þriðjudagur, 31. maí 2005

Stúdentsveisla

Hvað heldur þú? Það var stúdentsveisla hjá Ásgeiri á sunnudag klukkan fimm. Þar fylltu kræsingar hólf og gólf. Hvaðan voru kræsingarnar? Jú, frá Jóa Fel. Frábærar snittur og svo var auðvitað frábær aðalkaka. Kampavín flæddi um ganga og sali og ekkert var skorið við nögl. Karlar mættu í jakkafötum og konur í drögtum þarna í mekka rauðvínsbeltisins í Vesturbæ. Umfram allt fágað.

Ég og Henrik mættum með pakka með góssi héðan og þaðan. Í pakkanum var:
  • Vatnsheldur plástur með dýramyndum.
  • Álbakki með mynd af spánskri jómfrú.
  • Stytta úr gröf Faraós.
  • Úrkomumælir.
  • Kaffikanna með áföstum nashyrningshaus.
  • Stór glær sólgleraugu með vörn gegn útfjólubláum geislum sólar.
  • Nýir íslenskir Flúðasveppir sem voru ræktaðir af natni og alúð við kjörhitastig.

Þessu var síðan klastrað inn í gjafapappír eftir kúnstarinnar reglum eða slíku. Hér eru myndir af herlegheitunum (m.a. af stúdentsbarninu með sveppina góðu).

sunnudagur, 29. maí 2005

Valdabarátta

Þegar ég kem í hús reyni ég oftast að sölsa undir mig vald húsbónda. Stundum er það auðvelt verk, stundum mjög erfitt. Húsbændurnir eru misjafnlega þaulsætnir í veldi sínu. Húsbóndi getur verið faðir, móðir, barn og jafnvel dýr. Á mörgum heimilum er enginn einn húsbóndi. Þar er jafnrétti. Að vísu ráða krakkarnir þá engu en foreldrarnir eru jafnráðir. Eðlilegt er talið að krakkar ráði engu af því að þá skortir enn þann þroska sem hver húsbóndi þarf að hafa til að bera til að geta orðið almennilegur húsbóndi. Þrátt fyrir þetta gerist það stundum að krakki er húsbóndi á heimili en þá er það vegna þess að foreldrarnir hafa afsalað sér húsbóndavaldinu til krakkans. Þetta gerist þegar krakkinn hefur verið ofdekraður frá barnæsku. Ef allt í einu á segja ?nei? við barn sem alltaf hefur fengið það sem það hefur óskað má búast við öskrum, gífuryrðum og argaþvargi af krakkanum. Krakkinn hefur þá tryggt sig í sessi sem húsbóndi og lætur embættið ekki af hendi baráttulaust. Foreldrarnir geta þá séð eftir því að hafa látið barnið hafa embættið upphaflega.

Þegar maður ætlar að sölsa undir sig húsbóndavald þarf maður að sigta út hver húsbóndinn á heimilinu er. Það getur reynst þraut hin þyngri í sumum tilvikum. Um daginn kom ég til dæmis í hús þar sem ég áttaði mig ekki strax á því hver húsbóndinn var. Síðan kom á daginn að það var kötturinn á heimilinu. Ég settist sallarólegur í einn stólinn í stofunni. Sat þar í smástund, eða þar til kötturinn stökk upp á arm stólsins. Hann horfði á mig illilegur og setti síðan upp kryppu og hvæsti smávegis. Ég lét sem ekkert væri. Kötturinn setti þá upp annan fótinn og skaut klónum út og bjó sig undir að stökkva á andlitið á mér þar sem hann hugðist læsa klónum í augntóftirnar og hrekja mig þannig úr húsbóndasætinu. Én ég sá hvert ráðbrugg hans var svo ég vék mér undan þegar stökkið kom. Kötturinn lenti þá hinum megin í sófanum. Við þetta virtist sem mestur vindur væri úr honum. Hann gekk reyndar fram og aftur í kringum stólinn og gjóaði augumum upp á mig öðru hvoru, ekki par hrifinn af nýjum húsbónda. Hann virtist þó vera búinn að gefa embættið upp á bátinn. Ég hélt síðan embættinu þar til ég fór út úr húsi en þá er líklegt að kötturinn hafi hirt það aftur. Þegar einhver annar en húsbóndi reynir að setjast í húsbóndastólinn þá annaðhvort sest húsbóndi á viðkomandi eða dregur hann út á asnaeyrunum. Hvorugt var auðvelt í tilviki kattarins, hann varð að gjalda fyrir smæð sína. Áður en ég hafði rænt hann valdinu hafði hann unað glaður við sitt og fór meðal annars að vegg og sleikti hann fram og aftur. Það var ekkert við það að athuga vegna þess að húsbónda er heimilt að hafa sínar sérviskur og duttlunga. Sumir húsbændur kjósa að hafa lappir uppi á borði, aðrir kjósa að sleikja veggi. Ég fór út af þessu heimili ánægður eftir vel heppnað valdarán. Ófáir húsbændur hafa endað fyrir utan með skófar á rassgatinu eftir að ég hef komið í heimsókn til þeirra en sumum hefur þó tekist að halda sæti sínu.

Lélegt

Nú hefði ég getað farið í partý á föstudaginn en ákvað á síðustu stundu að fara ekki. Síðan átti að vera vinnupartý í gærkvöldi en ekkert varð úr því. Þetta þýðir að ég hékk heima hjá mér bæði kvöldin, fyrstu helgi eftir einkunnaafhendingu.

Þetta tvennt fær stimpilinn LÉLEGT. Ég hefði ekkert á móti því að eiga svona stóran rauðan LÉLEGT stimpil. Þá gæti ég alltaf gengið með hann á mér og stimplað fólk og hluti. Verst væri þó að geta ekki stimplað hugmyndir, hugtök og orð. Kannski hefði ég þá stimplað þessa hugmynd.

laugardagur, 28. maí 2005

Gagnrýni: Star Wars III

Þetta er óttalegt geimbull eins og við var að búast. Mörg ósannfærandi samtöl milli aðalpersóna. Græna kvikindið er best, eins og í Lord of The Rings. Í þessari mynd er meiri söguþráður en í þeirri á undan.

Einkunn: 6,50.

föstudagur, 27. maí 2005

Ringlaður

Mamma vakti mig áðan því það var síminn til mín. Ég hafði ætlað að taka svona hálftíma "powernap" sem hressir oft alveg rosalega ef maður finnur fyrir þreytu. Nema hvað ég hlýt að hafa stoppað fjárans vekjarann og var vakinn af mömmu þarna þegar síminn hringdi, tveimur tímum síðar. Ég var ótrúlega ringlaður og nú hálftíma eftir að ég var vakinn er ég það ennþá og ekki almennilega vaknaður. Vissi varla hvað ég var að segja í símann. Alveg agalegt þegar svona "powernap" fer í vaskinn, þá ruglast maður alveg.

Var að slá gras á leiðum í mestallan dag með orfi. Sóðaði reyndar líka og svo rakaði ég laufblöð í klukkutíma. Fór að sofa eftir hálftvö í gærnótt eftir hálfellefubíó og það er ekki að koma nógu sterkt inn núna.

miðvikudagur, 25. maí 2005

Fuglahræðan

Sigur í Meistaradeildinni. Jerzy Dudek er óumdeilanlega maður leiksins. Í vítaspyrnukeppninni brá Dudek á leik og minnti helst á fuglahræðu þegar hann blakaði örmum út í loftið og tók hliðar saman hliðar á marklínunni. Serginho, sem tók fyrsta víti Milan, vissi voða lítið þegar hann sá þetta og dúndraði hátt yfir. Síðan varði meistarinn nokkur víti en einnig ber að nefna frábæra markvörslu hans undir lok framlengingar.

Á fyrstu fimmtán mínútum síðari hálfleiks átti Liverpool "comeback of all comebacks" eins og þulur orðaði það þegar þeir löguðu stöðuna úr 3-0 í 3-3. Blússandi, segi og skrifa.

Neðst á einkunnablaðinu mínu stendur:

Stóðst.

þriðjudagur, 24. maí 2005

Það á ekkert að vera að spá fyrir um úrslit leiksins á morgun. Hafið vit á að sleppa því.

mánudagur, 23. maí 2005

Gefandi laufblöð

Fyrsti vinnudagurinn var í dag í nýrri vinnu. Í sumar mun ég vinna í Kirkjugarðinum við Suðurgötu. Dagurinn hófst í Fossvogskirkju kl. 8 á kynningu á sumarstarfinu. Þar var troðið í mann miklu magni af gagnslausum upplýsingum, t.d. súlurit sem sýndi fækkun veikindadaga starfsmanna mili ára og æðislegt súlurit sem sýndi hvaða sjúkdómar hefðu verið að hrjá fólk (15% flensa, 12% höfuðverkur, 4,5% hálsbólga o.s.frv.) Síðan var þusað fram og aftur um launamál og í lokin sáum við kynningarmyndband þar sem fram kom að Páll Jónsson vefari var fyrsti maður sem var grafinn í Fossvogskirkjugarði og fleiri slíkar hagnýtar upplýsingar fyrir sumarstarfsmenn. Þessi fundur stóð í góða tvo klukkutíma og voru nokkrir farnir að lúra á sínu græna. Eftir að hafa hlýtt á fundinn langa og leiðinlega fengu allir blöð þar sem allt sem máli skipti kom fram og var ekki laust við að með því væri hann gerður enn tilgangslausari en hann var orðinn þá þegar.

Síðan fengum ég og einhver annar gaur sem ég hef aldrei séð áður en er samt í MR, far með flokkstjórunum okkar tveimur niður á Suðurgötu en þær stöllur voru einnig báðar í MR. MR-ingar munu vera þarna í meirihluta ef ég skildi rétt. "Jæja krakkar, í dag ætlum við að raka laufblöð". Síðan rökuðum við laufblöð allan daginn en samt eru þau ekki alveg búin. Það var dúndrandi leiðinlegt. Ég var að verða gráhærður en fór þá allt í einu að hugsa; Allt í einu fann ég hvað þetta var gefandi. Alls ekki skemmtilegt en þeim mun meira gefandi. Eins og Oprah Winfrey, hún er ógeðslega leiðinleg en gefur bara svo mikið af sér. Alveg magnað.

Mér skildist á innanbúðarmönnum að fyrsti dagurinn þarna væri alltaf svona leiðinlegur en síðan yrði þetta öskrandi stemmari eftir því sem liði á. Sjáum hvað setur.

sunnudagur, 22. maí 2005

Veruleikafirring? Maðurinn sem er í viðtali fyrst er einn sá rosalgasti sem ég hef séð.

Vinsælt drasl

Þoli ekki þegar hlutir sem mér þykja ömurlegir eru rosalega vinsælir. Af hverju í andskotanum er t.d. lagið Nasty boy með Trabant svona vinsælt? Það er viðbjóðslegt. Harry Potter. Hvaða andskotans fár er þetta alla tíð í kringum hann? Ég gafst upp á að lesa fyrstu bókina og finnst ekkert athugavert við það. Bráðavaktin. Rosa gaman að horfa á lækna hlaupa með veikt fólk og gefa því síðan stífkrampasprautur og segja því að það sé með bullandi berkla og Parkinson. Law and Order. Lögfræðidrama? Bandaríkjamenn eru hrikalega uppteknir af lögfræði. Heilu sjónvarpsþáttaraðirnar og bíómyndirnar snúast um æðislega lögfræðinga sem fara inn í réttarsalinn, segja eitthvað töff og vinna alla á sitt band. Vinna rosalega sigra og allir fagna sem óðir væru. Glatað. Af hverju er ekkert verkfræðidrama, sjómannadrama eða bakaradrama?

En nóg af lélegu. Það er líka sumt gott í gangi. Ég er t.d. farinn að góna alltaf á þættina Lost sem fjalla um fólk á eyðieyju og Hagnaðurinn hefur mælt með á síðu sinni. Ha, Survivor? Nei, þetta er margfalt betra en úr Survivor ruglið. Ekki raunveruleikaþættir, það gerir gæfumuninn. Svo eru nokkur lög að gera góða hluti:
Green Day - Holiday
Weezer - Beverly Hills
Queens of The Stone Age - Burn the Witch
Huun Huur Tu - Öske Cherde (hægt að sækja
hér)
Gorillaz - Feel Good Inc.

Ungfrú Ísland, Eurovision o.fl.

Ég sá lokin á keppninni Ungfrú Ísland í sjónvarpinu. Unnur Birna, dóttir Unnar Steinsson vann allt sem var hægt að vinna. Margir virðast vera sammála ákvörðun dómenfndar. Ég ætla að segja það hreint út að ég er ekki par hrifinn af úrslitunum. Unnur þessi er vissulega yfir meðallagi en hún átti alls ekki að vinna, mér finnst hún of sauðsleg. Fegurðarsamkeppnir eru náttúrulega frekar sauðslegar svona almennt þannig að það átti ágætlega við. T.d. vil ég nefna Heiði Hallfreðsdóttur sem komst í fimm manna hópinn og er myndarlegri en Unnur. Og hún var ekki sú eina. Heiður var með mér í bekk í gamla daga. Gaman að því. Það var eins og búið væri að ákveða fyrir fram að Unnur ætti að vinna. Öll umfjöllun benti til þess.

En já, Eurovison, rosa léleg lög alltaf. Þetta var reyndar skásta lagið sem vann held ég. Svo var náttúrulega helvíti sæt stelpan sem söng eins og Ruslana sem vann í fyrra. Það var reyndar mikið af myndarlegum stelpum þarna í Eurovision. Líka ungverska og slíkt og jafnvel ísraleska. En sú tyrkneska var eins og norn. Gísli var leiðinlegur kynnir. Ekkert nytt undir sólinni. Gísli segir reyndar í viðtali við tímarit Morgunblaðsins núna að honum þyki hundleiðinlegt að sjá sig í Sjónvarpinu. Ekki er hann einn um það.

laugardagur, 21. maí 2005

Being John Malkovich

Sá hana í gær. Ótrúlega geðveikisleg. Skemmtileg samt sem áður. Best var þegar John Malkovich sjálfur fór í gegnum hliðið og varð hann sjálfur. Það bauð augljóslega upp á rugl.

Einkunn: 8,94

föstudagur, 20. maí 2005

Lapin Kulta, próflok og undankeppni

Langþráð próflok voru í gær eftir stærðfræðiprófið. Svo mætti framvarðasveitin í blússandi bjór hjá Gumma og við horfðum á Ísland tapa fyrir austantjaldsgaulurum með bongótrommur, en það virðist vera þema keppninnar í ár. Þeir sem ekki skilja þemað og eru ekki með á nótunum geta bara farið heim og það gerði Selma. Ég drakk Lapin Kulta bjór úr Vínbúð. Hann er frá Lapplandi og er mjög góður, gef honum 9,0.

----UPPFÆRT: Litli-Jón er það nýjasta og ferskasta í ríkinu. Íslenskur bjór í 1,25 lítra bónusplastflöskum og kostar ekki nema 339. Rónarnir hljóta að taka þessu fagnandi, ódýr svaladrykkur á rónaflöskum og góðu verði. Aðalkosturinn er þó að hann er ekki jafnógeðslegur og Egils pilsner 4,5% þótt hann sé voðalega karakterslaus.

De Palace laugardagskvöld!


DJ DISKÓFER* MÆTIR Á SVÆÐIÐ, NÝKOMINN FRÁ IBIZA OG HELDUR UPPI SVEITTU DISKÓFJÖRI FRAM Á RAUÐA NÓTT! ALLIR AÐ MÆTA Á FEITASTA DJAMM ÁRSINS!

*DJ Diskófer heitir í raun Kristófer Þórarinsson og starfar sem grunnskólakennari í Garðabæ. Um helgar umturnast hann í partýboltann DJ Diskófer og þeytir skífum á De Palace.

laugardagur, 14. maí 2005

100%

You scored as Green. <'Imunimaginative's Deviantart Page'>

Green

100%

Socialist

83%

Democrat

83%

Anarchism

67%

Communism

50%

Republican

17%

Fascism

17%

Nazi

0%

What Political Party Do Your Beliefs Put You In?
created with QuizFarm.com

Fáránleg spurningin "Do you believe in violently overthrowing capitalism?". Illa orðað. Já, ég trúi á að kollsteypa kapítalismanum með ofstæki. Örugglega. Ég veit hvað átt er við en þetta er svo asnalega orðað að ég sagðist hlutlaus í þeirri spurningu sem kemur þannig út að niðurstöðurnar eru ekki fullkomlega marktækar. Frekar slappt próf.

föstudagur, 13. maí 2005

Lætur ekki taka sig í rassgatið

Fórum í Hallann fyrir prófið í dag. Inn kom maður sem leit ekki út fyrir að vera fastakúnni og sagði: "Þetta hlýtur að vera góð sjoppa, það eru svo margir hérna". Einhver svaraði "Jájá, besta sjoppan í bænum".
Maðurinn: "Ég ætla þá að fá eina Egils orku"
Gummi P: "Það eru 200 kr."
Maðurinn: "200 KRÓNUR? Ég læt ykkur ekki taka mig svona í rassgatið"

Svo fór hann. Það skemmtilega er að á spjaldi á afgreiðsluborðinu var mynd af Egils orku og fyrir neðan stóð verðið góða, 200, eins og þetta væri tilboð.

Ég hef alltaf gaman að svona tilboðum sem eru ekki tilboð. Hátt verð auglýst stórum stöfum með merkingunni TILBOÐ eða GOTT VERÐ. Sumir falla fyrir brellunni, aðrir ekki.

fimmtudagur, 12. maí 2005

Vinir Dóra

Nú í prófunum höfum við nafnar ásamt Jósepi tekið upp á þeirri nýbreytni að fara í sund klukkan 7 á morgnana í Vesturbæjarlaug. Ekki nóg með það heldur höfum við slegist í hóp með flokki sem kýs að kalla sig Vinir Dóra. Það er hópur manna (sem flestir eru yfir fertugt) sem fara í laugina alla virka morgna, setjast í pottinn og ræða ýmis mál fyrstu mínúturnar. Síðan, alltaf á sömu mínútunni, segir foringinn Dóri: "Kominn tími!" og þá stekkur hann upp úr pottinum sjálfur og annar á eftir honum. Dóri skokkar hring á bakkanum með hinn á eftir og hinn galar eitthvað út í loftið eins og hani. Síðan fara þeir í annan pott sem er miklu heitari en sá fyrri. Eftir smástund þar fara síðan allir upp á bakkann og þá er komið að aðalatriðinu, Müllersæfingunum svokölluðu. Þá þurfa menn að reygja sig og teygja, niður að bakka, upp í loft og til hliðanna og stjórnar foringinn æfingunum eins og hershöfðingi. Því næst er farið aftur ofan í sjóðandi heita pottinn, stutt stopp, aftur upp úr og menn stynga sér í laugina hver á eftir öðrum og láta sig fljóta að markinu (stiga). Eftir það kemur annar afar mikilvægur þáttur, dómari gefur hópnum einkunn fyrir Müllersæfingarnar þann morguninn. Dómarinn gaf einkunnina 9,11 í morgun sem er frekar gott og svo flutti hann drápu sem fól í sér umsögn. Dómari í dag var enginn annar en Egill eðlisfræðikennari úr MR. Svo er sturta og vigtun (liðsmenn stíga á vigtina) , eftir það kaffisopi.

Að lokum, þegar menn eru komnir úr sturtu, eiga þeir að kasta skápalyklinum og reyna að hitta í þar til gert box á afgreiðsluborðinu. Sjálfsagt er ég að gleyma einhverju en það er þessi sama rútína á hverjum degi. Hópurinn kallar okkur drengina þrjá Framvarðasveitina. Sundið er alveg ótrúlega hressandi og tryggir að menn mæta ferskir í próf.

þriðjudagur, 10. maí 2005

Ásdís Einarsdóttir 1924 - 2005

Amma mín andaðist á líknardeild Landakotsspítala fimmtudaginn 28. apríl.Hún barðist hetjulega við krabbamein síðustu árin. Aldrei kveinkaði hún sér þrátt fyrir erfiða baráttu oft á tíðum. Fljótlega eftir síðustu áramót þurfti hún að leggjast inn á spítala vegna sjúkdómsins. Hún var ávallt bjartsýn og horfði fram á við og þeir sem þekktu hana komust ekki hjá því að smitast af bjartsýninni. Hún grínaðist mikið við gesti sína og var gjarnan hrókur alls fagnaðar. Alltaf var gaman að heimsækja ömmu, bæði í Lón og annað. Hún var þekkt fyrir að taka vel og rausnarlega á móti gestum. Hún kom mér fyrir sjónir sem ótrúlega sterk og lífsreynd kona sem hafði alla sína ævi þurft að hafa fyrir hlutunum. Amma hafði mjög gaman af spilamennsku og spilaði við börnin, barnabörnin og afa. Hún hafði óskaplega gaman af börnum og barnabörnin sóttu mikið í að vera yfir sumar í Lóni.

Hildur Vala

Þessa dagana fær maður engan frið fyrir fréttum af Hildi Völu Idol"stjörnu". Hildur hefur átt topplagið á tónlist.is síðustu 6 vikur. Lagið heitir Líf. Ég heyrði það í útvarpinu um daginn og það hljómaði ekki eins og söngur heldur eins og verið væri að steikja lítinn grís lifandi á teini. Rembingur einkennir flutninginn. Idol keppni 2 hefði alveg mátt vera í skúffunni áfram í stað þess að koma á skjáinn. Svo náttúrulega verður Hildur að syngja með Stuðmönnum í sumar. Stuðmenn eru óþolandi fyrirbæri sem hefði átt að hætta fyrir löngu löngu síðan. Ragnhildur Gísladóttir sá loksins að sér og hætti um daginn en ekki hefur Egill Ólafsson vit á að hætta og því síður Jakob Frímann. Syngjandi íklæddir íslenska fánanum í Bretlandi. Rosa fyndið.

Allt öðru máli gegnir um Eurovision. Það er keppni þar sem flest lönd Evrópu taka þátt og hægt er að hlægja að lélegum Búlgörum og asnalegum Lettum. Hefð er komin á Eurovision en með þessu Idoli er orðið offramboð á söngfíflalátum. Ég held að Selma Björnsdóttir vinni í ár þannig að fólk ætti að fara út í BT að kaupa heimabíó sem það fær síðan endurgreitt þegar sigurinn er í höfn.

mánudagur, 9. maí 2005

Samræmi

Flestir eru líklega sammála um að samræmi eigi að vera milli kennslu og prófa yfir veturinn annars vegar og vorprófs hins vegar. Þessu samræmi var ekki fyrir að fara í stúdentsprófi í efnafræði sem var á föstudaginn.

Nú var kennd ensk efnafræðibók í fyrsta sinn í 5. bekk. Hún var einnig kennd í 4. bekk skólaárið á undan. Það er nokkuð stökk að fara skyndilega að læra flókið efni á ensku eftir að hafa haft námsefni á íslensku alla tíð. Nemendum hefur tekist misvel að laga sig að þessu þótt flestir séu orðnir nokkuð sjóaðir í að læra á enskunni.

Á föstudaginn var stúdentspróf úr þessari ensku efnafræðibók í fyrsta sinn. Prófið var fyrir neðan allar hellur. Það var allt of erfitt. Ef allt væri eðlilegt ættu nemendur sem náð hafa prófum yfir veturinn og jólaprófi að komast stórslysalaust í gegnum stúdentsprófið. Svo var ekki, gríðarlega margir sjá ekki fram á að ná prófinu. Það var langt frá því að vera í samræmi við hlutapróf sem hafa verið tekin eftir áramót og það sem verra er, það var ekki í samræmi við kennsluna. Efnafræðistúdentspróf fyrri ára hafa verið mun auðveldari.

Þarna gætir ótrúlegs misræmis. Hver er sanngirnin í því að þeir sem tóku stúdentspróf í fyrra hafi flestir flogið í gegn en að nú þurfi margir nemendur að sitja uppi með fall á einkunnablaði sínu? Þegar valið er inn í háskóla sjá þeir einkunnablað en vita ekkert um að prófið þetta ár var algjört svínarí. Þeir halda væntanlega að þarna sé slakari árgangur.

Það sem er verst er að það getur enginn bannað kennaranum að semja svona próf. Það eru engar reglur um það hér á landi hvernig próf mega vera og hvernig ekki. Slíkar reglur þarf að setja. Menn eiga ekki að hafa leyfi til að bjóða nemendum upp á hróplega ósanngirni eins og nú var.

föstudagur, 6. maí 2005

Ostborgaratilboð

Allir þeir sem ég heyrði tala um efnafræðistúdentsprófið sögðu "skandall" og "svínarí" o.fl. Ljóst að það verður mikið mikið fall á þessu prófi. Þegar ég var sestur var ég að hugsa um að rétta upp hönd, bíða eftir Skarpó og segja: "Já, ég ætla að fá eitt ostborgaratilboð og franskar með, sleppa sósunni". Kalla síðan á eftir honum þegar hann væri á leiðinni út: "Fá Fanta líka með þessu".

En ég þorði því ekki.

miðvikudagur, 4. maí 2005

AC Milan var það heillin

Því miður féll PSV Eindhoven út gegn Milan. Úrslitaleikurinn verður leiðinlegri fyrir vikið. PSV er nefnilega með skemmtilegt sóknarlið þar sem S-Kóreumaðurinn Park Ji-Sung gerir það gott ásamt felirum. Hann var einmitt öflugur með þeim á HM síðast. Í staðinn fáum við leiðinlega ítali sem láta sig detta og segja "dómari dómari halló hér!" eins og þeim einum er lagið.

þriðjudagur, 3. maí 2005

Liverpool í úrslit Meistaradeildar Evrópu

Leikmenn, starfsmenn, þjálfari og síðast en ekki síst áhangendur Chelsea voru gríðarlega kokhraustir fyrir leik liðsins gegn Liverpool í kvöld. Þetta var formsatriði, liðið var nýbúið að hampa Englandsmeistaratitlinum og óstöðugt lið Liverpool átti ekki að vera mikil fyrirstaða á Anfield í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Jose Mourinho hrokagikkur sagði m.a. "Chelsea hafa 11 menn og Liverpool 11, en okkar 11 eru einfaldlega betri. Við vinnum þennan leik." og "Ég hef aldrei tapað í undanúrslitum og það mun ekki gerast núna."

Strax á 5. mínútu skoraði Luis Garcia fyrir Liverpool og það mark dugði til. Úrslitin 1-0 fyrir Liverpool. Dómari leiksins var ekki góður. Liverpool voru betri og báru sanngjarnan sigur úr býtum. Chelsea setti mikla pressu á þá fyrri hluta síðari hálfleiks sem þeir stóðust með sóma.

Þetta var glæsilegur sigur, jafnvel enn betri fyrir það hvað Chelsea-menn voru sigurvissir og sérstaklega góður út af hinum hrokafulla þjálfara Chelsea. Fagnaðarlætin ólguðu í leikslok á Glaumbar og vil ég í lokin vitna í útlendinginn sem sat fyrir framan okkur og sagði við okkur með hreim "Frábært!". Hann hefði ekki getað orðað þetta betur.

Í úrslitum mætir Liverpool annaðhvort PSV Eindhoven eða AC Milan. Ég er ekki sigurviss. Leikurinn getur farið hvernig sem er en ég mun styðja mína menn heilshugar.