Er hálfviti en vill vel
Í máli fólks heyrist oft talað um einhvern sem vill vel. Dæmi: "Hún Gunna mín er nú ekki sú skemmtilegasta, en vill vel". Orðasambandið virðist vera notað til að taka fram að sá sem um er rætt sé ekki alslæmur (eða sýna fram á að enginn sé alslæmur). Hann er kannski aumingi og hálfviti, en vill vel og fær fyrir það ímyndaða stjörnu eða broskall fyrir viðleitni.Þegar ég heyri orðasambandið vill vel veit ég strax að sá sem um er rætt hefur gert óafsakanleg mistök eða þá að hann er nautheimskur og hundleiðinlegur aumingi. Mér þykir þetta bjánaleg málnotkun. Hvers vegna er ekki að sama skapi talað um fólk sem vill illa, t.d.: "Dúddi er einn skemmtilegasti maður sem ég þekki, en vill illa." ? Af hverju er ekki stundum settur sá fyrirvari á skemmtilegt fólk, að það vilji illa, þótt það sé skemmtilegt?
Osama bin Laden er hryðjuverkamaður og hefur drepið marga en hann vill vel og það er nú kannski það sem skiptir mestu máli. Þið verðið að setja ykkur í hans spor. Hann átti kannski erfiða æsku og geðveika foreldra en hann gerir sitt besta.
Skiptir það máli að glæpamenn, öfuguggar og hálfvitar vilji vel? Hver vill ekki vel? Ætti kannski að hætta að refsa glæpamönnum á þeim forsendum að þeir vilji nú vel þrátt fyrir allt?
|