Skiptinemar
Ég hef mjög gaman að skiptinemum sem koma hingað til lands, a.m.k þeim sem ég hef séð í MR. Nú hef ég orðið vitni af tveimur skiptinemum sem eru alltaf rosalega glaðir, virðast alla vega vera það. Ég hefði vel getað hugsað mér að fara sem skiptinemi, en af því ég er búinn að falla einu sinni væri það ekki nógu sniðugt. En ég velti alvarlega fyrir mér að skella mér bara til Brasilíu eða eitthvað í eitt ár áður en falldraugurinn barði að dyrum. Sem skiptinemi fjarri heimahögunum er auðvelt að láta eins og einhver trúður og enginn mun erfa það nokkuð við mann. Þá gæti maður bara verið glensarinn frá Íslandi í Brasilíu. Stærstan hluta fólksins sem maður umgengist sæi maður ekki aftur og fólkið heima á Íslandi vissi voðalega lítið hvað maður væri að bralla úti. Þá væri jafnvel hægt að fá sér bjölluhúfu eins og hirðfífl ganga með til að spóka sig með í skiptilandinu. En kannski er ekkert eftirsóknarvert að vera íslenskt hirðfífl í Brasilíu. Skiptinemahugmyndin hefur samt alltaf heillað mig.Ég mundi alls ekki vilja fara sem skiptinemi til einhvers norðurlandanna eða lands í V-Evrópu. Þar er menningin of lík okkar. Ef slíkt væri á dagskrá á annað borð yrði það að vera land með allt öðruvísi menningu en þá sem við lifum við.
|