laugardagur, 30. september 2006

Minjasafn OR

Í gær fór ég í mína fyrstu vísindaferð í Háskólanum. Farið var í Minjasafn Orkuveitu Reykjavíkur. Þar voru léttar veitingar borðum, drykkjarkyns og matarkyns. Allt afar vel útilátið. Það lá við að maður finndi gamla manninn í sér og færi um þarna fjasandi "Eitthvað hlýtur þetta að kosta! Ekki hefur þetta verið ókeypis! Hver borgar þetta? Almenningur?". Nei, segi svona. Innpakkaðar rækjur gerðu gæfumininn.

Kynningin fór þannig fram að Stefán Pálsson sagði okkur að hann hefði ekki hug á að halda fyrirlestur með Power point og slíku eins og er víst viðtekin venja í svona ferðum. Þessi í stað bað hann fólk bara að spyrja sig ef það væri forvitið um eitthvað tengt safninu. Margir nýttu sér það.

Niðurstaða: Góð ferð.

Einkunn: 9,0.

Fýluferð

Ég er búinn að logga mig inn á Blogger og þá man ég ekki hvað ég ætlaði að skrifa. Þess vegna skrifa ég þetta. Maður verður að nýta ferðina hmm ha?

þriðjudagur, 26. september 2006

Síðustu mánuðir Hallans

Hin fræga sjoppa, Hallinn, lokar í desember. Þessi sjoppa hefur í gegnum árin verið stór hluti af því að vera í MR. Fyrir nemendur (og suma starfsmenn) Menntaskólans mun brotthvarf Hallans skilja stórt skarð eftir sig. Þarna hafa þeir komið og fengið sitt peppó og kók ótal sinnum, sumir jafnvel daglega og mætt hlýlegu viðmóti Möggu (og að sjálfsögðu Kidda áður en hann lést fyrir nokkrum árum).

Þótt flestir kúnnar Hallans hafi verið MR-ingar á sjoppan einnig aðra fastakúnna. Sumir koma þangað sérstaklega til að spjalla við Möggu, enda skemmtileg og góð kona með mikinn húmor. Sumir fyrrverandi nemendur MR hafa líka oft sést í Hallanum.

Síðan ég byrjaði í Háskólanum í haust hef ég tvisvar litið inn í Hallann og heilsað upp á Möggu og fengið mér peppó. Ekki hafa þær heimsóknir svikið frekar en fyrri heimsóknir þangað og án vafa mun ég líta oftar inn áður en sjoppan lokar. Hvet ég aðra fyrrum MR-inga til að drífa sig þangað líka því nú fer hver að verða síðastur.

mánudagur, 25. september 2006

Útsendarinn

Þegar maður hringir út kannanir fyrir Gallup virðist óumflýjanlegt að einn og einn viðmælandi telur mann vera spillingarbarn, útsendara Satans, strengjabrúðu markaðsráðandi afla og boðbera öxulvelda hins illa. Enn fremur telja þeir mann fjandsamlegan lífríki jarðar. Enginn þeirra hefur reyndar orðað þetta nákvæmlega svona, en það má lesa milli línanna.

Sumir sjá spyrla Gallup sem gullið tækifæri til að losa út margra ára innbyrgða reiði og einstaka sinnum er ég feginn að ekki hefur enn verið þróuð tækni til að bíta fólk í gegnum símtól. Svona tryllt fólk er reyndar afar fátítt en eðli málsins samkvæmt eftirminnilegra en aðrir. Á síðustu vakt lenti ég t.d. í tveimur öskrandi ljónum, en það er óvenjumikið.

Þeir sem eru merktir með rauðu x-i í símaskránni verða gjarnan óðastir: "HVAR FÉKKSTU ÞETTA NÚMER!?" "Hmm, það poppaði upp á skjáinn hjá mér" "JÁ, ÉG ER MERKTUR MEÐ RAUÐU Í SKRÁNNI!". Svo "skemmtilega" vill til að rauða merkingin gildir aðeins gegn símasölu, ekki könnunum. Þegar við segjum fólki þetta sefast það oftast nokkuð og getur ekkert sagt, ágætt að hafa þó reglurnar með sér í slíkum tilfellum. Einn maður fór í mál gegn Gallup vegna þess að hann var merktur með rauðu en fékk hringingu frá fyrirtækinu. Gallup vann málið, enda með réttinn sín megin.

Tenglar

Þessu bloggi hef ég fylgst með um skeið við umtalsverðan fögnuð, enda gríðarlega hnitmiðað. Nú hef ég bætt því við tengla hér til hliðar.

laugardagur, 23. september 2006

Spaugstofan fær uppreisn æru

Um daginn minntist ég á að síðasti þáttur af Spaugstofunni hefði verið óvenjugóður. Þátturinn í kvöld var afbragð, sá besti í mörg ár. Næstum öll atriðin voru fyndin og eins og alþjóð veit er það ekki daglegt brauð á þeim bænum. Engir fúlir Halldórs Ásgrímssonar-brandarar og samsærisgaurinn (leikinn af Erni) fékk bara örstutt klipp í lokin sem var ekki sérstaklega truflandi fyrir þáttinn í heild.

Þeir voru ótrúlega beittir, blönduðu saman málefnum líðandi stundar og öðru í glæsilegri fléttu. Nú er bara að bíða og sjá hvort þeir halda dampi eða hvort þetta þynnist út og verður sama gamla.

Veðurklúbburinn á Dalvík

Þegar ég vaknaði í morgun var það fyrsta sem mér datt í hug Veðurklúbburinn á Dalvík. Á ég að túlka þetta sem fyrirboða? Um hvað þá? Þetta er ekki í fyrsta skipti sem mér dettur eitthvað undarlegt í hug þegar ég vakna.

Þegar ég fór að velta Veðurklúbbnum meira fyrir mér mundi ég ekki eftir að hafa séð spá frá þeim á þessu ári. En Klúbburinn er ekki hættur því þegar ég sló honum inn á Google fann ég sumarspá frá þeim. Ég veit ekkert hversu sannspáir þeir hafa verið til þessa.

Veðurklúbburinn á Dalvík hefur markaðsráðandi stöðu á sínu sviði. Enginn annar veðurklúbbur er starfræktur á landinu svo ég viti. Nú er spurning hvort pláss er fyrir annan slíkan klúbb á markaðnum. Tækju neytendur honum fagnandi? Spárnar þyrftu að vera hnitmiðaðar og markmið fyrirtækisins að vera skýr: að spá alltaf rétt. Fara þyrfti eftir ströngustu gæðastöðlum og hafa gæðaeftirlit. Markviss mannauðsstjórnun og fagmannleg vinnubrögð yrðu að vera aðalsmerki slíks klúbbs.

Ég hef hugsað mér að stofna nýjan veðurklúbb. Það ætla ég að gera eftir 40 ár. Þangað til ætla ég að kynna mér markaðinn betur svo fyrirtækið verði eins vel í stakk búið til að mæta samkeppni og auðið er. Með aðstoð dyggra manna verður unnin slík hernaðaráætlun að annað eins mun aldrei hafa sést.

föstudagur, 22. september 2006

Lag dagsins

Muse - Supermassive Blackhole.

Annað var það ekki.

miðvikudagur, 20. september 2006

Tá og göngur

Ég nenni ekki að lesa níundu blaðsíðu af fjörtíu sem settar voru fyrir morgundaginn í bókinni The Globalization of World Politics um realisma og liberalisma, þótt nokkuð skemmtilegar séu. Því hef ég kosið að blogga.

Helginni eyddi ég fyrir norðan. Þar smalaði ég fé fyrir Einar bónda. Óvenjuvel gekk að smala þetta árið og aldrei þurfti ég að þvælast upp á fjöll, hóla eða hæðir utan minnar smalaleiðar. Þetta mátti einkum þakka norðangolu sem blés í fangið á smölum jafnt sem kindum. Kindurnar skynjuðu að veturinn var á leiðinni og voru því fúsar að fara heim á bæi. Við smölunina var allur nýjasti fjarskiptabúnaður notaður, margir höfðu farsíma og allir höfðu talstöðvar, allt þráðlaust.

Önnur stóra táin á mér hefur ekki verið til stórátaka undanfarið. Í göngunum versnaði hún töluvert og var orðin svo bólgin að ég gat ekki farið í skó á samsvarandi fæti. Þegar læknirinn í fjölskyldunni sá tána sagði hann að þetta væri hrikalegt að sjá (mjög inngróin tánögl og stokkbólgin tá) , hringdi tvö símtöl og græjaði þannig tíma fyrir mig í aðgerð á mánudeginum eftir helgi. Þetta græjaði hann þrátt fyrir að skurðlæknirinn, félagi hans, væri fullbókaður þann dag og hann sjálfur sennilega líka. Skurðlæknirinn var tilbúinn að hliðra einhvern veginn til í planinu svo ég kæmist að.

Á mánudaginn fór ég í táaðgerðina. Fjölskyldulæknirinn (sem er svæfingalæknir) deyfði tána og skurðlæknirinn skar. Allt gekk ljómandi vel og í miðri aðgerð tilkynntu þeir mér að aðgerðin yrði "on the house". Það var alveg ótrúlega höfðinglegt og rausnarlegt boð, sem ég þáði. Þeir voru báðir að vinna aðeins lengur en þeir áttu að gera, út af mér, og splæstu síðan aðgerðinni. Þetta kallast fyrsta flokks þjónusta. Sæmi ég þá félaga hiklaust höfðingjanafnbót.

Táin er á góðum batavegi.

þriðjudagur, 19. september 2006

Scoop

Scoop er nýjasta mynd gamla sauðsins Woody Allen. Hugh Jackman, Scarlett Johansson og Woody sjálfur fara með aðalhlutverk. Fínasta gaman/drama-mynd. Woody sér um brandarana, aðrir sjá um dramað.

Woody

Einkunn: 8,5.

mánudagur, 18. september 2006

Þjóðremba og hópsturlun


Magni:
Söngvarahæfileikar: 5.
Fyrir að vera íslenskur: 5.
-------------------------------
Samtals: 10.

Eiður Smári:
Knattspyrnuhæfileikar á alþjóðamælikvarða: 7
Fyrir að vera íslenskur: 3
-------------------------------
Samtals: 10.

o.s.frv.

Niðurstaða: Þegar Íslendingar hafa sig í frammi erlendis má alltaf beita þeirri einföldu reiknireglu að það sem vantar upp á hæfileika næst fram með því að þeir eru íslenskir.

Frétt

Spaugstofan er byrjuð aftur. Það er ekki fréttin, heldur er fréttin sú að ég hló upphátt að einu atriðinu í þættinum á laugardagskvöld. Atriðið snerist um Kínverjann Shaol-Shin-Ho sem hélt sjálfstortímingarnámskeið fyrir áhugasama. Þar fór hann yfir ýmis bellibrögð sem miðuðu að því að slasa sjálfan sig ásamt því að fara yfir íslenska almannabótakerfið. Óvenju beitt grín á Spaupstofumælikvarða.

Þarna var að sjálfsögðu vísað til kínverska verkamannsins á Kárahnjúkum sem fannst liggjandi í blóði sínu með mikla áverka einn morguninn fyrir skömmu í verkamannabúðunum. Fyrst var talið að einhverjir menn hefðu komið þar inn um nóttina og veitt manninum ærlega ráðningu af óþekktu tilefni. Næstu daga kom fram í fjölmiðlum að allar líkur voru taldar á að maðurinn hefði veitt sér áverkana sjálfur, sennilega til að reyna að fá bætur út úr tryggingum.

Það er þekkt staðreynd að aðbúnaður verkamanna uppi á Kárahnjúkum er til skammar, en er þetta ekki orðið ansi slæmt þegar menn eru farnir að lúskra á sjálfum sér til að fá tryggingabætur? Vonleysið í hámarki.

Að vísu hefur þessi tiltekni verkamaður sennilega verið sæmilega klikkaður.

mánudagur, 11. september 2006

Hæli

Ég lenti á einum frábærum viðmælanda í Gallup í kvöld. Spurt var hvernig fólki þætti allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa staðið sig. Þegar ég spurði um ónefndan ráðherra svaraði viðmælandinn:

"Jesús minn! Það ætti nú að vera búið að setja hann á hæli fyrir löngu!"

Ég er ekki frá því að ég hafi verið algjörlega sammála.

sunnudagur, 10. september 2006

Kæra dagbók

Blablabla.

Föstudagskvöld:
  • Nýnemaferð Politicu, félags stjórnmálafræðinema við HÍ. Lager bjór á lager. Opal fyrir þá sem ekki gátu svælt ógeðfelldum Lagernum og líka fyrir hina. Grillaðar pylsur, spurningakeppni o.s.frv.
  • Háskólatjaldið á Háskólatúninu. Sveifla ekki mikil, minnti á Októberfest á svipuðum slóðum í fyrra.
  • Poolbarinn í Skeifunni þar sem viðstaddir voru Einar Hallgríms, Davíð, Þórður, Hörður og Perla. Tapaði öllum mínum leikjum naumlega, nema þeim síðasta, sem ég vann naumlega.
  • Hitti Henrik og Einar Teit á Belly's niðri í bæ. Þar var Finni sem sagði við mig "Þú ert góður maður" í ótakmörkuðu upplagi.
  • Röltum um fleiri staði í bæ.
Laugardagskvöld:
  • Horfði á íslensku kvikmyndina Agnes með Henrik og Einari. Baltasar í hlutverki dólgsins Natans Ketilssonar og Egill Ólafsson sem sýslumaður og dólgur með meiru. María Ellingsen sem vinnukona, býsna brengluð í hausnum.
Sunnudagur:
  • Las eins og hestur í námsbókunum. Tók hlé inn á milli, sötraði kakó, sá og heyrði rigningu bylja á rúðunum og hlustaði á Súkkat.

laugardagur, 9. september 2006

Ísköld vatnsgusa beint í andlitið

Meira en áratugur er síðan Liverpool-menn hafa gert meiri væntingar til liðsins en nú. Leikmannahópurinn hefur verið bætur gríðarlega í sumar og hafa menn talað um hagsýnustu kaup deildarinnar (til samanburðar hefur efsta lið deildarinnar, Man. Utd. aðeins keypt einn mann í sumar og það á rúmar 20 milljónir punda, sem er allt allt of mikið fyrir þann mann).

Í hádeginu í dag lék svo Liverpool við nágrannalið sitt og annálað kúkalið, Everton. Liðið tapaði 3-0. Þetta er kaldasta vatnsgusa sem stuðningsmenn Liverpool hafa fengið í andlitið síðan ég veit ekki hvenær.

Væntingar til liðsins fyrir tímabilið hafa nú verið niðurfærðar úr því að spá þeim titlinum og í það að hrósa happi yfir að halda sæti sínu í deildinni.

Ég vona að leikmenn liðsins skammist sín fyrir afglöp dagsins og girði upp um sig brækur fyrir næsta leik og vinni hann sannfærandi.. Annað væri óboðlegt.

miðvikudagur, 6. september 2006

Kjarnorkukvendi

Sannkallað kjarnorkukvendi hélt til á einum skemmtistað borgarinnar um helgina. Á þessum stað vorum ég, Henrik og Einar staddir. Í einum sófa staðarins hafði kvendið helgað sér yfirráðasvæði.

Skemmtistaðurinn var frekar troðinn eins og gerist og ég stóð í smástund fastur við borð eitt sem var við yfirráðasvæði kvendisins. Stóð kvendið nú upp með látum og ýtti mér fólskulega úr vegi sínum, vatt það sér rakleiðis að pari sem sat í sófa á móti og lét nokkur högg dynja á manninum.

Leið nú nokkur stund, konan var aftur komin á sitt yfirráðasvæði og sat þar og deildi og drottnaði. Við drengirnir fengum okkur sæti í sófanum á móti yfirráðasvæði konunnar því sá sófi var nú laus. Við vissum ekki fyrr en konan var staðin upp, vatt sér að Einari, spurði hann hvað hann væri að gera með hálslút auk þess að spyrja hann til nafns, reif hann af honum klútinn og kýldi hann síðan af afli í bringuna. Fór síðan og settist aftur á yfirráðasvæðið sitt góða.

Niðurstaða:
Þessari konu ætti enginn að mæta:
  • í dimmu húsasundi.
  • í sjómann.
  • í reiptogi.
  • í glímu.
  • á skemmtistað.
  • úti á götu.
Hún gæti verið mikill fengur í landsliðið í knattspyrnu, hvort sem er karla- eða kvenna og jarðað andstæðinga sína. Að vísu væri hún vís til að jarða samherja líka.

sunnudagur, 3. september 2006

Thank You For Smoking

Myndin Thank You For Smoking hefur gengið afar vel í kvikmyndahúsum um allan heim. Þess vegna fór ég á hana með töluverðar væntingar. Hún stóð fyllilega undir væntingum og gott betur. Handritið er skothelt, ádeilan er hvöss og engum tíma er sóað í atriði sem ekki þjóna tilgangi við framvindu myndarinnar. Þar að auki er hún afbragðsvel leikin og myndatakan er vel útfærð. Myndin er í ofanálag þónokkuð frumleg.

Aðalpersónan Nick Naylor (Aaron Eckhart) er bisnissgaur sem hefur það frábæra starf að koma fram fyrir hönd tóbaksrisanna og verja þá með kjafti og klóm. Hann hefur sannfæringarkraftinn í lagi en er samt sem áður einn hataðasti maður Bandaríkjanna (skiljanlega kannski). Katie Holmes er klassagóð í hlutverki ósvífinnar blaðakonu og J.K. Simmons er framúrskarandi sem siðblindur yfirmaður.

J.K Simmons

Niðurstaða: Besta mynd ársins hingað til.

Einkunn: 9,5.