Bútaður maður
Eitthvað var víst fjallað um mannabúta sem fundust á víð og dreif um Kaupmannahöfn í fréttum hér heima. Lappir. Hendur. Búkur. Afar ósmekklegur maður virðist hafa bútað annan niður um helgina og dreift um höfuðborg Danaveldis. Mikið var fjallað um málið í dönskum fjölmiðlum.Ég las frétt um þennan ósmekklega atburð í danska blaðinu Urban. Blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina um bútana virðist hafa kappkostað að vera ósmekklegur eins og banamaður mannsins. Í fréttinni var nefnilega getið um tegundina á nærbuxum hins látna. Einnig var birt mynd af andliti líksins eins og lögreglan bað fjölmiðla um. Ég vona að lögreglan hafi ekki beðið fjölmiðla um að birta upplýsingar um nærbuxurnar og skil reyndar ekki hvernig blaðamaðurinn komst yfir þær upplýsingar eða hvað honum gekk til. Sá hluti fréttarinnar í blaðinu kom eins og álfur út úr hól. Ekki var skrifað um klæðaburð hins látna að öðru leyti. Það mátti helst túlka upplýsingarnar þannig að þeir sem þekktu manninn vissu allt um nærbuxur hans; "Já, Hans gengur alltaf í Haravelli nærbuxum þannig að þetta hlýtur að vera hann."
Eins og flestum þótti mér atburðurinn óhugnanlegur. Danmörk er greinilega brenglað land þannig að ég fór bara heim til Íslands aftur í gær. Er reyndar farinn að efast um að ég sé kominn heim eftir langa athugasemd Henriks við síðustu færslu.
|