laugardagur, 28. janúar 2006

DJAMM!

Hva, á ekki að djamma um helgina???

Ég djammaði svo feitt síðustu helgi, mar, bara alla fokkin helgina. Djöfulsins djamm djamm djamm djamm djamm djamm alla nóttina!!! Þúst, fyrst fórum við á Hverfis og það var gegt, síðan á ólíver og það var GEÐVEIKT!!! Síðan enduðum við á sólon og vorum alveg til sjö!!!

Geðveikt djamm!!


Jæja, nú er ég búinn að fá smá útrás fyrir hatur mitt á þessu orði, ef orð skyldi kalla.

föstudagur, 27. janúar 2006

Froðufellandi íþróttafréttamaður

Er ekki frá því að leikur Íslendinga og Dana í kvöld hafi verið mest spennandi handboltaleikur sem ég hef séð. Íslendingar virtust ætla að valta yfir þá í byrjun og voru sex mörkum yfir á tímabili í fyrri hálfleik. Svo dró saman með liðunum og spennukaflinn var þó nokkuð lengri en venjulega og fram að lokum.

Horfði á sjónvarpið bilaða þar sem hljóðið vantar en bætti það upp með því að hlusta á útvarpslýsingu Geirs Magnússonar, sem var kostuleg. Geir var orðinn gjörsamlega trylltur undir lokin, raddlaus og ég heyrði ekki betur en að hann væri farinn að froðufella líka og erfitt var að skilja hvað hann sagði. En þegar 30 sek. voru eftir var leiktíminn stoppaður og þá kastaði hann mæðinni og sagði að leikmenn gætu róað sig og nefndi líka að hann þyrfti kannski aðeins að róa sig. Lokastaða 28-28 en Íslendingarnir hefðu nú átt að hafa þetta með smá heppni, þeir voru betri.

Góður leikur og góð lýsing.

þriðjudagur, 24. janúar 2006

Kvakandi sturlun

Ég verð eiginlega að geyma þá kvakandi sturlun (eins og nafni minn kallaði það) sem kom fram í athugasemdum við síðustu færslu, þar sem Salvör nokkur fór mikinn. Salvör þessi mun vera meðlimur Femínistafélagsins og hefur barist gegn slagorði Yorkie: NOT FOR GIRLS! og líkt því við kynþáttafordóma. Hér koma athugsemdirnar og athugsemdir annarra fá að fljóta með upp á samhengið:

Kannski var stelpan femínisti og vill ekki kaupa vöru sem á svona ruddalegan hátt gerir lítið úr stelpum.
Salvör | Homepage | 01.22.06 - 4:13 am | #

--------------------------------------------------------------------------------

Hér eru nokkur klippiverk sem ég gerði úr Yorkie auglýsingum.

http://www.flickr.com/photos/salvor/sets/288067/
Salvör | Homepage | 01.22.06 - 4:15 am | #

--------------------------------------------------------------------------------

Ég efast reyndar um það. Annars finnst mér ótrúlegt að nokkur maður geti látið þetta slagorð fara í taugarnar á sér. Held að ýmis mál séu brýnari baráttumál fyrir femínista en svona kúkur og kanel, s.s. kjaramál. Þessi vara gerir ekki lítið úr stelpum á ruddalegan hátt heldur er þetta sett fram sem grín, sbr. þegar drengir í fótbolta segja hver við annan: "Ertu algjör kerling?".

Mér væri a.m.k. alveg slétt sama þótt ein sælgætistegundin hefði slagorðið: NOT FOR BOYS!
Guðmundur | Homepage | 01.22.06 - 8:49 pm | #

--------------------------------------------------------------------------------

Ég hef séð stelpu kaupa þetta einmitt afþví að það stendur "it's not for girls!". "Ég ætla sko bara víst að kaupa þetta" Greinilega mikil baráttukona.
Mási | 01.22.06 - 9:26 pm | #

--------------------------------------------------------------------------------

Ég hef alltaf skilið þessa auglýsingu sem grín að bæði óupplýstum karlmönnum og karlhöturum.

Hins vegar er þetta grín misheppnað og hugmyndin ekki úthugsuð þar sem kemur hvergi fram raunveruleg afstaða Nestlé og gæti þetta (og hefur) móðgað einhverja.

Hvort þessir einstaklingar hefðu átt að móðgast er annað mál en það eru til betri aðferðir til að leiðrétta óupplýsta og öfgafólk en að koma því í tilfinningalegt uppnám með þessum hætti.

Hvergi kemur fram hvað vakir fyrir handritshöfundi. Réttara væri að skrifa raunverulega afstöðu smáu letri en réttast að finna betri hugmynd að markaðssetningu.
Henrik | Homepage | 01.22.06 - 9:58 pm | #

--------------------------------------------------------------------------------

Held að tilgangi þeirra sé einmitt náð ef einhverjar stelpur kaupa þetta og segja "ég ætla bara víst að kaupa þetta". Fá upp svona uppreisnarsturlun í fólki.
Guðmudnur | Homepage | 01.22.06 - 10:34 pm | #

--------------------------------------------------------------------------------

Hvers vegna ætti raunveruleg afstaða Nestlé að koma fram? Þetta er sett fram sem grín og fólk verður bara að lesa út úr því það sem því sýnist. Grín er oftast ekki útskýrt sérstaklega, sbr. að brandarar verða lélegir þegar fólk þarf að útskýra þá sérstaklega.
Mér finnst ótrúlega vitlaust að lesa út úr þessu einhvers konar lítillækkun á stúlkum.
Guðmundur | Homepage | 01.22.06 - 10:41 pm | #

--------------------------------------------------------------------------------

Þetta er mjög úthugsuð auglýsingastefna sem notuð hefur verið í mörgum löndum og markhópurinn eru ungir strákar og það er markvisst verið að niðurlækka stelpur með þessari auglýsingu og höfða til óöryggis stráka. Ég safnaði saman upplýs. um það en kemst því miður ekki í það núna því femínistaspjallið er lokað, það var umræða þar um þetta.
Salvör | Homepage | 01.23.06 - 12:38 am | #

--------------------------------------------------------------------------------

Kannski skemmir það brandara fyrir einhverjum að útskýra hann en það að útskýra brandara ekki gerir ekki lélegan brandara fyndinn.
Henrik | Homepage | 01.23.06 - 1:29 am | #

--------------------------------------------------------------------------------

Ég hef einmitt alltaf litið á þetta sem grín að "karlmennskunni", trúi því ekki að nokkrum manni detti í hug að hann sé meiri karlmaður fyrir að vera með súkkulaðistykki. Mér finnst sú hugmynd niðurlægjandi fyrir mig sem karlmann.
Mási | 01.23.06 - 1:35 am | #

--------------------------------------------------------------------------------

Salvör, er þetta eitthvað grín að bera þetta saman við kynþáttafordóma eða ertu bara svona kvakandi sturluð?
Guðmundur P | Homepage | 01.23.06 - 1:50 pm | #

--------------------------------------------------------------------------------

Mér finnst það vera ótrúlegt að það sé til kvenmaður sem er nógu grunnhyggin til þess að ná að móðgast yfir svona aulabröndurum. Salvör, ertu grunnhyggin?
Jósep | 01.23.06 - 1:51 pm | #

--------------------------------------------------------------------------------

Opnar femínistaspjallið aftur? Ef svo er skal ég kynna mér það ef það er þínum málstað til framdráttar. Að öðru leiti hef ég sagt það sem ég hef að segja um þetta mál.
Guðmundur | Homepage | 01.23.06 - 5:27 pm | #

laugardagur, 21. janúar 2006

Yorkie - ekki fyrir stelpur

Ég og Jósep vorum að afgreiða hjá Möggu í Hallanum um daginn. Inn kom stelpa, líklega 14-15 ára, og skimaði rækilega yfir hillurnar í leit að rétta góðgætinu. Hún var lengi að ákveða sig, enda úrval af sælgæti þokkalegt. Mars? Snickers? Bland í poka? Popp? Kók? Þetta getur verið erfitt val. Síðan bað hún um smá bland en hún vildi meira, og það tók lengri umhugsun: "Eigiði ekki eitthvað hreint súkkulaði?" Það stóð ekki á svari: "Jújú, við eigum Yorkie, úrvals hreint mjólkursúkkulaðistykki". En þá varð stúlkan alvarleg á svip: "Nei, það er ekki fyrir stelpur" (Slagorð Yorkie er NOT FOR GIRLS). Ég og Jósep hlógum að þessu svari. Hún var áfram alvarleg og þá lokaði ég kjaftinum og reyndi að kyngja hlátrinum. Henni var alvara. Þetta var orðið hálfvandræðalegt og ég vorkenndi blessaðri stúlkunni. Jósep sagði við hana að kannski væri nú í lagi að gera undantekningu svona einu sinni. En það vildi hún ekki, Yorkie er ekki fyrir stelpur, þannig er það bara. Þetta er einn þeirra hluta í heiminum sem er ósanngjarn og þolendur verða bara að kyngja því, þegjandi og hljóðalaust.

Kannski hefur hún haldið að Yorkie innihéldi gommu af karlhormóninu testósterón, og að það breytti ungum stúlkum í tröllvaxna karlmenn með alskegg og vömb. Kannski er hérna komið næsta baráttumál femínista: KONUR MEGA ALVEG FÁ YORKIE EINS OG KARLAR, og hana nú! Sé fyrir mér mótmælaspjöldin.

fimmtudagur, 19. janúar 2006

Sjónvarpsleysi

Sjónvarpstækið er bilað eða ónýtt. Það þýðir að ég hef misst af:

*Halldóri Ásgrímssyni glottandi í náttfötum.

*"Hnakkamellunni" að tékka á "djamminu".

*Gilzenegger og Partý-Hanz og þeirra þætti í menningunni.

*Fasteignasjónvarpinu.


Ég held að ég verði aldrei samur eftir þennan missi. En ég get þó huggað mig við það að Steingrímur J. var hálfnakinn í blöðunum á sjúkrastofu að segja brandara.

Hrun siðmenningarinnar?

þriðjudagur, 17. janúar 2006

Pikk

Það er ekki beisið færið úti núna, ha, bara snjór út um allt. Já, þeir segja það hahaha. Hva, vetur konungur bara kominn?, já ,það er ekki að ástæðulausu sem þeir kalla það Ísland hahahaha. Fertugir allra landa sameinist.

Jamm, jamm, jamm. Það er ekki sérdeilis dónalegt að spæna um á Daihatsunum á heilsársdekkjunum og keyra í strand. Menn fara út vel búnir, góð úlpa og svo auðvitað stunguskóflan góða. Svo festast menn og hvað þá? Út með skófluna og setja á sig hettuna, djöfull er að heyra þetta! Maður lætur ekki hanka sig á smá snjó, hvað heldur þú?

En nú er komið nóg af gríni fyrir miðaldra húmorslaust pakk.

Annars mæli ég með því fyrir þá sem vantar eitthvað að gera að skella sér út á bílunum með skófluna og auðvitað góða skapið og hjálpa föstu fólki. Moka og ýta. Gríðarlega skemmtilegt býst ég við.

Sumir ökumenn eru iðandi heimskir og mætti þá kannski nefna stelpurnar sem við skólabræður rákumst á í dag. Þær sátu pikkfastar á bíl í snjóskafli, við fórum að ýta. En sú sem sat við stýrið var ekkert að ýta á bensíngjöfina, um að gera láta þessa strákbjána púla svolítið og spara bensín í leiðinni.

fimmtudagur, 12. janúar 2006

Góð blanda

Alltaf gaman að því þegar menn deila um smekk. Það er yndislega heimskulegt. Maður heyrir suma segja að jólablandan sjálf, malt & appelsín, sé vond. Jafnvel ganga sumir svo langt að segja að hangiket og uppstúf sé vont. Þeir hinir sömu eru ósköp einfaldlega með þroskahefta bragðlauka. Hamborgarhryggur er hins vega glataður og eitthvað sem dæmigerðir vitlausir íslendingar sem þekkja ekki annað, fá sér á jólum. Rjúpa er of þurr, auk þess sem það er ótrúlega lystarminnkandi að bryðja á einhverjum andskotans höglum sem hafa orðið eftir síðan rjúpan var skotin. Góðir valkostir í jólamatinn:
1. Önd
2. Hreindýr
3. fl.

En hvað um það. Malt er ekki bara góð blanda með appelsíni, heldur eiga Egils malt og Lakkrís dúndur frá Góu alveg fáránlega vel saman. Þau vega hvort annað upp og ná saman einstöku ofurbragði. Lakkrís dúndur er alls ekki spes eitt og sér en með maltinu, uss - rosalegt. Malt í gleri eitt og sér er þó fínt. Þegar ég var lítill fannst mér malt lélegt eitt og sér en það var bara vegna þess hve lítill og heimskur ég var auk þess sem ég hafði óþroskaða bragðlauka. Þó lét ég mig alltaf hafa það að sötra maltið ef ekkert annað gos var til. Það var sykur í því og krökkunum þykir gott að fá sykur í malla. Þau bryðja sykurinn og segja "ÁMM". En svo koma Karíus og Baktus og það er ekki gaman.

Ætla að hætta núna áður en þetta þróast út í enn meiri geðveiki.

miðvikudagur, 11. janúar 2006

Lærdómsgölturinn

Það verða væntanlega færri færslur hér fram að vori. Einkunnir mínar á jólaprófum gáfu til kynna að ég skildi eftir nóg pláss til að bæta mig, svo ég noti lítt yfirþyrmandi orðalag.

Ég hef komist að því að námstækni mín og skipulag hingað til hefur verið á við námstækni leikskólabarns. Þess vegna hef ég garfað í námstæknifræðum undanfarið og gengur bara þó nokkuð vel að temja mér þau, a.m.k. núna til að byrja með. Árangurinn á hins vegar eftir að koma í ljós. En skipulagning heimanáms, glósugerð og einbeiting verður aukin svo eitthvað sé nefnt.

Markmið:

Að fá 7,0 eða hærra í stúdentsprófseinkunn í stærðfræði.

fimmtudagur, 5. janúar 2006

Tvær góðar

Myndirnar Green Street Hooligans og King Kong eru báðar mjög góðar. Í þeirri fyrrnefndu leikur Elijah Wood aðalhlutverkið og til að byrja með var erfitt að átta sig á því vegna þess að ég sá bara Frodo Baggins. "Ha? Frodo Baggins í flugvél". En svo lagaðist það eftir því sem á leið myndina. Hún fjallar um kengruglaðar fótboltabullur sem buffa aðrar bullur til skemmtunar. Fótboltinn er aukaatriði, aðalatriðið er að hitta geðsjúklinga sem styðja aðra klúbba og lúskra á þeim. Wood er dreginn inn í eitt gengið og gerist ofbeldisdólgur með hinum og kynnist hörðum heimi. Þessi mynd stuðaði mig. Fantavel leikin. Gef henni 9,4 í einkunn.

King Kong er eins og allir vita endurgerð á gömlum slagara, frá Peter Jackson. Fínasta mynd. Að vísu hafði ég eitthvað smávægilegt við hana athuga en ég er búinn að steingleyma hvað það var. Einkunn: 9,2

miðvikudagur, 4. janúar 2006

Hrotuleikurinn

Kom heim frá Danmörku í gær. Daginn þar áður fór ég í fjögurra tíma lestarferð frá Álaborg til Kaupmannahafnar. Það var ekkert að gera í lestinni svo að ég og systir mín fundum upp nýjum leik, Hrotuleiknum.

Maðurinn sem sat á móti Krakkanum í lestinni var hrotudólgur. Hann svaf meira og minna allan tímann, en öðru hvoru rak hann upp hroturoku. Þar með var innihaldið í Hrotuleiknum komið, ég og Nína veðjuðum um hve langt yrði í næstu hrotu. Leikurinn skyldi vera þrjár umferðir nema úrslit yrðu ráðin eftir aðra umferð.

1.umferð
Guðmundur veðjar á fjórar mínútur, Krakkinn segir fimm. Klukkan er sett af stað. Keppendur og áhorfendur fylgjast spenntir með hrotudólgnum, sem gapir bara, steinsofandi utan í glugganum. Þrjár mínútur liðnar; hrotudólgur vaknar. Já, verulega óvænt útspil þarna hjá honum en eykur spennuna. Sofnar hrotudólgur aftur áður en fjórar mínútur eru liðnar?...Já hann sofnar fljótt aftur, þarna var Guðmundur heppinn, annað hefði þýtt tap í 1.umferð. Fjórar mínútur, hrotudólgur sefur en engin er hrotan, Guðmundur tapar 1.umferð því eftir rúmar fimm mínútur kemur óumdeilanleg há hrota. Guðmundur 0-1 Krakkinn.

2.umferð
Pressan er á Guðmundi, hann verður að vinna þessa umferð ef hann á ekki að detta út. Guðmundur veðjar nú á þrjár mínútur, Krakkinn segir sjö. Já, athyglisverður munur þarna á ágiskunum. Klukkan sett af stað. Eftir tvær mínútur kemur hálfhrota frá hrotudólgnum. Vafaatriðið þarna, sem menn munu sjálfsagt deila lengi um, á að telja þetta sem hrotu eða ekki? Dómari sker að lokum úr um að hálfhrotan skuli ekki tekin sem hroturoka. En áfram sefur hann, guði sé lof fyrir Guðmund, hann á enn möguleika. Eftir 3:30 kemur dúndrandi hrota sem hræðir nokkra farþegana ískyggilega. Guðmundur hefur því betur í annarri umferð og staðan er: Guðmundur 1-1 Krakkinn. Það er því ljóst að 3.umferð verður hreinn úrslitaleikur.

Hlé er gert fyrir þriðju og síðustu umferð svo menn nái að kasta mæðunni.

3.umferð, úrslit
Systkinarígurinn er mikill fyrir úrslitin, enda ættarheiðurinn að veði. Hver verður ættarskömmin og hver verður ættarlaukurinn? Guðmundur skýtur nú á sex mínútur, en Krakkinn ákveður eftir umhugsun að segja fjórar. Spennan er strax orðin mikil þegar dólgurinn vaknar og hleypir enn frekari spennu í leika. En bíðum nú við, hvað er að gerast? Nú, sofnar hann ekki strax aftur. Í kallkerfinu heyrist: "Næste station: Odense" og hrotudólgurinn klæðir sig í jakkan og býst til brottferðar. Þetta hleypir algjöru uppnámi í leikinn en sýnir að allt getur gerst. Er ekki hægt að borga honum fyrir að sitja áfram í lestinni, hvernig er það, dómari?! Hann fer út í Odense og þar með endar Hrotuleikurinn með 1-1 jafntefli, sem er svívirða.