sunnudagur, 20. júní 2004

Fótatak

Ég var að labba úr Smáranum í gær eftir miðnætti. Ekki voru margir á ferli. Skyndilega heyrði ég fótatak fyrir aftan mig. Ég gekk áfram. Fótatakið fyrir aftan mig magnaðist. Þá fór ég að labba hraðar. Það gat þess vegna verið einhver morðóður geðsjúklingur fyrir aftan mig. Hvað veit ég? Það er nóg að geðveiku liði þarna úti. Það var reyndar frekar líklegt að þetta væri morðóður geðsjúklingur. Enn jókst fótatakið. Geðsjúklingurinn var væntanlega kominn með stóra öxi á loft núna og sem hann hyggðist höggva mig með við fyrsta tækifæri. Ég gekk hraðar og hárin á höfðinu risu. Ég er reyndar ekki með nein hár á höfðinu því ég er snoðaður, en ímynduð hár á höfðinu risu. "Excuse me" heyrðist þá. Ég ákvað þá að stoppa. Ekki það að svona brjálæðingar geti ekki sagt "Excuse me". En ég ákvað samt að stoppa. Ég leit aftur. Þar var enginn brjálæðingur, bara meinleysislegur útlendingur. Hann kom síðan og spurði mig til vegar. "What is the best way to downtown Kópavogur?". Ég sagði honum það eftir bestu getu. Eru þá ekki allir sáttir?

Kannski hefur maður séð of margar hryllingsmyndir.

laugardagur, 12. júní 2004

EM 2004

Það eru nokkrar reglur sem virðast alltaf vera við lýði í kringum EM:
-Þjóðverjar eru alltaf vanmetnir.
-Frökkum spáð titlinum.
-Helstu spámenn hafa rangt fyrir sér.

Stórleikur Frakklands og Englands er á sunnudagskvöld. Ég tippa á Englendinga. Það sem segir í blöðunum að vörn Englands sé veikur hlekkur er djöfulsins kjaftæði. Það er hins vegar alltaf erfitt að stoppa Henry. Samt sem áður vinna Englendingar.

Lettar og Rússar munu kúka á sig. Ég spái ekki um sigurvegara. Held með Dönum.

Spenningur mikill. Þetta verður án efa frábær keppni.

fimmtudagur, 10. júní 2004

Nosirrah egroeg

Lög sem vert er að nefna sem hljóma þessa dagana:
Nosirrah egroeg - Lokbrá
Float On - Modest Mouse
Talk Show Host On Mute - Incubus (fyrsta almennilega lagið frá þeirri hljómsveit)
Matinée - Franz Ferdinand

Tvær hljómsveitir, sem tröllríða öllu núna, hafa óverðskuldaðar vinsældir að mínu mati. Það eru Mínus og ástralska hljómsveitin Jet. Á plötu Mínus, Halldór Laxness, eru tvö frambærileg lög: Long Face og að sjálfsögðu Romantic Exorcism. Annað á plötunni er varla boðlegt. Gríðarlegar vinsældir Mínus eru út í hött. Ástralirinir í Jet sem gaula Cold Hard Bitch bla bla bla, eru einnig glataðir.

föstudagur, 4. júní 2004

Sjónvarps- og útvarpsfólk lendir alltaf reglulega í því að vita ekki að útsending sé í gangi. Þá heyrist oft og sést e-ð spaugilegt. Ég er alltaf að bíða eftir því að Jóhanna í Íslandi í dag reki fúlt við og ropi hátt í útsendingu og hlæji síðan vandræðalega og segi: "afsakið, ég vissi ekki að ég væri í útsendingu". Það gæti verið hressandi.

Dúndrandi partý í heila viku

Þeir sem sáu mig við Mjódd áðan með kassa í tugatali frá Vínbúðinni hafa líklega sagt við sjálfa sig: "Já nú verður sko partý hjá Guðmundi". Að maður tali nú ekki um þegar ég kom skömmu seinna með annað eins magn kassa úr apótekinu. "Já, nú verður strákurinn sko með partý í heila viku, þar verður ölið ekki sparað og ekki læknadópið heldur".

Ég verð að hryggja þá sem héldu að svakalegt vikupartý væri í vændum. Kassarnir voru allir tómir. Þeir verða notaðir í flutninga.

miðvikudagur, 2. júní 2004

Fótbolti, bjór og reykingabann

Ég prófaði um daginn í fyrsta sinn að leika knattspyrnu undir áhrifum áfengis. Ég skoraði eitt mark og skaut oft fram hjá.

Nú er íslenski fótboltinn kominn á skrið. Ég fór á Fram-ÍA um daginn og var afar hressandi að sjá sína menn leggja Framara að velli. Fram kemur reyndar sterkara til leiks en síðustu ár með Ríkharð og Þorvald Makan og færeying. Þeir verða samt ekki meistarar. Tippa á ÍA að venju. Það er alltaf gaman að heyra í grínurum sem mæta á völlinn: "Gefðu boltann fíflið þitt!" "Út á kantinn!" "Ertu kerling?!". Eins og leikmenn fari eftir því hvað fávísir áhorfendur segja. Það er rosalega létt að sitja uppi í stúku og vera smákóngur og kalla menn illum nöfnum. Það var gaman að heyra þegar einn karlinn í áhorfendaskaranum dustaði rykið af konuröddinni og kom fyrirmælum til leikmanns. Þvílíkur grínari. Það er allt annað að kalla dómarann illum nöfnum, ég get vel skilið það enda hef ég gert það sjálfur. En að þykjast vera þjálfari og öskra á leikmenn er asnalegt.
Hvað er öskrað á leikjum í kvennaknattspyrnu?: "Ertu karl?!"

Ég er hlynntur því að reykingabann verði sett á veitinga- og skemmtistaði. Samúð mín með reykingamönnum er engin.