miðvikudagur, 29. september 2010

Flutningur

Ég mun blogga frá Indlandi næstu mánuðina, slóðin er þessi.

sunnudagur, 19. september 2010

Kýr eru heilagar

Það var þann 11. september 2010 að ég kom til Udaipur í fyrsta sinn. Frá flugvellinum er hálftíma akstur á hraðbrautinni að borginni. Kýr voru áberandi í vegarköntunum og á veginum, stöku asnar  á stangli. Kýr eru róleg dýr en hingað til hef ég talið það afleiðingu af umhverfi þeirra öðru fremur, hef séð þær vappa kæruleysislega úti á túnum á sólríkum dögum í friði frá öngþveiti þéttbýlisins. Hér hefur þessum rólyndu skepnum verið plantað niður í miðju tryllingsins... en bílflautur, nauðhemlanir og handbremsubeygjur fá þeim ekki haggað.

Ég var farþegi í bíl hjá einum þessara trylltu bílstjóra á leið af flugvellinum, sem ók eins og ljón með aðra hönd á stýri, hamraði flautuna og skaut sér milli bíla og akreina eins og norski keppandinn í risasvigi á Ólympíuleikunum. Þegar honum hafði tekist að stinga þá af alla saman og virtist kominn einn á auðan sjó, rak ég augun í kú á miðjum veginum sem kom gangandi í hægðum sínum á móti bílnum. Bílstjórinn hóf strax að þenja flautuna í viðvörunarskyni en kýrin lét hávaðann sem vind um eyru þjóta og henni var þar að auki svo drööööllusama þótt hann nálgaðist á 150 km hraða, tuggði bara sín strá áfram kæruleysisleg á svip. Af langri reynslu vissi hún að hann mundi víkja fyrr eða síðar og það reyndist rétt. Hefði hún haft axlir, hefði hún yppt þeim og hefði hún getað talað hefði hún líklega sagt: „Hvor er heilagari, ég eða þú?“ til að sína hver réði – en hún þurfti hvorugt... svipurinn og festan voru ein og sér nóg til þess að bílstjórinn neyddist til að víkja frá hennar persónulega svæði, sem hún hafði markað sér í tveggja metra radíus í kringum sig á miðri hraðbrautinni.

Kvöldið áður sá ég íslensku myndina Veðramót á kvikmyndahátíð í Nýju Delí. Hátíðin var á vegum íslenska sendiráðsins  og fyrir tilviljun fékk ég boð á hana. Myndin átti að hefjast kl. 18:30 þannig að ég vippaði mér inn í þríhjólasmábíl (e. Autorickshaw) hálftíma áður og reiknaði með að það nægði til að komast á staðinn í tæka tíð. Bílstjórinn leit á heimilisfangið á miðanum og kinkaði kolli og við sömdum um verð fyrirfram. Hann reyndist þó ekki þekkja heimilsfangið á miðanum betur en svo að fimm sinnum (ég er ekki einu sinni að færa í stílinn!) á leiðinni stoppaði hann, stökk út á götu og spurði til vegar. Hann fékk misnákvæmar leiðbeiningar og skildi þær misvel líka sýndist mér. Eftir allt hringsólið og vitleysuna stoppaði hann loks, því við vorum komnir á áfangastað. Húsið leit út eins og menningarmiðstöð svo ég borgaði honum fyrir aksturinn og ætlaði inn. Sá á litlu skilti við hliðið að í þessu húsi var þýskt verslunarráð til húsa og vörður við dyrnar gat staðfest við mig að þetta væri EKKI staðurinn. Í þann mund kom hópur ungs fólks þaðan út og bauðst til að aðstoða mig þar sem ég hélt á borgarkortinu og benti á menningarmiðstöðina sem hýsti kvikmyndahátíðina. Þau sögðu mér að það væri fimm km í burtu...(vel gert, herra bílstjóri!). Ein stelpan í hópnum bauðst til að skutla mér um einn km áleiðis á mótorhjólinu sínu, á aðalgötu þaðan sem auðvelt væri að taka strætó eða leigubíl á staðinn. Ég þáði gott boð, enda var myndin byrjuð á þessum tímapunkti...

Umferðin í Delí er gjörsamlega sturluð, til að orða það bara hreint út. Hún er líka full af ökutækjum sem aldrei kæmust í gegnum bifreiðaskoðun heima á Íslandi, hliðarspeglana vantar til dæmis á marga bíla, þeir hafa verið væntanlega verið klesstir af og eigendurnir sjá sér ekki hag í að láta setja upp nýja. Menn nota flauturnar þeim mun meira til að láta vita af sér, ótrúlegt en satt sá ég engan árekstur en margoft munaði hársbreidd.

...þegar við komum inn á aðalgötuna spurði stelpan til vegar og nefndi staðinn sem ég vildi fara á, bauðst til að skutla mér dálítið lengra og ég hugsaði að það gæti varla sakað. Nú vorum við hins vegar kominn inn í umferðina fyrir alvöru... ég hjálmlaus aftan á mótorhjóli hjá bláókunngri indverskri stelpu með flautandi bíla allt í kring, svínandi hvern fyrir annan í kringum hringtorg og yfir gatnamót. Stelpan var a.m.k. 20 kg. léttari en ég og því átti hún í vissum vandræðum með hjólið í beygjum, ég neita því ekki að adrenalínflæðið var töluvert við þessar aðstæður.  Lögreglumenn eru áberandi við götur Delí og ég óskaði þess að ég væri með huliðshjálm svo þeir sæu mig ekki (eða bara venjulegan hjálm, því þeir eru til í raunveruleikanum... kannski einfaldara), en einn þeirra stoppaði okkur og spurði: „Hvar er hjálmurinn, félagi!?“ Stelpan útskýrði fyrir honum hvernig í pottinn væri búið og hann reyndist þá geta vísað veginn áfram að staðnum.  Eftir 15-20 mínútutna rúnt á mótorhjólinu vorum við næstum því komin á staðinn, þar var bygging með svipuðu nafni og sú sem leitað var að. Hliðverðirnir þar voru samt ekki alveg vissir hvar rétta byggingin væri en í þann mund kom kona að hliðinu sem vildi vita hvað væri um að vera. Hún vissi upp á hár um bygginguna og bauð mér far síðasta spölinn, sem ég þáði með þökkum. Var talsvert rólegri í bílnum en aftan á mótorhjólinu skömmu áður - öryggistilfinning. Konan spurði hvað ég væri að gera í Indlandi o.þ.h. og sleppti mér síðan út á réttum stað. Hún kvaddi og sagði hlýlega að lokum „Velkominn til Indlands. Njóttu tímans hér!“

Ég hafði enn mjög öran hjartslátt þegar ég settist niður í bíósalnum. Var hissa að sjá að þarna voru um 50 manns, allt Indverjar að því er virtist. Um hálftími var liðinn af myndinni, sem ég átti erfitt með að einbeita mér að fyrst um sinn, var hugsað til mótórhjólaferðarinnar og þess sem hefði getað gerst. Hefðum við lent í árekstri , hefði ég væntanlega drepist samstundis en hún getað sloppið betur vegna hjálmsins en þá haft sektarkennd það sem eftir lifði ævinnar. Aðrar hugsanir í þessum dúr leituðu á mig áður en mér tókst að beina athyglinni að myndinni.

Veðramót fjallar um þann viðbjóð sem átti sér stað á svokölluðum upptökuheimilum á borð við Breiðavík hér á árum áður. Niðurdrepandi er rétta orðið um þessa mynd og ég velti fyrir mér hvað Indverjunum finndist. Þrír þeirra gengu út þegar eitt ógeðslegasta atriðið birtist á tjaldinu. Eflaust fóru þeir heim og skelltu góðri Bollývúddmynd í tækið með söngi, tralli og litríkum klæðum - til þess að reyna að jafna sig á þessum íslenska sora.

Ég trúi varla að ég hafi hætt lífi mínu til að sjá þessa mynd.