Ekki bílaapótek heldur bílaapótek
Var að komast að því að ég misskildi ákveðið mál sem hefur verið í blöðunum núna eftir að ég skoðaði nýjustu færslu Árna Long. Það er þetta með bílaapótekið. Ég sá fyrirsagnirnar fyrr í vikunni "BÍLAAPÓTEK Í FYRSTA SINN Á ÍSLANDI" og slíkt. Ég leit hins vegar ekkert á fréttirnar en hugsaði "Djöfulsins hálfvitar" um þá sem stæðu að því. Ég hélt að bílaapótekið svokallaða væri nýtt verkstæði þar sem gert væri við bíla og starfsmenn væru klæddir eins og starfsmenn í apótekum (í hvíta sloppa (jafnvel með grænar grímur fyrir andlitunum)) og tækju á móti bílum og gæfu þeim bílahóstamixtúrur og bílaparkódín (þ.e. smurolíu og nýja viftureim og slíkt). Þegar menn kæmu með bilaða bílana til þeirra segðu þeir "ooo, er bílinn lasinn, kannski á Jói frændi meðal handa honum" í upplífgandi tón. Ef einhver kæmi með beyglaðan bíl: "ooo, meiddi bíllinn sig, Jói frændi skal kyssa á báttið og laga hann". Síðan mundi hann rétta beygluna og sprauta bílinn þar sem beyglan var.Þetta er ekki lygi. Mér tókst að misskilja þetta svona fjári illa. Það voru þá ekki þeir sem voru djöfulsins hálfvitar, heldur ég.
Að afgreiða lyf í gegnum bílalúgur er samt heimskulegt, en ekki jafnheimskulegt og minn misskilningur. Það væri alveg gallsúrt ef einhverjum dytti í hug að opna bílaapótek í þeim skilningi sem ég lagði í orðið.
|