sunnudagur, 27. janúar 2008

Meint ósmekkleg Spaugstofa

Stundum sér maður skrif virkustu moggabloggara, enda er þeim er nánast troðið í andlitið á lesendum Mbl.is. í dálkinum heitar umræður og við hliðina á fréttum. Nú virðast ýmsir vera snarbrjálaðir yfir síðasta Spaugstofuþætti, ein kona kallar þátinn "Saurstofuna" o.s.frv. Ég horfði á þáttinn og það er ofar mínum skilningi að hægt sé að hneykslast svona mikið á honum. Meint siðleysið sá ég ekki, þvert á móti var þetta mjög eðlilegt grín að farsakenndu rugli í borgarstjórn Reykjavíkur, þótt litlu hafi verið við að bæta.

Þátturinn var talsvert yfir meðallagi, Spaugstofan er oft hundleiðinleg en hún var bara nokkuð fin í þetta skiptið. En margir virðast finna sig knúna til að setja upp vandlætingarsvip og kunna sennilega betur einhverskonar ofurkurteislegt (og leiðinlegt?) grín að þessu gegndarlausa kjaftæði í borgarmálum. Mótmæli í ráðhúsinu voru líka illa séð, sennilega hjá sama fólki. Jú, þetta eru forkastanleg vinnubrögð en það má ekki mótmæla, bara tauta yfir þessu heima í stofu og það má ekki gera grín nema mjög saklaust.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er búinn að sitja sem borgarstjóri og hann skeit upp á bak eins og flestir vita í kringum svokallað REI-mál. Hann sá ekki sóma sinn í að segja af sér þótt hann hefði verið meiri maður á eftir heldur ætlar hann að verða borgarstjóri aftur. Enginn í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins virðist hafa andmælt nýjum meirihluta og sama fólk og reyndi að bola Vilhjálmi út vill nú leyfa honum að setjast í stólinn aftur til þess að fá annað tækifæri eða nánar tiltekið fá völdin aftur. Ólafur F. hefur margtönnlast á fylgistölum sínum og sagt að hann njóti stuðnings 10% Reykvíkinga og komi nú flestum sínum málum í gegn. Er eðlilegt að hann komi flestum málum sínum í gegn með slíkar fylgistölur? Er eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn sem fékk flest atkvæði í borgarstjórnarkosningum lúffi með sín mál fyrir manninum sem fékk 10%, bara fyrir völd?

Nei, þetta er allt saman fullkomlega óeðlilegt og Spaugstofuþátturinn á laugardaginn var eins og blásaklaust lítið barn við hliðina á skrípaleiknum í borgarstjórn Reykjavíkur.

föstudagur, 25. janúar 2008

Yfir getu

Um daginn sagði einhver, minnir að það hafi verið einn íþróttafréttamanna Sjónvarpsins ,að handboltalandsliðið hefði spilað yfir getu á móti Frökkum á HM í fyrra þegar þeir jörðuðu þá. Ég hef heyrt fleiri nota þetta orðalag áður.

Hvernig er hægt að spila eða standa sig yfir getu? Það sem menn gera er væntanlega það sem þeir geta.

Hvernig hljómar þetta...

  • Bílasalinn: "Hér er ég með eldgamla handónýta bíldruslu, en stundum skilar vélin afköstum yfir getu og þá er þetta þvílíkur eðalvagn!"
  • Námsmaðurinn fer ólesinn í próf, kann ekkert en stendur sig síðan yfir getu og fær 10.
...?

þriðjudagur, 22. janúar 2008

Borgarstjórnarleikhúsið

Í ljósi nýjasta útspils í borgarstjórn Reykjavíkur er ljóst hvaða aðferð er rökkréttast að nota við næstu borgarstjórnarkosningar. Kjósandi mætir á kjörstað, þar er bundið fyrir augun á honum og kjörkassinn dreginn fram. Í kjörkassanum eru miðar með ólíkum möguleikum stjórnarsamstarfs. Kjósandi dregur síðan úr kassanum. Eftir þetta er kjósandi leiddur að "lukkuhjólinu" svokallaða, en þar gefur að líta alla mögulega og jafnvel ómögulega borgarstjóra. Kjósandi snýr hjólinu og getur ekki beðið eftir niðurstöðunni...

"Til hamingju! Þú hefur hlotið Vilhjálm sem borgarstjóra! Gangi þér vel, takk fyrir þátttökuna og sjáumst fljótt aftur!"

laugardagur, 19. janúar 2008

Sóðalegir spítalar

Sá á teljari.is að einhver hafði gúglað sóðalegir spítalar án gæsalappa og komið inn á þessa síðu. Kannski vegna þess að skoðun viðkomandi er að spítalar séu sóðalegir. Kannski var hann að rífast við vin sinn um hvort þeir væru sóðalegir eða ekki og staðfesti mál sitt með því að Google gæfi 10 niðurstöður.

Einn kennarinn í skólanum notar frasann "gúgglið þetta bara!" frekar oft, sérstaklega ef hann heldur að nemendur efist eitthvað um það sem hann segir.

fimmtudagur, 17. janúar 2008

Framsóknarárin

Ég glaðvaknaði núna rétt fyrir fimm í morgun og líður eins og ég sé fáránlega vel útsofinn. Mjög einkennilegt, því síðustu tvo daga hef ég sofið yfir mig og misst af fyrstu tímum í tveimur áföngum í skólanum. Hef stillt mig inn á að vakna svona um ellefu í jólafríinu og það reynist nokkuð erfitt að laga svefntímann aftur að skólanum. Jólafríið hefur líka verið svo langt að maður er búin að festa svefnvenjurnar kirfilega inn í kerfið.

Er að lesa blöðin og ég tók eftir tilvitnun í heimasíðu Valgerðar Sverrisdóttur í 24 stundum:

Stöðugleiki framsóknaráranna er horfinn og af lygnum sjá hefur þjóðarskútan nú siglt inn í ólgusjó og veðurspáin er vond. Ólgan sem ríkir meðal landsmanna stafar fyrst og fremst af pólitískum stöðuveitingum sem fóru fram í desembermyrkrinu á meðan jólahlé alþingismanna stóð yfir og annir almennings vegna jólaundirbúnings voru miklar. Sjálfsagt hefur tíminn verið valinn með tilliti til þessa. Sjálfstæðisflokkurinn hefur oft leikið þennan skollaleik með dómskerfið...


Mjög dramtísk lýsing - "stöðugleiki framsóknaráranna", "ólgusjó", "ólgan sem ríkir" "skollaleik". Mér finnst eins og hún sé að lýsa veruleika sem ég kannast ekki við, eins og hún sé í stjórnarandstöðu í Simbabve, ekki á íslandi. Þá gæti hún talað um stöðugleika framsóknaráranna, þarna þegar allt var æðislegt í Simbabve, áður en hin illa þokkaða stjórn Mugabe tók við völdum. Reyndar er stjórnarandstaða ekki leyfð í Simbabve og Framsóknarflokkurinn hefur aldrei haft völd þar, en að öðru leyti er þetta svipað.

Framsóknarflokkurinn datt út úr ríkisstjórn síðasta vor. Átakanlegar lýsingar margra flokksmanna á því hvernig nýrri stjórn hefur tekist að glutra flestu niður sem fyrri stjórn náði fram eru frekar fyndnar.

sunnudagur, 6. janúar 2008

Reyfarakaup

Nýtt samlokugrill var keypt inn á heimilið um daginn. Reyndar var það kallað heilsugrill og á að vera til að grilla kjöt og svoleiðið jukk en hugmyndin er að nota það sem samlokugrill.

Í dag setti ég tvær samlokur í grillið, fór síðan í tölvuna og gleymdi samlokunum. Tíu mínútum seinna mundi ég eftir þeim, bjóst við þeim skaðbrenndum en neinei, þær voru fullkomnar, léttristaðar og osturinn bráðnaður. Grillið er sem sagt gætt þeim eiginleikum að maður getur gleymt brauðinu í án þess að það brennist.

Þetta hljómar næstum of gott til að vera satt, gæti verið vara í Vörutorgi. Hver kannst ekki við að henda brauði í grillið og fara síðan í vinnuna, koma heim og þá er íbúðin brunnin til grunna? Nú er þetta vandamál úr sögunni með nýja NO-FIRE 3000 - grillinu!