fimmtudagur, 29. apríl 2004

Hrósið

Kristján Kristjánsson í Kastljósinu er greinilega farinn að taka sig saman í andlitinu. Hann og Svanhildur tóku Halldór Ásgrímsson og pökkuðu honum alveg saman í Kastljósinu um daginn og var Halldór farinn að svitna verulega undan beittum spurningum þeirra um fjölmiðlafrumvarpið. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé Kristján sleppa því að klappa stjórnarliða á bakið í viðtali. Ég vil sjá meira af þessu.

Ég er ekki vanur að hrósa sjálfstæðismönnum en ég vil hrósa einum núna. Þorgerður Katrín menntamálaráðherra er langskeleggasti sjálfstæðismaðpur sem ég hef séð auk þess sem hún kemur vel fyrir. Hún var í Kastljósi í gær og tókst bara glettilega vel að verja hið fáránlega fjölmiðlafrumvarp. Annað en Davíð sem oftar en ekki lætur stjórnast af frekju og einræðissjónarmiðum. Já og við skulum ekkert vera að ræða um Björn Bjarnason. Þorgerður væri vel af formannsstóli komin þarna eftir að Davíð hættir.

þriðjudagur, 27. apríl 2004

The OC og fóstur

Undanfarið hafa nemendur í bekknum mínum verið að flytja fyrirlestra í ensku um frjáls efni. Tvær stúlkur fjölluðu um fóstur og þroskaskeið þess. Svo var annar stelpnahópur sem fjallaði um sápuóperuna The OC af gríðarlegum áhuga. Lýstu þær vandamálum persónanna og sálarflækjum þeirra og lifðu sig svo inn í þetta að mörgum þótti nóg um. Í síðasta þætti mun t.d. hafa komið í ljós að pabbi Ryans (eða eitthvað) var gay dammdammdammdamm og voru þær stöllur að rifna úr spenningi yfir því hvað skyldi nú gerast í næsta þætti.

Einhverra hluta vegna hef ég ekki séð mér fært að fylgjast með The OC.

mánudagur, 26. apríl 2004

Nýsjálensk mynd á RÚV í gær

Sá einhver myndina á RÚV í gærkvöldi? Fjallaði um gamla geðveika konu sem stal rúmteppum og mikið af þeim (því henni var kalt) og unga konu og mann hennar. Unga konan seldi síðan allar kýr bónda síns til að fá rúmteppið sitt aftur frá gömlu. Unga konan var líka geðveik. Svona soldið spes.

Björn Bjarnason

Dómsmálaráðherra sem segir að gildandi lög séu börn síns tíma er náttúrulega ekki boðlegur.
Já, svo vill Davíð verða einræðisherra svona rétt áður en hann hættir í forsætisráðuneytinu. Ef menn geta ekki sagt eitthvað fallegt um hann og hans stjórn þá á bara að kippa undan þeim löppunum með lagasetningu. Er lýðræði á Íslandi eða einræði?

Tölvan heima er biluð. Alveg makalaust helvíti.

föstudagur, 23. apríl 2004

Gott að það er að koma sumar.

Bólga

Nú er ég að verða geðveikur á þessu endajaxlahelvíti. Síðan ég vaknaði í morgun hef ég bólgnað og bólgnað í kjaftinum hægra megin og bólgustillandi töflurnar eru búnar. Það er varla hægt að borða svona, hvað þá að vera í skólanum.

mánudagur, 19. apríl 2004

Ég hef alltaf mjög gaman að Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskólann. Síðasti þátturinn af Nýjasta tækni og vísindi var í kvöld og var hann helgaður þessari keppni. Slæmt að þátturinn hætti, af hverju kemur ekki bara nýr umsjónarmaður? Elsti þáttur Sjónvarpsins og einn af þeim betri.

Að endajaxlatöku lokinni - dofinn í kjafti og uppdópaður af verkjalyfjum

Jæja, ég fór í endajaxlatökuna kl. 11:30 í morgun hjá Sævari Péturssyni MSc. (sérfræðimenntaður). Það gekk nú á ýmsu. Merkilegt hvað þessar tannlæknastofur eru orðnar tæknivæddar, mér var boðið að setjast í stólinn, svo átti ég að velja hvað ég vildi horfa á á meðan á aðgerð stæði. Boðið var upp á Friends eða 70 mínútur. Ég valdi auðvitað ekki Friends, ég læt ekki misbjóða mér með svona dósahúmor. Þannig að það var ljóst að gónt yrði á 70 mínútur meðan helvítis tönnunum væri rykkt úr með blóðbaði og öllum græjum. Fyrsta verk tannlæknisins var að deyfa mig. Ég hélt að ég væri ekki lengur með sprautufóbíu, en það reyndist rangt. Mér finnst með því viðbjóðslegra að vera sprautaður svona með stærðarnál í tannholdið. Ekki nóg með að það hafi verið gert heldur var sprautunni aðeins juðað til, við mikinn hrylling minn (þetta var frekar sárt). Það vildi síðan ekki betur til en svo að skömmu síðar leið yfir mig. Sem betur fer var fagfólk að vinna þarna og það var enginn æsingur yfir því að ég hefði misst meðvitund heldur var talað rólega við mig og mér fært kókglas (skrýtið samt að fá kókglas á tannlæknastofu (en það var til að hækka blóðsykurinn)). Síðan var næstum liðið yfir mig í annað sinn en það slapp fyrir horn. Svo voru tennurnar röntgenmyndaðar. Eftir það var bara hafist handa við aðalmálið, að rífa endajaxlana úr. Það var ákveðið að rífa þá bara alla fjóra. Það fannst mér nú lítið mál. Einn jaxlinn var slípaður með slípirokki og það var bölvaður nístingshávaði í honum en hinir voru bara dregnir úr og það var ekkert vont. Svo þarf kjafturinn að fá sérstaka meðhöndlun næstu daga og fékk ég leiðbeiningar um það. Tannlæknirinn og aðstoðarmanneskjan hlógu að 70 mín (þetta var þarna best of diskurinn nr.1) en ég gat ekki mikið hlegið að því, svona deyfður í kjafti. Frekar fyndið að sjá tannlækni haldandi á alblóðugum endajaxli með töng og hlæjandi um leið að fíflagangi í sjónvarpi. Svo fékk ég helvítis parkódín eftir þetta og var alveg uppdópaður af því. Ég þarf að fara að leggja kaldan bakstur á þetta núna fljótlega.

Svo er það bara fljótandi fæði næstu vikuna.

Ég verð að fara að drífa mig til Dr. Phil til að láta lækna sprautufóbíuna. Ég hef aldrei skilið fólk sem er lofthrætt eða flughrætt eða jafnvel vatnshrætt. Mér hefur alltaf fundist það bara vera hrein og klár heimska. En ég get svosum ekki verið að segja mikið, því auk sprautufóbíunnar er ég með rosalega fóbíu fyrir kynsjúkdómum og slíku. Alltaf þegar sýndar eru myndir af kynfæravörtum eða þess háttar verð ég hálfmeðvitundarlaus, líka þegar talað er um svona sjitt í dálítinn tíma. Þá fer mér að sortna fyrir augum. Þess vegna hata ég þegar talað er um þetta í líffræðitímum. Þannig að ég ætti lítið að vera dæma fólk með lofthræðslu og þess háttar.

laugardagur, 17. apríl 2004

Allt í einu man ég eftir einni sögu sem ég hef ósjaldan heyrt frá foreldrum mínum, frá því þegar þau stunduðu nám í Kaupmannahöfn. Ég mundi eftir þessu af því að Frikki var að skrifa um fimmtán ára drengpjakk sem var iðinn við að stela.

Sagan er á þá leið að einhver vinur foreldra minna fór á hverjum degi á Aðaljárnbrautarstöðina í Kaupmannahöfn á hjólinu sínu. Þaðan tók hann síðan lest til vinnu sinnar. Hann skildi nestispakka alltaf eftir á bögglaberanum á hjólinu áður en hann fór með lestinni. Nema hvað, alltaf þegar hann kom til baka var búið að stela nestispakkanum. Einn daginn, þegar hann var orðinn mjög þreyttur á þessu, skeit hann í pakka og skildi eftir á bögglaberanum. Viti menn, helvítis þjófurinn hafði síðan stolið kúknum í pakkanum þegar maðurinn kom til baka. Ekki er vitað hvort þjófurinn hefur gætt sér á rjúkandi hægðunum eða ekki, eins og hann hafði hámað í sig nestið á hverjum degi.

Svakaleg saga. Fertugrahúmor?

föstudagur, 16. apríl 2004

Nauðgunarlyf í drykki

Það var fjallað um þetta í Fréttablaðinu í dag. Óprúttnir menn hafa stundað það að setja ýmis deifilyf og jafnvel eiturlyf í drykki stúlkna á skemmtistöðum með það að markmiði að gera þær rænulausar og nauðga þeim síðan.
Djöfull verður maður reiður við að lesa um svona mannandskota. Að það séu til svona aumingjar og fífl í samfélaginu. Ef það væri bara hægt að ná þeim. Það ætti að binda þá við staura uppi á hálendi allslausa og láta þá drepast, helst í frosthörkum og blindbyl.
Svo rak mig nú alveg í rogastans þegar ég sá í fjölmiðlum fyrir skemmstu að úti í heimi væru til samtök barnaníðinga sem kölluðu sig NAMBLA. Ég hafði séð áður held ég í South Park þætti eitthvað um þetta NAMBLA, en mig grunaði ekki að það væri til í alvöru. Sérstaklega reitir þetta mann til reiði vegna þess að maður getur ekkert gert í þessu, þótt maður vildi gjarnan láta þessa menn finna til tevatnsins.

Það er hægt að fyrirgefa margt, en svona lagað á ekki að fyrirgefa.

Gestabloggari skrifar:

Ég rakst á nokkuð stórmerkilegt rétt áðan, á síðunni
http://www.blogwise.com/bycountry.php?country=100
en þetta er síða yfir íslensk blogg. Það væri þó ekki frásögu færandi nema hvað
þar er tengill á Shish kebab, þessa síðu, með lýsingu:

Blessaður karlinn
Complete schizophrenia

Þýðing lýsingarinnar útlegðist þá : Algjör geðklofi/geðrof.

Þetta þótti mér makalaust og bráðfyndið.

fimmtudagur, 15. apríl 2004

Maður eldist um mörg ár við að drekka kaffi. Ég er ekki lengur þessi stráklingur, allt í einu er ég orðinn gamall karl. Það kæmi ekki á óvart ef ég ætti eftir að fara á Café Paris á næstunni og ræða heimsmálin við Jörmund allsherjargoða, Thor Vilhjálmsson og fleiri gamla spekinga yfir bolla af kaffi.

Ég hef drukkið slatta af kaffi upp á síðkastið. Ég hef fordæmt kaffidrykkju harkalega hingað til. En nú er ég allt í einu farinn að linast í þeim fordæmingum, veit ekki af hverju. Þetta byrjaði allt þannig að ég fékk kaffi heima hjá Einari, rótsterkt, sem dr. Hallgrímur faðir hans, hellti upp á. Þar gat ég alls ekki afþakkað kaffi þótt ég hefði ávallt afþakkað slíkt áður. Til að byrja með ákvað ég að drekka bara kaffi sem dr. Hallgrímur hellti upp á, en svo hef ég linast í því líka. Ég er búinn að sötra kaffi á kaffihúsum og ég veit ekki hvað og hvað. Svo fékk ég rótsterkasta kaffi sem um getur á Kúbu og það var ekki bragðgott, þrátt fyrir að sykrinum væri mokað út á. Nú er ég líka kominn með mína hentisemi varðandi kaffið, það þarf að sykra það duglega svo það bragðist sæmilega, helst molasykur. Svo er nauðsynlegt að skevetta mjólkurdreitli út á líka til bragðbætingar og til að kæla brennandi heitt kaffið fljótt og örugglega. Ég veit ekki hvort ég á að vera stoltur af þessu. Eitt er víst, kaffið heldur manni vakandi og það er stundum nauðsynlegt að halda sér vakandi yfir lærdómnum. Ég reyni nú samt að sötra kaffi í miklu hófi. Kaffidrykkja verður alls ekki daglegt brauð hjá mér, a.m.k ekki á næstunni.

miðvikudagur, 14. apríl 2004

The Doors er rosalega ofmetin hljómsveit. Mig grunar að Rostungurinn sé ósammála því.

Djöfulsins tímamismunur. Nú líður mér eins og klukkan sé 20:39 en hún er í raun 00:39 af því að klukkan er 20:39 á Kúbu (þ.e. ég er ekkert þreyttur, búinn að fokka sólarhringnum upp). Svo þarf ég í fjandans skólann á morgun.

Myndir og umfjöllun um Kúbuferð eru væntanlegar.

þriðjudagur, 13. apríl 2004

Ég hef ansi oft ruglað þeim félugum Morgan Freeman og Samuel L. Jackson saman í gegnum tíðina. En þegar betur er að gáð eru þeir ekki sérstaklega líkir.

Flugfreyjuleikritið

Ég er nýkominn heim frá Kúbu. Lenti kl.4:40 í nótt. Á langri flugleið, tíu klukkutíma flugi hefur maður lítið að gera (reyndar bara sjö tíma á leiðinni heim því millilendingu var sleppt). Sérstaklega var lítið að gera núna þar sem það var ekki einu sinni hægt að horfa á bíómynd, hljóðrásir voru bilaðar. Ég gat ekki sofnað á leiðinni heim þannig að ég var mikið bara að spá og spekúlera í ýmsum hlutum. Ég velti því meðal annars fyrir mér hvað það hlýtur að vera hundleiðinlegt að vera flugfreyja. Hin dæmigerða flugfreyja er 34 ára, ljóshærð, og orðin töluvert krumpuð af of mikilli ljósabekkjanotkun.

Svona kemur starf flugfreyju mér fyrir sjónir (sett fram á leikritsformi):
Farþegar ganga um borð.Flugfreyja brosir svokölluðu "feiksmæli" (gervibrosi eins og sumir kalla það) á meðan hún býður farþegum góðan daginn.
Flugfreyja:(á röðina)Góðan dag. Góðan dag. Góðan dag...
Farþegar setjast í sæti sín. Ekki líður á löngu þar til flugfreyja fer að bjóða drykki.
Flugfreyja:(gengur á röðina)Hvað má bjóða þér að drekka?
Flestir farþegarnir biðja um áfengi. Sumir biðja líka um gos, safa eða vatn.
Flugfreyja dreifir mat á bökkum
Eftir matinn gengur flugfreyjan enn á röðina:
Flugfreyja:Kaffi? Kaffi? Kaffi?...
Og aftur:
Flugfreyja:Te? Te? Te?...
Fimm mínútum síðar:
Flugfreyja:Saga boutique? Saga boutique? Saga boutique?...(afhendir farþegum Saga boutique bæklinga)
Farþegi hringir þjónustubjöllu. Flugfreyjan fer til hans. Farþeginn rausar um eitthvað helvítis krem sem fæst í Saga boutique og spyr heimskulegra spurninga. Kaupir síðan ekkert.
Annar farþegi hringir þjónustubjöllu. Biður um meira áfengi. Flugfreyja selur honum áfengi.
Aftur er komið að því að ganga á röðina:

Flugfreyja:Vatn eða meira kaffi? Vatn eða meira kaffi? Vatn eða meira kaffi?...
Farþegi: (kallar hátt) Hei fröken! Viltu skenkja mér meira romm hérna í glasið.
Flugfreyja kemur og skenkir honum romm í glasið. Farþeginn er orðinn nokkuð vel hífaður og kominn með rauðglansandi augu. Hann klípur flugfreyjuna í rassinn þegar hún er að fara og hlær hátt.
Enn eina ferðina gengur flugfreyjan á röðina:
Flugfreyja:Má bjóða þér að versla í Saga boutique? Má bjóða þér að versla í Saga boutique? Má bjóða þér að versla í Saga boutique?...
Einn farþeginn kastar upp af óhóflegri drykkju í vélinni í bland við flugveiki. Flugfreyja gefur farþeganum vatn og nýjan ælupoka og spyr hann reglulega hvort honum líði ekki betur, það sem eftir er flugsins.
Drukkinn farþegi hringir þjónustubjöllu. Flugfreyjan flýtir sér til hans:
Farþegi:Ég var að gera bjölluat. Hahahaha. (farþegi hlær hátt að eigin brandara)
Farþegi hringir þjónustubjöllu, kvartar síðan hástöfum undan óætum mat í vélinni.
Margir farþegar eru orðnir sauðdrukknir og mjög háværir (sumir syngja) og ástandið í vélinni fer ekki batnandi og svona heldur þetta áfram allt flugið.

Ég ætla aldrei að verða flugfreyja.

föstudagur, 9. apríl 2004

Gestabloggari opnar eigin síðu

Það gerist ekki á hverjum degi að gestabloggari opni eigin síðu, en sú er raunin. Ber síðan nafnið Afsakið hlé og er slóð hennar www.afsakidhle.blogspot.com

fimmtudagur, 8. apríl 2004

Páskahugleiðing um fjölskyldurHvað eru fjölskyldur?

Það er fólk sem flestir eru tilneyddir til þess að lifa með fyrstu ár ævinnar en umgangast allt sitt líf. Þá að minnsta kosti við hátíðahöld, svo sem giftingar, fermingar, jól, páska og fleira (svo dæmi séu tekin fyrir ykkur þorskhausa sem ekki hefðu getað fundið dæmi sjálf), hvort sem viðkomanda líkar betur eða verr.

Hvað ef til dæmis Idi Amin væri pabbi manns? Og Hitler afi manns?
Við segjum þá páskahugleiðingunni lokið að sinni. Verið þið sæl.

Rétt í blálokin vil ég benda á villu sem margir gera. Þeir segja þá ranglega: Veriði sæl.
Rétt skal vera rétt og þetta skulu vera þrjú orð.

Lag færslunnar er Comfortably Numb með Pink Floyd (vona að Ásgeir hafi ekki haft slíkt á sínu bloggi).

miðvikudagur, 7. apríl 2004

Páskaleyfi

Já, það stendur yfir núna. Gesthús Dúna? Taktu með frúna.

Að öðru.

Nú er rigning úti og ég er búinn að vera að læra efnafræði undanfarna daga. Þá spyr maður sig:
Fyrst öll efni varðveitast, hvar eru þá öll efnin í börnum framtíðarinnar núna? Þar sem við erum að mestum hluta vatn hljóta þau að vera að mestum hluta í vatnsformi. Sumir dropar í rigningunni eru þá ekkert nema partur úr framtíðarbarni, því einhversstaðar verða þau að vera. Svo byrjar líf þeirra og endar. Þá verða þau vatnsdropar aftur.

Megas?

Fullt af hljómsveitum hefur boðað komu sína til Íslands. Er markaður fyrir þessu öllu? Fer sami maðurinn á Suga Babes og á Metallica?

laugardagur, 3. apríl 2004

Cuba Gooding Jr.

Á morgun fer ég til fyrirheitna landsins, Kúbu, ásamt mömmu og Nínu systur. Þar verða heimsmál rædd við Fidel Castro, vindlar reyktir og fleira. Havana og Varadero verða skoðaðar. Ég hugsa að ég muni kaupa nokkra Kúbuvindla, bara til að eiga, því ég ætla ekki að byrja að reykja bara til að geta reykt Kúbuvindla, þótt það væri óneitanlega töff. Svo hafa nokkrir beðið mig að kaupa slíka fyrir sig þannig að kvótinn í því verður líklega fullnýttur. Gestabloggarar skjóta kannski inn pistli eða tveim meðan ég verð utan en ég get engu lofað um það. Svo er ekki óhugsandi að ég bloggi eins og eina færslu frá Kúbu.


Spá mín um sigur Versló í Gettu betur rættist.

Lag dagsins

Creedence Clearwater - Hey Tonight.

Heyrðu!

Ég var bara með kleinur í morgunmat.

föstudagur, 2. apríl 2004

Endajaxl

Hann hefur brotist fram hratt og með miklu offorsi. Tennur biðja vægðar en það er hundsað. "Ekki trufla" segir hann og hlær hrossahlátri og brýst áfram.

Skaðinn er skeður. Kvikindið hefur hreiðrað um sig og fer hvergi. Tannlæknirinn er ráðþrota. Hann vísar á sérfræðinginn. Nú er bara spurning hvað sérfræðingurinn mun segja. Vísar hann á meindýraeyðinn? Endar þetta með fölskum tönnum? Þarf að brjóta kjálkann? Verður borað? Verður sagað? Verður sargað? Verður hlegið?

Þessum spurningum og fleiri verður svarað í endajaxlatöku minni þann 16. apríl næstkomandi klukkan 11. Þá munu helvítis lömbin þagna.

fimmtudagur, 1. apríl 2004

Af kennurum

Heyrðu, það er nú bara ekkert annað en það að Haukur Sveinsson íþróttakennari, sem nú er í ársleyfi, var í tíufréttum Sjónvarpsins nú rétt í þessu þar sem hann var að kaupa bensín hjá Atlantsolíu. Sagðist hann alltaf kaupa sitt bensín þar en að í dag væri sérstök ástæða til þess, en hin olíufélögin voru öll að hækka verð á bensínlítra um þrjár krónur.

Hróbjartur sögukennari var aldeilis í stuði í dag og gabbaði fjóra nemendur í tilefni 1. apríl. Sagði hann nemendunum, grafalvarlegur, að þeir ættu að fara upp til rektors. Einum sagði hann að það væri vegna skjávarpa, öðrum að ástæðan væri slæleg mæting, en síðustu tveim gaf hann enga ástæðu. Allir nemendurnir trúðu þessu og hlupu apríl eins og það er stundum kallað.