sunnudagur, 30. apríl 2006

Símtal

Það er með ólíkindum hve oft fólk hringir í mig en ætlar að hringja annað og stundum er þetta of steikt. Í dag hringdi maður:

"Góðan daginn"
Ég: "Góðan daginn"
Maður: "Hvar er þetta?"
Ég: "Guðmundur heiti ég"
Maður:"Nújá, þá er þetta kannski skakkt númer. Ég hélt að ég væri að hringja í dömu sem ég fékk númerið hjá"
Ég: "Já, ég held að ég sé ekki hún"
Maður: "Nú jæja, þá ætla ég að prófa annað númer og athuga hvort hún svarar þar"
Ég: "Aha"
Maður: "Allt í lagi, bless"
Ég: "Bless"

Nú veit ég ekki hvernig flestir hafa þetta, en mér finnst frekar steikt að hringja í skakkt númer og greina þeim sem svarar skýrt og skilmerkilega frá því hvert maður ætlaði að hringja. Er þetta kannski eitt stórt samsæri? Er kannski bara fullt af liði alltaf að þykjast vera með mitt númer?

Annars hefði ég átt að tækla þetta betur, segja að meint dama væri einmitt stödd þarna, biðja hann að bíða og skipt síðan yfir í lélega eftirhermu af kvenrödd og athuga hvort hann léti gabbast.

föstudagur, 28. apríl 2006

Göng og þjóðarsátt

Nú er slagurinn fyrir borgarstjórnarkosningar hafinn. Framsóknarflokkurinn er ferskarstur af öllum að sjálfsögðu með Björn Inga gleiðbrosandi í auglýsingum sem auglýsa æðislega stefnu:

Þeir ætla að bora í sundur Öskjuhlíðina. Síðan má nota jarðveginn sem fæst úr því í landfyllingu úti á Skerjafirði og þangað á flugvöllurinn síðan að fara og þjóðarsátt verður um það.

Af hverju datt engum þetta í hug fyrr? Þetta er svo æðislegt. Þetta unga fólk í Framsóknarflokknum veit svo sannarlega hvað er borgarbúum fyrir bestu.


Hver vill ekki fá þetta fólk í ábyrgðarstöður?

Framtíðin (að því gefnu að Framsóknarflokkurinn verði kosinn til að stjórna borginni) lítur þá svona út:



1. Gat borað á Öskjuhlíð.
2. Jarðvegurinn fluttur út á sjó.
3. Þjóðin sátt.


Sátt þjóð

þriðjudagur, 25. apríl 2006

Hver er maðurinn?


Spurt er um nafn og stöðu.

Segist leiðinlegur

Blaðið í gær greindi frá því að forsætisráðherra Hollands segist vera "fremur leiðinlegur". Enn fremur mun hann hafa sagt að ekki væri verra að vera "dálítið hressari" en þverneitaði þó að koma fram á kosningafundum á danshúsum og næturklúbbum.

Mér fannst þetta "fremur Baggalútsleg frétt", en þar sem þetta var ekki á Baggalúti og ekki er 1.apríl, hlýtur þetta að vera satt.

Skyldu fleiri forsætisráðherrar fylgja fordæmi hans?

mánudagur, 24. apríl 2006

Ómetanlegur drengur

Ég á fáránlega mikið af litlum frændsystkinum, fimm eða sex eða sjö eða ég veit ekki hvað. Hvert þeirra hefur sín einkenni í hegðun, atferli og framkomu. Eitt er þó manna fyndnast, drengur að verða tveggja ára. Ég var í matarboði hjá frænku minni í gær og hann var líka mættur með foreldrum sínum. Eftir matinn fóru hann og systir hans að leika sér. Fullorðna fólkið (vafasamt samt að telja mig með því) sat áfram við matarborðið.

Eftir smástund komu nokkrir auga á drenginn þar sem hann tók, mjög varlega, skrautmuni í gluggakistunni, sem hann vissi að hann mátti ekki snerta, og gægðist um leið í áttina að okkur með eitt mesta skítaglott sem ég hef séð. Þá var hlegið að honum. En hann vildi greinilega skammir því þá hélt hann áfram að glotta og hreyfði skrautmunina svolítið minna varlega. Þá kom foreldri og greip hann glóðvolgan við verknaðinn og fjarlægði hann af vettvangi.

Svo var hann að sjálfsögðu látinn laus eftir smá varðhald. Nokkrar mínútur liðu og þá sáum við hann glottandi að sötra úr blómavasa. Þá fjarlægðu foreldrarnir hann aftur af vettvangi.

Um daginn var ég líka staddur á sama stað og drengurinn. Ég sat pollrólegur í stól og allt í einu kom drengurinn hlaupandi að mér, stoppaði og leit á mig, og sprakk síðan úr hlátri.

Ef þessi drengur verður ekki eitthvað rosalegt í framtíðinni skal ég hundur heita.

föstudagur, 21. apríl 2006

Gallup

Símakönnun frá Gallup sem tók korter, átti að taka 8 mín. Ómetanlegt.

fimmtudagur, 20. apríl 2006

Innihaldslaust hræsnisþvaður

Sigtið í kvöld olli ekki vonbrigðum frekar en síðast.

Á mínum ungri árum í sveitinni rifumst ég og vinur minn einu sinni heiftarlega um hvort sumar væri komið þegar sumardagurinn fyrsti kom. Ég sagði að þetta héti bara sumardagurin fyrsti, sumarið kæmi ekki raunverulega fyrr enn í júní en að vorið væri hugsanlega komið. Hann beitti rökunum: "Af hverju heldurðu að þetta heiti sumardagurinn fyrsti?! Þetta er fyrsti dagur sumarsins". Síðan rifumst við um þetta í að minnsta kosti hálftíma og litlu munaði að hnefarnir væru látnir tala. Mig minnir að taktíkin "Mamma segir..." og "Pabbi segir..." hafi líka verið notuð við þetta tækifæri. Foreldrarnir taldir óskeikulir og alvitrir á þessum árum.

Ég veit ekkert af hverju ég man þetta og því síður hvers vegna ég er að skrifa þetta. Sennilega mundi ég þetta út af því að í dag er sumardagurinn fyrsti.

Held ég sé alveg tilbúinn að slást um þetta frábæra deiluefni núna.

miðvikudagur, 19. apríl 2006

Söguprófið

Fyrsta prófið búið. Ég lýsi frati á spurninguna úr 3.bekkjarefninu, hún var að segja frá harmleikjum og harmlikjaskáldum Forn-Grikkja. Annars vona ég að ég nái, skrifaði rúma eina og hálfa síðu um Jón Sigurðsson. Svo held ég að ég hafi tekið spurninguna um pólitískar hugmyndastefnur sem komu fram á 19.öld í nefið, fyrir utan að ég gleymdi að nefna þjóðernishyggju, sem var mikill sauðsháttur.

En nú ætla ég að gleyma þessu prófi og fara að pæla í næsta.

þriðjudagur, 18. apríl 2006

Sögulestur

Franz Ferdinand var skotinn. En af hverju skaut enginn Hitler?

sunnudagur, 16. apríl 2006

The Shawshank Redemption

Af hverju hélt ég að þessi mynd væri frá því í fyrra? Hún er frá 1994. Sá hana í gær.

Hvað um það. Gott 142 mínútna drama. Morgan Freeman rosalegur. Tim Robbins góður.

Einkunn: 9,5.

laugardagur, 15. apríl 2006

Sigtið

Sá þáttinn Sigtið á Skjá einum áðan. Hafði séð einn þátt úr þáttaröðinni áður sem fjallaði um ýmiss konar fælni. Þátturinn núna fjallaði um hönnun og var frábær.

Sigtinu stjórnar fjölmiðlamaðurinn Frímann Gunnarsson, sem leikinn er af Gunnari Hanssyni. Með Gunnari í þáttunum eru Halldór Gylfason og Friðrik Friðriksson. Enginn þessara þriggja hefur verið hátt skrifaður hjá mér fyrr en núna. Helsta fyrirmyndin að Frímanni þessum virðist vera Jón Ársæll, sem stjórnar Sjálfstæðu fólki.

Þessi fleðulegi froðusnakkur var ótrúlega svipaður Jóni í hegðun, atferli og framkomu, nema að hann var fyndnari. Kjaftavaðallinn sem átti að vera heimspekilegur var hrein snilld. Ég hló meira og minna allan þáttinn og fullyrði að þetta er besti gamanþáttur Íslands í langan tíma.

Nokkrir íslenskir sjónvarpsmenn mættu alveg taka til sín ádeiluna úr þessum þáttum.

föstudagur, 14. apríl 2006

Fávitaskapur á föstudeginum langa

Ég var boðinn í mat hjá frænku. Ég ók þangað glaður í bragði, fullur eftirvæntingar, hvað skyldi nú vera í matinn? Hreindýrskjet með súrsætri sveppasósu? Ofnbakaður grís með epli í kjaftinum og ilmandi baguette? Granatlax með sólþurrkuðum tómötum og paté? "Namm" hugsaði ég. Ég gleymdi mér við þessar vangaveltur og keyrði næstum því framhjá bensínstöðinni í Fossvoginum, en það rétt slapp fyrir horn.

Ég renndi að bensíntankinum og steig út. Þegar ég smeygði lyklinum í skrána á bensínlokinu rak ég upp heröskur svo glumdi í Esjunni. Ég fékk heiftarlegan straum af helvítis skrjóðnum og braut bíllykilinn þegar ég kipptist til. Tautandi nafn Skrattans og allra hans þúsund púka í hálfum hljóðum fór ég inn á bensínstöðina og borgaði bensínið. Síðan rétti ég fram kengboginn lykilinn og spurði eins og hálfviti hvort þeir kynnu að laga þetta. Þá fékk ég spjald neyðarþjónustunnar og karlinn á stöðinni sagðist ætla að athuga þetta og sótti töng og rétti lykilinn. En hann var þó þannig brotinn að ég hætti ekki á að setja hann í svissinn ef búturinn skyldi losna af þar.

Ég hringdi eins og hálfviti í frænku og sagðist hafa brotið lykilinn. Maður frænku kom og sótti mig og við keyrðum heim þar sem ég lúrði á aukalykli (sem er að vísu aðeins boginn. Drasl) og síðan aftur í Fossvoginn þar sem ég gat tekið bílinn og ók rakleiðis í matinn til frænku, hálftíma of seinn.

Þetta var lykillinn sem ekkert mátti koma fyrir samkvæmt móður minni. Ég er greinilega lyklaböðull því það var líka ég sem skekkti hinn lykilinn þannig að hann gengur ekki að bensíntankinum.

miðvikudagur, 12. apríl 2006

Walk the Line eða V for Vendetta

Myndirnar sem ég hef séð í bíó nýlega eru þessar. Walk the Line olli vonbrigðum. Gef henni 7,5. Sú sem lék fyrri konu Cash lék t.d. ekki sérlega vel og sagan var slappari en ég bjóst við. Hins vegar ætla ég ekki að kasta neinni rýrð á texta- og lagasmíðar meistarans.

V for Vendetta var hins vegar yfir væntingum og fær 9,0. Svakaleg vísindaskáldsaga.

Blindsker var í Sjónvarpinu um daginn. Önnur mynd um tónlistarmann og hún var betri en sú um Cash.

þriðjudagur, 11. apríl 2006

Dimissio

Á föstudaginn var dimmitering í skólanum. 6.U mætti íklæddur eins og John Travolta, Olivia Newton John og félagar í Grease. Frekar verslólegt þema en einhver verður að taka það. Bjóst alveg eins við að okkar búningar yrðu glataðastir en það var langt frá því, einn bekkurinn mætti t.d. sem fótboltamenn. Óþarfi að minnast nokkuð frekar á það. Diskónegrarnir voru langflottustu búningarnir að þessu sinni en hljómsveitin Kiss var einnig nokkuð öflugt þema.

Dagurinn var mjög skemmtilegur þótt 6.U hafi án vafa verið óvinsælastur á Pizza Hut með glymskrattann í botni allan tímann. Svo var farið í Kringluna og keypt áfengi og trallað. Kona í Bónus hélt að ég, Jósep og Gummi værum geðveikir eða hefðum lent í einhvers konar tímavarpi vegna þess hve fávitalegir við vorum með brilljantín í hári og í T-birds leðurjökkum.

Fórum í keilu þar sem ég náði 152 stigum á yfirnáttúrulegan hátt. Svolgruðum bjórinn í okkur í keiluhöllinni í tvo tíma en þá kom starfsmaður og tilkynnti okkur að áfengi væri bannað í húsinu. Hann leyfði okkur að klára úr dósunum sem við vorum að drekka úr en tók síðan birgðirnar til vörslu í afgreiðslunni.

Um kvöldið var partý þar sem Hildí átti tilkynningu kvöldsins. Eftir partýið var farið á Prikið.

Íris sýndi þá miklu snilld að festa síðasta skóladaginn og dimissio á filmu og hér eru nokkrar rosalegar myndir:

DIMISSIO:
Bekkurinn krýnir Helga Ingólfs upplýtan einvald við hátíðlega athöfn

Bekkjarsystur í skærbleikum jökkum svo fólk fékk ofbirtu í augun

Bekkjarmynd.

Diskónegrar

Súrrealísk stemming í Kringlunni.

SÍÐASTI SKÓLADAGURINN:

Ég og Jósep að fara yfir fjárhagsáætlun 2007, eða eitthvað

Inspector fékk að valsa um með veldissprotann í tilefni dagsins.

Mynd ársins. Jósep að taka við verðlaunum fyrir fúlasta aulabrandara vetrarins frá Mörtu.

Stundaskrá

Á sunnudaginn gerði ég dulítið brall í bauk og bjó til stundaskrá fyrir páskafríið. Fyrsti dagurinn sem ég átti að fylgja henni var í dag og gekk það að mestu vel. Dagskráin í dag var eftirfarandi:

8:00-9:00; Morgunmatur & lesa blöðin.Gekk bara vel og ég sveikst ekki um.
9:00-9:40;SAGA. Garfaði samviskusamlega í bókinni Grikkland hið forna eftir Helga Ingólfsson.
9:50-10:30; SAGA Meira af því sama.
10:30-11:30; Út að skokka. Skokkaði út að Seltjarnarneskirkju og til baka.
11:30-12:40; Teygja, sturta, hádegismatur. Steikti svínagúllas í hádegismat og át með tómötum.
12:40-13:20; STÆRÐFRÆÐI. Reiknaði í fyrri 4.bekkjarbókinni dæmi um hringi.
13:30-14:10; Út í búð. Fór í Bónus. Það var glatað.
14:20-15:00; STÆRÐFRÆÐI. Þarna var ég prakkari og sveikst um að læra fyrstu tíu mínúturnar, byrjaði 14:30.
15:10-15:50; ÍSLENSKA. Nú var ég orðinn alveg frussandi úr leiðindum og skrópaði í eigin íslenskutíma, lagði mig í staðinn.
15:50-16:40; KaffitímiBara kaffitími beint eftir hænublundinn. Þarna var ég heppinn. Fékk mér flatbrauð með bönunum og epladjús með.
16:50-17:30; JARÐFRÆÐI. Oj, leiðinlegasta fagið í 6.bekk. Lét mig samt hafa það og las um nokkra frumkvöðla. Nei, úbbs, íslenska er sennilega leiðinlegri. Jæja.
17:40-18:20; LÍFFRÆÐI Las í 27.kafla. Auðvitað þurfti hann að fjalla um sama efni og við lærum í jarðfræði í 6.bekk, steingervinga og tímabil jarðsögunnar o.fl. En ég komst lifandi frá þessu.
18:20-20:30; Kvöldmatur. Sauð egg og át á brauð ásamt meðlæti. Horfði á fréttir og talaði við mömmu á Skype.
20:40-21:20; ÍSLENSKA. Nú fattaði ég að ég hafði ofhlaðið töfluna. Átti að mæta í bandý kl.21 og gerði það. Við vorum bara fimm mættir svo það var bara farið í einsnertingu, síðan spiluðum við við einhverja gaura sem voru þarna í klukkutíma.
21:30-22:10; EyðaVar enn í fótboltanum þarna.
22:30; Sofa.Kom ekki heim fyrr en 23:50 og er enn vakandi kl.00:27. Djöfull.

Svipuð dagskrá er fyrir alla daga páskafrísins. Eins og það sé ekki næg geðveiki, þá snoðaði ég mig síðasta laugardag.

sunnudagur, 9. apríl 2006

NEYÐARÁSTAND

Dauð álft fannst á Elliðavatni.

FUGLAFLENSAN KOMIN TIL LANDSINS! HÆTTA Á FARALDRI.

LÁTIÐ MEINDÝRAEYÐA SKJÓTA PÁFAGAUKANA YKKAR!

SETJIÐ HUNDA, KETTI OG BÖRN Í EINANGRUN!

BINDIÐ ALLT LAUSLEGT!,

kv. Landlæknir.

fimmtudagur, 6. apríl 2006

Síðasti skóladagur

-Í dag var síðasti skóladagur.

-Sumir voru aðeins of mikið að velta sér upp úr: "Krakkar! Þetta eru síðasta hádegishléð okkar í MR!" og "Krakkar! Þetta er síðasti líffræðitíminn okkar í MR!" og síðasta hitt, siðasta þetta bleble.

-Litum inn í Hallann til Möggu, sem gaukaði ekki að okkur neinum klámbrandara í þetta skiptið, undantekningin sem sannar regluna.

-Í hádegishlénu fórum við á kaffihús og ég drakk þrjá kaffibolla, sem þýðir að ég get illa sofnað í nótt.

-Marta var að sjálfsögðu með glens og grín í síðasta líffræðitímanum, enda það aðalsmerki hennar. Hún veitti Huldu og Örnu litabækur í verðlaun fyrir framúrskarandi litanotkun á líffræðiskýrslum. Jósep fékk síðan páskaegg í verðlaun fyrir fúlasta aulabrandara vetrarins. Innt eftir því hvaða aulabrandari það hefði verið, vissi Marta ekkert því þeir höfðu verið svo margir.

-Síðasti tíminn var félagsfræði og hafði Helga bakað mikla sykurköku sem hún fóðraði okkur á og flutt voru hópverkefni um fjarlæg lönd.

-Útgjöld 6.bekkjar-nemenda eru mjög óeðlilega mikil. Alltaf þegar fólk heldur að nú hljóti þetta að vera búið bíða ný útgjöld við hornið: það nýjasta var: að redda öllu í dimissiobúning (15.000 kr.), dimissio-hlaðborð á pizzahut (1000 kr.) og fullt af allskonar helvítis kjaftæði.

-Ég fór í bankaleiðangur með Jósepa og uppskar vel úr orlofssjóði síðasta sumars. Einhver gamall göltur sem beið eftir afgreiðslu í KB-banka, sagði við mig: "HALLÓ!" Ég svaraði: "Já". Gamli: "Nú, hva, ert þú ekki varðmaður hérna?" Ég: "Nei, ég er ekki varðmaður hérna?" Mig langaði að spyrja hvort hann væri ekki "hálfviti hérna" en sleppti því.

---
UPPFÆRT: Ég skrifaði óvart globber.com í stað blogger.com áðan og komst að því að globber er til.

þriðjudagur, 4. apríl 2006

Síðasti gangaslagur Menntaskólans?

Fyrir þá sem ekki vita:Gangaslagur MR er árlegur viðburður þar sem 6.bekkingar eiga að reyna að hringja bjöllunni inn í tíma og þrír neðri bekkirnir eiga að hindra það.

Efast um að nokkurn tímann hafi fleiri tekið þátt í gangaslagnum í MR en í dag. 6.bekkur er mun fjölmennari í ár en mörg ár á undan. Samt sem áður tóku margir strákar úr 6.bekk ekki þátt. Mun fleiri stelpur voru í árásarliðinu en áður.

Hernaðartaktíkin var sú að allir skyldu ryðjast í einu yfir vörnina og knýja þá þannig til að víkja. Þetta reyndist mjög ósniðug taktík. Þegar hersingin ruddist niður stigann og mætti yngri bekkingunum neðst voru sumir sem bara tróðust með straumnum, aðrir stukku upp á þvöguna. Slatti af 6.bekkingum tróðst undir, sumir lentu alveg niður í gólf þar sem traðkað var á þeim. Flestar stelpurnar sem voru framarlega tróðust strax undir, keðjan fór af stað og menn stráféllu. Aðrir virtust ekkert fatta hvað væri að gerast og héldu áfram að troðast ofan á hinum, nokkrir urðu bláir í framan vegna þess að þeir gátu ekki andað. Ein stelpan sem var troðin niður í gólf missti meðvitund. Þeir sem lentu undir öskruðu "STOPP!" (Nema þeir sem náðu ekki andanum) en furðu mikinn tíma tók samt að koma öllum í skilning um ástandið. Loks tókst að koma skikk á og voru allir reknir út í hasti. Þá var hugað að stelpunni sem missti meðvitund og náði hún fljótlega meðvitund aftur. Gangaslagurinn stóð því ekki nema 2-3 mínútur og hvorug fylking vann að þessu sinni.

Held að það hafi verið þrjú eða fjögur lög af föllnum 6.bekkingum sem voru troðnir niður, ég var í næstneðsta laginu. Mér var alveg hætt að vera sama þegar stigið var á hausinn á mér niðri í gólfi, ekki af fullum þunga sem betur fer. Kannski var þetta síðasti gangaslagurinn. Ef ekki var talað um að settar yrðu verulega hertar reglur í kjölfarið á þessari ringulreið.

Alveg er makalaust að fólk þurfi að hundsa fyrirmæli sem rektor gaf fyrir slaginn: bannað að nota lýsi. Að sjálfsögðu voru svartir sauðir sem mættu með lýsi og mökuðu á sig. Eftir slaginn heyrði ég einn strák segja að það hefði nú verið meiri aumingjaskapurinn í þessum stelpum að öskra, hann hefði nú sjálfur næstum troðist undir og alveg haldið kúlinu. Þvílíkur bjáni. Það var nú bara mesta mildi að enginn dó í þessum stutta slag, spurnig um 1/2 - 1 mínútu.

sunnudagur, 2. apríl 2006

Týndi sonurinn

Ég hef fundið týndan son minn. Sam Neill heitir hann og er leikari og þáttastjórnandi. Sam veit ekki bara allt, heldur getur hann líka allt og svo er hann svo klár. Ég ætla að ættleiða hann á morgun.


Sam skálar í rauðvíni, sjálfsagt fyrir eigin yfirburðum á öllum sviðum.

laugardagur, 1. apríl 2006

Ömmer vann

MR vann víst MORFÍS í fyrsta sinn síðan sautjánhundruð og súrkál í gær. Déskoti gott hjá þeim. En ég missti af keppninni sem var slappt.

Er þetta byrjunin á margra ára sigurhrinu eins og í Gettu betur? Ég spyr, þú svarar.

Titillinn er vísun í það sem Ólafur nokkur sagði mér um árið, að útskrifaðir MR-ingar segðu alltaf Ömmer. En ég má nú helst ekki skrifa þetta því ég er ekki útskrifaður.

Bætti við tengli á Einar.