Vinir Dóra
Nú í prófunum höfum við nafnar ásamt Jósepi tekið upp á þeirri nýbreytni að fara í sund klukkan 7 á morgnana í Vesturbæjarlaug. Ekki nóg með það heldur höfum við slegist í hóp með flokki sem kýs að kalla sig Vinir Dóra. Það er hópur manna (sem flestir eru yfir fertugt) sem fara í laugina alla virka morgna, setjast í pottinn og ræða ýmis mál fyrstu mínúturnar. Síðan, alltaf á sömu mínútunni, segir foringinn Dóri: "Kominn tími!" og þá stekkur hann upp úr pottinum sjálfur og annar á eftir honum. Dóri skokkar hring á bakkanum með hinn á eftir og hinn galar eitthvað út í loftið eins og hani. Síðan fara þeir í annan pott sem er miklu heitari en sá fyrri. Eftir smástund þar fara síðan allir upp á bakkann og þá er komið að aðalatriðinu, Müllersæfingunum svokölluðu. Þá þurfa menn að reygja sig og teygja, niður að bakka, upp í loft og til hliðanna og stjórnar foringinn æfingunum eins og hershöfðingi. Því næst er farið aftur ofan í sjóðandi heita pottinn, stutt stopp, aftur upp úr og menn stynga sér í laugina hver á eftir öðrum og láta sig fljóta að markinu (stiga). Eftir það kemur annar afar mikilvægur þáttur, dómari gefur hópnum einkunn fyrir Müllersæfingarnar þann morguninn. Dómarinn gaf einkunnina 9,11 í morgun sem er frekar gott og svo flutti hann drápu sem fól í sér umsögn. Dómari í dag var enginn annar en Egill eðlisfræðikennari úr MR. Svo er sturta og vigtun (liðsmenn stíga á vigtina) , eftir það kaffisopi.Að lokum, þegar menn eru komnir úr sturtu, eiga þeir að kasta skápalyklinum og reyna að hitta í þar til gert box á afgreiðsluborðinu. Sjálfsagt er ég að gleyma einhverju en það er þessi sama rútína á hverjum degi. Hópurinn kallar okkur drengina þrjá Framvarðasveitina. Sundið er alveg ótrúlega hressandi og tryggir að menn mæta ferskir í próf.
|