Bjöllukúla í stað heila
Grannarnir eru frekar góðir hérna. Hægra megin býr hann Kalle, 70 ára, með konu sinni og vinstra megin býr Elenóra, 93 ára. Í morgun var Kalle úti og sagði "davs" (góðan daginn) við mig og pabba og spjallaði síðan um veðrið og garðverkin við pabba. Í dag var besta veður síðan við komum út og ég sat úti á verönd við nýja borðið og las í efnafræðibókinni.Ekki er samt allt slétt og fellt. Það er nefnilega heilalaus hálfviti hérna nokkrum húsum frá. Í dag og í gær hefur hann montað sig af góðu græjunum sínum og góða drum 'n' bass disknum sínum. Hækkar í botn og svo heyri ég bara: "útiss atiss útiss atiss útiss atiss " dúndrandi bassann endalaust. Það sem er svo skemmtilegt við drum 'n' bass "tónlist" er að hún er eiginlega bara þetta: "útiss atiss útiss atiss útiss atiss". Dæmigert drum'n'bass lag hljómar svona:
"útiss atiss útiss atiss útiss atiss.....
10 sekúndna millikafli
útiss atiss útiss atiss útiss atiss..."
Vaknað kl. 10. Skál af morgunkorni. Inn í herbergi, kveikir á græjunum -uppáhalds drum'n'bass diskurinn þaninn-. Hækka svo nágrannarnir viti hvað maður er töff. Eftir 20 mín af sama skal skipt um disk, smá bið, síðan blússandi bassinn aftur. Töff. Keyrt í græjunum til hádegis. Hádegismatur. Aftur inn í herbergi. Það er svo mikil orka í þessari tónlist, hlustaðu! Bassi bassi bassi allan daginn.
Hef alltaf séð aðdáendur svona tónlistar fyrir mér sem heilalausa með bjöllukúlu í hausnum. Hrista hausinn í takt við bassann og bjöllukúlan dinglar með.
|