fimmtudagur, 30. júní 2005

Sveitin 17. júní

Helgina 17.-19. júní fórum ég, Nína, mamma og Arnar frændi norður í Lón og hittum afa, Einar, Steinar, Guggu og Ásdísi litlu. Einar og Gugga réðu mig, Nínu, Steinar og Arnar í vinnu við að græða landið. Gróðursettum við frændsystkin hundruð greni- og lerkiplantna í landi Lóns. Norðurlandsskógar létu Einar og Guggu hafa plönturnar og peninga fyrir hverja gróðursetta plöntu. Okkar kjör voru 6 kr. á hverja plöntu, ég fékk 9 kr. á hverja vegna þess að ég lét áburð fylgja með. Steinar dreifði áburði á plöntur Nínu og Arnars og fékk 8 kr. á hverjar tvær plöntur og fyrir verkstjórn. Ég eyddi því þjóðhátíðardeginum og deginum eftir í að græða landið. Upp úr krafsinu hafði ég 7560 kr. og útborgað strax. Kom það sér afar vel þótt fljótt hafi verið að fara. Í dag kom útborgun frá Kirkjugörðunum og var hún nokkuð hærri enda mun lengri vinnutími. Ég er mjög hrifinn af launum á hvert gróðursett tré. Það er vinnuhvetjandi kerfi og mætti taka upp þess háttar kerfi víðar.

Ég reikna með að fara í berjamó með krakkana þarna í stóran og fallegan skóg þegar ég verð fertugur. Á myndinni má sjá okkur systkinin með réttu græjurnar.

þriðjudagur, 28. júní 2005

Árni Johnsen og Smaladrengirnir

Einhvern tímann skrifaði ég hér að Creedence Clearwater ættu bestu útgáfuna af laginu Cotton Fields Back Home. Það var áður en ég heyrði þetta óborganlega meistaraverk sem nauðsynlegt er í almennileg partý:
Árni Johnsen og Smaladrengirnir - Cotton Fields Back Home

mánudagur, 27. júní 2005

Smánarblettur á fjölmiðlaflórunni

Hið nýja slúðurblað, Hér og nú, er smánarblettur á fjölmiðlaflóru landsins. Umfjöllun þeirra um mál Bubba Morteins er einstaklega siðlaus og ósmekkleg. Um daginn stóð á forsíðu blaðsins í með risaletri: "BUBBI FALLINN!". Héldu þá margir að Bubbi væri byrjaður í eiturlyfjaneyslu á nýjan leik. Svo var ekki, heldur snerist málið um að Bubbi væri farinn að reykja aftur. Hið fyrrnefnda var sterklega gefið í skyn án þess að vera sagt berum orðum. Eiríkur Jónsson, starfsmaður blaðsins, segir að öll umfjöllun um málið hafi verið sönn og það geri fréttamenn blaðsins að blaðamönnum og að ef eitthvað væri ósatt væru þeir skíthælar.

Ekki legg ég mikla trú á blað sem slær upp slíkri fyrirsögn og ræðst jafnhart fram gegn fólki sem gengur í gegnum erfiðan skilnað. Munu blaðamenn hafa hringt í málsaðila daginn út og daginn inn með ágengar spurningar. Umfjöllunin þjónar þeim tilgangi að selja blaðið. Því miður virðist ekkert heilagt þegar kemur að því. Besta leiðin til að koma í veg fyrir frekara siðleysi blaðamannanna er að hundsa blaðið.

sunnudagur, 26. júní 2005

Pönnukökur og Kim Larsen

Nú er ég að fara að baka pönnukökur. Smellti plötu með Kim Larsen á fóninn til að baka við. Er það ekki einmitt það sem maður á að gera á sunnudegi (baka með Kim Larsen í botni og syngja með og brenna draslið við). Það er víst kökudagur á morgun í vinnunni og ef ég mæti ekki með heimabakstur verð ég kýldur.

Í gær var bjór sötraður hér og horft á Litlu lirfuna ljótu á frönsku og ensku ásamt einni Fóstbræðraspólu í góðra vina hópi. Litla lirfan ljóta á frönsku er stórkostleg. Egils Premium er mjög góður bjór.

Heyrði þátt Hemma Gunn í útvarpinu um daginn. Hemmi er meistari eins og flestum ætti að vera kunnugt. Hann fékk til sín misgóða gesti, m.a. Á móti sól. Sú hljómsveit söng nokkur lög og alveg var rosalegt hvað söngvarinn söng falskt og illa. Hemmi sagði eftir eitt lagið þeirra: "Það verður að taka viljann fyrir verkið" og hló tröllslega enda var það hörmulega lélegur flutningur. Svo sagði hann eftir að hljómsveitin var farin: "Jæja, þá eru drengirnir í Á móti sól loksins búnir að hypja sig héðan út". Hemmi er frábær og þeir sem segja annað ættu að hafa vit á að þegja. Hér eru nokkrir af þeim mönnum sem bannað er að gagnrýna:
Hemmi Gunn
Megas
Kim Larsen
Raggi Bjarna
Laddi.

Gagnrýni: Voksne Mennesker

Önnur mynd Dags Kára nefnist Voksne Mennesker og fer fram í Danmörku, á dönsku. Myndin er býsna keimlík fyrri mynd Dags, Nóa albínóa. Hún er hæg og fjallar um óttalega latan aula og slugsa sem er utanveltu í samfélaginu. Hann hefur ekki fasta vinnu en tekur nokkur smáverk að sér sem verktaki. Besti vinur mannsins er feitur, latur og vitlaus og langar að verða knattspyrnudómari. Myndin er býsna fyndin en fær mínus fyrir kafla sem þjóna litlum tilgangi og teygja því lopann. Nokkrir kaflar með "ofurlistrænum" hljóðfæraleik mættu fjúka. Myndin væri betri án þeirra.

Einkunn: 7,78.

laugardagur, 25. júní 2005

Breytingar

Ýmsar breytingar hafa orðið á fjölskyldu- og búsetumynstri í kringum mig á síðustu misserum.

1998-2004 bý ég í Breiðholti. Faðir minn kennir og móðir mín er framkvæmdastjóri.
2003,ágúst: Foreldrar skilja. Pabbi flytur út í kjölfarið.
2004, ágúst: Ég, mamma og systir mín flytjum í Vesturbæ.
2004, desember: Pabbi fær starf sem túlkur í bænum Dronninglund á Jótlandi í Danmörku. Þar kaupir hann sér hús og sest að. Staðan er til fjögurra ára með möguleika á framlengingu í önnur fjögur.
2005, ágúst: Mamma hefur störf sem lektor við Danska lyfjafræðiháskólann í Kaupmannahöfn í Danmörku og flytur þangað ásamt systur minni. Systir mín hefur nám í dönskum menntaskóla. Lektorsstaðan er til tveggja ára.

Það er óneitanlega nokkuð sérstakt að foreldrar flytji út af heimilinu einn af öðrum. Hélt að venjan væri nú að börnin flyttu að heiman þegar þau væru uppkomin en ekki foreldrarnir. Ég verð einn eftir hér í Vesturbæ, ógiftur og barnlaus og lýk námi í MR. Óvíst er um framhaldið.

miðvikudagur, 22. júní 2005

Pólverjar í ræstingum

Ættingi sagði mér frá Pólverjum sem vinna við ræstingar á hóteli hér í borg. Pólverjarnir segjast tala ensku. Þegar yfirmaður segir við þá: "Mop the floor" (skúraðu gólfið) þá svara þeir með bros á vör "YES" og fara síðan að ryksuga. Ef yfirmaður segir "clean the toilets" er svarið einnig "YES" með brosið góða og síðan drífa þeir sig að þrífa borðdúkana. Um daginn sagði hann við einn Pólverjann "Aligator in the garden?" og hvert var svarið?...

..."YES" og ylhýrt bros.

Langamma

Því miður sá ég bara tvær langömmur mínar á lífi. Ein langamman, sem var dáin áður en ég fæddist, fór bara í bað tvisvar á ári og þótti það andskotans nóg. Svo sagðist hún vera húsfrú á fínu heimili og sagði að mamma og frænka mín væru vinnukonur hjá sér. Mér skilst að móðir mín hafi ekki viljað skrifa upp á það.

þriðjudagur, 21. júní 2005

Rassgat

Skrifaði langa færslu en hún hvarf þegar Blogger klikkaði. Slíkt nefnist rassgat.

Riddarar réttlætisins

Líkt og svo margir fórum við út á land um liðna helgi. Nokkrum mínútum áður en við komum á Blönduós komum við inn á kafla með nýlögðu slitlagi. Þar tókum við fram úr bíl sem fór heldur hægt. Þetta átti eftir að koma okkur í koll.

Við fórum inn á bensínplan á Blönduósi. Þar kom bíll og lagði upp að hlið okkar bíls og vildi segja eitthvað. Hann beindi orðum til mömmu sem sat í ökumannssæti á þessum hluta leiðarinnar:
"Sástu ekki skiltið?"
Mamma: "Hvaða skilti?"
Maðurinn: "Skilti sem sýndi 50 km hámarkshraða"
Mamma: "Nei"
Maðurinn: "Nei, ég er nefnilega á lánsbíl og þið tókuð fram úr mér á nýlagða slitlaginu og mokuðuð grjóti yfir bílinn"
Mamma: "Já."
Maðurinn "Ég er að hugsa um að kalla til lögregluna."
Mamma: "Þá gerir þú það bara"
Maðurinn: "Þið passið kannski upp á þetta í framtíðinni"
Mamma: "Er þetta ekki orðinn ágætis pistill hjá þér?"
Maðurinn: "Já, það er voða leiðinlegt þegar fólk blabla..." meira heyrðist ekki því nú var hann að keyra á brott aftur. Hann gjóaði augunum ógnandi á númeraplötu bílsins á meðan hann kom sér burt hægt og rólega. Síðan ók hann til baka. Hann hafði sem sagt lagt lykkju á leið sína til þess eins að koma vitinu fyrir sauðheimska ökumenn sem skeyta engu um lánsbíla eða hámarkshraða. Hvað gerir maður ekki til að koma vitinu fyrir fólk? Engar skemmdir var að sjá á lánsbílnum.

Fíflið hefur væntanlega þurft að aka yfir þessum hámarkshraða á nýlagða hlutanum til að ná okkur aftur. Nauðsyn brýtur lög. Ef ég hefði viljað berjast gegn ranglæti eins og þessi maður hefði ég þurft að elta ansi marga ökumenn, suma jafnvel á 130 km hraða.

mánudagur, 13. júní 2005

Gestaþraut

Þegar ég var lítill sýndu foreldrar mínir mér gestaþraut sem þeir áttu. Þrautin var skringilegur óreglulegur hlutur sem átti að raða saman í rétta röð. Ég spurði hvers vegna þetta héti gestaþraut og var svarað: "Jú, sjáðu til, það er vegna þess að þetta er þraut sem við látum gesti leysa". Þetta þótti mér mjög sniðugt. Þegar gestir koma í heimsókn og maður veit ekkert hvað maður á að gera við þá, dregur maður gestaþraut fram úr erminni sem þeir geta glímt við. Enginn gestur fær að fara heim fyrr en hann hefur leyst gestaþraut heimilisins.

Einn daginn fengu pabbi og mamma gesti. Þá stökk ég fram með gestaþrautina og spurði "Eiga gestirnir ekki að leysa gestaþrautina". "Leiktu þér með þetta frammi" og ég fór vonsvikinn fram með gestaþrautina góðu. Fljótlega áttaði ég mig á því að gestir eru aldrei látnir leysa gestaþrautir. Nafnið er bara gert til þess að rugla litla krakka sem eru þó ruglaðir fyrir.

Eins og alltaf er ein undantekning sem sannar regluna. Á mörgum heimilum eru klósettlæsingar stirðar og skrýtnar og heimilisfólk er eina fólkið sem kann á þær. Þegar gestir bregða sér rétt sem snöggvast á snyrtinguna getur farið svo að þeir megi dúsa á klósettinu í nokkra klukkutíma. Stirðar klósettlæsingar eru hin fullkomna gestaþraut. Sérstaklega vegna þess að gesturinn er ekki látinn vita áður en hann fer á klósettið og læsir. Hann gerir þarfir sínar en þegar hann er búinn og ætlar út aftur þá FOKK!: "Halló, ég er læstur inni". Heimilisfólkið heyrir í gestinum og stillir sér upp fyrir utan dyrnar og segir: "Þú verður að glíma svolítið við þetta...þetta er sko gestaþraut".
Gestur:"Látiði ekki svona, segið mér hvernig ég á að opna"
Heimilisfólk: "Reyndu nú að láta þér detta eitthvað sniðugt í hug"
Gestur: "Hvað er þetta?! Hjálpið mér út!"
Heimilisfólk: "Það hafa allir gestir fattað þetta hingað til" o.s.frv. þar til gesturinn er orðinn sjóðandi vitlaus og búinn að ákveða að koma aldrei í heimsókn aftur á þetta heimili.

Ruslana Lizhichko

Hlustaði áðan á disk með eurovisondrottningunni Ruslönu Lizhichko. Ekki hlustaði ég þó sjálfviljugur. Kannski er það misskilningur, en mér fannst þetta allt vera sama lagið og allt sami textinn. Reyndar var sungið á úkraínsku.

Hún Ruslana Lizhichko kann ekki ensku. Samt söng hún lagið Wild Dances í keppninni. Skyldi hún vita hvað það þýðir? Fékk hún kannski bara fyrirmælin: "Syngdu: "dæriraræra vardíro HEI dæriraræra hótærotsen HEI!...Wild Dances!"" ?

laugardagur, 11. júní 2005

Fótbolti og Pajdak-bræður

Fór á leik Fram og ÍA með þeim Pajdak-bræðrum (Tom, Rob og Vikk). Leikurinn fór 0-0 en Framarar voru sjóðandi vitlausir út í dómarann. Dómarinn gaf engum skagamanni gult en einum Framara og voru þeir ekki par sáttir. Einn sagði: "Gefðu fíflinu spjald. Ekki eins og Óli Þórðar komi og lemji þig" þegar hann sleppti skagamanni með spjald. Það er ekkert öruggt í þeim efnum. Óli gæti alveg lamið helvítið. En Óli er samt klassagaur. Það hefur verið skoðun mín síðan ég fylgdist með honum spila á Skaganum í gamla daga. En nú er ég að fara út að grilla. Út að grilla með Fazmo (og ískaldan Pripps í dós).

föstudagur, 10. júní 2005

Siðgæðisvörðurinn

Dag nokkurn fyrir skemmstu var ég í ökuferð með mömmu og Nínu. Loft vantaði í annað afturdekkið á bílnum og ég átti að aka á bensínstöð og pumpa í það. Sem ég í rólegheitum ók um miðbæinn kemur skyndilega bíll upp að hlið bílsins og ekur samsíða. Gott og vel. Allt í einu fer bílstjóri hans að veifa. Ekkert okkar þekkti þennan bílstjóra og ekki veifuðum við á móti. Því næst fór hann að veifa með báðum höndum sem óður væri. Við héldum réttilega að maðurinn væri óður en ég einbeitti mér áfram að akstrinum. Enn óðari gerist nú maðurinn og fer að snúa annarri hendinni í hringi. Aaa, látbragðsleikur. Mamma skrúfaði nú niður rúðuna til að gaumgæfa betur æði mannsins. Maðurinn segir þá "Heyrðu það er rosalega lint í afturdekkinu hjá þér. Ég mundi athuga með þetta, annars gæti þetta eyðilagst".

Hugulsemin á einum manni. Þarna lagði hann sjálfan sig og samferðarmenn í hættu til þess að gæta að umferðarsiðferði. Hann fórnaði sér og sínum. Ef hann gætir ekki að öryggi almennings, hver gerir það þá? Siðgæði almennings er víða ábótavant og þörfin fyrir siðgæðisverði mikil. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Held að þessi ágæti maður ætti að einbeita sér að akstrinum framvegis.

miðvikudagur, 8. júní 2005

Skítverkin

Það má segja að maður hafi verið ráðinn í skítverkin í sumar. Þegar képpinn var að slá áðan með orfinu, sló hann í hundaskít. Hundaskíturinn var ljós yfirlitum og gott ef hann var ekki moðvolgur líka. Þegar orfið fór á kaf í skítinn þeyttist hann um víðan völl. Orfameistarinn taldi sig þó hafa sloppið en svo var alls ekki. Fljótlega fór að bera á skítafýlu og þegar betur var að gáð voru skítaflygsur á andlitshlífinni. Þá þurfti að henda henni í bað. Þetta undirstrikar það að hundar eiga ekki heima í borg heldur í sveit.

Svo virðist sem engin virðing sé borin fyrir þessum stað því dópistar safnast stundum þar saman og skilja eftir sig bæði sprautur og bognar gosflöskur. Þetta pakk ætti að finna sér annan stað til iðju sinnar og þrífa eftir sig því það er ekki hressandi að finna þetta á leiðunum.

þriðjudagur, 7. júní 2005

Kartöflukirkjugarður og sólbað

Vinnudrengur nokkur fékk þá hugmynd að rækta kartöflur í kirkjugarðinum á leiðum. Þótti mér og fleirum til mikils sóma. Þá mætti hugsa sér að kartöflur, ræktaðar á leiði Jóns Sigurðssonar forseta, væru dýrari en kartöflur ræktaðar á leiði Gunnars Einarssonar baðvarðar sökum snobbgildis. Með þessu gætu kirkjugarðar öðlast hagnýtt gildi. Hví ekki?

Um daginn var ég að slá í kirkjugarðinum þegar ég skyndilega rambaði fram á konu sem lá þar í sólbaði. Mér var brugðið enda ekki algeng sjón. Hún kippti sér ekkert upp við hávaðann í orfinu og um stund hélt ég að hún væri látin. Þá hefði hún valið staðinn af kostgæfni. En ekki var hún látin. Hvurs konar fólk fer í sólbað í ríki látinna? Var konan haldin alvarlegri þráhyggju? Var konan haldin víðáttufælni?

Kannski fann hún bara rólegan stað til að sóla sig. Ekki þurfti hún að óttast truflun frá látnu fólki. Sólbað í kirkjugarði. Hví ekki?

mánudagur, 6. júní 2005

Grínvekjari og grínmamma

Stundvíslega klukkan 7:00 í morgun hringdi vekjarinn minn. Ég hélt að þetta væri bara eitthvað grín svo ég reis upp og slökkti á vekjaranum og fór aftur að sofa. Klukkan 7:30 vaknaði ég við að mamma bankaði á dyr herbergisins. Ég spurði svefndrukkinn: "Hvað ert'að banka?". Móðir mín svaraði: "Átt þú ekki að vakna?". Þá mundi ég. Þá mundi ég að það er mánudagur. Þá mundi ég að ég á að mæta í vinnu á mánudagsmorgnum.

Það er ljótt þegar alvara lífsins vekur mann að morgni dags.

föstudagur, 3. júní 2005

Boðlegt?

Þegar slegið er með sláttuorfi er að mörgu að huga. Í fyrsta lagi þarf að hafa sterkan sláttuvír. Nú er mér kunnugt um þrjár tegundir víra í orfabransanum. Sá appelsínuguli er algengastur og virðist hafa markaðsráðandi stöðu. Svo eru það sá skítagræni og sá guli. Guli er örþunnur og bítur ekki á blautan skít. Grasið bítur hins vegar á honum og hann splundrast af minnsta tilefni. Í dag prófaði ég í fyrsta sinn þennan skítagræna, hann er þykkur og sterkbyggður og maður skyldi ætla að slíkur vír entist betur en hinir. En svo er ekki, hann er svosum betri en guli þunni en alveg jafn fljótur að eyðast. Þar að auki ber að nefna að hann er leiðinlegur í notkun og lætur illa að stjórn þegar hann er festur í.

Niðurstaða: Appelsínuguli er bestur.

Í gær biluðu þrjú orf af þremur mögulegum á vinnustaðnum. Það kalla ég ekki boðlegt. Mótorinn brotnaði af stönginni á einu um leið og það var ræst. Fékk hann sjálfstæðan vilja og snerist sem óður væri. Það var heppni að drepa tókst á helvítinu í tæka tíð því enginn veit hvert mótorinn hefði getað ætt annars. Á öðru orfi bráðnaði gat á bensíntankinn. Það þriðja ofhitnaði og tankurinn lak. Þetta segir bara það að við værum betur sett með gamaldags orf og ljá heldur en þessi hávaðatól sem eru síbilandi.