Samviskan og sitthvað fleira
Fremst í bókinni Herrra alheimur eftir Hallgrím Helgason stendur:<< "Mesta rugl sem ég hef séð síðan Biblían kom út" -Guð >>. Ég ætla lesa þá bók við tækifæri.Samviskan getur verið varasöm og gerir ekki boð á undan sér. Hún mætir á svæðið þegar síst skyldi. Dyrabjallan hringir og maður fer til dyra. Maður heldur að það sé enginn, því samviskan er ósýnileg. Hún stekkur á mann og bítur í hnakkann og kjamsar á hnakkaspikinu. Það er einmitt kallað samviskubit. Það er ekki það sama og þursabit eða geitungsbit. Ef samviskan væri sýnileg liti hún væntanlega út eins og Gollum úr Lord of The Rings. Svona fölgrænt, lævíst og óútreiknanlegt kvikindi. Það er aldrei að vita hvenær hún ræðst á þig og bítur og glefsar. Það eru samt til menn sem hefur tekist að ráða samvisku sína af dögum. Ekki er ólíklegt að menn á borð við Kio Briggs, George Bush og Steingrím Njálsson hafi drepið samviskur sínar fyrir löngu. Þegar Kio Briggs var lítill hefur hann stolist í smákökudallinn heima hjá sér, vitað að von var á samviskunni, setið fyrir henni og drepið hana. Það kæmi ekki á óvart að ýmsir helstu glæpamenn heimsins hefðu kálað samviskum sínum og eftir það verið samviskulausir.
|