Samræmi
Flestir eru líklega sammála um að samræmi eigi að vera milli kennslu og prófa yfir veturinn annars vegar og vorprófs hins vegar. Þessu samræmi var ekki fyrir að fara í stúdentsprófi í efnafræði sem var á föstudaginn.Nú var kennd ensk efnafræðibók í fyrsta sinn í 5. bekk. Hún var einnig kennd í 4. bekk skólaárið á undan. Það er nokkuð stökk að fara skyndilega að læra flókið efni á ensku eftir að hafa haft námsefni á íslensku alla tíð. Nemendum hefur tekist misvel að laga sig að þessu þótt flestir séu orðnir nokkuð sjóaðir í að læra á enskunni.
Á föstudaginn var stúdentspróf úr þessari ensku efnafræðibók í fyrsta sinn. Prófið var fyrir neðan allar hellur. Það var allt of erfitt. Ef allt væri eðlilegt ættu nemendur sem náð hafa prófum yfir veturinn og jólaprófi að komast stórslysalaust í gegnum stúdentsprófið. Svo var ekki, gríðarlega margir sjá ekki fram á að ná prófinu. Það var langt frá því að vera í samræmi við hlutapróf sem hafa verið tekin eftir áramót og það sem verra er, það var ekki í samræmi við kennsluna. Efnafræðistúdentspróf fyrri ára hafa verið mun auðveldari.
Þarna gætir ótrúlegs misræmis. Hver er sanngirnin í því að þeir sem tóku stúdentspróf í fyrra hafi flestir flogið í gegn en að nú þurfi margir nemendur að sitja uppi með fall á einkunnablaði sínu? Þegar valið er inn í háskóla sjá þeir einkunnablað en vita ekkert um að prófið þetta ár var algjört svínarí. Þeir halda væntanlega að þarna sé slakari árgangur.
Það sem er verst er að það getur enginn bannað kennaranum að semja svona próf. Það eru engar reglur um það hér á landi hvernig próf mega vera og hvernig ekki. Slíkar reglur þarf að setja. Menn eiga ekki að hafa leyfi til að bjóða nemendum upp á hróplega ósanngirni eins og nú var.
|