föstudagur, 28. september 2007

Búrma/Myanmar

Fjölmiðlar hafa undanfarið fjallað mikið um vargöld í Búrma vegna herstjórnar sem stjórnar með harðri hendi þar, í Myanmar.

En þetta er einmitt sami staðurinn, Búrma og Myanmar. Sjálfsagt hefur það valdið ruglingi meðal almennings, sem hlýtur að spyrja sig hvort óánægja með herstjórn sé í Búrma eða Myanmar eða bæði á sama tíma, tveir fyrir einn. Það sem veldur enn meiri ruglingi er þegar fréttamenn virðast ekki einu sinni sammála um hvernig eigi að bera fram Myanmar, þannig bera sumir fram [míanmar], aðrir [mjanmar] og enn öðrum er þetta allt saman gjörsamlega ofviða og reyna þá að klastra þessu tvennu einhvern veginn saman, sem hljómar þá kannski [míamjanmar].

Skyldu ritstjórar fjölmiðla leggja starfsmönnum línurnar á innanhússfundum -> "Skýr ritstjórnarstefna okkar fjölmiðils er að tala um MJANMAR, en ekki eitthvað bölvað búrma eða míanmar. Misbrestur hefur orðið á þessu hjá vissum fréttamönnum, taki það til sín sem eiga."

Mér finnst Búrma flottasta heitið, sé það notað þarf enginn að velkjast í vafa um framburðinn nema einhver sérvitringurinn kjósi að túlka nefnið sem Brúmma.

miðvikudagur, 26. september 2007

Tvennt

  1. Fékk bréf frá lífeyrissjóði. Þar stóð að ég hefði unnið mér inn rúmar þúsund krónur á mánuði í ellilífeyri frá sjóðnum við 67 ára aldur. Hvað á ég að gera með þær upplýsingar? Hlakka til? Fara strax að bíða eftir krónunum þúsund fullur eftirvæntingar? Verður þessi lífeyrissjóður yfirhöfuð til þegar ég verð 67 ára? Alltaf eru þessi bréf frá lífeyrissjóðum eins, þau segja frá lágri mánaðarlegri upphæð sem maður fær eftir nokkra áratugi. Með fylgir svokallað fréttabréf sem sýnir nokkur súlurit og hvernig viðkomandi lífeyrissjóður hefur skilað bestu ávöxtun allra lífeyrissjóða síðustu 10 ár, og þetta virðist gilda um alla lífeyrissjóði. Allir hafa þeir skilað bestu ávöxtun undanfarin ár með einhverri reiknireglu sem þeir búa sjálfir til.
  2. Mæli með Borgarhjólum á Hverfisgötu. Fór með hjólið í viðgerð þangað eftir að hafa nánast lent í sjálfheldu á því um daginn þegar ég var á fullu spani niður brekku og skyndilega virkuðu bremsurnar mjög illa. En þeir löguðu bremsurnar sem virka núna frábærlega og töluvert betur en þær gerðu þegar hjólið var nýtt og settu bretti á það í leiðinni eins og ég óskaði eftir. Þetta kostaði fimm þúsund kall, sem er bara aðeins meira en að kostar að fylla bensíntank einu sinni. Svo verð ég ekki nema fimm mánuði að safna fyrir þessari viðgerð þegar ég verð 67 ára með peningunum frá lífeyrissjóðnum góða.

sunnudagur, 23. september 2007

Hló þá imam


Ekki imaminn í Hvidovre, en imam þó.

Athyglisverðasti atburður Danmerkurferðarinnar í lok ágúst var líklega heimsóknin í moskuna í Hvidovre. Einn daginn römbuðum við fram á skilti sem vísaði á moskuna. Við biðum ekki boðanna heldur örkuðum sem leið lá þangað. Þegar komið var að moskunni var ekki um að villast, enda moskuleg með eindæmum. Í moskugarðinum stóð einkennisklæddur maður sem virtist vera vörður. Hann var frekar skuggalegur og horfði á okkur illu auga þegar við nálguðumst. Ekki var hægt að útiloka að hann væri vopnaður. Við ákváðum þó að tala við hann og þá bauð hann okkur velkomna og vísaði okkur inn. Svo fræddi hann okkur smávegis um moskuna og starfsemi og slíkt.

Við hittum merkilega vel á því vikulega bænaathöfnin (messan) var í þann mund að hefjast, eða klukkan hálftvö á föstudegi. Múslimar tóku nú að streyma inn og okkur var leyft að fylgjast með athöfninni, sátum í stólum aftast í hvelfingunni. Imam mætti í pontu og messaði yfir mannskapnum, til skiptis á dönsku og arabísku. Múslimarnir hlýddu á og báðu til Allah inn á milli með tilheyrandi beygjum og teygjum. Söngur á arabísku kom einnig við sögu, bæði hjá imam sjálfum og aðstoðarmanni.

Eftir athöfnina bauð aðstoðarmaður imamsins okkur í te og kökur inni á skrifstofu moskunnar, sem við þáðum. Þar talaði hann um slík trúarbrögð og tók skýrt fram að þeir tilheyrðu afar friðsamri grein islam (værum við í einhverjum vafa um það), þ.e. Ahmadiyya, en hvorki súnní eða sjía, en það mun vera þriðja stærsta grein Islam á eftir hinum tveimur en þó margfalt fámennari. Hann talaði um hvers vegna hann iðkaði þessi trúarbrögð og þar fram eftir götunum. Svo sagði hann að enginn í söfnuðinum kynni arabísku nema imaminn. Það þótti okkur nokkuð skemmtilegt í ljósi þess að hálf messan var á arabísku. Imaminn sjálfur mætti svona við og við inn á skrifstofuna og talaði aðeins við okkur líka.

Imaminn var frekar fyndinn því hann var skælbrosandi allan tímann.Tómas nefndi að kirkjurnar á Íslandi væru nánast tómar árið um kring nema á jólum og páskum. Hló þá imam. Tilhugsunin um tóm trúarhús hefur sjálfsagt verið skondin, enda moskan í Hvidovre troðfull alla föstudaga. Mér tókst að hella tei niður á mig því það var svo brennandi heitt og ég óviðbúinn. Imam var ekki á staðnum þá en hefði hann séð það hefði hann eflaust hlegið dátt.

Þegar við áttuðum okkur á því að aðstoðarmaður imamsins gæti líklega talað við okkur í nokkra daga samfleytt ákváðum við að drífa okkur, enda ekki ætlunin að eyða svo miklum tíma í moskunni þótt aðstoðarmaðurinn væri skemmtilegur, það vantaði ekki. Hann vildi sjálfsagt veiða okkur yfir í múslimatrúna. Að endingu gaf hann okkur bókina Islams svar på vor tids spørgsmål og sagði að í henni væri bæði komið inn á læknisfræði og stjórnmálafræði (hann hafði áður spurt okkur að því hvað við værum að læra), svo við hlytum að hafa gagn og gaman að. Ég reikna með að birta umfjöllun og ritdóm um bókina hér þegar ég verð búinn með hana. Við kvöddum að lokum og þökkuðum fyrir okkur, margs vísari og mettir af kökum og brennandi tei.

þriðjudagur, 11. september 2007

Sporlaust

Hluti íslensku þjóðarinnar virðist vera horfinn sporlaust. Það gæti maður að minnsta kosti haldið eftir að hafa komið við í verslunum og öðrum þjónustufyrirtækjum undanfarna daga. Í þeim öllum (kannski með örfáum undantekningum) hafa galvaskir útlendingar tekið við og standa vaktina við búðarkassann daginn út og inn. Verslanir biðja viðskiptavini afsökunar á skertri þjónustu vegna manneklu. Kaffiterían í Aðalbyggingu HÍ hefur verið lokuð frá því að skólinn byrjaði í ágúst - enginn hefur fengist í starfið/störfin. Það þarf engan fréttatíma til að segja fólki hvernig staðan er því hún blasir við út um allt.

En hvað varð um allt fólkið sem sinnti störfunum? Hvar er konan sem vann í kaffiteríunni? Hvar eru unglingarnir sem afgreiddu á kassanum í matvörubúðinni? Fyrst urðu Íslendingar of fínir til að vinna í fiski, nú virðist vera komið að algengustu þjónustustörfunum.

Ég kom við í bakaríi í gær. Þar afgreiddu tveir útlendingar. Ég giska á að þeir hafi ekki verið á landinu lengi, en þeir töluðu þó hrafl í íslensku og skildu viðskiptavini að mestu leyti miðað við það sem ég sá. Kona sem var á undan mér í röðinni var verulega pirruð á að fólkið skildi ekki um leið hvað hún vildi af bakkelsi og gaf glögglega til kynna við þau að þetta líkaði henni ekki. - En var eitthvað við fólkið að sakast? Það var líklega að vinna vinnu sem enginn annar hefur fengist í. Ef ekki hefði verið fyrir þetta fólk væri bakaríið lokað. Vildi konan það frekar? Ef ekki, hvers vegna í ósköpunum þurfti hún þá að láta svona?

Hvaða störf skyldu Íslendingar flýja næst í stórum stíl? Skrifstofustörf? Fjölmiðlastörf? Framleiðslustörf? Kennarastörf? Get ég átt von á því að mæta einn morguninn í tíma í Háskólanum og þar er enginn Hannes Hólmsteinn að kenna, heldur Hugo Chavez?

"Góðan daginn... í dag ætla ég að fjalla um sósíalismann"

fimmtudagur, 6. september 2007

Kúrsinn

Skráði mig í 2,5 eininga áfanga í hagnýtri ensku í háskólanum, aðallega vegna þess að ég þykist ætla út sem skiptistúdent næsta haust. Nema hvað, ég mæti í fyrsta tíma í slíkum kúrsi í morgun, þá eru þar mættir alls konar Frakkar og Þjóðverjar og Finnar og Grænlendingar og Kínverjar og Spánverjar og ég er eini Íslendingurinn fyrir utan kennarann.

Og ég bareikka' VÓ! WTF?

...eitthvað svoleiðis.

mánudagur, 3. september 2007

Mongolian Barbecue

Í nýafstaðinni Danmerkurferð borðuðum ég og Tómas á veitingahúsinu Mongolian Barbecue sem staðsett er í miðborg Kaupmannahafnar, n.t.t. á Stormgade 35, aftan við Tivoli. Matseðilinn er hlaðborð hússins og svo er hægt að velja um hina og þessa drykki. Starfsmenn veitingastaðarins eru að sjálfsögðu allir komnir í beinan karllegg af Genghis Khan, en Genghis var reyndar þekktur fyrir að stoppa á þessum stað til að nærast á ferðum sínum um Mongólska heimsveldið og sagði gjarnan við ferðafélagana "Djöfull væri maður til í einn föytan Mongolian Barbecue núna"

Okkur var vísað til borðs og óðum síðan beint í hlaðborðið eins og úlfar í afmæli. Vissum ekki alveg hvað við áttum að halda með kjötið því það var allt saman hrátt. Fengum okkur þó skerf af því ásamt úrvali grænmetis á diskinn. Þegar Tómas hafði fyllt disk sinn tók einn starfsmaðurinn diskinn af honum við talsverða undrun hans. Í ljós kom að þetta var sósumeistarinn sjálfur. Nú var komið að því að velja sósur á réttinn sem sósumeistarinn hellti síðan á eftir kúnstarinnar reglum. Tómas valdi sér tvær sósur og ætlaði að láta gott heita en það fór alls ekki vel í sósumeistarann sem krafðist þess að hann veldi fleiri. Þá valdi hann eina til og sósumeistarinn gat sætt sig við það. Sósumeistarinn afhenti síðan grillmeistaranum vel sósaðan réttinn. Grillmeistarinn var reyndar ekki með grill heldur sérhannaða pönnu sem er 300°C og steikir því matinn á örskotsstundu. Grillmeistarinn var kampakátur allan tímann við pönnuna og brosti út að eyrum í hvert skipti sem hann afhenti okkur diskana eftir að hafa flamberað réttina í smástund.

Eftir að hafa séð sósumeistarann að störfum ákvað Tómas að biðja hann að mæla með sósum handa sér í næstu ferð að hlaðborðinu. Það fór fram nokkurn veginn svona:
T: "Hvad anbefaler du?"/"Með hverju mælir þú?"
S: "Hvidløg(?)..." / "Hvítlauk (?)..."
T (var ekki viss um að sósumeistari hefði skilið spurninguna): "Nej, hvad anbefaler du?"
S (hljómaði pirraður): "JAH, HVIDLØG!"

Síðan jós sósumeistari einum 5-6 sósum á diskinn hans í viðbót og afhenti grillmeistaranum.

Skemmst er frá því að segja að maturinn þarna var afbragðsgóður og seremónían í kringum hlaðborðið býsna hressandi. Lærdómur okkar eftir þetta var að það borgar sig ekki að styggja sósumeistarann og því er nýjum gestum staðarins bent á að kynna sér venjur hans áður en farið er þangað.

Einkunn: 9,0.