sunnudagur, 18. júlí 2004

Kýraugu

Stundum þegar ég keyri um borgina verð ég hræddur. Ég verð aldrei hræddur þegar ég sé einhvern svína á öðrum eða ef einhver keyrir hratt og glannalega. Þá segi ég bara "hálfviti" og held áfram. En ég verð hræddur þegar ég sé geðveikislega ökumenn. Um daginn var ég að keyra og framhjá ók kona með mjög geðveikislegt augnaráð og úr augunum á henni mátti lesa "DREPA! DREPA! DREPA!" og hún starði á mig. Í gær var ég stopp á rauðu ljósi, leit í baksýnisspegilinn og sá að ökumaðurinn í bílnum fyrir aftan var stelpa með uppglennt kýraugu. Hún hreyfði höfuðið líka ótt og títt og leit aftur og aftur snögglega í aftursæti bílsins. Það var eins og hún væri að flytja lík í bílnum eða að flýja óþokka. Mér var alls ekki vel við að hafa svona stúlku aftan við mig á rauðu ljósi.

laugardagur, 17. júlí 2004

Stella artois non alcoholic malt brew er drykkur sem enginn ætti að prófa.

laugardagur, 10. júlí 2004

Sigur Grikkja

Grikkir unnu verðskuldaðan sigur á portúgölum í úrslitaleik EM. Nikopolidis, markvörður Grikkja er alveg eins og gaur í Dressmann auglýsingu. Gott ef þetta er ekki bara Dressmann sjálfur.

Sænsk vændiskona

Nú er víst sænsk vændiskona í heimsókn á Íslandi. Það var í fréttum. Ég held að ég hafi séð hana í Mjódd í gær. Hún var ekki mikið klædd.

Sumar stelpur klæða sig eins og vændiskonur. Þær eru oftast í svo stuttum pilsum að hjalda mætti að þetta væru eyrnabönd.

laugardagur, 3. júlí 2004

Mc'donalds auglýsingin

Hver samdi Mc´donalds auglýsinguna sem er alltaf í sjónvarpinu: "i'm lovin it"? Þetta er versta auglýsing sem ég hef séð. Það þarf fæðingarhálfvita til að semja svona. Ég hef ekki hitt nokkurn sem þykir auglýsingin góð. Sjálfur tek ég alltaf fyrir augu og eyru þegar þessi viðbjóður kemur í sjónvarpinu. Verst er þegar strákurinn treður hamborgaranum í andlitið á hinum. Þessi auglýsing fer svo einstaklega mikið í taugarnar á mér að ég mun aldrei versla við Mc'donalds aftur. Ekki það að ég hafi oft keypt þar.

Fýlupokar og rugludallar

Það er töluvert mikið um fólk sem röflar og býsnast yfir EM sem nú er að ljúka. "Þessi bolti seinkar fréttunum mínum" "Af hverju þarf að seinka fréttum út af fótbolta?". Sumu fólki þarf að segja að þegja. Það er rifist og skammast og röflað og vælt. Getur þetta lið ekki bara horft á fréttir á Stöð 2? Lifir það ekki af án sjónvarpsfrétta RÚV? Hvað með að kíkja á textavarpið? Það er andskotann ekki neitt í fréttum núna. "ANDRÉS ÖND VARÐ SJÖTUGUR Í DAG" "Þórsmörk: Skagfjörðsskáli 50 ára" "SA-könnun: Miðaldra fólk góðir starfsmenn". Eru þetta fréttirnar sem fólk má ekki missa af? Þessar keppnir eru á tveggja ára fresti og standa yfir í u.þ.b. mánuð hverju sinni, á þeim tíma þegar gúrkutíð er mikil í fréttum.

Ég er farinn að velta fyrir mér hverjir það eru eiginlega sem horfa ekki á EM. Amma mín horfir á EM. Ég er búinn að vera hjá ömmu núna í rúmar tvær vikur af því ég var að flytja og nýja húsið hefur ekki verið afhent. Ég hef horft á nokkra leiki með ömmu og það er sérstök stemmning. Amma horfir svona meira með öðru auga. Hún situr í stólnum og prjónar en lítur reglulega upp til að sjá hvað er að gerast í leiknum. Oftast hefur hún athugasemdir um leikinn. Ef tækling sést segir hún: "Ógeðslegir fautar eru þetta". Um daginn sá hún Edgar Davids spila og sagði: "Þessi getur nú ekkert hlaupið, það er svo þungt á honum hárið. Svo slæst það utan í hann". Það er ýmislegt í þessu sem þarf að athuga. Ég fellst að sjálfsögðu á allar athugasemdir ömmu.

Merkilegt hvað ömmur hafa miklar áhyggjur af matarvenjum. Alltaf á morgnana er ég spurður: "Ertu búinn að fá þér eitthvað?"

Vinnustaðagrínarar

Á bækistöðinni þar sem ég vinn eru tveir menn sem sumir myndu kalla einfeldninga. Þeir eru alltaf með mér í hádegismat og bregða þá gjarnan á leik. Um daginn sagði annar þeirra við einn strákinn á bækistöðinni: "Ég vildi að þú værir bróðir minn því þú ert með bílpróf. Þá gætirðu keyrt mig hvert sem er. Svo gætum við farið saman að kaupa geisladiska og skoðað frímerkin mín". Hann sagði líka: "Þú ert svo gáfaður að vera með bílpróf."

Þessi ummæli vöktu lukku. Þessir menn vekja gjarnan lukku.

Hakkavél

Nú er skólaárið liðið og ég náði prófum. Sumir tóku bekk í annað sinn og náðu ekki prófum. Þeir eru í vondum málum og þurfa að skipta um skóla. Stærðfræðikennari nokkur kenndi mér um x og f(x) og líkti því við hakkavél. Í vélina færi x og út kæmi f(x). Ég líki bekkjunum í MR við hakkavél. T.d.: í vélina fer 4.bekkingur og út kemur 5.bekkingur. Þetta er þó ekki algilt. Stundum stíflast vélin þegar nemanda er troðið í hana. 4.bekking er troðið í vélina, hún stíflast og gangtruflanir heyrast. Hún stíflast ekki endilega vegna þess að nemandinn sé feitur, sjaldnast er það ástæðan. Ástæðan fyrir stíflun er oftast sú að nemandi er ekki nógu duglegur að læra. Einnig getur heimska átt hlut að máli en það er fátítt. Ef 4.bekkingur er duglegur að læra ætti hann að renna örugglega gegnum vélina og koma jafnvel út sem gourmet 5.bekkjarhakk, þ.e. 5.bekkjarnemandi.

Þetta er fáránleg líking.