Guði ekki þóknanlegt
Sit hérna með Rynkeby morgenjuice og sötra. Menn sem drekka morgundjús að kvöldi eru að storka máttarvöldunum. Reikna með að guð ljósti mig fljótlega með sprota sínum.Í dag fórum ég, Krakkinn og pabbi garmurinn í kaupstaðarferð til Álaborgar. Skröngluðum í strætó í klukkutíma til að komast í risaverslunina Bilka. Fokk, hún var stór. Pabbi fékk æðiskast og keypti garðhúsgögn og sessur í garðhúsgögnin og peysur og DVD/Video tæki og samt er ekki einu sinni nýtt kortatímabil. Svo hélt ég á sessunum og var eins og fáviti í strætó og pabbi hélt á DVD tækinu og Krakkinn hélt á pokum. Danir brutu þýsk egg við Bilka í dag til að mótmæla innfluttum þýskum salmonellueggjum.
Á leiðinni til baka sáum við hesta úti á túni í bláum peysum. Já, það er kalt í Danmörku þessa dagana, stundum frost.
Dönsk blöð eru rosalega stór. Ekkert A3 kjaftæði. Þessi blöð eru metri á breidd og metri á lengd og til að lesa þau þarf helst að kaupa nýtt borð. Pabbi er einmitt líka nýbúinn að kaupa nýtt borðstofuborð. Svo eru blöðin samsett úr a.m.k. fimm blöðum; Politiken Kultur, Politiken Erhverv, Politiken Hverdag og einhver andskotinn. Frekar vil ég Moggann með eitt aukablað á dag, jafnvel þótt það sé Viðskiptablað Moggans eða Úr verinu.
Svo ætla ég að horfa á Danmörk - Kazakstan í beinni á TV2 á laugardaginn.
|