laugardagur, 31. desember 2005

Betra seint en aldrei: 2006-vandinn

Munið að láta uppfæra tölvukerfin fyrir áramótin. Annars gæti 2006-vandinn þotið um sem stormsveipur og rústað þær.

Sá leiði misskilningur virðist hafa orðið að fólk var varað við 2000-vandanum um aldamótin. Sá vandi kom ekki fram þá en skv. reiknilíkönum mun hann koma fram núna um áramótin vegna tímaskekkju í hörðum diskum í PC-tölvum um gjörvalla veröld.

Aldrei of varlega farið.

Ný meðferð fyrir stress-sjúklinga

Sá afar spes frétt um daginn á DR1. Hún fjallaði um gríðarlegt stress sem fylgir nútímamanninum og nýja og ólgandi aðferð til að lækna fólk af stressi. Aðferðin var þannig að doktorinn og sérfræðingurinn tengdi tvo nema við höfuð stress-sjúklingsins. Nemarnir framkölluðu mjög irriterandi samfellt hljóð sem átti að fá sjúklinginn til að tæma höfuð sitt af hugsunum. Allt var þetta auðvitað sýnt í fréttini. Þegar sjúklingurinn stressaði, köllum hana bara Lene, hafði heyrt hljóðbylgjurnar irriterandi nægilega lengi, voru nemarnir tveir teknir af höfðinu á henni. Lene var spurð hvernig þetta hefði virkað. "Stressið virðist vera farið" svaraði hún. Hún tók í höndina á sérfræðingnum og doktornum góða.

Svo endaði fréttin á því að umrædd Lene ætlaði út af stofu doktorsins en ekki vildi betur til en svo að hún klessti beint á hurðina vegna þess að hún gleymdi að taka í hurðarhúninn fyrst.

Er 1.apríl ekki fyrr en í desember hér í Danmörku?

föstudagur, 30. desember 2005

Fantastic Four

Maður á helst ekki að segja frá svona löguðu, en um daginn sá ég myndina Fantastic Four sem fær 6,0 í einkunn hér sem er ofmat í hæsta gæðaflokki. Söguþráðurinn er ekki til staðar en framleiðendur reyndu að bæta fyrir það með því að láta Jessicu Alba leika í myndinni. Misheppnað.

Einkunn: 1,0 af 10.

Reindeer Games

Afar umdeild mynd, sjá hér, sumir segja 10, aðrir 1. Ég gef henni 8,5/10 og þá mest fyrir óvænta framvindu. Ben Affleck fer með aðalhlutverkið og það er gefið að hann er betri í þessari mynd en hinni skelfilegu Daredevil.

fimmtudagur, 29. desember 2005

Léttir

Ég hef komist að því að kannski er Ísland ekki með glataðasta forsætisráðherra í heimi. Í fréttaannál ársins á DR1 var sýnt frá opinberri heimsókn George Bush til Danmerkur hvar hann fékk höfðinglegar móttökur, kökur og með því, og forsætisráðherra Dana, Anders Fogh Rasmussen, tjáði Bush ást sína og glöggt gests augað las á milli línanna að helst vildi hann giftast forsetanum bandaríska. Andersi Foghi fannst "stríðið gegn hryðjuverkum" dásamlegt sem og hinn yndislegi félagi Bush.

Niðurstaða: Íslenskir ráðamenn eru hugsanlega ekki þeir smeðjulegustu í heimi gagnvart Bandaríkjastjórn.

Snjór

Snjór og skafrenningur í Danmörku. Dómari, má þetta?!

Hverjar eru líkurnar? 2/15?

Þetta er bara svipað líklegt og að lenda í blindbyl í svörtustu Affríku.

þriðjudagur, 20. desember 2005

Yndislegar gamlar konur sem láta ekki jólastressið leiða sig í gönur

Í gær síðdegis í Kringlunni:
Röð er í hraðbankana tvo sem standa hlið við hlið. Tvær konur um sextugt taka út peninga. Þær gefa sér nægan tíma: "Æ, óskaplega eru þessir hraðbankar sniðugir" hugsa þær og brosa breitt, svo spjalla þær hver við aðra á meðan. Þegar þær eru búnar að fá peningana og stinga þeim niður í buddurnar halla þær sér fram að hraðbönkunum og halda spjalli sínu áfram: "Mikið óskaplega þykir mér vænt um öll þessi jólaljós og ég verð að segja að skreytingarnar hér í Kringlunni hafa tekist afskaplega vel þetta árið" "Já, ég er svo hjartanlega sammála, það er komnar svo fínar seríur á allar svalirnar í blokkinni hjá mér nema tvær, þær sindra líka svo fallega. Það er eins og ég finni barnið í mér aftur þegar ég sé alla þessa dýrð". Nú hafði bæst í röðina og styggð hljóp í mannskapinn. Sumir voru tvístígandi, aðrir herptu saman munnvikin á meðan reiðin sauð á þeim. Þær gömlu létu sem ekkert væri: "Ert þú búin að kaupa jólagjafir handa barnabörnunum?" "Nei, ég á eitt 10 ára ömmubarn, lítinn gutta, það er ómögulegt að finna eitthvað handa honum" "Eru krakkarnir ekki alltaf að leika sér í tölvuleikjum í dag? Geturðu ekki bara fundið einn svoleiðis handa honum" "Jú, það er prýðishugmynd" "Jæja, ég held ég fari að halda áfram að leita. Gaman að heyra í þér" "Já, sömuleiðis, við heyrumstum vonandi fljótlega". Þær fara hvor sína leið og hraðbankarnir tveir eru lausir. Svo brostu þær blítt til allra í röðinni. Fólkið í röðinni brosti ekki.

Þegar talað er um að taka því rólega í desember og láta ekki jólastressið ná tökum á sér er ekki átt við að teppa hraðbanka til að spjalla. Það er ástæða fyrir því að þetta kallast hraðbankar, gömlu kerlingaóféti.

sunnudagur, 18. desember 2005

Tækniframfarir

Í nýjasta Bónus-bæklingnum er auglýst þráðlaus fjarstýring.

Djöfull er tæknin orðin geggjuð. Þessar fjarstýringar voru alltaf með leiðslum í mínu ungdæmi sem flæktust fyrir.

SJÓNVARPSMARKAÐURINN:
"Hver kannast ekki við þetta vandamál?: Maður er að flakka milli stöðva á sjónvarpinu með fjarstýringunni, svo koma krakkarnir hlaupandi fram hjá og detta um andskotans leiðslurnar og maður þurfti að vera að dröslast með þau á slysadeildina vikulega...Nú er þetta vandamál úr sögunni með nýju byltingarkenndu ÞRÁÐLAUSU FJARSTÝRINGUNNI. Krakkarnir geta hlaupið glaðir framhjá sjónvarpinu án þess að detta um leiðslur og stórslasa sig"

Krakkarnir brosandi í myndavélina: "Allt þráðlaust. Takk pabbi!"

laugardagur, 17. desember 2005

Söfnun

Nú er nýtt æði runnið á nokkra bloggara (að frumkvæði Bjarna Þórs Péturssonar) sem hyggjast senda fé fyrir vatnsbrunni til Afríku í gegnum Hjálparstofnun Kirkjunnar. Þar eru þyrst börn sem vilja vatn, örugglega líka kók, en markmiðið er að byrja á vatninu. Brunnur kostar 120.000 ÍSK samkvæmt auglýsingu frá Hjálparstofnun kirkjunnar. Það gera 2.500 krónur fyrir fimmtíu manns. Til að taka þátt í þessari söfnun skal lagt inn á reikning Hauks Snæs Haukssonar:
0101-05-267703
Kt. 100179-3189.

Fylgjast má með framgangi söfnunarinnar hér.

föstudagur, 16. desember 2005

Vandamál jólafrísins

Það er augljóst að ég er kominn í jólafrí, vaknaði klukkan tvö og fékk mér að borða klukkan þrjú. En síðan hafa nokkrar spurningar verið að angra mig:
1. Var þetta morgunverður, hádegisverður eða síðdegiskaffi?
2. Ef þetta var síðdegiskaffi, hvað verður þá um morgunverðinn og hádegisverðinn sem ég missti af?
3. Ef þetta var hádegisverður, hvað verður þá um morgunverðinn sem ég missti af?
4. Ef þetta var morgunverður, á ég þá að borða hádegisverð klukkan 16:30 og síðdegiskaffi klukkan 18:00?
Aukaspurning við lið fjögur: Hvað verður þá um kvöldverðinn, á ég að borða hann klukkan 21:00?
Aukaspurning II við lið fjögur: Ef ég borða kvöldverð klukkan 21:00, riðlast þá ekki líka svefntíminn?

Óþolandi vandamál.

fimmtudagur, 15. desember 2005

Taumlaus skemmtun

Hef á tilfinningunni að þau séu þau einu sem skemmta sér yfir þessu. Svona óþolandi plötuumslag hefur ekki sést áður svo lengi sem elstu menn muna.

miðvikudagur, 14. desember 2005

Jólahugvekja

Eftirfarandi á erindi til margra í þjóðfélaginu:

Hættið að láta eins og fávitar.

Hættið að keyra eins og fávitar hérna úti á umferðaræðunum út af því að þið eigið eftir að gera svo mikið og sjáið ekki fram á að ná því öllu. Hættið að þusa sínkt og heilagt um það hve mikið þið eigið eftir að gera: "Ég á eftir að þrífa allt og ég á eftir að baka allt og ég á eftir að skreyta allt og blablabla". Hver segir að það þurfi endilega að gera allt þetta? Af hverju þarf að gefa jólagjafir fyrir mörg þúsund, jafnvel hundruð þúsunda króna? Fólk þekkir ekki krakkana sína af því að það er alltaf að vinna og vinna til að eiga fyrir bílum og drasli og gjöfum handa krökkunum til að friða þau: "Ég verð að sýna nágrannanum að ég sé betri en hann með því að eiga ógeðslega geðveikan bíl". Með því er fólk ekki að sýna að það sé betra heldur frekar að það sé asnar sem eru að drepast úr flottræfilshætti. Af hverju þarf maður að bíða endalaust eftir afgreiðslu í matvörubúðinni? Jú, út af því að einhver spikfeit kerling er að kaupa feitmeti og sykurjukk fyrir fimmtán þúsund kall.

Hættið að vinna eins og geðsjúklingar af því að þið "þurfið" að gefa svo margar og dýrar jólagjafir og "þurfið" að fá ykkur flottari bíla. Alveg ótrúlegt hve sumir þurfa að bæta við skuldahalann í desember og líður illa þegar þeir sjá eigin eyðslu svart á hvítu eftir mánuðinn.

Jólin snúast um samveru með fjölskyldu og að borða góðan mat (ekki ógeðslega mikið af mat og ógeðslega mikið af kökum og konfekti, bara að það sé sæmilega gott og í hófi). Og hverjum er ekki drullusama þótt það sé ekki búið að strjúka burt rykið í gluggakistunum? Og hverjum líður betur við það að fá svimandi dýrar gjafir og að hafa gefið svimandi dýrar gjafir? Það verður enginn betri maður af því.

Spyr sá sem ekki veit. Taki það til sín sem eiga.

mánudagur, 28. nóvember 2005

Hlé

ÞEssi síða er hér með komin í hlé. Enginn veit hve langt.

sunnudagur, 27. nóvember 2005

Íslenski bachelorinn

Flestir virðast sammála um að botninum sé náð í íslenskri dagskrárgerð. Kynnirinn er líklega mesti amatör sem sést hefur í íslenskum þætti fyrr og síðar. En þetta skiptir ekki máli. Þatturinn fær áhorf og það er væntanlega aðallatriðið fyrir stjórnendur Skjás eins. Fólk horfir á þetta til að sjá hvað þetta er lélegt, hlær að þessu og hneykslast.

Var það ef til vill tilgangur þáttarins?

Þorsteinn Guðmundsson komst nokkuð vel að orði á Edduverlaunahátiðinni um daginn: "Í íslenska Bachelornum keppast fimmtán einstæðar mæður um smið með varalit. Ég þarf ekkert að horfa á það í sjónvarpinu, ég get alveg séð það bara niðri á Kaffi Reykjavík"

föstudagur, 25. nóvember 2005

Vafasamar athugasemdir

Um daginn flutti ég fyrirlestur í íslensku ásamt nafna mínum um íslenskt skáld. Í dag fékk ég síðan skriflegan dóm um fyrirlesturinn frá kennaranum. Kennarinn gerði athugasemd við orðalag mitt að skáldið hefði verið "allur í kerlingunum" sem var þó satt. Einnig gerði kennarinn athugsemd við að ég skyldi segja að hann "nennti ekki lengur að standa í þessu bulli og flutti heim" um það þegar skáldið flutti aftur til Íslands frá Vesturheimi.

Kennaranum finnst greinilega ekki við hæfi að reyna aðeins að halda nemendum vakandi í slíkum fyrirlestrum. Fátt er leiðinlegra en að hlusta á of hátíðlega fyrirlestra um einhverja svona fokkin gaura nema gaurarnir hafi verið þeim mun ferskari. Þá sofna oftast nokkrir. Þeir sem þó halda sér vakandi horfa út um gluggann og pæla í einhverju allt öðru.

fimmtudagur, 24. nóvember 2005

Ríki og kirkja

Almennt er ég á móti einkavæðingu. Ég er á móti mikilli einkavæðingu í skólakerfinu og ég er á móti einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Aðskilnaður ríkis og kirkju þykir mér hins vegar ljómandi góð hugmynd. Ég tel ekki nauðsynlegt að hafa eina ríkistrú og finnst að menn eigi að fá að stunda "kukl" og blót og fleira ef þeir kjósa það. Ríkið gæti sparað nokkuð mikið á því að setja kirkjuna út á markaðinn. Flestir íslendingar stunda kirkjuna lítið. Helst til að gifta sig, jarða sig, skíra sig og fara í jólamessu. Fyrir utan þessa viðburði standa kirkjurnar gapandi tómar árið um kring.

Heilbrigð samkeppni á trúarmarkaðnum væri mjög hressandi. Það væri nú gaman ef bisnisskarlar ættu þjóðkirkjuna. Þjóðkirkjan færi að auglýsa:

Hefur þú bragðað messuvínið okkar?
-Þjóðkirkjan

Nýir og þægilegir bekkir í næstu kirkju
-Þjóðkirkjan

Svo færu stórkaup að sjást á hinum frjálsa trúarmarkaði og fyrirsagnir blaðanna væru:

Þjóðkirkjan kaupir Fíladelfíusöfnuðinn

Ásatrúarfélagið hf. kaupir Óháða söfnuðinn

Þjóðkirkjan skilar hagnaði á öðrum ársfjórðungi
Þjóðkrikjan hf. skilaði 1,5 milljarða hagnaði á öðrum ársfjórðungi samanborðið við þriggja milljarða tap á fyrsta ársfjórðungi. Hagnaðinn nú má þakka hagræðingu og kaupum Þjóðkirkjunnar á Fíladelfíusöfnuðinum...

Þetta er of freistandi til að sleppa því.

miðvikudagur, 23. nóvember 2005

Antiklám

Megas spurður í Kastljósi hvort ekki væri klám á nýju Megasukk-plötunni: "Nei, það er antiklám"

Antíkklám hugsanlega?

mánudagur, 21. nóvember 2005

Gagnrýni: White Stripes í Laugardalshöll

Eftir að íslensk kúkahljómsveit (dæmigerð íslensk kúkarokkhljómsveit þar sem hljóðfærunum ægir saman í graut og söngvarinn galar eitthvað kjaftæði) að nafni Jakobínarína hafði spreytt sig á sviðinu í dágóða stund stigu Meg White og Jack White á svið. Meg settist við trommusettið og Jack stóð með gítarinn. Það var kátt í höllinni þegar þau byrjuðu fyrsta lagið, Blue Orchid, sumir fengu vægar hjartsláttartruflanir við dynjandi taktinn. Svo komu tvö eða þrjú eldri lög sem voru ekkert svakaleg og eins og oft brást hljóðkerfið eitthvað (furðulegt að þessi hljóðkerfi virðast alltaf klikka eitthvað). Jack var mikill meistari á gítarinn og ekki síður að syngja. Meg var mjög fyndin á trommunum, ruggaði allan tímann og var eins og kjáni, en stóð sig þó vel. Þau lög sem stóðu upp úr voru:
Blue Orchid
Jolene
Red Rain
Seven Nation Army
Hotel Yorba
My Doorbell
Little Ghost
I Just Don't Know What To Do With Myself
Ball And A Biscuit

En ég saknaði nokkurra laga á þessum tónleikum, uppáhalds White Stripes lags míns, Hypnotize og einnig:
The Air Near My Fingers
Fell In Love With A Girl
In The Cold, Cold Night (Meg syngur)
Well It's True That We Love One Another (bæði syngja)
Girl, You Have No Faith In Medicine

Hefðu mátt setja þessi lög inn í prógrammið og henda nokkrum af þessum elstu út því þau voru einfaldlega ekki jafn góð í upphafi ferilsins. Að öðru leyti var þetta dúndurgott. Meg söng bara stutta lagið sitt af Get Behind Me Satan, Passive Manipulation.

Einkunn:8,7

sunnudagur, 20. nóvember 2005

Halló halló

Klukkan er 9:04 á sunnudagsmorgni. Ég væri ekki vaknaður nema út af því að ég vaknaði við babblið í þeim gömlu á hæðinni fyrir neðan (þær gera greinilega ekki ráð fyrir að nágrannar sínir hafi verið í blússandi sveiflu í gærkvöldi). Held að þær hafi verið með gamlar kerlingar í heimsókn hjá sér. Svo heyri ég aldrei orðaskil, nema eitt og eitt orð og það er greinilega ein kerling sem talar manna mest og manna hæst. Ég heyri líka á tóninum í röddinni að henni er mikið niðri fyrir, greinilega að tala um eitthvert þjóðþrifamál. Annars hljómar þetta einhvernveginn svona: "Já, því að babbalabbalabbababb..."

Hún ætlar bara aldrei að þagna, kerlingin.

laugardagur, 19. nóvember 2005

Svakalegur


Flottur jakki
(Raggi Bjarna)

Eb
Tvirilidirilidí...
G# Bb
Tvirilidirilidí... (x3)

Eb
Ég fékk eitt sinn jakka og ég fór í hann
og flestar stelpur þráðu heitt að hitta þennan mann.
Sem vildi bara hlusta á hið villta bít,
ég vildi bara jakka úr tvít, tvít, tvít.

G#
Flottur jakki... (tvít, tvít, tvít)
Eb
Flottur jakki... (tvít, tvirilídí)
Bb
Ég átti lakkrísbindi
G# Eb
og skyrtan hún var skjannahvít.

Helst ég vildi alltaf hlusta á þetta bít,
ef heyrist þessi taktur út á gólfið ég þýt.
Í úrhelli eða sól
alltaf vil ég heyra rock ?n ról.

Flottur jakki... (tvít, tvít, tvít)
Flottur jakki... (tvít, tvirilídí)
Ég átti lakkrísbindi
og skyrtan hún var skjannahvít.

Sóló...

G#
Buxurnar hjá okkur voru þröngar þá,
Eb
og þá var jafnað skótauið með mjóa tá.
G#
Með briljantín í hárinu ég steig á stokk
Bb
og stelpurnar þær vildu bara heyra rokk.

Ég fékk eitt sinn jakka og ég fór í hann
og flestar stelpur þráðu heitt að hitta þennan mann.
Sem vildi bara hlusta á hið villta bít,
ég vildi bara jakka úr tvít, tvít, tvít.

Flottur jakki... (tvít, tvít, tvít)
Flottur jakki... (tvít, tvirilídí)
Ég átti lakkrísbindi
og skyrtan hún var skjannahvít.

Buxurnar hjá okkur voru þröngar þá,
og þá var jafnað skótauið með mjóa tá.
Með briljantín í hárinu ég steig á stokk
og stelpurnar þær vildu bara heyra rokk.

Ég fékk eitt sinn jakka og ég fór í hann
og flestar stelpur þráðu heitt að hitta þennan mann.
Sem vildi bara hlusta á hið villta bít,
ég vildi bara jakka úr tvít, tvít, tvít.

Flottur jakki... (tvít, tvít, tvít)
Flottur jakki... (tvít, tvirilídí)
Ég átti lakkrísbindi
og skyrtan hún var skjannahvít.

föstudagur, 18. nóvember 2005

Kafteinn Flygenring

Þeir sem horfðu á Edduverðlaunin halda e.t.v. að Silvía Nótt sé aðalsjónvarpsstjarna Íslands í dag. Þar skjátlast þeim. Hver er það sem hefur sölsað undir sig bæði RÚV og 365 ljósvakamiðla? Mikið rétt, kafteinn Flygenring. Kafteinn Flygenring er aðalmaðurinn í Kallakaffi sem sýnt er RÚV og vakið hefur heimsathygli. Ekki nóg með það, heldur er kafteinninn stjórinn á Ástarfleyinu sem sýnt er á Sirkus við frábærar undirtektir. Eru það ekki nægar sannanir fyrir því hver aðalmaðurinn er í dag?

Ég hef ákveðið að taka mér þennan meistara til fyrirmyndar. Alltaf ef ég lendi í klípu spyr ég sjálfan mig: "Hvað skyldi kafteinn Flygenring gera í þessari stöðu?". Ef ég veit ekki hvernig skal svara einhverri spurningu: "Hvernig skyldi kafteinn Flygenring svara þessu?". Þetta hugarfar kemur alltaf til bjargar á ögurstundu.

fimmtudagur, 17. nóvember 2005

Gagnrýni: Corpse Bride

Hef séð tvær frábærar myndir frá Tim Burton (Charlie and the Chocolate Factory og Big Fish). Corpse Bride er ekki leiðinleg. Hins vegar vantar eitthvað upp á söguna, hún er auk þess of tilviljanakennd. Svo er of mikið af söngatriðum sem hafa mjög takmarkað skemmtanagildi. Brandararnir hefðu mátt vera betri. Eftir stendur að Tim Burton getur gert betur.

Einkunn: 7,5.

mánudagur, 14. nóvember 2005

Í strætó um árið

Strætó stoppar á skiptistöðinni í Mjódd. Ranglandi fullur maður og enn fyllri kona búa sig undir að stíga um borð.
Bílstjórinn: "Bíðið við, þið fáið ekki að koma inn"
Maðurinn: "Af hverju ekki?"
Strætóbílstjórinn: "Af því að hún er full"
Maðurinn: "Neinei, hún er ekkert full"
Maðurinn við konuna: "Ertu nokkuð full?"

En konan hafði gefist upp og tók ekki þátt í leiknum lengur. Og öllum er ljóst að þessi maður er galinn.

Rakvélablöð

Gilette-fyrirtækið er gott dæmi um það að einokunarstaða á markaði er ekki æskileg. Það er enginn metnaður til að gera betur og betur. Hvenær ætla þessir andskotar að koma fram með rakvélablöð sem bíta bara á skegg, ekki húð? Ég er brjálaður, enda var ég að skera mig föytast á splunkunýju flugbeittu rakvélablaði.

Ái.

laugardagur, 12. nóvember 2005

Kastljós ársins

Ég var að sjá núna á netinu "viðtal" við Kára Stefánsson úr Kastljósi RÚV. Þetta er eitt það óborganlegasta sem ég hef séð. Lokaorð Kára eru æðisleg: "Þetta mistókst gjörsamlega". Þeir sem misstu af þessu ættu að kíkja á þetta. Þetta var í sama þætti og snarbilaði DNA-heilarinn kom fram. Þarna er augljóslega kominn Kastljósþáttur ársins 2005 og fer í flokk með þættinum þar sem Kristján Jóhannsson talaði um rauðu brjóstin að ógleymdum mögnuðum þætti með Árna Johnsen þegar hann spurði spyrilinn "Hvaða siðferði hefur þú?"

Spaugstofan reyndi að gera grín að þessu Káraviðtali en það varð ótrúlega aumt því engu var við að bæta.

Höfðinglegt boð

Farsíminn hringir. Guðmundur svarar. Tölvukvenrödd: "Notandi 86bleble hefur boðið þér að taka þátt í samtali á þinn kostnað"

Höfðinglegustu boðin eru alltaf þau sem maður sjálfur ber kostnað af. Næst þegar ég held stórveislu ætla ég að bjóða fullt fullt af gestum og auðvitað allt á þeirra kostnað. Eftir veisluna fá þeir sendan gíróseðil með sundurliðuðum upplýsingum um kostnaðinn sem af þeim hlaust, dæmi:
Heitur réttur, 50 grömm - 432 krónur
Súkkulaðikaka, 17 grömm - 202 krónur
Húshitunarkostnaður, 1/267 af reikningi mánaðarins - 15 kr.
Slit á gólfefnum - 1 króna og 13 aurar
Klósettpappír, 10 blöð - 12 krónur
o.s.frv.

DNA heilun?

Konan í þessu viðtali veit einstaklega lítið um hvað hún er að tala. Kastar fram vafasömum fullyrðingum um að hún geti bara breytt erfðamengi mannsins (DNA). Undir lok viðtalsins segir konan "Það skiptir engu máli hvort þetta eru kallaðar skottulækningar eða ekki. Málið er að það er enginn maður sem getur heilað annan mann. Við heilarar erum aðeins farvegur fyrir orku alheimsins. Í alheimsorkunni er mikill heilunarkraftur og við sækjum þangað heilunarkraft til þess að gera okkur heil. Ég hef trú á því jú, að við getum heilað hvað sem er í okkur sjálfum og það er mín trú, það er trú margra. Ég er ekkert að segja öðrum að trúa því. Það verður hver og einn að finna það".

Í upphafi var hún nokkuð kokhraust en eftir það er hún sífellt afsakandi og segir oft: "Við þurfum ekki að taka þessu svona hátíðlega". Svo segir hún framarlega í viðtalinu: "Við getum öll heilað, við höfum öll í okkur þennan mátt að heila". Hún fer nokkrum sinnum í þversögn við eigin orð. Það er líka athyglisvert að sjá hvernig læknirinn, sem er andstæðingurinn í viðtalinu, horfir á hana.

Var hún á einhverju í þessu viðtali.

miðvikudagur, 9. nóvember 2005

Robbie Williams?

Glataður.

Það skipar enginn mér að leyfa sér að skemmta mér (sbr. lagið Let Me Entertain You). Ef ég væri bóndi og ætti nokurra hektara land og Robbie Williams kæmi og stigi fæti inn á mitt landsvæði segði ég við hann: "Burt af minni landareign!" og sendi hundinn á hann.

Nei, bara svona í framhjáhlaupi á meðan ég læri fyrir sögupróf.

þriðjudagur, 8. nóvember 2005

Gagnrýni: Wallace & Gromit - The Curse of The Were Rabbit

Sá þessa mynd fyrir einni eða tveimur vikum. Hún er blússandi. Hressandi karakterar.

Einkunn: 9,0

mánudagur, 7. nóvember 2005

Klassatexti

Magnaður texti við lagið Sveitaball sem er m.a. til í flutningi KK og Magga Eiríks á plötunni 22 ferðalög.

sunnudagur, 6. nóvember 2005

Gagnrýni: Saybia - These Are the Days




Danska hljómsveitin Saybia hefur vakið töluverða athygli og var valin besta hljómsveiin á Nordic Music Awards um daginn. Þeir spila frekar rólega tónlist og fara líklega í flokk með Radiohead og Coldplay og slíkum. Af þessari plötu að dæma eru þeir betri en báðar þessar sveitir og það þó nokkuð. Söngvarinn er ekki svona djöfulsins gaulari eins og Chris Martin og hefur mjög kröftuga rödd. Mjög góðar melódíur og góð lög og góður söngvari. Lögin eru hvert öðru betra en ef nefna á eitt lag sérstaklega væri það I Surrender, angurvært og hressandi (lesandi: "Ha, munnangurvært?" Nei, hálfviti, bara angurvært.) Best er platan eftir nokkrar hlustanir. Ég er ekki frá því að það sé erfiðara að gera góða rólega tónlist en góða fjöruga tónlist vegna þess að þessu rólega hættir svo oft til að ferða flatt (sbr. flatan bjór, hver vill drekka flatan bjór?) Hljómsveitin ku vera frábær á tónleikum og ég er ekki frá því að stefnan sé bara sett á tónleika í Danaveldi næsta sumar.

Niðurstaða: Platan er ekki fullkomin en kemst mjög nálægt því.

Einkunn: 9,7

Um blóm og partý og blómabörn

Sumir afmælisveislugestir settu út á umhirðu blómanna. Töldu þeir að ég vanrækti þau. En það er bara hluti af skýringunni. Það kom lús í flest blómin, sama hvað hver segir og svo voru þau ekki umpottuð síðasta vor, mamma taldi það óþarfa. En það vakti lukku þegar ég fór að vökva blómin "í beinni" í partýinu með könnuna í annari og bjórinn í hinni. Handlaginn húsfaðir.

Veislan gekk nánast snuðrulaust fyrir sig. Ekki mikið um pústra og ölvun í meðallagi. Það eru hins vegar blöðrur og hnetur hér um öll gólf og upp um veggi (afmælisgjafir). Ég er að hlæja núna að ofvirku upptrekktu véldýri sem ég fékk. Óvenju gaman að leika sér að þessu svona þunnur.

Síðustu menn út voru ég, nafni og Sepinn og fórum við rakleiðis á Prikið. Þar var leiðinlegt. Menn skvettandi bjór yfir mig og reykjarkóf og vafasamir menn berir að ofan að dansa uppi á borði. Hljómar ekki eins og mín uppskrift að góðri skemmtun. Ég held að það sé bara skemmtilegt niðri í bæ í eitt af hverjum hundrað skiptum. Hitti gamlan félaga niðri í bæ sem var ekki sáttur við að hafa ekki verið boðinn. En þegar ég lofaði að bjóða honum í þrítugsafmælið tók hann gleði sína á ný.

föstudagur, 4. nóvember 2005

Að haga sér eins og fífl

Skelfilega er það bjánalegt þegar fólk tekur æði og verður að sjá einhverja hljómsveit spila af því að "allir eru að fara" og það verður örugglega "gegt" en ekki vegna þess að það er aðdáendur.

Ég fer á White Stripes enda er ég aðdáandi.

miðvikudagur, 2. nóvember 2005

20 ára, nýr maður

Vaknaði nýr maður í morgun. Það tók smá tíma að átta sig á hvers vegna, en svo fattaði ég, í morgun varð ég nefnilega tvítugur. Strákapör æskuáranna eru liðin tíð. Eftir tvítugt gerir fólk aldrei mistök. Þá hagar það sér eins og fullorðið fólk.

Fyrsta skref tvítugs manns er að sjálfsögðu að fara í ríkið. Allir gera það á afmælisdaginn, líka bindindissjúklingar. Þeir kaupa þá bara brennivín til að bjóða gestum eða fara í ríkið og kaupa ekkert. Fólk þarf ekkert að kaupa frekar en það vill, það getur líka bara sest á gólfið og dregið djúpt andann og farið síðan beint út aftur. Lykilatriðið er þetta: að fara í ríkið á afmælisdaginn.

þriðjudagur, 1. nóvember 2005

Peter Crouch grínið

Peter Crouch grínið heldur áfram leik eftir leik. Maðurinn klöngrast og skakklappast um völlinn, klúðrar boltum og skorar aldrei, en samt er hann í byrjunarliði leik eftir leik. Mögnuð taktík, Benítez, mögnuð.

En í kvöld er óþarfi að kvarta og kveina, Liverpool malaði Andelecht 3-0 og uppáhalsdsleikmaðurinn minn, Djibril Cissé, rak smiðshöggið. Við það tækifæri mynduðu myndatökumennirnir Peter Crouch á bekknum (sem hafði einmitt farið út af fyrir Cissé á 70. mín.), sem var alveg eins og kind í framan, grey karlinn. Góður sigur og aftur er komin vonarglæta í liðið eftir magra daga. Morientes skoraði meira að segja. Ólgandi.

sunnudagur, 30. október 2005

Góður

Hann er ekki leiðinlegur, þessi.

Hugleiðing kl. 2:20 aðfararnótt sunnudags

Mannshugurinn er ótrúlegt fyrirbæri.

Frá fæðingu hugsum við stanslaust til dauða. Heilinn fær aldrei hvíld á þessum tíma. Meira að segja þegar við fokkin sofum eru hugsanir á fullu, á formi drauma. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að ég hef reynt að taka t.d. einnar mínútu hvíld og hugsa ekkert á meðan. Þetta virðist ekki vera hægt. Þótt maður reyni að hugsa ekkert eru hugsanir í gangi. Það er hægt að hugsa um tómarúm, en það er samt hugsun. Sumar hugsanir eru svo ótrúlega ómerkilegar að það tekur því ekki að hugsa þær. Þetta er galli á mannshuganum.

fimmtudagur, 27. október 2005

Allt í drasli

Jæja, nú er allt í drasli. Ég tek bara til á morgun.

Á morgun segir sá, segir sá...

mánudagur, 24. október 2005

Hljómsveitir

Red Hot Chili Peppers er vinsæl þessa dagana í spilaranum. En það sem er vinsælast af öllu er auðvitað kasettan með The Who. Hún er alltaf í botni þegar ég rúlla um strætin í fjölskylduvagninum. Lög á borð við Pinball Wizard, I'm Free, Baba O'Reilly, My Generation, Substitude, Pictures of Lily og auðvitað Behind Blue Eyes sem the Who ná bara næstum jafnfagmannlega og meistararnir í Limp Bizkit (er gaurinn ekki að fokkin grínast? Limp Bizkit? Jú, þetta var grín)


Mugabe var einmitt líka að hlusta á The Who um daginn í heyrnatólunum sínum. Hann reyndi að halda pókerfeisi allan tímann út af því að hann er virðulegur embættismaður. Hann þurfti að rembast til þess, hann rembdist svo mikið að hann varð eldrauður í framan og augun bara ætluðu út úr hausnum. Eitthvað varð að láta undan og áður en hann vissi af hafði glottið hríslast fram á andlitið eins og sést á myndinni, þetta var bara svo rosalega skemmtilegt og hann hummaði með "I'm free, Iiiii'm free...". Glottið var frosið á andlitinu á Mugabe lengi lengi, þegar hann allt í einu mundi að hann var einræðisherra. Þá fór hann aftur út að ráðskast með þegna sína.

föstudagur, 21. október 2005

Bekkjarpartý

Í kvöld er bekkjarpartý.


Mugabe lofar að vera góður og kurteis ef hann fær að koma með í partý og hann ætlar ekki að bíta neinn eins og síðast en honum er ekki boðið.

fimmtudagur, 20. október 2005

Gallsteinafesti

Palli litli fór í heimsókn til ömmu. Amma var með nýja festi um hálsinn.
Palli: "Vá, amma, flott festi. Eru þetta demantar?"
Nú færist bros yfir andlit gömlu konunnar.
Amma: "Nei, Palli minn þetta eru gallsteinar úr ömmu gömlu. Ég límdi glimmerið sjálf á"


Mugabe verður öskuillur þegar hann heyrir svona ósmekklegt grín

Mugabe 1

Í kvöld hefst þátturinn Ástarfleyið á Sirkus. Er þetta annar íslenski raunveruleikaþátturinn en Skjár einn hefur sýnt þáttinn Íslenski Bachelorinn sem vakið hefur mikil viðbrögð og ill.


Mugabe er steini lostinn og vill ekki láta bendla sig við nýja þáttinn.

miðvikudagur, 19. október 2005

Mugabe þema

Það verður Mugabe þema næstu daga.

þriðjudagur, 18. október 2005

Árshátíðin

Athyglin alveg farin.


Ingunn Eyjólfsdóttir mun hafa tekið þessa mynd ásamt öðrum myndum hér.

sunnudagur, 16. október 2005

Bloggið

Maður þarf að fara að hætta þessari vitleysu.

föstudagur, 14. október 2005

Aðfangadagur

Þegar ég vaknaði þunnur í morgun fannst mér vera aðfangadagur. Er nokkuð aðfangadagur í dag?

Ekki miðað við dagsetninguna, 14. október. Hann er kannski bara óvenjusnemma þetta árið eins og páskarnir. Þá eru víst rauð jól. Jæja, ætli maður lifi það ekki af.

Ég má ekki vera að þessu, ég á eftir að kaupa gjafirnar.

Bullur

Árshátíðin var í gær. Hún var bara nokkuð fín. Ég, Gummi, Seppi og Birkir umkringdum nokkra heppna einstaklinga og hoppuðum í kringum þá kallandi "HEI HEI HEI HEI HEI Heiiii" eins og fótboltabullur og svo slepptum við þeim. Rosaleg stemming. Svo lentu tvö heppin pör líka í okkur. Sannarlega hressandi fyrir þau.

fimmtudagur, 13. október 2005

HM í hund og kött

Í kvöld varð ljóst að Danir verða ekki með á HM í Þýskalandi á næsta ári. Af þessu tilefni sendi ég frá mér eftirfarandi tilkynningu: Glatað.

Ég hefði nefnilega vel getað hugsað mér að mæta þarna á næsta ári á leiki með Dönum og vera með dólgslæti og háreysti og styðja þá.

þriðjudagur, 11. október 2005

Klukk

Ásgeir og Már hafa "klukkað" mig. Hér kemur listinn:

1. Ég var þekktur fyrir mikla þrjósku á mínum yngri árum. Ef ég beit eitthvað í mig þá gilti það. Þrjóskan átti ýmis einkennileg birtingarform. T.d. var ég alltaf að gleyma útifötunum mínum í skólanum. En ég sótti þau aldrei. Þegar ég var búinn að týna góðum slatta af ullarsokkum, vettlingum, treflum og jafnvel úlpum fór mamma með mér í skólann að gá í óskilamuni. Hún sá þar hauga af mínum fötum og benti mér á en ég kannaðist ekki við þá muni og neitaði alfarið að hafa nokkurn tímann séð þá. Þá var sagt e-ð á þessa leið; Mamma: "Guðmundur minn, þetta eru bláu og hvítu ullarsokkarnir þínir" Ég: "Nei, ég hef aldrei séð þessa ullarsokka". Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mömmu til að tjónka við mig neitaði ég tengslum við þessi föt. Ég leit bara á þetta sem óskilgreinda óskilamuni. Mig minnir að þetta hafi endað þannig að mamma hafi tekið óskilamuni mína heim án míns samþykkis. Að sjálfsögðu neitaði ég að klæðast fötunum framar. Mamma gat bara klæðst þeim sjálf fyrst hún þurfti endilega að ná í þau. Einu sinni var ég hjá vini mínum og týndi einum sokki þar. Þegar mamma vinar míns kom með sokkinn og ætlaði að skila mér honum sagðist ég ekki eiga hann. Samt var ég berfættur á vinstri fæti og sokkurinn sem hún hélt á var sömu gerðar og sá sem ég klæddist á hægri fæti. En nei, ég átti sko ekkert í þessum sokki. Vinur minn hlaut að eiga hann. Það má segja að ég hafi verið nokkuð illviðráðanlegur í þessum efnum. Skýringar á þessari hegðun hef ég ekki.

2. Ég er í MR en útskrifast vonandi næsta vor. Ef ekki verð ég bara róni og ruslakarl. Þó kemur til greina að verða róni og ruslakarl þótt mér takist að útskrifast. Ekkert er útilokað.

3. Ég iðka bandý með Bandýmannafélaginu Viktor. Æfingar eru haldnar tvisvar í viku og sífellt fjölgar iðkendum.

4. Ég hef búið einn síðan í ágúst. Hinir fjölskyldumeðlimirnir þrír hafa flúið land og búa á víð og dreif um Danmörku. Þeir halda líklega að grasið sé grænna hinum megin.

5. Lengi vel ætlaði ég að verða kokkur en fátt bendir til þess eins og er.

úllen dúllen doff, ég klukka þá ufsana Guðmund P og Jósep.

laugardagur, 8. október 2005

Hvar eru péningarnir mínir?

Súrrealísk samkoma

Októberfest háskólanema í tjaldi og drullusvaði var mjög súrrealísk samkoma. Á morgun munum við drengirnir (ég, Joséphéz Birgois Thorgal, Stuðmundur Gríndal og Sveinbjörn Claessen og fleiri?) gæða okkur á dýrindis máltíð og veigum ásamt Margréti í Hallanum. Ég hef á tilfinningunni að það verði ekki súrrealískt.

fimmtudagur, 6. október 2005

Sjálfmenntaður næringarfræðingur

Amma er farin að stunda að gefa mér kökur til að hafa með heim þegar ég fer í heimsókn til hennar og afa. Hún segir að ég hafi gott af kökunum. Áðan gaf hún mér brúnköku með rúsínum. Ekki kvarta ég, nú á maður eitthvað til að bjóða gestum og til éta sjálfur í kaffinu.

Það er garanterað að ég tek meira mark á því sem amma mín segir en því sem Solla á Grænum kosti segir. Eins og gárungarnir segja: "Solla á Grænum kosti veit ekki neitt". Því verður hins vegar ekki neitað að amma veit hvað hún syngur enda hefur hún lifað svo lengi. Hún þekkir þetta allt saman.

Svo mætti nefna það að nú hlusta ég mikið á kasettu með subbanum, suddanum og drykkjusvelgnum Elvis Presley. Hann á slatta af frábærum lögum. Einnig vil ég fá að koma því á framfæri að góð munnhörpusóló eru gulls ígildi.

mánudagur, 3. október 2005

Hollustupostular

Nú spretta næringarráðgjafar og hollustupostular upp eins og gorkúlur. Þeir segja fólki að borða fræ og belgbaunir og hummus og tofu og auðvitað soyamjólk. Reyndar ganga þeir sumir mjög hart fram og vilja helst troða þessu inn á hvert mannsbarn. Léttmjólk og nýmjólk eru eiturbras í þeirra augum. Það er svo mikið af eiturefnum í kúamjólkinni. Krakkarnir verða bara feitir og snælduvitlausir af kúamjólkinni. Þau eiga að fá kalkið sitt annarsstaðar, þau eiga að fá kalkið sitt úr hummus og tófú...og salatblöðum.

Ég hef fengið mig fullsaddan á þessu þvaðri. Mjólk hefur verið drukkin frá örófi alda og hefur ekki drepið marga. Reyndar var hún eitt af því sem hélt lífinu í Íslendingum í gamla daga. Það er nóg af næringarefnum og kalki í mjólk. Ég verð ekki var við það að fólk sem étur EKKI þetta næringarpostulasull sé að drepast úr næringarskorti eða fitu. Ég held að aðalmálið sé að sitja ekki alltaf á rassgatinu allan daginn og éta sælgæti og skyndibita. Éta sæmilega hollan mat og hreyfa sig endrum og eins, þá er fólk bara í góðum málum.

En ég reyni að vera opinn fyrir öllu. Þess vegna keypti ég mér soyamjólk úti i búð. Ég opnaði fernuna með opnum hug og lyktaði. Þar kom fyrsta áfallið, þetta lyktaði eins og rotnandi plöntuleifar. Jæja, ég reyndi að láta það ekki á mig fá og hellti í glasið. Liturinn á þessu var grámyglaður (sami litur og í grámyglu hversdagsleikans). En alveg róleg, ég gaf þessu samt séns. Ég bar flóaða soyamjólkina alla leið upp að munni, opnaði upp á gátt og sturtaði í mig risastórum gúlsopa. Þá kom þessi svipur á mig:



Ég ætla ekki að gefa soyamjólk annan séns.

sunnudagur, 2. október 2005

Kátt í höllinni

Nú er kátt í höllinni. Ég var að ljúka líffræðiritgerðinni. Hún er ósköp þunn og léleg en ég er búinn og það er fyrir öllu. Ég fagnaði fyrirfram áðan þegar ég fékk mér kökusneið.

Blm: Og hvernig bragðaðist svo kökusneiðin?

Fallegt af þér að spyrja, bara mjög vel takk.

Partýhattar

Áðan fór ég líklega í slappasta partý sem ég hef á ævinni farið í. Það var í blokk í Grafarvogi og saman voru komnir fimm gaurar og ein stelpa. Einn gaur sat dauður áfengisdauða í miðjunni. Þegar við komum afhenti partýhaldari okkur asnalega partýhatta til að strengja á höfuðið.

Eftir 20 mínútur vaknaði dauði maðurinn og fór að rausa um KR og hluti af handahófi. Skömmu eftir það fórum við. Eins og Rob sagði, þá minnti þetta töluvert á áramótapartý Mr. Bean þar sem hann bauð tveimur gaurum, strengdi á þá partýhatta og sneiddi handa þeim trjágreinar og húðaði með sírópi út af því að hann átti ekki saltstengur. Síðan sátu þeir og fylgdust með stofuklukkunni nagandi greinarnar.

fimmtudagur, 29. september 2005

Gagnrýni: Charlie and the Chocolate Factory

Eftir að hafa séð tvær lítt eftirminnilegar myndir í bíó nýlega (Land of the Dead og Dukes of Hazard) sá ég eina frábæra nú á dögunum. Þetta var myndin um unga fátæka drenginn sem bjó hjá fátæku foreldrum sínum og fátækum, kexrugluðum öfum og ömmum og kofaskrífli inni í bæ. Hann átti þann draum að sjá sælgætisverksmiðju Willie Wonka (Johnny Depp) sem var mikið ævintýraland. Nokkrir útvaldir krakkar fengu að sjá verksmiðjuna æðislegu. Ein persóna í myndinni stendur upp úr. Það er barn frá Dusseldorf í Þýskalandi. Reyndar er það ofdekraður, feitur og kámugur krakkagöltur sem unir glaður við súkkulaðíát allan daginn. Frábær karakter. Hinir krakkarnir sem komust í fyrirheitna landið voru ofdekraðir og leiðinlegir (að Charlie litla undanskildum). Foreldrar krakkanna eru snobbað leiðindapakk. Johnny Depp er ljómandi góður í hlutverki hins brenglaða Wonka. Boðskapur myndarinnar er tvíþættur, eitt atriði fyrir börn og eitt fyrir fullorðna:
1. Fyrir krakkana: Það er ekki gott að vera heimtufrekur og þrasgjarn.
2. Fyrir fullorðna: Snobbað leiðindapakk sem ofdekrar krakkana sína er lélegt.
Þetta er að mínu mati mjög holl áminning fyrir bæði foreldra og krakka. Þetta er stórskemmtilegt ævintýri sem kemur stöðugt á óvart. Flestar persónurnar getur maður tengt við persónur úr raunveruleikanum.


Augustus hinn þýski, að gæða sér á gúmelaði.

Einkunn: 9,98

Dómgæsla

Liverpool fengu ekki tvö víti sem þeir áttu augljóslega að fá í leiknum í gær. Annað var fyrir það þegar hinn ljóti og leiðinlegi Didier Drogba sparkaði niður Sami Hyypia rétt við Chelsea markið. Hitt var þegar einn hálfvitinn í Chelsea sló boltann með hendinni viljandi inni í eigin teig til að verjast því að hann bærist til Cissé. Ég lýsi frati á svona dómgæslu.

Á sunnudaginn mætir Liverpool aftur þessu skítapakki, leiðinlegasta liði Englands í dag með liðinlegustu stuðningsmenn dagsins í dag. Þá á ég ekki við alla, sumir eru örugglega ágætisgaurar en sem heild er þetta skítapakk. Mourinho er auk þess ótrúlegur asni.

þriðjudagur, 27. september 2005

Gerilveirur hjúpaðar hnausþykku súkkulaði

Nú er ég kominn á gott skrið í 6 bls. líffræðiritgeðinni sem ég á að skrifa um retróveirur. Ég á að vísu að vera búinn að skila henni en það eru þo nokkir sem eru í sama slugsinu og ég. Þetta er fáránlega flókið efni og heimildirnar flóknir textar á ensku svo þetta er seinlegt. Ég skil líka voða lítið í því sem ég er að skrifa. Af hverju valdi ég retróveirur sem ritgerðarefni? Vegna þess að mér þótti það töff nafn og svo hef ég líka heyrt um búð sem heitir Retro. En þar tók ég aldeilis köttinn í sekknum.

Áðan var ég að garfa í góðri enskri heimild og skrifaði eftirfarandi: Veirur eru smáar eindir sem sýkja frumur í lífverum. Þær eru nauðbundnir innanfrumusníklar. Þær geta eingöngu fjölgað sér með því að ráðast inn í frumur og hertaka þær. Þetta er vegna þess að veirur skortir frumueiginleikana til að fjölga sér. Þegar talað er um veirur er venjulega átt við eindir sem ráðast á heilkjörnunga. Gerilveirur ráðast hins vegar á dreifkjörnunga. Slíkar eindir bera gjarnan örlítið magn af kjarnsýru (DNA eða RNA) sem hjúpuð er hnausþykku súkkulaði.

Mig langar að halda mig við þetta "hnausþykku súkkulaði" en ég verð víst að setja leiðinlegu útgáfuna inn, þessa með "hlífðarskurn".

4 bls. komnar, áfram með smjörið.

mánudagur, 26. september 2005

Venslakort

Baggalútur hefur hannað prýðilegt venslakort um Baugsmálið.

Subbutexti

Fyrir 2-3 vikum sá ég smávegis af Megasartónleikum á Grand Rokk. Sumir textarnir hans eru sérdeilis subbulegir eins og textinn við lagið Ragnheiður biskupsdóttir. Sá texti vakti mikla reiði margra í samfélaginu enda fjallað um raunverulegt fólk. Mörgum þótti fullyrðingar um þetta fólk í textanum í meira lagi vafasamar. Þetta var á þeim árum þegar Megas var gjarnan með lepp fyrir öðru auganu og á bólakafi í brennivíninu. Textinn umdeildi er svona:

Ragnheiður biskupsdóttir brókar var með sótt
og beiddi þegar Daði mælti á latínu.
Hann kenndi henni sitthvað til gamans og til gagns
og gjörðist snemma þaulkunnugur gatinu.

Í skammdeginu vildi henda að villtust bestu menn
og var oft fyrir kvenlíkami í rúminu.
En milli draums og veru þeir vissu óglögg skil
og voru síst að pæla í þeim í húminu.

Og hún Ragnheiður hún fæddi einn dag hann Daðason,
menn dylgjuðu, menn báru hana út, menn hæddu hana.
En hlýðið góðir drengir, það er hlálegt en þó satt,
það var helvítið hann Brynjólfur sem sæddi hana.

sunnudagur, 25. september 2005

Misgóður bjór

Ég hef komist að því að bjór er misgóður. Um daginn fékk ég danskan Thor bjór í partýi og hann var þrælfínn þá. Síðan þegar ég drakk þessa sömu bjórtegund í gær var hún beinlínis vond. Kenningin er víst sú að þetta fari eftir því hvað menn borða á undan. Þegar Thor bjórinn var ógeðslegur þarna í gær hafði ég borðað fullt af gulrótum áður (hver kannast ekki við það að borða fullt af gulrótum og fara síðan í partý?).

En í kvöld ákvað ég að fá mér tvo litla Thor í dósum og viti menn, hann var svona fjári góður. Það sem ég borðaði á undan í þetta skiptið var glóðasteiktur Quiznos bátur. Bátinn fékk ég frían sökum þess að Bandýmannafélagið Viktor vann Íslandsmeistaramótið í bandý nú síðdegis. Verðlaunin voru sumsé máltíð á Quiznos, bikar, Powerade og verðlaunapeningar.

Óvéfengjanleg niðurstaða: Bjór og gulrætur eiga illa saman.

Eitthvað segir mér að ég eigi að vera að læra.

fimmtudagur, 22. september 2005

3 afar

Í dag lærði ég um þrjá afa í líffræði: Briss afa, Magas afa og auðvitað Þarmas afa. Þeir voru allir hressir karlar og kunnu ógrynni af sögum.

Ör

Nú ætla ég að hætta í kaffinu. Þetta er fjórða örfærslan í röð. Þessu verður að linna.

Kaffi

Ég var að drekka kaffi. Ég mæli ekki með kaffi vegna þess að það gerir mann stundum ofvirkan.

Dómur

Þegar lærdómurinn kallar hvað mest verður bloggun fyrir valinu. Einstakt.

Gríðarlegt

Já, ég má til með að minnast á þessa síðu. Ólgandi, blússandi og bullandi, allt í senn. Ferskleiki.

miðvikudagur, 21. september 2005

Sirkus

Já, það mætti kannski nefna:
-Guðmundur Steingrímsson er leiðinlegur þáttarstjórnandi.
-Öndlit í sama þætti er frábært.
-Sigurjón Bjarnason fréttamaður er leiðinlegur.
-Seinfeld þættirnir eru blússandi.
-Jessica Simpson er leiðinleg. Hún gæti ekki fittað inn í Simpson-fjölskylduna í Springfield.

Fleira var það ekki.

þriðjudagur, 20. september 2005

Gagnvirkt uppeldi

Þrátt fyrir að ég sé eigin herra fæ ég uppeldi þegar það hentar. Gagnvirkt uppeldi er það sem koma skal.

mánudagur, 19. september 2005

Ég spyr, þú svarar

Lögin sem eru efst á baugi eru greinilega:
The Clash - Rock the Casbah
Davíð Þór - Strákur að nafni Stína
At The Drive In - One Armed Scissor
White Stripes - Red Rain
Gorillaz - Dirty Harry
Raggi Bjarna - Tequila
Raggi Bjarna - Með hangandi hendi
Bubbi Morthens - Allur lurkum laminn
Blur - Country House
Queens of the Stone Age - Medication
Belle & Sebastian - Stay Loose
Síðast en ekki síst lagið sem ég og nafni sungum hástöfum í flugvélinni á leið til Portúgal:
Þokkabót - Litlir kassar


Gefið.

sunnudagur, 18. september 2005

Göngur

Göngurnar í þetta skiptið urðu að hálfgerðum ógöngum. Rollur létu illa að stjórn og hlupu gjarnan til austurs eða vesturs í stað þess að fara í norður. Tvö lömb fóru reyndar norður og niður þegar þau stukku ofan í gjár og enduðu þar með líf sitt. Jörðin gleypti þau og ekki tókst að hífa þau upp aftur þar sem þau láu dauð á 20 m dýpi. Þess ber að geta að svæðið er jarðskjálftasvæði svo gjár eru út um allt. Ég var nokkrum sinnum nálægt því að falla niður í gjá en það slapp fyrir horn. Hvassviðri var mikið og hefur það sjálfsagt ruglað sauðina í ríminu. Komið var að réttinni á Fjöllum kl. rúmlega fjögur en við kjöraðstæður hefði það verið tveimur klukkustundum fyrr.

Ekki nennti ég í réttir og svaf þess í stað í sófa í Lóni.

fimmtudagur, 15. september 2005

Villuráfandi sauðir

Viðfangsefni mitt um helgina verður að beina villuráfandi sauðum á réttan kjöl og í heimahagana. Einu sinni þegar ég var lítill og vesæll stangaði stór og mikill hrútur mig niður en ég læt það ekki koma fyrir aftur. Í þetta sinn mun ég ráðast beint að forystukindunum og taka af þeim völdin.
Þarna komstu þér í klandur. Djöfulsins sauður.

miðvikudagur, 14. september 2005

Konfektmarkaðurinn

Um jól og áramót er íslenski konfektmarkaðurinn í algleymi. Eins og alþjóð veit hefur Nói Síríus sterkust ítök á markaðnum. Bragðið ku vera himneskt. Hver kannast ekki við súkkulaði með mintufyllingu sem bráðnar í munninum? Að ekki sé talað um molana með karamellu,jarðarberja og banana-fyllingu? Svo er hægt að fá svona fullorðins, með brennivínsfyllingu. "Nammi namm" segja sjálfsagt margir.

En nú hef ég undir höndum leyniuppskrift og hef í hyggju að ryðjast inn á konfektmarkaðinn af offorsi og skjóta Nóa gamla ref fyrir rass. Konfekt með lífsfyllingu verður það nýjasta. Mannkyn þarf ekki lengur að ráfa um stræti og torg í leit að lífsfyllingu, lífsfyllingin verður falin inni í súkkulaðimolum sem fást úti í búð. Svo sitja menn sem fastast heima hjá sér í stól eða úti á akri og maula konfektið góða. Þeir munu ekki þurfa að vinna, paufa og vesenast í leit að einhverju sem þeir vita ekki einu sinni hvað er. Þarna verður þetta komið á sínu einfaldasta formi, laust við allt vesen.


Þessi stúlka hefur bersýnilega komist yfir mola úr nýju leyniuppskriftinni sem ekki er enn komin á markað.

mánudagur, 12. september 2005

Hægðaraukandi regla

Stærðfræðikennarinn sagði í tíma í dag:
"Næst skulum við líta á reglu sem er mjög hægðaraukandi"

Þetta þótti okkur "boys in the back" frekar subbulegt. Þessi er greinilega nýbúinn að lesa hægðaraukandi reglu.

sunnudagur, 11. september 2005

Fjölmiðill sem ég get lært af

Sígildur liður í Gallup könnunum er að spyrja "Hvaða fjölmiðill
er þér mest að skapi?" og "Hvaða fjölmiðli getur þú lært af?". Ég hef alltaf átt erfitt með að átta mig á síðarnefndu spurningunni. Hvernig lærir maður af fjölmiðlum? Hvað lærir maður af fjölmiðlum?
Dæmisaga 1:
Dísa og Jónas sitja að snæðingi á heimili Jónasar.
Dísa: "Rosalega ertu settlegur hérna við matborðið"
Jónas: "Já, ég þakka Morgunblaðinu og engu öðru fyrir það. Í Morgunblaðinu lærði ég góða borðsiði."

Dæmisaga 2:
Fjóla sér Daníel, þriggja ára son sinn, með blað og blýant á eldhúsgólfinu að skrifa ritgerð.
Fjóla: "Daníel minn, hvar lærðir þú að draga til stafs?"
Daníel: "Nú...í Fréttablaðinu auðvitað"

Það var fyrst í morgun sem ég áttaði mig á að hægt væri að læra af fjölmiðlum. Ég las nefnilega í Fréttablaðinu að maður sem kallar sig Gilzenegger hefði gaman að því að fara í bíó á sunnudögum. Þetta vissi ég ekki fyrir. Svona lærir maður eitthvað nýtt á hverjum degi með Fréttablaðinu.

Ég vænti þess að lesendur hafi lært margt um sjálfa sig við lestur þessarar færslu og auðvitað að þeir hafi lært sitthvað um gang himintungla.

laugardagur, 10. september 2005

Menn í hvítu

Þá er busavígslunni lokið. Gaman var að tollera. Við piltarnir í mínu tolleringarholli tókum þá stefnu í upphafi að tollera aðallega litlar og nettar stúlkur. Ástæðan fyrir því var sú að við gátum kastað þeim mun hærra upp í loftið en hinum. Margar þeirra voru dauðskelkaðar áður en þeim var fleygt upp í heiðloftin blá. Þegar þær voru komnar niður aftur sáu þær að þetta var ekkert voðalegt. Hæðirnar voru ekki mældar en fróðir menn sögðu að ein stelpan hafi flogið góða 15 metra upp í loftið. Einn lítill og visinn drengur sem við tolleruðum flaug einhverra hluta vegna ekki beint upp í loftið eins og hinir heldur skáhallt upp. Þá urðum við að sýna hröð viðbrögð sem við og gerðum og stukkum á eftir og náðum að grípa pilt.

Eftir tolleringar fórum við Seppi og Stuðmundur Gríndal niður í bæ á kaffihús. Vegfarendur gáfu okkur margir illt auga, aðrir litu okkur hornauga og svo voru nokkrir sem litu okkur hýru auga. Segja má að við höfum vakið verðskuldaða athygli fyrir klæðaburð. Útlendingur fékk að taka mynd af okkur til þess að konan hans heima í útlöndum tryði að hann hefði séð menn í hvítum lökum (tóga eins og snobbarar kalla það) á Íslandi.

Um kvöldið var partý hjá Helgu fyrir okkur og nýnemabekk. Mál manna var að vel hefði tekist til. Krakkarnir voru reyndar mjög duglegir að betla áfengi af okkur 6.bekkingum þegar bolla hússins var búin. Þeir héldu sjálfsagt að við ættum skítnóg af peningum og að auðvitað eyddum við þeim öllum í brennivín. Eðlilega þyrftum við því að gefa vel með okkur af víninu. Þau eiga margt eftir ólært. Um helmingur nýnemanna í partýinu stundaði engin viðskipti við Bakkus og er það vel. Ballið á Broadway var ekkert spes, Broadway er ómögulegt húsnæði til að halda böll.

miðvikudagur, 7. september 2005

Spjallað við meistara

Bekkjarbróðir minn hitti meistara Megas í dag. Hafði Megas nokkrar athugasemdir fram að færa. Gallinn var sá að bekkjarbróðir minn skildi lítið af spjalli meistarans. Það breytti ekki því að hann samsinnti athugasemdunum öllum. Vart þarf að taka fram að ein af óskrifuðum reglum alheimsins er sú að meistari Megas hefur ávallt rétt fyrir sér.

mánudagur, 5. september 2005

Fögur tala

Það gekk nú svo langt að áðan þegar ég leit inn á blessadurkarlinn.blogspot.com hélt ég ekki vatni af hrifningu. Ástæðan var óvenju fögur tala á teljaranum neðst á síðunni.

Þetta var talan 41414 sem vakti gríðarlega hrifningu mína og hef ég nú tekið ástfóstri við hana. Symmetría og útgeislun tölunnar eru með ólíkindum. Fyrir fróðleiksfúsa má geta þess að þversumma tölunnar er 14, sem er að vísu þó nokkuð síðri tala.

Gagnrýni: Land of the Dead

Fékk frímiða á myndina Land of the Dead. Förum yfir helstu atriði á skalanum 1-10:
Söguþráður: 1
Leikur: 5
Skemmtanagildi: 2
Persónusköpun: 2
Útlit myndar: 4
Búningar: 5
Myndataka: 7
Hryllingur: 3

Atriðum var raðað saman í handahófskennda röð. Myndin fjallaði um látið fólk sem borðaði lifandi fólk. "Góðu karlarnir" reyndu að drepa dauða fólkið (Söguþráður?). Punktarnir tveir fyrir persónusköpun fara alfarið á súmókappann. Þættirnir vega misþungt í heildareinkunn.

Einkunn: 3,13.

sunnudagur, 4. september 2005

Mexíkanar

Fjölmiðlamenn eru duglegir að koma vitleysum inn í málið. Ég held að Bjarni Fel hafi verið fyrstur manna til að segja ?Mexíkóar?. Það er mjög vafasamt og þetta er orðskrípi og ekkert annað. Þetta orð yfir Mexíkana hefur þó náð að grafa sig inn í málið. Máttur fjölmiðla er of mikill. Ef orðunum tveimur er flett upp á Google fást 100 niðurstöður fyrir ?Mexíkóar? en bara 61 fyrir Mexíkanar.

laugardagur, 3. september 2005

Útrás fyrir heimsku

Oft er talað um það að fólk fái útrás eftir að hafa byrgt inni reiði eða sorg lengi. Sjaldnar hef ég heyrt fólk tala um að fá útrás fyrir heimsku. Við ákveðnar aðstæður virðist fólk fá útrás og losa jafnvel um heimsku sem það hefur byrgt inni í heila viku. Ég veit ekkert hvort slíku fólki líður betur á eftir eða ekki enda kemur það málinu ekki við.

Áðan ætlaði ég í Kringluna til að kaupa buxur og peysu. Ég hitti greinilega á álagstíma og tímapunkt þar sem margt fólk kom saman til að fá útrás fyrir alla heimskuna sem hafði safnast upp í þeim í liðinni viku. Fjölmargir virðast telja bílastæðin við Kringluna ákjósanlegan stað til sleppa út heimskunni. Heimskusprengjur eru látnar falla. Margir verða svo stressaðir og ruglaðir þegar þeir sjá alla bílana og fólkið á bílastæðinu að þeir fara að gera einhverja "random" hluti (hluti af handahófi á fagurri íslensku). Einn bakkar á fullu út úr stæðinu sínu og nennir ekki að líta í speglana. Annar stoppar á miðju stæði, með bílaröð fyrir aftan sig, ákveður síðan allt í einu að bakka. Það mætti halda að sá hafi skyndilega misst jarðsamband og vissi ekkert hvar hann væri og gerir þá bara eitthvað "Nú ætla ég að stöðva...svo bakka ég!". Þriðji þarf að rexa og pexa í krakkaskrílnum í aftursætinu og ætlar sko ekki að horfa fram fyrir sig! Margir eru ekki að hugsa um umferðina heldur: "Mmm, franskar" eða "Díses, Gudda svilkona kemur í mat í kvöld og ég gleymdi að kaupa saltkjötið!". Í óðagotinu losnar heimskan úr læðingi og rýkur upp eins og eiturgufa út úr eyrum fólksins, smýgur síðan út um bílrúðurnar og læðir sér fyrir vit saklausra borgara og fer langt með að kæfa þá.

Eftir raunir mínar á bílastæðinu nennti ég ekki inn í Kringluna svo ég fór.

Köttur, klukka, hreindýr, svín og endur...fyrir löngu

Hver kannast ekki við lagið? Frábært lag. Í gær var ólgandi partý og síðan kaupstaðarferð. Kaupstaðarlykt lá í loftinu. Óvanalega hressandi kaupstaðarferð enda hittu menn marga meistara. Romm og kók var sötrað vegna þess að bjór er vondur og það sama má segja um hvítvín. Banna skyldi bjór líkt og forðum. Einnig mætti banna reykingar.

En þetta var ekki það sem ég ætlaði að nefna. Ég ætlaði að nefna pottaplöntur. Ég man aldrei eftir að vökva pottaplönturnar nema þegar ég sé að þær eru komnar með hangandi haus og farnar að gulna mikið. Að vísu er þetta með vilja gert. Það verður að herða þær. Ef þær geta ekki látið rakann í andrúmsloftinu og moldina nægja sem næringu, þá drepast þær. Ég er að reyna að koma inn hjá þeim þeirri augljósu staðreynd að þeir hæfustu komast af. Þær munu skilja það áður en yfir lýkur. Aumingi.

föstudagur, 2. september 2005

Jæja krakkar!

Næsta mánudag förum við í fjallgöngu. Það verður rosalega kalt svo þið verðið að hafa með ykkur hlý föt (húfu, vettlinga og úlpu). Svo þurfið þið nesti af því að við ætlum að grilla:) Svo þurfið þið sundföt af því að við ætlum að fara í sund. Þið þurfið líka blöð og liti til að teikna fjallið.

Ekki gleyma góða skapinu!

"Sýnið pabba og mömmu þennan miða"

Svo segja sumir að ekki megi stytta grunnskólann.

fimmtudagur, 1. september 2005

Þjónustulund

Í Portimao var þjónustulund ekki gríðarleg. Einn daginn héldum ég, nafni og Móa á bar í aðalgötunni fyrir kvöldmat. Barinn var tómur og það var ekki að ástæðulausu. Pantaðir voru þrír kokteilar. Barþjóninn lagaði þá og kom síðan með þá á borðið. Smökkuðum við á kokteilunum og nema hvað, þetta voru ekki kokteilar, bragðaðist frekar eins og hreinn vodki. Þá gerðum við athugasemd: "Sorry, this is way too strong" Barþjónn: "That's how we make it here". Við vorum ekki alveg tilbúin að samþykkja slíka skýringu en þá varð barþjóninn öskureiður, hrifsaði drykkina til sín og sagði: "FUCK OFF! You people from France, yeah, I know you people. Don't ever come again and don´t tell your friends about this place!FUCK YOU!" Við höfðum nú reyndar ákveðið að fara ekki oftar á þennan stað en það var hugulsamt af manninum að nefna það við okkur líka. Hann var líka mikill mannþekkjari að halda að við værum Frakkar. Hann var líka klókur bisnissmaður að segja okkur að láta vini okkar ekki vita af staðnum.

Það var þá ástæða fyrir því að þetta var tómasti barinn í aðalgötunni.

Gagnrýni: Johnny Cash - "Hello, I'm Johnny Cash"

Á þessari plötu eru lögin: Rosanna's Going Wild, Daddy Sang Bass, Don't Take Your Guns To Town, The Ballad Of Ira Hayes, Th Long Black Veil, Five Feet High And Rising, The One On The Right Is On The Left, Orange Blossom Special, What Do I Care, Man In Black, Don´t Think Twice It´s All Right, See Ruby Fall, Blistered og Happy To Be With You. Öll þessi lög eru frábær í flutningi þessa meistara. Textarnir eru flestir litlar sögur og stórskemmtilegir. Uppáhalds lag mitt er líklega Don´t Take Your Guns To Town en þar er fjallað um kúreka sem ekki fer að ráðum móður sinnar sem segir honum að hafa byssurnar ekki með í bæinn. Hann hlustar ekki og drepst þess vegna í kaupstaðarferðinni. Meistarastykki.

Einkunn: 10

miðvikudagur, 31. ágúst 2005

Lítið hugsað

Ég hef ekki mikið getað hugsað síðan ég kom heim aftur hér á heimilinu. Ég get ekki lært og ég get ekki einbeitt mér að neinu. Ástæðan fyrir þessu er í gangi nú í þessum töluðum orðum: BAMM! BAMM! BAMM! BAMM! BAMM! BAMM! BAMM! BAMM! o.s.frv. Byggingaframkvæmdir standa yfir hinum megin við götuna. Klukkan átta á hverjum einasta morgni hefjast herlegheitin og standa til átta á kvöldin. Bubbi byggir mætir á gröfu sinni með sveran járnstaut á endanum og BAMM! BAMM! BAMM!... bombar sig í gegnum klöppina til að grafa grunn fyrir nýju blokkinni, hávaðinn er meiri en í loftbor.

Ég hef flúið heimilið nokkrum sinnum enda varla vært fyrir hávaða. Það sem ég geri aðallega hér er að fá mér að éta. Ég smyr brauð og set á disk og helli appelsínusafa í glas þegar Bubbi byggir tekur einnar mínútu hlé á gröfunni. Svo sest ég við borðið og þá byrjar hann aftur. Ég missi einbeitinguna og horfi bara á borðið víbra og glasið með safanum skríða fram á borðbrúnina, detta niður og brotna. Þar með er kaffitíminn ónýtur og ég flý að heiman og fæ mér mat annarsstaðar. Til að læra hleyp ég stundum á Þjóðarbókhlöðuna.

Hávaðinn vindur að sjálfsögðu upp á sig og ungbörn hér í nágreninu verða óvær og fara að öskra og grenja. En nú þarf ég að koma mér héðan út svo ég ærist ekki.

þriðjudagur, 30. ágúst 2005

BANZAI!

Horfði á DVD diskinn Best of Banzai í gærkvöldi. Misjöfn voru veðmálin að gæðum. Það besta var að sjálfsögðu Mr. Handshake Man sem þótti svo gaman að heilsa frægu fólki með handabandi og láta handabandið vara sem lengst. Svo kom að því að allir voru farnir að þekkja Mr. Handshake Man og forðuðust hann en þá voru Banzai menn með ómótstæðilegt tromp uppi í erminni, Mr Handshake Man 2! Nýr kappi settur í hlutverkið sem beitti annarri tækni. Verulega ólgandi atriði þar á ferð. Lady One Question var einnig eitursnjöll. Þið getið keypt ykkur Best of Banzai í Kaupmannahöfn fyrir 20 kr. danskar. Það er ekki neitt. Það er næstum því gefið. Munar að vísu 20 kr. en engu að síður, 20 kr. er ekki neitt.

Áðan keypti ég mér pilsner í sjoppu og drakk. Djöfull er steikt að selja pilsner í sjoppu. Hver fer í sjoppu og kaupir pilsner? Með þessa spurningu í huga gæddi ég mér á gullnum drykknum.

fimmtudagur, 25. ágúst 2005

Heimska

Það var einn daginn í Partýgal að ég vaknaði mjög undarlegur í höfðinu. Þetta var daginn eftir Tóga-kvöldið alræmda þar sem vel hafði verið veitt af mat og ekki síður drykk. Ég stóð á fætur og gekk að ísskápnum. Nei, þetta passaði ekki. Því næst gekk ég að eldhúsborðinu og settist í stól. Nei, þetta passaði ekki heldur. Næst gekk ég inn á bað (eitthvað í undirmeðvitundinni fékk mig til að gera þessa hluti) og leit í spegilinn. Af speglinum leit ég á vaskinn og síðan á tannbursta og tannkrem sem lágu við hliðina á honum. Þetta passaði engan veginn inn í púsluspilið. Ég sneri mér í hálfhring og rak augun í sturtuhaus. Eftir að hafa starað á sturtuhausinn í nokkrar sekúndur varð mér litið á kranann. Þetta voru bara einhverjir hlutir. Voru þeir til einhvers nýtir?

"Hvað gerir maður áður en maður fer út á morgnana?" spurði ég sjálfan mig. Ég hreinlega vissi það ekki. "Jú, svona kommon, ég hlýt að vita hvað maður gerir, bara þetta sama og ég hef gert á hverjum einasta degi öll þau ár síðan ég varð sjálfbjarga" Ég gekk nokkra hringi á eldhúsgólfinu og reyndi að draga fram úr hugarfylgsnum hver væru morgunverk nútímamannsins. Smátt og smátt kom þetta: "Jú, maður náttúrulega tannburstar...maður klæðir sig...jú, bíddu svo fær maður sér kannski að borða...uuu meira...fer jafnvel í sturtu" þetta var allt að koma: "skór? maður verður líka að fara í skó". Nú hafði mér tekist að kalla fram flest morgunverkin úr heilabúinu. En þá kom babb í bátinn. Ég hafði enga hugmynd um í hvaða röð þessi verk væru framkvæmd. Tilhugsunin um að rifja það upp líka var mér ofviða svo ég fór aftur að sofa.

Þegar ég vaknaði aftur hefði ég endurheimt nógu mikið af vitglórunni til að gera morgunverkin og hunskast út. Ég ætla aldrei að vera svona heimskur aftur.

mánudagur, 22. ágúst 2005

Leti

Tvær af höfuðsyndum mannsins eru letin og heimskan. Báðar þessar syndir náðu hámarki hjá mér í nýafstaðinni útskriftarferð á Portúgal, báðar að morgni. Þó ekki sama morgun. Fyrst ætla ég að skrifa um letina. Heimskan fær sinn dálk síðar.

Dag einn vaknaði ég kl.12 á hádegi í svitakófi. Smávægilegir timburmenn gerðu vart við sig. Engin var loftkælingin og loftið sem kom inn um gluggann var hvorki kalt né ferskt. Ég stóð upp og fór út á svalir og settist þar í stól. Ég kom auga á nokkra vegfarendur niðri á götunni. Ekkert botnaði ég í því hvernig þeir nenntu að ganga á degi sem þessum. Ég sagði þeim að setjast og slaka aðeins á. "Látið ekki dugnaðinn drepa ykkur!" kallaði ég. Þau skildu ekkert af því sem ég sagði og örkuðu bara áfram þrátt fyrir óbærilegan hitann. Fyrst svo var reyndi ég ekki frekar að tjónka við þau. Þetta var greinilega það sem fólkið vildi og þá bara aumingja það. Það vissi ekki hverju það var að missa af.

Eftir rúman hálftíma rak ég augun í vindsængina mína, sem lá upp við svalahandriðið um einum og hálfum metra frá mér. Ljúft hefði nú verið að leggjast á góða vindsæng á svölunum og rotast í tvo klukkutíma eða svo. Ég blístraði á vindsængina eins og hún væri hundur og bað hana að koma. Engin viðbrögð. Þá sagði ég í ögn alvarlegri tón: "Komdu". Engin viðbrögð. Nú tóku brúnirnar að síga. Hafði ég ekki borgaði 10 evrur nokkrum dögum áður til að fá vindsængina í mína þjónustu? Átti hún eitthvert val annað en að hlýða húsbónda sínum? Varla. Ég var farinn að hóta: "Viltu koma hingað strax, annars kem ég og næ í þig!". Vindsængin hélt sínu gamla pókerfeisi og virti mig ekki með svari. Hún sýndi slíkan viljastyrk og festu að mig tók að verkja í hægri fótinn. Það var ekki laust við að það færi að fjúka í gamla sem var búinn að reyna að gefa helvítinu illt auga og hornauga ásamt því að sussa á hana. En allt kom fyrir ekki. Hún virti mig engu meira en tyggjóklessu, klínda innan á klósettskál. Ég var ekki lengur reiður enda nennti ég því ekki. Nú var ég bara sár yfir yfirlætinu og hortugheitunum í þessu heilalausa fyrirbæri.

Að lokum gafst ég upp, sótti vindsængina, og dormaði á henni í væna tvo klukkutíma á svölunum. Ég ætla aldrei að vera svona latur aftur.

sunnudagur, 21. ágúst 2005

Karókí-barinn

Vinsælasti partýstaðurinn úti var karókí-bar. Hertóku íslendingarnir gjarnan þann stað og sungu síðan eins illa og unnt var. Ég tók a.m.k. tíu lög þarna, aldrei þó einsöng. Skemmtilegast var þó þegar ég, Gummi P og Árni stigum á stokk sem tríóið Blússandi (en rithátturinn á ensku er Bluessandi). Ekki var leiðinlegt að heyra kynninn segja: "Can I get Bluessandi on stage!". Já, það þarf ekki mikið til að skemmta sumum. Tóku menn Paradise City og svona hitt og þetta. Á karókíbarnum vann Glensi barþjónn sem var alltaf með glens og grín og er tvímælalaust ferskasti barþjónn sem ég hef séð. Glensi gaf mér ógeðslegasta staup sem ég hef smakkað en það er Absinth 70% sem er grænt á litinn. Drykkurinn brenndi sér leið niður í maga og var ekki góður fyrir raddböndin. Hann hindraði menn þó ekki í að taka lagið.

Karókí-barinn varð æ þreyttara fyrirbæri eftir því sem leið á ferðina. Ekki var mikið annað í boði nema ógrynni írskra pöbba þar sem Bretar vöndu komur sínar um nætur með börn sín í barnavögnum með sér og reyktu og drukku í návist þeirra. Um að gera að láta krakkana læra rétta lífshætti sem fyrst. Sannarlega heilbrigð fjölskylduskemmtun þar á ferð. Þar fyrir utan voru hnakkastaðir og sumir þeirra verstir fyrir þær sakir að nauðgunarlyfjum var stundum byrlað í drykki stúlkna. Einnig var einn hommastaður í aðalgötunni. Það var því ekki að ástæðulausu sem karókí-barinn náði slíkum vinsældum.

föstudagur, 19. ágúst 2005

Skítugir Bretar

Portúgalsferðin gaf efnivið í a.m.k. tíu færslur. Sé til hve margar ég nenni að skrifa. Byrja smátt. Einn daginn hitti ég ljótan og skítugan Breta með húðflúr í hótellyftunni. Hann sagði við mig: "Ya from Iceland?"
Ég: "Yes"
Skítugi Bretinn: "Yeah, you all look the same, with blonde hair and all that"
Ég sagði honum ekki það sem ég hugsaði en það var að allir Bretarnir þarna í bænum litu eins út, ljótir, skítugir og með tattú. Óumdeilanleg staðreynd.

föstudagur, 12. ágúst 2005

Platafmaelisbarn

I gaer for bekkurinn ut ad borda a agaetan veitingastad her i Portimao. Bord hafdi verid pantad fyrir allan krakkaskarann. Eftir ad hafa spordrennt ljuffengum rettunum satu menn ad sumbli og spjolludu vid bordid. Skyndilega, eins og thruma ur heidskiru lofti kom thjonninn med iskoku a silfurfati med tveimur olgandi kertum a. Hann gekk beint til min og tok i spadann a mer og oskadi mer til hamingju med afmaelid. Eg vard mjog hissa en thakkadi tho fyrir. Allir kloppudu og fognudu afmaelisbarninu sem atti ekki afmaeli. Eg gondi bara ut i loftid og vissi ekkert og allir gestir stadarins horfdu a mig og margir hlogu. Sannkallad kodak moment.

Prakkararnir i bekknum hofdu logid thvi ad starfsfolki veitingastadarins ad eg aetti afmaeli til ad fa fria koku og kampavin a linuna.

þriðjudagur, 2. ágúst 2005

Portúgal

Á morgun fer ég til Portúgal í aðra útskriftarferð mína á jafnmörgum árum. Þar mun ég dveljast til 17. ágúst. Lofa engu um bloggun fyrr en að ferð lokinni. Ýmislegt hefur gengið á varðandi ferðina og ófyrirséð atvik hafa skotið upp kollinum. Nú er bara að vona það besta en búast þó við hinu versta.

mánudagur, 1. ágúst 2005

Topplistinn

Hér koma topplög mánaðarins sem rífa þök af húsum. Rolling Stones þema greinilega:
Rolling Stones - Wild Horses
Rolling Stones - Ruby Tuesday
Rolling Stones - Satisfaction
Rolling Stones - Street Fighting Man
Rolling Stones - Under My Thumb
Papar - Rabbits
Queens Of the Stone Age - "You Got A Killer Schene There Man"
Queens Of the Stone Age - Someone's In the Wolf
Mugison - 2 Birds
Mugison - Afi minn
Jonathan Richman - I Was Dancing In a Lesbian Bar
Jonathan Richman - Hey there Little Insect

The Giant Viking Show - Party At the White House
Pink Floyd - Hey You
Pink Floyd - Time
Pink Floyd - Wish You Were Here
Rammstein - Reise, Reise
The Who - Behind Blue Eyes
Bítlarnir - A Hard Days Night
Trabant - Maria.

sunnudagur, 31. júlí 2005

Fylgir ábyrgð áfengi?

Siðapostular á vegum Vínbúðanna hafa nú fundið nýtt og brakandi slagorð: ÁFENGI FYLGIR ÁBYRGÐ. Nú fylgir nefnilega ábyrgð með hverri seldri áfengiseiningu í vínbúðunum. Ábyrgðin er á vökvaformi og bragðlaus svo hún spillir ekki réttu bragði áfengisins. Henni er einungis ætlað að veita þessa ábyrgðartilfinningu sem hefur vantað svo lengi með áfengi. Þeim mun meira sem menn drekka, þeim mun meiri ábyrgð öðlast þeir. Drafandi og þvoglumæltir skakklappar eru ekki lengur bara blindfullir, nú eru þeir líka stútfullir af ábyrgð: "Mmm, rosalegha err þetta drsasl gott. Gemmér meira, égh finn barra ábyrgðina hellast yfirhhh migg". Svo fara allir ábyrðarfullu fyllikútarnir og gera ábyrgðarfull verk. Þeir bjóðast til að gæta barna og þeir bjóðast til að fljúga flugvélum og þeir bjóðast til að boða boðskap Jesú: "Hann Jessú vahr skoo góður kahhdl. Hahnn saggði alltaff...". Frábær nýjung. Eykur ábyrgðina í heiminum og ekki var vanþörf á.

Ég veit hvað þeir eiga við og án efa vildu þeir vel en þetta er fáránlegt slagorð. Það hefur nefnilega lengi verið gallinn við áfengi að því fylgir ekki ábyrgð. Nær væri að brýna það fyrir fólki að gæta hófs með áfengi eða bara segja eins og Ragna Lára íþróttakennari í MR: "Komið svo jafnfalleg heim og þið fóruð að heiman" eða bara sleppa þessu alveg.

laugardagur, 30. júlí 2005

Þvottameistarinn

Nú er örstutt í að mamma hypji sig héðan út með sitt hafurtask og hyski (þ.e. systur mína). Flyst hún þá af landi brott og ég verð eigin herra hér á Íslandi. Áðan afhenti hún mér síðan lista með leiðbeiningum um notkun þvottavélarinnar. Listann mun ég nú birta hér í fullri lengd og óritskoðaðan, lesendum til glöggvunar og fróðleiks:
  1. Skrúfa frá vatni.
  2. Setja þvottinn í - sortera í ljósan (hvítt sensitive þvottaefni), dökkan (blátt þvottaefni eða þvottaefni fyrir svart eða color) og loks milli.
  3. Hafa hita stilltan á 40 - 50° C.
  4. Stilla á þvottakerfi FJÖGUR.
  5. Loka vélinni.
  6. Setja í gang.
  7. U.þ.b. tveimur og hálfri klukkustund síðar: Opna vélina, taka úr henni og hengja upp.
  8. Skrúfa fyrir vatnið.

Ekki mun langur tími líða þar til ég verð þvottameistari og þvæ eins og ég hafi verið fæddur í þvottavélinni. Þá mun ég án efa taka að mér þvotta fyrir gesti og gangandi og rukka ríflega fyrir.

fimmtudagur, 28. júlí 2005

Strípihneigð ellilífeyrisþega

Áðan var ég í matarboði. Strípihneigð ellilífeyrisþega í sólarlöndum kom til tals. Slík hneigð er vaxandi vandamál í nútímaþjóðfélagi. Ellilífeyrir og góðæri ýta undir vandamálið. Gamlingjarnir hætta fyrr að vinna og eru svo iðandi sprækir ennþá að þeir drekka sig fulla og klæða sig úr fötunum og fara hlæjandi niður á strönd í sólbað. Þeim finnst þeir ofsalega flippaðir og fyndnir. Gallin er sá að almenningur kemst ekki hjá því að sjá kjánana sprellandi um, dinglandi tittlingum og jullum - þeir eru svo flippaðir. Svo hlæja þeir.

Þegar ég fór til Króatíu fyrir ári síðan sáum við nokkur allsber, hlæjandi gamalmenni. Einn gerðist meira að segja svo djarfur að skokka í gegnum menntskælingaskarann sem var saman kominn á litlu torgi inni í bæ. Ekkert heilagt. Það er býsna langt síðan að það hætti að vera til siðs að vera allsber á almannafæri. Það var eftir að Eva heitin át ávöxt af skilningstrénu í Eden og blygðunarkenndin kom til sögunnar. Árans strípihneigðu ellilífeyrisþegarnir virðast hafa misst af þessu skrefi í þróuninni. Þrátt fyrir að vera hættir að vinna og farnir að spreða ellilífeyrinum mega menn ekki missa sig í ruglið og láta siðferðisgildi lönd og leið. Ég ætla aldrei að verða svona strípihneigður gamall skrattakollur. Því lofa ég hér með. Strípihneigðir ellilífeyrisþegar ættu að hafa sér land út af fyrir sig þar sem þeir geta spókað sig, einangraðir frá öðrum löndum heims.

Þessir ellilífeyrisþegar hafa vott af siðferðiskennd.

miðvikudagur, 27. júlí 2005

Vita konur lítið?

Ákvað að lesa Bakþanka Fréttablaðsins í dag. Oft sé ég mér ekki fært að lesa þá vegna þess að það er mjög oft tímasóun; skrifin eru svo oft argaþvarg og bull. En í dag var ekki svo. Nýr Bakþankaskrifari, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, ritaði sína fyrstu Bakþanka og voru þeir mjög góðir.
Þankarnir fjalla í stuttu máli um vantrú margs fólks á getu kvenna til að skrifa um stjórnmál og fleira þar sem karlar er í meirihluta. Tekur hún dæmi af sjálfri sér og kveðst oft hafa verið spurð á götum úti: "Hver hjálpar þér að skrifa greinar þínar?" Svarar hún því þá gjarnan til að enginn hafi hjálpað henni. Rekur fólk þá upp stór augu. HA?! Getur stelpuskjátan gert þetta alveg sjálf? Sigríður, þú veist að það er alveg ægilega ljótt að plata.
Lokaorð pistilsins eru: "Konum er allt fært!". Þarna verð ég að vísu að leiðrétta, það er: "Flest er fertugum fært!". Þrátt fyrir að ég sé margs vísari er nokkrum spurningum ósvarað, t.d.:
Hver hjálpaði henni að skrifa þessa Bakþanka? Kári Jónasson ritstjóri? Eða var það pabbi hennar?
Hver hjálpaði JK Rowling að skrifa Harry Potter?
Hver hjálpaði Vigdísi að verða forseti?

sunnudagur, 24. júlí 2005

Pabbi, pabbi, ég skoraði!



"Gott hjá þér, sonur sæll"

laugardagur, 23. júlí 2005

Seasons in the Sun

Eftir djöfuls dumbunginn og norðangarrann sem lék um ljósa lokka fólks fyrr í sumar er sólin komin.

Í vetur þegar norðangaddur lemur rúðuna og menn sitja við matarborðið að bíða eftir kjötbollunum, kartöflumúsinni og brúnu sósunni með veðurfregnir Rásar 1 glymjandi í eyrunum, skyldu þeir muna að eitt sinn í júlí var sól, fólk hljóp berrassað og hlæjandi úti með sumargolunni um iðagræn engi og sólargeislarnir steiktu margan góðan drenginn. Einmitt þá, þegar veðurfréttakonan segir þurrlega "Garðskagaviti, norðaustan 10, skyggni ekkert" skyldu menn muna eftir sumrinu, taka hnífinn og gafalinn í höndina, nota þau til að tromma á diskinn á meðan vellingurinn bubblar á eldavélarhellunni, og syngja: "We had joy, we had fun, we had seasons in the sun..." og hafa gaman að.

En nóg um það, nú er ég farinn út aftur að eiga mitt season in the sun.

fimmtudagur, 21. júlí 2005

Lyfjasmökkun

Þar sem ég er lyfjafræðingssonur var ég dreginn áðan í lyfjafræðingamóttöku. Lyfjafræðingar komu saman prúðbúnir og veittu glænýju og brakandi fersku Lyfjafræðingatali viðtöku. Mér var að sjálfsögðu þrælað út á lúsarlaunum. Verk mitt var að deila út Lyfjafræðingatalinu við annan mann (ef einhver hefur áhuga kostar Lyfjafræðingatal 2005 12.000 kr. í lausasölu).

*Lyfjafræðingatalið var nú samt ekki ástæðan fyrir komu flestra lyfjafræðinganna. Þeir höfðu annað og betra í huga, nefnilega lyfjasmökkun. Lyfjasmökkun er fastur liður þegar lyfjafræðingar koma saman. Reyndar er "smökkun" fína orðið yfir það. Þegar klukkan slær átta eru flestir mættir og safnast í hóp inni í salnum. Veisluþjónusta Lyfjafræðinga er þá í óðaönn að hella marglitum töflum í skálar og mixtúrum í glös á veisluborðinu. Litlir gamlir karlar úr röðum lyfjafræðinga teygja sig upp á tær til að sjá betur og líta á töflurnar sem eru í öllum regnbogans litum. Greinilegan girndarglampa má lesa úr augunum á þeim og svo sleikja þeir aðeins út um enda búnir að bíða í marga mánuði eftir góðri lyfjasmökkun. Fljótlega gellur í veislustjóranum: "Gjöriði svo vel!" og þá hlaupa menn til og ná sér í pillubox og safna í það pillu hér og pillu þar. Þríhyrningsmerktu lyfin er fljót að klárast. Ef lagt er við hlustir heyrist í einhverjum:
"Namm! Mikið rosalega eru þessar rauðu góðar!" "Já, þetta er víst e-ð nýtt. Gárungarnir segja að þetta muni velta rítalíni út af markaðnum". "Ekki yrði ég hissa. Ég held að við ættum að ryðjast beint inn á Bandaríkjamarkað með þetta og taka hann með trompi."

Í öðru horni:
"Hva, Danni, á ekki að fá sér smá?"
Danni:"Nei, ég er á bíl"
"Láttu ekki svona, nokkrar pillur hafa nú aldrei drepið neinn"
Danni: "Nei, bara seinna."
"Kommon, þú færð þér nú aðeins með okkur strákunum"
Danni: "Jæja, gefðu mér þá nokkur stykki, bara rétt efst í boxið"

Margir gleyma að taka Lyfjafræðingatalið með sér þegar hugað er að heimför um kaffileytið daginn eftir. *

*Til að fyrirbyggja misskilning skal tekið fram að textinn er uppspuni ef frá er talin fyrsta efnisgrein.

miðvikudagur, 20. júlí 2005

Hjónabandsmiðlarinn

Stelpur ath.:
Það ætti kannski að nefna það að Hemmi Gunn er á lausu.

Í Blaðinu um daginn var mjög öflugt viðtal við Hemma sem ég mæli með.

sunnudagur, 17. júlí 2005

Gagnrýni: Sin City

Fór á svokallaða Power-sýningu á Sin City í Smárabíói í gærkvöldi. Ekki fann ég neinn mun á henni og hefðbundinni sýningu svo ég hef ekki hugmynd um hvað þetta Power stendur fyrir (hlýtur að standa fyrir aukinn hljóðstyrk). En hvað með það?

Menn úr öllum áttum hafa lofað þessa mynd í hástert svo væntingar voru nokkuð miklar. Ekki byrjaði myndin vel. Bruce Willis kom reyndar aðeins við sögu sem gömul kempa sem bjargaði ungri stúlku úr klóm barnaníðings. Síðan kom kafli með brjáluðum þorskhaus sem vildi hefna fyrir morð á vændiskonu. Það var óttalega vitlaus kafli og of mikið af ofbeldi. Það sem þessi mynd hafði hins vegar fram yfir Kill Bill frá upphafi til enda var að þarna var söguþráður, ekki bara eilífar samhengislausar blóðsúthellingar. En ekki var mikið vit eða skemmtanagildi fyrir hlé. Útlit myndarinnar og kvikmyndataka er hins vegar mjög flott. Svart-hvítt með einum og einum hlut í lit. Í hléi hugsaði ég að þessi mynd gæti aldrei fengið hærra en 5,0 í einkunn.

Hefndarþyrst hórugengi kom m.a. við sögu eftir hlé. Þegar höndin á Benicio Del Toro fékk að fjúka (Del Toro hefur verið nokkuð hátt skrifaður hjá mér en hann er frekar slappur í þessari mynd) hélt ég að myndin væri að verða eins og Kill Bill kjaftæðið. Eftir smá kafla þar sem væntingarnar lækkuðu enn frekar mætir Bruce Willis aftur á svæðið í hlutverki gömlu kempunnar. Þar kemur vendipunkturinn. Myndin breytist skyndilega úr ofgnóttarofbeldisþvælu í hágæðaspennumynd þar sem Bruce nokkur Willis er allt í öllu. Guli gæinn sem Bruce þarf að kála er líka mjög góður. Minnti hann okkur einna helst á Megas í útliti. Lokakaflinn er alveg fjári magnaður og það er síst orðum aukið að Bruce Willis hafi mætt á svæðið og rifið helvítis myndina upp á rassgatinu svo hún fer úr fimmunni sem hún var í um hlé og upp í 8,0. Willis fær 10 fyrir sinn þátt.

Einkunn: 8,0

laugardagur, 16. júlí 2005

Fótboltamótið

Árlegt fótboltamót KGRP var í gær. Gufunesþorskarnir mættu ekki svo við fórum beint í úrslit gegn Fossvogi. Töpuðum 5-2 og var Jason með bæði mörkin fyrir okkur. Nokkrir voru blóðugir eftir leikinn enda hart barist. Við unnum hins vegar vítaspyrnukeppnina auðveldlega og varði Siggi ófá skot Fossvogsara. Hér er fjallað meira um málið og svo er þessi svakalega mynd af liðunum.

fimmtudagur, 14. júlí 2005

Grilldagur og hjól

Árlegur Grilldagur Kirkjugarðanna var haldinn í Fossvogi í dag. Lambakjöt og pylsur voru grilluð. Pylsurnar vorur reyndar ekki grillaðar. Þær fóru á grillið í 2 sekúndur og síðan beint af aftur. Nammi og ís var einnig í boði. Viðurkenningar voru veittar fyrir framúrskarandi stundvísi og fengum við Hólavallapakkið 7 af 13 viðurkenningum. Því miður fékk ég ekki vegna þess að ég hafði einu sinni á tímabilinu stimplað mig inn klukkan 08:02 sem er tveimur mínútum of seint. Þar fór 15.000 kall í vaskinn. 15 þús. fyrir tvær mínútur er ekki amalegt kaup. Fótboltamót kirkjugarðanna er síðan á morgun.

Mig langar í nýtt hjól. Gamla hjólið hef ég átt síðan ég bjó í sveitinni og það eru rúm sjö ár síðan það var. Gírarnir eru leiðinlegir og svo er dekkið líka djöfull leiðinlegt. Einhvern daginn ætla ég samt að skrönglast á helvítis hjólinu upp í Breiðholt og hafa með mér skeiðklukku. Svo ætla ég að leggja hjólinu á milli Select og stóru Breiðholtsblokkanna. Síðan ætla ég að labba í hæfilega fjarlægð og ræsa skeiðklukkuna og athuga hve langur tími líður þar til litlir fingralangir Breiðholtsbófar taka hjólið og fara með það. Þeir ættu að vera nógu fingralangir til að næla sér í varahluti líka einhversstaðar og gera við það. Held að þetta sé mjög góð leið til að losna við gamla skranið.

sunnudagur, 10. júlí 2005

Eggjastokkunum fórnað

Samkvæmt almannarómi er ekki hollt fyrir stúlkur að slá með sláttuorfi. Mun það eyðileggja eggjastokkana. Greinarhöfundur hefur þó aldrei rekist á virta vísindagrein sem fjallar um efnið. Það er bara óhollt fyrir stúlkur að slá með orfi, allir segja það! Kannski á orðrómurinn rætur að rekja til manns sem klæddur var í dökkan, síðan frakka og með hatt á höfðinu. Hann faldi sig í dimmu húsasundi og skugga lagði yfir andlitið. Hann sagði við næsta vegfaranda sem átti leið hjá: "psst" og hvíslaði síðan að honum: "það er óhollt fyrir kvenfólk að slá með sláttuorfi, láttu það ganga". Vagfarandinn hefur síðan hvíslað því að næsta vegfaranda og svo koll af kolli. Orðrómurinn hefur hvisast út, mann frá manni og orðið háværari með hverjum deginum. Kannski var það virtur vísindamaður að nafni dr. Síverten sem rannsakaði efnið gaumgæfilega og sendi síðan frá sér óvéfengjanlegar niðurstöður þess efnis að notkun kvenna á orfum væri með öllu óæskileg. Greinarhöfundur mun ekki leggja mat á hvor ástæðan er líklegri.

Nema hvað. Á föstudaginn tilkynnti einn flokkstjórinn (sem er stelpa): "Ég ætla að slá í dag". Kom þetta býsna flatt upp á menn: "En bíddu mátt þú slá?". Flokkstjórinn: "Jájá". Útrætt mál. Stúlkan fór og sló. Kannski hafði hún tekið meðvitaða ákvörðun um að fórna eggjastokkunum. Allir eru að fara í ófrjósemisaðgerðir nú til dags. En hvers vegna að fara í ófrjósemisaðgerð ef hægt er að gera þetta í vinnunni og fá borgað fyrir, með því að slá? Kannski vildi hún bara staðfesta eða afsanna orðróminn í eitt skipti fyrir öll. Þá gæti hún tilkynnt einn daginn: "Jæja, eggjastokkarnir eru ónýtir, orðrómurinn er á rökum reistur." eða að þetta hefði engin áhrif haft. Kannski vildi hún bara aðeins stokka upp í eggjastokkunum.

Ég er ekki vísindamaður en ég trúi ekki að eggjastokkar eyðileggist út af orfaslætti.

laugardagur, 9. júlí 2005

Trúður og baðvörður

Legsteinar margra látinna í Hólavallagarði eru merktir með starfsheitum. Sumir kjósa að láta starfsheitið fylgja. T.d. Bjarni Þorsteinsson kaupmaður og Ingólfur Hreggviðsson læknir. Að láta starfsheitið fylgja virkar á mig sem hálfgert gort, sem mér þykir óviðeigandi á legsteinum. Ég hef nefnilega aldrei séð: Gunnar Þórhallson trúður, Þorkell Ingimundarson baðvörður, Jónas G. Ottesen ruslakarl eða Þórkatla Þórarinsdóttir varavaravaravaravara-vatnsberi í ö-liði. Slíkt fólk er ekki líklegt til að flagga starfsheitum sínum.

Höfum það hugfast að allir eru jafnir frammi fyrir Guði, hvort sem þeir eru kaupmenn eða baðverðir.

fimmtudagur, 7. júlí 2005

Kreppa

Ég fór ekki á Queens of the Stone Age og Foo Fighters. Það hefði vissulega verið gaman en einnig dýrt. Ég er alltaf að spara núna eins og kom fram um daginn. Spara til mögru áranna. Fólk er allt of öruggt með sitt núna. Hvað ef það kemur kreppa aftur? Hvað ef andskotans kommarnir ná völdum? Þá fer allt í bál og brand og skattarnir lóðrétt upp, upp í það óendanlega. Þá er eins gott að hafa verið duglegur að spara. Karlinn í Landsbankaauglýsingunum segir: "Þegar Jóna dóttir okkar fékk spangirnar þá bara hættum við hjónin að brosa". Þetta var ástæðan fyrir því að hann fór að eyða í sparnað. Það nefnir enginn yfirvofandi kreppu þegar kommaskrattarnir ná völdum. Þjóðin verður aftur fátæk og leggst veðurbarin á moldargólfið og nagar sviðakjamma og hungurlýs. Þeir liggja einhversstaðar í leyni núna, kommarnir, og undirbúa valdarán.

Kim Larsen ætlar að halda aðra aukatónleika á Nasa seint í ágúst. Það er gefið að ég fer. Nema kreppan verði skollin á.

miðvikudagur, 6. júlí 2005

Jæja. Vilja ekki einhverjir rífast og skammast svolítið meira?

þriðjudagur, 5. júlí 2005

Steven Gerrard

Víða hef ég rekist á skammar- og reiðipistla vegna fyrirhugaðrar brottfarar Gerrard frá Liverpool. Menn láta stór orð falla án þess að vita rassgat um þetta. Hvernig væri nú bara að halda kjafti að sinni? Það er ekki búið að selja manninn. Hann er enn leikmaður Liverpool. Þar til menn vita forsögu málsins ættu þeir að segja sem minnst.

Framtíð Liverpool veltur ekki á því hvort Gerrard er eða fer. Lið eiga ekki að snúast um einn mann heldur liðsheild.

Alltaf að græða

Dollarinn er bara kominn upp í 65,92. Ég veit ekki betur en að ég hafi keypt á 62,83. Alltaf að græða.

Alltaf að spara

Ekki borgaði ég fyrir tjaldstæði, bílferð og annan aðbúnað lengst úti á landi 1. helgina í júlí. Alltaf að spara.

laugardagur, 2. júlí 2005

Rykið dustað af Pink Floyd

Live 8 dagskránni lauk rétt í þessu. Ég sá og heyrði Pink Floyd áðan beint frá London. Þeir tóku Money, Wish You Were Here og Comfortably Numb. Þeir slógu ekki eina feilnótu og áttu magnað "comeback".

Sömu sögu er ekki að segja af Paul McCartney. Hann ætti nú bara að liggja inni í skáp og safna ryki. Röddin var veikburða og eitt lagið hljómaði eins og tónlist lélegs bílskúrsbands. Síðan kom George Michael og tók lag með honum. Heilsuðust þeir félagar aðeins of kumpánlega og föðmuðust og sá ég ekki betur en McCartney gripi rétt sem snöggvast í rassgatið á Michael. Michael hvarf í kjölfarið en birtist síðan aftur. Afar vafasamt allt saman.

Matarhornið

Alltaf gaman að fara út á svalir að grilla. Mælir grillmeistari með að vefja lauk í álpappír og setja í kolin. Úr verður lin lauksulta sem er blússandi og við þetta missir laukurinn eiginleika sína til að láta fólk grenja. Það er alltaf svo dapurlegt að sjá fólk grenja við grænmetissöxunina. Grillmeistari mælir einnig með krydduðu grillkjöti frá Fjallalambi á grillið.

gærkvöldið

í gærkvöldi fékk ég afar hressandi símtal frá sveitamönnum sem hvöttu mig til að mæta í nágreni eldborgar. þar skyldi vera mikið glens og grín og allt í boði hússins. ég hefði án efa mætt ef e-r hefði getað skutlað mér þangað. en hver er að fara að skutla mönnum kl.10 á laugardagskvöldi lengst út í sveit? 5885522? Vafasamt.

síðar um kvöldið fór ég í lítið samkvæmi og eftir það á hressó, ara í ögri og að lokum prikið. ari í ögri var langferskastur, prikið slappast. of mikil drykkja og vafasamt.

fimmtudagur, 30. júní 2005

Sveitin 17. júní

Helgina 17.-19. júní fórum ég, Nína, mamma og Arnar frændi norður í Lón og hittum afa, Einar, Steinar, Guggu og Ásdísi litlu. Einar og Gugga réðu mig, Nínu, Steinar og Arnar í vinnu við að græða landið. Gróðursettum við frændsystkin hundruð greni- og lerkiplantna í landi Lóns. Norðurlandsskógar létu Einar og Guggu hafa plönturnar og peninga fyrir hverja gróðursetta plöntu. Okkar kjör voru 6 kr. á hverja plöntu, ég fékk 9 kr. á hverja vegna þess að ég lét áburð fylgja með. Steinar dreifði áburði á plöntur Nínu og Arnars og fékk 8 kr. á hverjar tvær plöntur og fyrir verkstjórn. Ég eyddi því þjóðhátíðardeginum og deginum eftir í að græða landið. Upp úr krafsinu hafði ég 7560 kr. og útborgað strax. Kom það sér afar vel þótt fljótt hafi verið að fara. Í dag kom útborgun frá Kirkjugörðunum og var hún nokkuð hærri enda mun lengri vinnutími. Ég er mjög hrifinn af launum á hvert gróðursett tré. Það er vinnuhvetjandi kerfi og mætti taka upp þess háttar kerfi víðar.

Ég reikna með að fara í berjamó með krakkana þarna í stóran og fallegan skóg þegar ég verð fertugur. Á myndinni má sjá okkur systkinin með réttu græjurnar.

þriðjudagur, 28. júní 2005

Árni Johnsen og Smaladrengirnir

Einhvern tímann skrifaði ég hér að Creedence Clearwater ættu bestu útgáfuna af laginu Cotton Fields Back Home. Það var áður en ég heyrði þetta óborganlega meistaraverk sem nauðsynlegt er í almennileg partý:
Árni Johnsen og Smaladrengirnir - Cotton Fields Back Home

mánudagur, 27. júní 2005

Smánarblettur á fjölmiðlaflórunni

Hið nýja slúðurblað, Hér og nú, er smánarblettur á fjölmiðlaflóru landsins. Umfjöllun þeirra um mál Bubba Morteins er einstaklega siðlaus og ósmekkleg. Um daginn stóð á forsíðu blaðsins í með risaletri: "BUBBI FALLINN!". Héldu þá margir að Bubbi væri byrjaður í eiturlyfjaneyslu á nýjan leik. Svo var ekki, heldur snerist málið um að Bubbi væri farinn að reykja aftur. Hið fyrrnefnda var sterklega gefið í skyn án þess að vera sagt berum orðum. Eiríkur Jónsson, starfsmaður blaðsins, segir að öll umfjöllun um málið hafi verið sönn og það geri fréttamenn blaðsins að blaðamönnum og að ef eitthvað væri ósatt væru þeir skíthælar.

Ekki legg ég mikla trú á blað sem slær upp slíkri fyrirsögn og ræðst jafnhart fram gegn fólki sem gengur í gegnum erfiðan skilnað. Munu blaðamenn hafa hringt í málsaðila daginn út og daginn inn með ágengar spurningar. Umfjöllunin þjónar þeim tilgangi að selja blaðið. Því miður virðist ekkert heilagt þegar kemur að því. Besta leiðin til að koma í veg fyrir frekara siðleysi blaðamannanna er að hundsa blaðið.

sunnudagur, 26. júní 2005

Pönnukökur og Kim Larsen

Nú er ég að fara að baka pönnukökur. Smellti plötu með Kim Larsen á fóninn til að baka við. Er það ekki einmitt það sem maður á að gera á sunnudegi (baka með Kim Larsen í botni og syngja með og brenna draslið við). Það er víst kökudagur á morgun í vinnunni og ef ég mæti ekki með heimabakstur verð ég kýldur.

Í gær var bjór sötraður hér og horft á Litlu lirfuna ljótu á frönsku og ensku ásamt einni Fóstbræðraspólu í góðra vina hópi. Litla lirfan ljóta á frönsku er stórkostleg. Egils Premium er mjög góður bjór.

Heyrði þátt Hemma Gunn í útvarpinu um daginn. Hemmi er meistari eins og flestum ætti að vera kunnugt. Hann fékk til sín misgóða gesti, m.a. Á móti sól. Sú hljómsveit söng nokkur lög og alveg var rosalegt hvað söngvarinn söng falskt og illa. Hemmi sagði eftir eitt lagið þeirra: "Það verður að taka viljann fyrir verkið" og hló tröllslega enda var það hörmulega lélegur flutningur. Svo sagði hann eftir að hljómsveitin var farin: "Jæja, þá eru drengirnir í Á móti sól loksins búnir að hypja sig héðan út". Hemmi er frábær og þeir sem segja annað ættu að hafa vit á að þegja. Hér eru nokkrir af þeim mönnum sem bannað er að gagnrýna:
Hemmi Gunn
Megas
Kim Larsen
Raggi Bjarna
Laddi.

Gagnrýni: Voksne Mennesker

Önnur mynd Dags Kára nefnist Voksne Mennesker og fer fram í Danmörku, á dönsku. Myndin er býsna keimlík fyrri mynd Dags, Nóa albínóa. Hún er hæg og fjallar um óttalega latan aula og slugsa sem er utanveltu í samfélaginu. Hann hefur ekki fasta vinnu en tekur nokkur smáverk að sér sem verktaki. Besti vinur mannsins er feitur, latur og vitlaus og langar að verða knattspyrnudómari. Myndin er býsna fyndin en fær mínus fyrir kafla sem þjóna litlum tilgangi og teygja því lopann. Nokkrir kaflar með "ofurlistrænum" hljóðfæraleik mættu fjúka. Myndin væri betri án þeirra.

Einkunn: 7,78.

laugardagur, 25. júní 2005

Breytingar

Ýmsar breytingar hafa orðið á fjölskyldu- og búsetumynstri í kringum mig á síðustu misserum.

1998-2004 bý ég í Breiðholti. Faðir minn kennir og móðir mín er framkvæmdastjóri.
2003,ágúst: Foreldrar skilja. Pabbi flytur út í kjölfarið.
2004, ágúst: Ég, mamma og systir mín flytjum í Vesturbæ.
2004, desember: Pabbi fær starf sem túlkur í bænum Dronninglund á Jótlandi í Danmörku. Þar kaupir hann sér hús og sest að. Staðan er til fjögurra ára með möguleika á framlengingu í önnur fjögur.
2005, ágúst: Mamma hefur störf sem lektor við Danska lyfjafræðiháskólann í Kaupmannahöfn í Danmörku og flytur þangað ásamt systur minni. Systir mín hefur nám í dönskum menntaskóla. Lektorsstaðan er til tveggja ára.

Það er óneitanlega nokkuð sérstakt að foreldrar flytji út af heimilinu einn af öðrum. Hélt að venjan væri nú að börnin flyttu að heiman þegar þau væru uppkomin en ekki foreldrarnir. Ég verð einn eftir hér í Vesturbæ, ógiftur og barnlaus og lýk námi í MR. Óvíst er um framhaldið.

miðvikudagur, 22. júní 2005

Pólverjar í ræstingum

Ættingi sagði mér frá Pólverjum sem vinna við ræstingar á hóteli hér í borg. Pólverjarnir segjast tala ensku. Þegar yfirmaður segir við þá: "Mop the floor" (skúraðu gólfið) þá svara þeir með bros á vör "YES" og fara síðan að ryksuga. Ef yfirmaður segir "clean the toilets" er svarið einnig "YES" með brosið góða og síðan drífa þeir sig að þrífa borðdúkana. Um daginn sagði hann við einn Pólverjann "Aligator in the garden?" og hvert var svarið?...

..."YES" og ylhýrt bros.

Langamma

Því miður sá ég bara tvær langömmur mínar á lífi. Ein langamman, sem var dáin áður en ég fæddist, fór bara í bað tvisvar á ári og þótti það andskotans nóg. Svo sagðist hún vera húsfrú á fínu heimili og sagði að mamma og frænka mín væru vinnukonur hjá sér. Mér skilst að móðir mín hafi ekki viljað skrifa upp á það.

þriðjudagur, 21. júní 2005

Rassgat

Skrifaði langa færslu en hún hvarf þegar Blogger klikkaði. Slíkt nefnist rassgat.

Riddarar réttlætisins

Líkt og svo margir fórum við út á land um liðna helgi. Nokkrum mínútum áður en við komum á Blönduós komum við inn á kafla með nýlögðu slitlagi. Þar tókum við fram úr bíl sem fór heldur hægt. Þetta átti eftir að koma okkur í koll.

Við fórum inn á bensínplan á Blönduósi. Þar kom bíll og lagði upp að hlið okkar bíls og vildi segja eitthvað. Hann beindi orðum til mömmu sem sat í ökumannssæti á þessum hluta leiðarinnar:
"Sástu ekki skiltið?"
Mamma: "Hvaða skilti?"
Maðurinn: "Skilti sem sýndi 50 km hámarkshraða"
Mamma: "Nei"
Maðurinn: "Nei, ég er nefnilega á lánsbíl og þið tókuð fram úr mér á nýlagða slitlaginu og mokuðuð grjóti yfir bílinn"
Mamma: "Já."
Maðurinn "Ég er að hugsa um að kalla til lögregluna."
Mamma: "Þá gerir þú það bara"
Maðurinn: "Þið passið kannski upp á þetta í framtíðinni"
Mamma: "Er þetta ekki orðinn ágætis pistill hjá þér?"
Maðurinn: "Já, það er voða leiðinlegt þegar fólk blabla..." meira heyrðist ekki því nú var hann að keyra á brott aftur. Hann gjóaði augunum ógnandi á númeraplötu bílsins á meðan hann kom sér burt hægt og rólega. Síðan ók hann til baka. Hann hafði sem sagt lagt lykkju á leið sína til þess eins að koma vitinu fyrir sauðheimska ökumenn sem skeyta engu um lánsbíla eða hámarkshraða. Hvað gerir maður ekki til að koma vitinu fyrir fólk? Engar skemmdir var að sjá á lánsbílnum.

Fíflið hefur væntanlega þurft að aka yfir þessum hámarkshraða á nýlagða hlutanum til að ná okkur aftur. Nauðsyn brýtur lög. Ef ég hefði viljað berjast gegn ranglæti eins og þessi maður hefði ég þurft að elta ansi marga ökumenn, suma jafnvel á 130 km hraða.

mánudagur, 13. júní 2005

Gestaþraut

Þegar ég var lítill sýndu foreldrar mínir mér gestaþraut sem þeir áttu. Þrautin var skringilegur óreglulegur hlutur sem átti að raða saman í rétta röð. Ég spurði hvers vegna þetta héti gestaþraut og var svarað: "Jú, sjáðu til, það er vegna þess að þetta er þraut sem við látum gesti leysa". Þetta þótti mér mjög sniðugt. Þegar gestir koma í heimsókn og maður veit ekkert hvað maður á að gera við þá, dregur maður gestaþraut fram úr erminni sem þeir geta glímt við. Enginn gestur fær að fara heim fyrr en hann hefur leyst gestaþraut heimilisins.

Einn daginn fengu pabbi og mamma gesti. Þá stökk ég fram með gestaþrautina og spurði "Eiga gestirnir ekki að leysa gestaþrautina". "Leiktu þér með þetta frammi" og ég fór vonsvikinn fram með gestaþrautina góðu. Fljótlega áttaði ég mig á því að gestir eru aldrei látnir leysa gestaþrautir. Nafnið er bara gert til þess að rugla litla krakka sem eru þó ruglaðir fyrir.

Eins og alltaf er ein undantekning sem sannar regluna. Á mörgum heimilum eru klósettlæsingar stirðar og skrýtnar og heimilisfólk er eina fólkið sem kann á þær. Þegar gestir bregða sér rétt sem snöggvast á snyrtinguna getur farið svo að þeir megi dúsa á klósettinu í nokkra klukkutíma. Stirðar klósettlæsingar eru hin fullkomna gestaþraut. Sérstaklega vegna þess að gesturinn er ekki látinn vita áður en hann fer á klósettið og læsir. Hann gerir þarfir sínar en þegar hann er búinn og ætlar út aftur þá FOKK!: "Halló, ég er læstur inni". Heimilisfólkið heyrir í gestinum og stillir sér upp fyrir utan dyrnar og segir: "Þú verður að glíma svolítið við þetta...þetta er sko gestaþraut".
Gestur:"Látiði ekki svona, segið mér hvernig ég á að opna"
Heimilisfólk: "Reyndu nú að láta þér detta eitthvað sniðugt í hug"
Gestur: "Hvað er þetta?! Hjálpið mér út!"
Heimilisfólk: "Það hafa allir gestir fattað þetta hingað til" o.s.frv. þar til gesturinn er orðinn sjóðandi vitlaus og búinn að ákveða að koma aldrei í heimsókn aftur á þetta heimili.