sunnudagur, 31. júlí 2005

Fylgir ábyrgð áfengi?

Siðapostular á vegum Vínbúðanna hafa nú fundið nýtt og brakandi slagorð: ÁFENGI FYLGIR ÁBYRGÐ. Nú fylgir nefnilega ábyrgð með hverri seldri áfengiseiningu í vínbúðunum. Ábyrgðin er á vökvaformi og bragðlaus svo hún spillir ekki réttu bragði áfengisins. Henni er einungis ætlað að veita þessa ábyrgðartilfinningu sem hefur vantað svo lengi með áfengi. Þeim mun meira sem menn drekka, þeim mun meiri ábyrgð öðlast þeir. Drafandi og þvoglumæltir skakklappar eru ekki lengur bara blindfullir, nú eru þeir líka stútfullir af ábyrgð: "Mmm, rosalegha err þetta drsasl gott. Gemmér meira, égh finn barra ábyrgðina hellast yfirhhh migg". Svo fara allir ábyrðarfullu fyllikútarnir og gera ábyrgðarfull verk. Þeir bjóðast til að gæta barna og þeir bjóðast til að fljúga flugvélum og þeir bjóðast til að boða boðskap Jesú: "Hann Jessú vahr skoo góður kahhdl. Hahnn saggði alltaff...". Frábær nýjung. Eykur ábyrgðina í heiminum og ekki var vanþörf á.

Ég veit hvað þeir eiga við og án efa vildu þeir vel en þetta er fáránlegt slagorð. Það hefur nefnilega lengi verið gallinn við áfengi að því fylgir ekki ábyrgð. Nær væri að brýna það fyrir fólki að gæta hófs með áfengi eða bara segja eins og Ragna Lára íþróttakennari í MR: "Komið svo jafnfalleg heim og þið fóruð að heiman" eða bara sleppa þessu alveg.

laugardagur, 30. júlí 2005

Þvottameistarinn

Nú er örstutt í að mamma hypji sig héðan út með sitt hafurtask og hyski (þ.e. systur mína). Flyst hún þá af landi brott og ég verð eigin herra hér á Íslandi. Áðan afhenti hún mér síðan lista með leiðbeiningum um notkun þvottavélarinnar. Listann mun ég nú birta hér í fullri lengd og óritskoðaðan, lesendum til glöggvunar og fróðleiks:
  1. Skrúfa frá vatni.
  2. Setja þvottinn í - sortera í ljósan (hvítt sensitive þvottaefni), dökkan (blátt þvottaefni eða þvottaefni fyrir svart eða color) og loks milli.
  3. Hafa hita stilltan á 40 - 50° C.
  4. Stilla á þvottakerfi FJÖGUR.
  5. Loka vélinni.
  6. Setja í gang.
  7. U.þ.b. tveimur og hálfri klukkustund síðar: Opna vélina, taka úr henni og hengja upp.
  8. Skrúfa fyrir vatnið.

Ekki mun langur tími líða þar til ég verð þvottameistari og þvæ eins og ég hafi verið fæddur í þvottavélinni. Þá mun ég án efa taka að mér þvotta fyrir gesti og gangandi og rukka ríflega fyrir.

fimmtudagur, 28. júlí 2005

Strípihneigð ellilífeyrisþega

Áðan var ég í matarboði. Strípihneigð ellilífeyrisþega í sólarlöndum kom til tals. Slík hneigð er vaxandi vandamál í nútímaþjóðfélagi. Ellilífeyrir og góðæri ýta undir vandamálið. Gamlingjarnir hætta fyrr að vinna og eru svo iðandi sprækir ennþá að þeir drekka sig fulla og klæða sig úr fötunum og fara hlæjandi niður á strönd í sólbað. Þeim finnst þeir ofsalega flippaðir og fyndnir. Gallin er sá að almenningur kemst ekki hjá því að sjá kjánana sprellandi um, dinglandi tittlingum og jullum - þeir eru svo flippaðir. Svo hlæja þeir.

Þegar ég fór til Króatíu fyrir ári síðan sáum við nokkur allsber, hlæjandi gamalmenni. Einn gerðist meira að segja svo djarfur að skokka í gegnum menntskælingaskarann sem var saman kominn á litlu torgi inni í bæ. Ekkert heilagt. Það er býsna langt síðan að það hætti að vera til siðs að vera allsber á almannafæri. Það var eftir að Eva heitin át ávöxt af skilningstrénu í Eden og blygðunarkenndin kom til sögunnar. Árans strípihneigðu ellilífeyrisþegarnir virðast hafa misst af þessu skrefi í þróuninni. Þrátt fyrir að vera hættir að vinna og farnir að spreða ellilífeyrinum mega menn ekki missa sig í ruglið og láta siðferðisgildi lönd og leið. Ég ætla aldrei að verða svona strípihneigður gamall skrattakollur. Því lofa ég hér með. Strípihneigðir ellilífeyrisþegar ættu að hafa sér land út af fyrir sig þar sem þeir geta spókað sig, einangraðir frá öðrum löndum heims.

Þessir ellilífeyrisþegar hafa vott af siðferðiskennd.

miðvikudagur, 27. júlí 2005

Vita konur lítið?

Ákvað að lesa Bakþanka Fréttablaðsins í dag. Oft sé ég mér ekki fært að lesa þá vegna þess að það er mjög oft tímasóun; skrifin eru svo oft argaþvarg og bull. En í dag var ekki svo. Nýr Bakþankaskrifari, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, ritaði sína fyrstu Bakþanka og voru þeir mjög góðir.
Þankarnir fjalla í stuttu máli um vantrú margs fólks á getu kvenna til að skrifa um stjórnmál og fleira þar sem karlar er í meirihluta. Tekur hún dæmi af sjálfri sér og kveðst oft hafa verið spurð á götum úti: "Hver hjálpar þér að skrifa greinar þínar?" Svarar hún því þá gjarnan til að enginn hafi hjálpað henni. Rekur fólk þá upp stór augu. HA?! Getur stelpuskjátan gert þetta alveg sjálf? Sigríður, þú veist að það er alveg ægilega ljótt að plata.
Lokaorð pistilsins eru: "Konum er allt fært!". Þarna verð ég að vísu að leiðrétta, það er: "Flest er fertugum fært!". Þrátt fyrir að ég sé margs vísari er nokkrum spurningum ósvarað, t.d.:
Hver hjálpaði henni að skrifa þessa Bakþanka? Kári Jónasson ritstjóri? Eða var það pabbi hennar?
Hver hjálpaði JK Rowling að skrifa Harry Potter?
Hver hjálpaði Vigdísi að verða forseti?

sunnudagur, 24. júlí 2005

Pabbi, pabbi, ég skoraði!"Gott hjá þér, sonur sæll"

laugardagur, 23. júlí 2005

Seasons in the Sun

Eftir djöfuls dumbunginn og norðangarrann sem lék um ljósa lokka fólks fyrr í sumar er sólin komin.

Í vetur þegar norðangaddur lemur rúðuna og menn sitja við matarborðið að bíða eftir kjötbollunum, kartöflumúsinni og brúnu sósunni með veðurfregnir Rásar 1 glymjandi í eyrunum, skyldu þeir muna að eitt sinn í júlí var sól, fólk hljóp berrassað og hlæjandi úti með sumargolunni um iðagræn engi og sólargeislarnir steiktu margan góðan drenginn. Einmitt þá, þegar veðurfréttakonan segir þurrlega "Garðskagaviti, norðaustan 10, skyggni ekkert" skyldu menn muna eftir sumrinu, taka hnífinn og gafalinn í höndina, nota þau til að tromma á diskinn á meðan vellingurinn bubblar á eldavélarhellunni, og syngja: "We had joy, we had fun, we had seasons in the sun..." og hafa gaman að.

En nóg um það, nú er ég farinn út aftur að eiga mitt season in the sun.

fimmtudagur, 21. júlí 2005

Lyfjasmökkun

Þar sem ég er lyfjafræðingssonur var ég dreginn áðan í lyfjafræðingamóttöku. Lyfjafræðingar komu saman prúðbúnir og veittu glænýju og brakandi fersku Lyfjafræðingatali viðtöku. Mér var að sjálfsögðu þrælað út á lúsarlaunum. Verk mitt var að deila út Lyfjafræðingatalinu við annan mann (ef einhver hefur áhuga kostar Lyfjafræðingatal 2005 12.000 kr. í lausasölu).

*Lyfjafræðingatalið var nú samt ekki ástæðan fyrir komu flestra lyfjafræðinganna. Þeir höfðu annað og betra í huga, nefnilega lyfjasmökkun. Lyfjasmökkun er fastur liður þegar lyfjafræðingar koma saman. Reyndar er "smökkun" fína orðið yfir það. Þegar klukkan slær átta eru flestir mættir og safnast í hóp inni í salnum. Veisluþjónusta Lyfjafræðinga er þá í óðaönn að hella marglitum töflum í skálar og mixtúrum í glös á veisluborðinu. Litlir gamlir karlar úr röðum lyfjafræðinga teygja sig upp á tær til að sjá betur og líta á töflurnar sem eru í öllum regnbogans litum. Greinilegan girndarglampa má lesa úr augunum á þeim og svo sleikja þeir aðeins út um enda búnir að bíða í marga mánuði eftir góðri lyfjasmökkun. Fljótlega gellur í veislustjóranum: "Gjöriði svo vel!" og þá hlaupa menn til og ná sér í pillubox og safna í það pillu hér og pillu þar. Þríhyrningsmerktu lyfin er fljót að klárast. Ef lagt er við hlustir heyrist í einhverjum:
"Namm! Mikið rosalega eru þessar rauðu góðar!" "Já, þetta er víst e-ð nýtt. Gárungarnir segja að þetta muni velta rítalíni út af markaðnum". "Ekki yrði ég hissa. Ég held að við ættum að ryðjast beint inn á Bandaríkjamarkað með þetta og taka hann með trompi."

Í öðru horni:
"Hva, Danni, á ekki að fá sér smá?"
Danni:"Nei, ég er á bíl"
"Láttu ekki svona, nokkrar pillur hafa nú aldrei drepið neinn"
Danni: "Nei, bara seinna."
"Kommon, þú færð þér nú aðeins með okkur strákunum"
Danni: "Jæja, gefðu mér þá nokkur stykki, bara rétt efst í boxið"

Margir gleyma að taka Lyfjafræðingatalið með sér þegar hugað er að heimför um kaffileytið daginn eftir. *

*Til að fyrirbyggja misskilning skal tekið fram að textinn er uppspuni ef frá er talin fyrsta efnisgrein.

miðvikudagur, 20. júlí 2005

Hjónabandsmiðlarinn

Stelpur ath.:
Það ætti kannski að nefna það að Hemmi Gunn er á lausu.

Í Blaðinu um daginn var mjög öflugt viðtal við Hemma sem ég mæli með.

sunnudagur, 17. júlí 2005

Gagnrýni: Sin City

Fór á svokallaða Power-sýningu á Sin City í Smárabíói í gærkvöldi. Ekki fann ég neinn mun á henni og hefðbundinni sýningu svo ég hef ekki hugmynd um hvað þetta Power stendur fyrir (hlýtur að standa fyrir aukinn hljóðstyrk). En hvað með það?

Menn úr öllum áttum hafa lofað þessa mynd í hástert svo væntingar voru nokkuð miklar. Ekki byrjaði myndin vel. Bruce Willis kom reyndar aðeins við sögu sem gömul kempa sem bjargaði ungri stúlku úr klóm barnaníðings. Síðan kom kafli með brjáluðum þorskhaus sem vildi hefna fyrir morð á vændiskonu. Það var óttalega vitlaus kafli og of mikið af ofbeldi. Það sem þessi mynd hafði hins vegar fram yfir Kill Bill frá upphafi til enda var að þarna var söguþráður, ekki bara eilífar samhengislausar blóðsúthellingar. En ekki var mikið vit eða skemmtanagildi fyrir hlé. Útlit myndarinnar og kvikmyndataka er hins vegar mjög flott. Svart-hvítt með einum og einum hlut í lit. Í hléi hugsaði ég að þessi mynd gæti aldrei fengið hærra en 5,0 í einkunn.

Hefndarþyrst hórugengi kom m.a. við sögu eftir hlé. Þegar höndin á Benicio Del Toro fékk að fjúka (Del Toro hefur verið nokkuð hátt skrifaður hjá mér en hann er frekar slappur í þessari mynd) hélt ég að myndin væri að verða eins og Kill Bill kjaftæðið. Eftir smá kafla þar sem væntingarnar lækkuðu enn frekar mætir Bruce Willis aftur á svæðið í hlutverki gömlu kempunnar. Þar kemur vendipunkturinn. Myndin breytist skyndilega úr ofgnóttarofbeldisþvælu í hágæðaspennumynd þar sem Bruce nokkur Willis er allt í öllu. Guli gæinn sem Bruce þarf að kála er líka mjög góður. Minnti hann okkur einna helst á Megas í útliti. Lokakaflinn er alveg fjári magnaður og það er síst orðum aukið að Bruce Willis hafi mætt á svæðið og rifið helvítis myndina upp á rassgatinu svo hún fer úr fimmunni sem hún var í um hlé og upp í 8,0. Willis fær 10 fyrir sinn þátt.

Einkunn: 8,0

laugardagur, 16. júlí 2005

Fótboltamótið

Árlegt fótboltamót KGRP var í gær. Gufunesþorskarnir mættu ekki svo við fórum beint í úrslit gegn Fossvogi. Töpuðum 5-2 og var Jason með bæði mörkin fyrir okkur. Nokkrir voru blóðugir eftir leikinn enda hart barist. Við unnum hins vegar vítaspyrnukeppnina auðveldlega og varði Siggi ófá skot Fossvogsara. Hér er fjallað meira um málið og svo er þessi svakalega mynd af liðunum.

fimmtudagur, 14. júlí 2005

Grilldagur og hjól

Árlegur Grilldagur Kirkjugarðanna var haldinn í Fossvogi í dag. Lambakjöt og pylsur voru grilluð. Pylsurnar vorur reyndar ekki grillaðar. Þær fóru á grillið í 2 sekúndur og síðan beint af aftur. Nammi og ís var einnig í boði. Viðurkenningar voru veittar fyrir framúrskarandi stundvísi og fengum við Hólavallapakkið 7 af 13 viðurkenningum. Því miður fékk ég ekki vegna þess að ég hafði einu sinni á tímabilinu stimplað mig inn klukkan 08:02 sem er tveimur mínútum of seint. Þar fór 15.000 kall í vaskinn. 15 þús. fyrir tvær mínútur er ekki amalegt kaup. Fótboltamót kirkjugarðanna er síðan á morgun.

Mig langar í nýtt hjól. Gamla hjólið hef ég átt síðan ég bjó í sveitinni og það eru rúm sjö ár síðan það var. Gírarnir eru leiðinlegir og svo er dekkið líka djöfull leiðinlegt. Einhvern daginn ætla ég samt að skrönglast á helvítis hjólinu upp í Breiðholt og hafa með mér skeiðklukku. Svo ætla ég að leggja hjólinu á milli Select og stóru Breiðholtsblokkanna. Síðan ætla ég að labba í hæfilega fjarlægð og ræsa skeiðklukkuna og athuga hve langur tími líður þar til litlir fingralangir Breiðholtsbófar taka hjólið og fara með það. Þeir ættu að vera nógu fingralangir til að næla sér í varahluti líka einhversstaðar og gera við það. Held að þetta sé mjög góð leið til að losna við gamla skranið.

sunnudagur, 10. júlí 2005

Eggjastokkunum fórnað

Samkvæmt almannarómi er ekki hollt fyrir stúlkur að slá með sláttuorfi. Mun það eyðileggja eggjastokkana. Greinarhöfundur hefur þó aldrei rekist á virta vísindagrein sem fjallar um efnið. Það er bara óhollt fyrir stúlkur að slá með orfi, allir segja það! Kannski á orðrómurinn rætur að rekja til manns sem klæddur var í dökkan, síðan frakka og með hatt á höfðinu. Hann faldi sig í dimmu húsasundi og skugga lagði yfir andlitið. Hann sagði við næsta vegfaranda sem átti leið hjá: "psst" og hvíslaði síðan að honum: "það er óhollt fyrir kvenfólk að slá með sláttuorfi, láttu það ganga". Vagfarandinn hefur síðan hvíslað því að næsta vegfaranda og svo koll af kolli. Orðrómurinn hefur hvisast út, mann frá manni og orðið háværari með hverjum deginum. Kannski var það virtur vísindamaður að nafni dr. Síverten sem rannsakaði efnið gaumgæfilega og sendi síðan frá sér óvéfengjanlegar niðurstöður þess efnis að notkun kvenna á orfum væri með öllu óæskileg. Greinarhöfundur mun ekki leggja mat á hvor ástæðan er líklegri.

Nema hvað. Á föstudaginn tilkynnti einn flokkstjórinn (sem er stelpa): "Ég ætla að slá í dag". Kom þetta býsna flatt upp á menn: "En bíddu mátt þú slá?". Flokkstjórinn: "Jájá". Útrætt mál. Stúlkan fór og sló. Kannski hafði hún tekið meðvitaða ákvörðun um að fórna eggjastokkunum. Allir eru að fara í ófrjósemisaðgerðir nú til dags. En hvers vegna að fara í ófrjósemisaðgerð ef hægt er að gera þetta í vinnunni og fá borgað fyrir, með því að slá? Kannski vildi hún bara staðfesta eða afsanna orðróminn í eitt skipti fyrir öll. Þá gæti hún tilkynnt einn daginn: "Jæja, eggjastokkarnir eru ónýtir, orðrómurinn er á rökum reistur." eða að þetta hefði engin áhrif haft. Kannski vildi hún bara aðeins stokka upp í eggjastokkunum.

Ég er ekki vísindamaður en ég trúi ekki að eggjastokkar eyðileggist út af orfaslætti.

laugardagur, 9. júlí 2005

Trúður og baðvörður

Legsteinar margra látinna í Hólavallagarði eru merktir með starfsheitum. Sumir kjósa að láta starfsheitið fylgja. T.d. Bjarni Þorsteinsson kaupmaður og Ingólfur Hreggviðsson læknir. Að láta starfsheitið fylgja virkar á mig sem hálfgert gort, sem mér þykir óviðeigandi á legsteinum. Ég hef nefnilega aldrei séð: Gunnar Þórhallson trúður, Þorkell Ingimundarson baðvörður, Jónas G. Ottesen ruslakarl eða Þórkatla Þórarinsdóttir varavaravaravaravara-vatnsberi í ö-liði. Slíkt fólk er ekki líklegt til að flagga starfsheitum sínum.

Höfum það hugfast að allir eru jafnir frammi fyrir Guði, hvort sem þeir eru kaupmenn eða baðverðir.

fimmtudagur, 7. júlí 2005

Kreppa

Ég fór ekki á Queens of the Stone Age og Foo Fighters. Það hefði vissulega verið gaman en einnig dýrt. Ég er alltaf að spara núna eins og kom fram um daginn. Spara til mögru áranna. Fólk er allt of öruggt með sitt núna. Hvað ef það kemur kreppa aftur? Hvað ef andskotans kommarnir ná völdum? Þá fer allt í bál og brand og skattarnir lóðrétt upp, upp í það óendanlega. Þá er eins gott að hafa verið duglegur að spara. Karlinn í Landsbankaauglýsingunum segir: "Þegar Jóna dóttir okkar fékk spangirnar þá bara hættum við hjónin að brosa". Þetta var ástæðan fyrir því að hann fór að eyða í sparnað. Það nefnir enginn yfirvofandi kreppu þegar kommaskrattarnir ná völdum. Þjóðin verður aftur fátæk og leggst veðurbarin á moldargólfið og nagar sviðakjamma og hungurlýs. Þeir liggja einhversstaðar í leyni núna, kommarnir, og undirbúa valdarán.

Kim Larsen ætlar að halda aðra aukatónleika á Nasa seint í ágúst. Það er gefið að ég fer. Nema kreppan verði skollin á.

miðvikudagur, 6. júlí 2005

Jæja. Vilja ekki einhverjir rífast og skammast svolítið meira?

þriðjudagur, 5. júlí 2005

Steven Gerrard

Víða hef ég rekist á skammar- og reiðipistla vegna fyrirhugaðrar brottfarar Gerrard frá Liverpool. Menn láta stór orð falla án þess að vita rassgat um þetta. Hvernig væri nú bara að halda kjafti að sinni? Það er ekki búið að selja manninn. Hann er enn leikmaður Liverpool. Þar til menn vita forsögu málsins ættu þeir að segja sem minnst.

Framtíð Liverpool veltur ekki á því hvort Gerrard er eða fer. Lið eiga ekki að snúast um einn mann heldur liðsheild.

Alltaf að græða

Dollarinn er bara kominn upp í 65,92. Ég veit ekki betur en að ég hafi keypt á 62,83. Alltaf að græða.

Alltaf að spara

Ekki borgaði ég fyrir tjaldstæði, bílferð og annan aðbúnað lengst úti á landi 1. helgina í júlí. Alltaf að spara.

laugardagur, 2. júlí 2005

Rykið dustað af Pink Floyd

Live 8 dagskránni lauk rétt í þessu. Ég sá og heyrði Pink Floyd áðan beint frá London. Þeir tóku Money, Wish You Were Here og Comfortably Numb. Þeir slógu ekki eina feilnótu og áttu magnað "comeback".

Sömu sögu er ekki að segja af Paul McCartney. Hann ætti nú bara að liggja inni í skáp og safna ryki. Röddin var veikburða og eitt lagið hljómaði eins og tónlist lélegs bílskúrsbands. Síðan kom George Michael og tók lag með honum. Heilsuðust þeir félagar aðeins of kumpánlega og föðmuðust og sá ég ekki betur en McCartney gripi rétt sem snöggvast í rassgatið á Michael. Michael hvarf í kjölfarið en birtist síðan aftur. Afar vafasamt allt saman.

Matarhornið

Alltaf gaman að fara út á svalir að grilla. Mælir grillmeistari með að vefja lauk í álpappír og setja í kolin. Úr verður lin lauksulta sem er blússandi og við þetta missir laukurinn eiginleika sína til að láta fólk grenja. Það er alltaf svo dapurlegt að sjá fólk grenja við grænmetissöxunina. Grillmeistari mælir einnig með krydduðu grillkjöti frá Fjallalambi á grillið.

gærkvöldið

í gærkvöldi fékk ég afar hressandi símtal frá sveitamönnum sem hvöttu mig til að mæta í nágreni eldborgar. þar skyldi vera mikið glens og grín og allt í boði hússins. ég hefði án efa mætt ef e-r hefði getað skutlað mér þangað. en hver er að fara að skutla mönnum kl.10 á laugardagskvöldi lengst út í sveit? 5885522? Vafasamt.

síðar um kvöldið fór ég í lítið samkvæmi og eftir það á hressó, ara í ögri og að lokum prikið. ari í ögri var langferskastur, prikið slappast. of mikil drykkja og vafasamt.