Gefandi laufblöð
Fyrsti vinnudagurinn var í dag í nýrri vinnu. Í sumar mun ég vinna í Kirkjugarðinum við Suðurgötu. Dagurinn hófst í Fossvogskirkju kl. 8 á kynningu á sumarstarfinu. Þar var troðið í mann miklu magni af gagnslausum upplýsingum, t.d. súlurit sem sýndi fækkun veikindadaga starfsmanna mili ára og æðislegt súlurit sem sýndi hvaða sjúkdómar hefðu verið að hrjá fólk (15% flensa, 12% höfuðverkur, 4,5% hálsbólga o.s.frv.) Síðan var þusað fram og aftur um launamál og í lokin sáum við kynningarmyndband þar sem fram kom að Páll Jónsson vefari var fyrsti maður sem var grafinn í Fossvogskirkjugarði og fleiri slíkar hagnýtar upplýsingar fyrir sumarstarfsmenn. Þessi fundur stóð í góða tvo klukkutíma og voru nokkrir farnir að lúra á sínu græna. Eftir að hafa hlýtt á fundinn langa og leiðinlega fengu allir blöð þar sem allt sem máli skipti kom fram og var ekki laust við að með því væri hann gerður enn tilgangslausari en hann var orðinn þá þegar.
Síðan fengum ég og einhver annar gaur sem ég hef aldrei séð áður en er samt í MR, far með flokkstjórunum okkar tveimur niður á Suðurgötu en þær stöllur voru einnig báðar í MR. MR-ingar munu vera þarna í meirihluta ef ég skildi rétt. "Jæja krakkar, í dag ætlum við að raka laufblöð". Síðan rökuðum við laufblöð allan daginn en samt eru þau ekki alveg búin. Það var dúndrandi leiðinlegt. Ég var að verða gráhærður en fór þá allt í einu að hugsa; Allt í einu fann ég hvað þetta var gefandi. Alls ekki skemmtilegt en þeim mun meira gefandi. Eins og Oprah Winfrey, hún er ógeðslega leiðinleg en gefur bara svo mikið af sér. Alveg magnað.
Mér skildist á innanbúðarmönnum að fyrsti dagurinn þarna væri alltaf svona leiðinlegur en síðan yrði þetta öskrandi stemmari eftir því sem liði á. Sjáum hvað setur.
|