaferðir frá Reykjavík til Hafnarfjarðar þar sem nám væri stundað við Flensborg. Góð hafnfirsk fósturfjölskylda tæki á móti manni með kaffi og kleinur.Eftir svona dvöl úti á landi gæti maður komið ferskur í bæinn aftur með ótal sögur af ævintýrum í annarri menningu; "Þið ættuð að vita hvernig fólk skemmtir sér í Eyjum, þar eru allir í strápilsum og spila á harmonikku, dansa í kringum varðeld, borða hrútspunga og drekka Blue Pig með guacamole um helgar". Það kæmi kannski í AFS blaðinu svona dálkur: glefsur úr bréfum skiptinema: Jóhanna, Mexíkó; Hafsteinn, Dóminíkanska lýðveldinu og síðan Guðmundur, Hafnarfirði.
Já, þetta væri eflaust vinsæll valkostur.
|