sunnudagur, 18. nóvember 2007
miðvikudagur, 14. nóvember 2007
Lús í spilum
Þegar ég var yngri spilaði ég oft við ömmu. Ég var oft látinn stokka eins og gengur og gerist en stokkaði iðulega of mikið að hennar mati. Þá fleygði hún oftast fram frasanum:"Stokkaðu nú ekki lús í spilin, drengur!"
Í gamla daga hefur sjálfsagt oft komið fyrir að spilastokkarnir væru lúsugir eftir að einhver hafði stokkað þá of lengi. Ekki ósvipað og þegar líf kviknar í mjölinu og svona. En þetta er góður frasi og mætti yfirfæra hann á fleiri hluti, til dæmis:
- Við uppvask þegar vaskari virðist ætla að vaska pottinn of vel upp: "Vaskaðu nú ekki lús í pottinn!"
- Við grillið þegar grillarinn virðist í þann mund að brenna borgarana: "Grillaðu nú ekki lús í borgarana!"
- o.s.frv.
Flokkur/flokkar: Íslenska
Brasilískt vax
Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er frétt með fyrirsögninni Karlmenn verða háðir brasilísku vaxi og þar stendur að það njóti sívaxandi vinsælda. Reyndar ber þessi frétt sterkan keim af auglýsingamennsku því einhver kona á nafngreindri snyrtistofu lýsir þessu yfir og haft er eftir henni í fréttinni ýmislegt um ágæti vaxins.Að því gefnu að þetta sé rétt, eftirspurn hafi snaraukist, er þetta enn eitt dæmið um ruglið sem virðist fylgja velmeguninni. Kannski voru það mistök að fá sjálfstæði frá Dönum um árið. Kannski er bara best að búa við skort og einbeita sér að því að hafa til hnífs og skeiðar, í staðinn fyrir að vaða upp fyrir haus í ruglinu sem fylgir miklu magni peninga í umferð, reynandi að kaupa lífsfyllingu með ýmsum leiðum. Þá eru menn a.m.k. ekki hlaupandi í brasilískt vax á milli þess sem þeir tryllast yfir opnun stærstu leikfangaverslunar landsins og kaupa nýan sportbíl á nýu bílaláni. Í staðinn kroppa þeir maðkana úr mjölinu og naga hálfsársgamla skreiðina, klæddir mölétnum klæðunum í hnipri í dimmu skúmaskoti inni í torfbænum með smá ljóstýru frá lýsislampanum og láta hugann reika um brasilíkst vax og stórar leikfangaverslanir.
Flokkur/flokkar: Neytendur
þriðjudagur, 13. nóvember 2007
Framandi matargerð eða ólögleg loðnubræðsla
Leigjendur af erlendu bergi brotnir hafa hreiðrað um sig í kjallaraíbúð hússins fyrir fáeinum mánuðum. Undanfarnar vikur hefur gosið upp heiftarleg matargerðarlykt úr þeirri íbúð vikulega eða oftar. Lyktin er gríðarlega framandi, með kæstu ívafi og gjarnan keim af fúlum fiski.Annar möguleiki sem mér hefur dottið í hug er að fólkið sé með ólöglegan rekstur, kannski loðnubræðslu eða aðra lyktsterka framleiðslu þarna niðri. En svo er spurningin hvað á að gera í svona málum. Kalla til heilbrigðiseftirlitið? Láta yfirvöld einangra kjallaraíbúðina? Eða bara banka upp á og lýsa frati á framandi matargerðina?
fimmtudagur, 8. nóvember 2007
Rannsókn: Varasamt að neyta málningar
Vísindamenn í Bretlandi hafa komist að þeirri niðurstöðu að varasamt sé að neyta málningar út á morgunkorn. Rannsóknin var gerð þannig að tveir 50 manna hópar með jöfnu hlutfalli kynja milli 20-30 ára voru skoðaðir. Annar hópurinn setti mjólk út á morgunkorn sitt í einn mánuð en hinn setti gula málningu. Ekki var unnt að greina verulegar breytingar á heilsu fyrri hópsins en þeir sem notuðu málninguna virtust verða varir við ýmsar aukaverkanir, t.d. höfuðverk, slappleika og dauða.Niðurstaðan þótti mjög áhugaverð og tilefni til frekari rannsókna í þessum efnum.
Að gera rannsóknir á augljósum hlutum virðist vera það nýjasta, sbr. mbl.is:
"Rannsókn: Orkudrykkir hækka blóðþrýstinginn"
Flokkur/flokkar: Fréttir
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)