fimmtudagur, 11. mars 2004

Guð býr í g-blettinum amma

Í dag var viðburðaríkur dagur. Farið var í skóla. Eftir það var reglubundið fimmtudagsbandý sem var mjög gott að þessu sinni. Svo tók gamanið við. Snillingurinn Einar hélt afmæli sitt á heimili sínu á Grundarstíg kl.17. Einar á reyndar ekki afmæli fyrr en á laugardaginn en ekkert var því til fyrirstöðu að hann héldi afmælð í dag og boðið var upp á kökur og kaffi og gos. Fyrsta 19 ára afmælið sem ég fer í þar sem boðið er upp á kökur og slíkt og var það ekki af verri endanum. Mæting var bara nokkuð góð. Það var gaman að sitja við borðið með krökkunum og manni leið eins og í barnaafmælunum þegar maður var lítill. Reyndar voru ekki jafn mikil læti og skarkali við matarborðið eins og var í veislunum á yngri árum. Þarna var náttúrulega komið saman þroskað og siðmenntað menntaskólafólk. Pabbi Einars, dr. Hallgrímur hafði bakað glæsilegar kökur og móðir drengsins hafði einnig hrist sitthvað fram úr erminni. Eftir kökuát var farið í púttkeppni. Já, það er nauðsynlegt að finna barnið í sjálfum sér stöku sinnum og þessi veisla fær fimm stjörnur af fimm mögulegum. Það þarf snilling til að kalla mömmu sína upp í ræðukeppni og halda 19 ára afmæli með barnaafmælissniði. Magnað.

Kl. 20:30 mætti ég á tónleika Megasar í MR. Fimmhundruð kall inn sem er gjafverð og fékk maður það margfalt endurgreitt með söng og spili meistarans. Raddsvið meistarans nær yfir víðan völl og nýtir hann það í söng sínum. Heyrðu, svo var hann bara nýklipptur og læti. Topplögin hjá karlinum í þetta skiptið voru Ég á mig sjálf þar sem fjallað er um vergjarna (þ.e. lausláta) unga stúlku sem veit ekkert hver faðir sinn er og mamma hennar veit ekkert um það heldur, Rauðar rútur, Guð býr í garðslöngunni amma þar sem meistarinn breytti textanum í byrjun lagsins aðeins og söng "guð býr í g-blettinum amma" og að sjálfsögðu Fatlafól en þar breytti hann textanum töluvert við mikinn fögnuð áhorfenda enda var það mjög fyndin útgáfa. Megas sló ekki feilnótu á gítarinn og söng heldur ekki feilnótu. Frábærir tónleikar, jafnvel betri en þessir í fyrra. Mæting var ágæt, betri en í fyrra en það hefðu fleiri mátt mæta. Sumt fólk þykist ekki hafa tíma "ég þarf á æfingu", "ég þarf að læra", "ég þarf að jarða hamsturinn minn, hann dó í gær" og allar svona afsakanir þar sem fólk þykist hafa eitthvað betra að gera en að mæta á Megas eru ömurlegar. Og fólk sem fílar ekki Megas, það þarf nú ekkert að minnast á það lið ógrátandi. Ég er að fara í stærðfræðipróf á morgun en það hindraði mig svo sannarlega ekki í að kíkja á tónleika hjá þessu óskabarni þjóðarinnar. Ég nýti tónleikana bara sem innblástur fyrir prófið á morgun.

Þö!