mánudagur, 29. maí 2006

Versta hugsanleg niðurstaða

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa ákveðið að mynda nýjan borgarmeirihluta Reykjavíkur. Það er að mínu mati versta mögulega niðurstaða sem var í spilunum. Hvað eru sjálfstæðismenn að pæla? (Það þarf ekkert að spyrja hvað Framsóknarmenn eru að pæla, þeir vilja bara vera í meirihluta og stjórna sama hversu óvinsælir þeir eru)

Frjálslyndir með D hefði sennilega sloppið en ekki þetta. Ekki Björn Inga Hrafnsson og hans gegnsýrðu yfirborðsmennsku til að stjórna Reykjavík næstu fjögur ár. Mun hann knýja fram vatnsrennibrautargarð? Mun hann knýja fram flugvöll úti á Ballarhafi? Mun hann ráðast á Öskjuhlíð og bora á hana gat? Mun hann gera hitt og þetta undir formerkjum "ÞJÓÐARSÁTTAR!" sem hann í rauninni ákveður sjálfur? Síðast en ekki síst:
Mun hann framkvæma allan fjandann af því að það er búið að tala nógu mikið? (Og þá er átt við að framkvæma bara eitthvað, ekkert endilega að nokkurt vit sé í því). Ef hann stendur við orð sín mun hann gera allt þetta meira til.

Reyndar er ólíklegt að honum takist að ná fram öllum þessum óskunda, en sennilega verður eitthvað framkvæmt af stóru orðunum. Kannski er þetta ekki alveg jafnslæmt og þegar Bush var kosinn, en nálægt.

Vonandi slitnar upp úr samstarfinu sem fyrst.

laugardagur, 27. maí 2006

Kjördagur

Frænka mín gaf ekkert upp um hvern hún kysi fyrr en of seint. Eftir að hún kom af kjörstað tilkynnti hún að hún hefði kosið exbé. Ég á sjálfur eftir að kjósa og nú er eins gott að nýta atkvæðisréttinn til að vega upp á móti atkvæði frænku.

Annars eiga allir sem vettlingi geta valdið að sjálfsögðu að mæta á kjörstað og greiða atkvæði, nema laumuframsóknarmenn, og aðrir framsóknarmenn. Það er ansi mikilvægt að þeir nái engum manni inn.

Aðfararnótt laugardags

Týndur vegfarandi: "Hvað er málið með allar þessar húfur?.........................útskrift eða eitthvað svoleiðis?"
Ég: "................já"

Hann var að vísu ekki sá gáfulegasti af þeim öllum. Sumir eltu með kjörorðunum: "ICELANDIC NAVY!"

Lengi á eftir var ekki minnst á bæjarleyfi.

föstudagur, 26. maí 2006

Skólagabb

Þegar ég var að byrja skóla vissi ég hvað skóli þýddi, skóli = leiðindi. Sú jafna hefur gilt á seinni skólastigum líka á köflum. Samt hefur aldrei þurft að beita þessu trikki á mig svo að ég mætti í skólann.

miðvikudagur, 24. maí 2006

Da Vinci Code

Bíómyndin Da Vinci Code, sem gerð er eftir samnefndri bók, er nýjasta nýtt. Nema hvað, ég sá þessa mynd í gær. Þessi mynd er allt of löng og allt of mikið bull fyrir minn smekk. Lengd er í engu samræmi við innhald. Í lokakafla myndarinnar var ég alveg við það að missa þolinmæðina því innihaldið var ekkert og þetta var alltaf það sama aftur og aftur. Aðalhetjurnar voru látnar finna vísbendingu, sem vísaði á aðra vísbendingu og svo koll af kolli og söguþráðurinn var einkum byggður á því. M.ö.o. voru þessir eilífu vísbendingafundir blóðmjólkaðir svo að það reyndi verulega á þolrifin að sitja undir þessu. Og miðað við þessar endalausu vísbendingar sem vísuðu á vísbendingar hefði lokafundurinn átt að vera eitthvað rosalega mikilfenglegt, en svo var ekki. Yfirbragðið á þessu öllu saman var að sjálfsögðu hádramatískt.

Leikararnir voru ekkert lélegir þannig lagað, en enginn sýndi stórleik. Útlit myndarinnar var fínt.

Ekki fara á þessa mynd. Hún er tímasóun. Sjáið frekar MI III eða eitthvað.

Einkunn: 5,0.

þriðjudagur, 23. maí 2006

Popp

Ég hlusta langmest á rokk. Fáar popphljómsveitir eiga upp á pallborðið. Ein sker sig þó úr, Belle & Sebastian. Þar er á ferðinni dúndurgóð popphljómsveit. Á nýjasta disknum, The Life Pursuit, mæli ég sérstaklega með:

Sukie in the Graveyard
White Collar Boy

Annars eru þau flest mjög góð.

sunnudagur, 21. maí 2006

Stund sannleikans

Í kvöld klukkan 23:07 upplifði ég stund sannleikans. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir að prófum væri lokið fyrr en þá. Í gær var að vísu fagnaður og fólk dansaði og söng og skálaði. En samt tengdi ég ekkert af þessu við próflok. Þokunni sem hafði legið á mér í prófunum var ekki létt. Þótt ég vaknaði ekki fyrr en um tvöleytið í dag og slæptist allan daginn tókst mér ekki að tengja það á nokkurn hátt við próflok.

Það var ekki fyrr en í kvöld klukkan 23:07 sem stund sannleikans rann upp; "Hei, hva...læra?...ha?...nei, þarf ekki að læra". Með þessari hugsun tókst mér að tengja, prófin eru búinn. Ég rak um fagnaðaróp.

Verðlaun

Ég vil að fólki sem verðlaunar sjálft sig, verði veitt verðlaun. Sérstaklega fólki sem segir: "Nú ætla ég að verðlauna sjálfa(n) mig og kaupa ís". Sniðugt að verðlauna bara sjálfan sig ef enginn annar gerir það.

Ég er að hugsa um að verðlauna sjálfan mig fyrir að vera búinn í prófum. Ég held að ég neyðist bara til að láta smíða handa mér verðlaunapening. Já.

fimmtudagur, 18. maí 2006

Finnland

Silvía Nótt var frekar smekklega til fara miðað við ýmsa keppendur í undankeppninni í kvöld. Hefði jafnvel getað verið trúrækin hefðarfrú miðað við portkonurnar sem spruttu fram á sviðið hver af annarri. En hún virtist mjög stressuð og söng ekki vel. Að leika þennan karakter er væntanlega ekki létt til lengdar.

Finnland vinnur vonandi aðalkeppnina, enda gjörsamlega óboðlegt að 80% laganna í keppninni eru sama glataða lagið.

miðvikudagur, 17. maí 2006

Át

Ég neyðist til að éta ofan í mig spá mína um að Arsenal sigruðu Barcelona í venjulegum leiktíma. Barcelona vann í venjulegum. Hér með ét ég spádóminn ofan í mig.

Arcade Fire

Veit að ég er ekki fyrstur með fréttirnar en Arcade Fire eru mögnuð hljómsveit frá Kanada. Mætti kannski koma fram líka að Kanada er mjög vanmetið land, það tengist reyndar fyrstu fullyrðingunni að takmörkuðu leyti.

þriðjudagur, 16. maí 2006

Dýrð sé drottni halelúja!

Munnleg próf eru þekkt fyrir að byggjast að töluverðu leyti á heppni, vegna þess að nemendur draga miða með verkefnum sínum. Sumir detta í lukkupottinn, aðrir detta í drullusvaðið. Fyrir munnlega stærðfræðiprófið í kvöld (var í prófi kl.19 eins steikt og það hljómar) ákvað ég að draga regluna um topppunkt fleygboga, enda kunni ég hana 100%. Síðan kom ég inn í prófið, pollrólegur og leit á miðahrúguna á borðinu og sá um leið álitlegasta miðann af þeim á að giska 40 miðum sem þarna voru. 2b stóð á miðanum og kennarinn grennslaðist fyrir í möppu sinni og lét mig hafa verkefni 2b, sem var topppunktsreglan (setja fram og sanna), önnur skítlétt sönnun (um rætur í annars stgs jöfnu) og síðan dæmi. Sannanirnar báðar hafði ég 100% en þruglaði aðeins í dæminu.

Niðurstaða: Blússandi.

mánudagur, 15. maí 2006

20. maí?

Ég las á einhverri bloggsíðu úti í bæ að fyrstu einkunnir kæmu ekki fyrr en eftir 20.maí. Vafasamt.

Gríms-plokkfiskur

Ef ég kemst ekki í prófið á morgun vegna matareitrunar, veit ég við hvern er að sakast. Ógeðslegt bragð Gríms-plokkfisks og viðurstyggilegt eftirbragðið sem situr lengi eftir er nokkuð sem bæði ÁG veitingar og Matstofa Daníels gætu verið stolt af. Mér líður eins og fanga þegar ég slafra þessu óæti í mig. Eins og ekki sé nóg að sitja fastur inni í prófalestri og líða eins og fanga með það, heldur bætist þetta ofan á það og kórónar þannig fangelsistilfinninguna.

Grímur kokkur, tékkið á honum.

sunnudagur, 14. maí 2006

Aulabrandari

Hva, Moggi sagði upp.

Er ekki venjan að fólk segi upp Mogganum en ekki öfugt?

Spá

Helstu fjölmiðlar hafa birt spá um lokastöðu Landsbankadeildar eftir sumarið. Hér er mín spá:

1. ÍA
2. FH
3. Valur
4. Keflavík
5. KR
6. Breiðablik
7. Víkingur
8. Fylkir
9. Grindavík
10. ÍBV

laugardagur, 13. maí 2006

Bikarmeistarar

Fokk, annar epískur úrslitaleikur og ég missti af honum af því að ég var að læra sannanir.

fimmtudagur, 11. maí 2006

Háð skilafresti

Tilvitnun dagsins á nafni. Kona í Sky Captain and the World of Tomorrow sagði í íslenskri þýðingu:
"Ég er háð skilafresti" um eitthvað sem hún átti að skila af sér á tilsettum tíma.
Nafni: "Háð skilafresti? Hva, farðu þá í meðferð"

Silvía

Silvía Nótt mætti ekki á auglýsta samkomu á Esso í gær. Margir foreldrar voru mættir með börn sín til að hitta goðið. Silvía mætti ekki og börnin urðu vonsvikin og foreldrarnir bálreiðir. Hvað á það að þýða að börnin fái ekki að hitta fyrirmynd sína?!

Nú á Silvía að vera ádeila, grín að bandarískum áhrifum í íslensku samfélagi og gelgjustælum sem tröllríða jafnvel fólki yfir tvítugt. Enn fremur ádeila á stjörnudýrkun og vitleysu. Eða svo er mér sagt.

Skilja börn þetta sem ádeilu eða líta þau á Silvíu sem fyrirmynd?

Silvía, frábær fyrirmynd fyrir börn. "Mamma, ég vil vera klædd eins og Silvía" (þ.e. eins og dræsa). Sniðugt. Minnir óneitanlega á myndasögu Hugleiks þar sem litla stelpan tilkynnir pabba sínum að hún ætli að verða hóra þegar hún verður stór og hann segir bara: "Takk Popptíví".

miðvikudagur, 10. maí 2006

Verðandi heimsmeistarar

Hér með spái ég Svíum sigri á HM í knattspyrnu í sumar. Nú kynnu sumir að segja að slík spá væri algjörlega úr lausu lofti gripin. Það er hárrétt hjá þeim.

sunnudagur, 7. maí 2006

Lærdómur

Í dag er ég búinn að hesthúsa kafla 15-18 í Inquiry into Life og alveg búinn í hausnum. Í gær torgaði ég 28. og 11. - 14.kafla. Á morgun er stefnan sett á kafla 19-21 og glósurnar úr 29-31. Djöfulsins sturlun.

Síðan ætla ég að búa til flettispjöld á morgun með atriðum sem erfitt er að muna (virkni vítamína, Hardy-Weinberg, mótefni o.fl.).

Þetta var ekki áhugverð færsla en þó lýsandi fyrir síðustu tvo daga.

Orsök og afleiðing

Um daginn margristarbrotnaði Wayne Rooney í leik með M.U. Áður en það gerðist hafði verið uppi hávær orðrómur meðal Englendinga um að þeir yrðu heimsmeistarar í sumar. En nú er komið annað hljóð í skrokkinn: Nú er öruggt að Englendingar verða ekki heimsmeistarar af því að Wayne Rooney verður ekki með.

En hvað þeir eru sniðugir að búa til afsökun fyrirfram ef þeim gengur illa. Rugl.

föstudagur, 5. maí 2006

Óumflýjanleg ganga

Esjuganga að næturlagi í lok maí er óumflýjanleg. Ég finn það á mér.

Og þar með er ég búinn að plana framtíðina. Ekki langt fram í framtíðina en só, só vott.

Jar

Jarðfræðiprófið var óttalega létt nema ein spurning þar sem ég vissi lítið en vildi voða voða vel. Treysti á góðvildarstig frá kennaranum þar.

miðvikudagur, 3. maí 2006

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn hringdi í mig í atkvæðaveiðum. Ég ákvað að leyfa honum að flytja mál sitt. M.a. var ég spurður hvort ég byggi í foreldrahúsum. Ég svaraði játandi og þá: "Já, það mætti kannski benda þér á að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar einmitt að hjálpa ungu fólki að fóta sig og koma þaki yfir höfuðið, sérstaklega þar sem allt er svo dýrt núna"

Frábært, já, jess. Ég kýs Sjálfstæðisflokkinn. Þeir hringdu og þeir hafa lausnir! Halelúja!