Ásdís Einarsdóttir 1924 - 2005
Amma mín andaðist á líknardeild Landakotsspítala fimmtudaginn 28. apríl.Hún barðist hetjulega við krabbamein síðustu árin. Aldrei kveinkaði hún sér þrátt fyrir erfiða baráttu oft á tíðum. Fljótlega eftir síðustu áramót þurfti hún að leggjast inn á spítala vegna sjúkdómsins. Hún var ávallt bjartsýn og horfði fram á við og þeir sem þekktu hana komust ekki hjá því að smitast af bjartsýninni. Hún grínaðist mikið við gesti sína og var gjarnan hrókur alls fagnaðar. Alltaf var gaman að heimsækja ömmu, bæði í Lón og annað. Hún var þekkt fyrir að taka vel og rausnarlega á móti gestum. Hún kom mér fyrir sjónir sem ótrúlega sterk og lífsreynd kona sem hafði alla sína ævi þurft að hafa fyrir hlutunum. Amma hafði mjög gaman af spilamennsku og spilaði við börnin, barnabörnin og afa. Hún hafði óskaplega gaman af börnum og barnabörnin sóttu mikið í að vera yfir sumar í Lóni.
|