Flugfreyjuleikritið
Ég er nýkominn heim frá Kúbu. Lenti kl.4:40 í nótt. Á langri flugleið, tíu klukkutíma flugi hefur maður lítið að gera (reyndar bara sjö tíma á leiðinni heim því millilendingu var sleppt). Sérstaklega var lítið að gera núna þar sem það var ekki einu sinni hægt að horfa á bíómynd, hljóðrásir voru bilaðar. Ég gat ekki sofnað á leiðinni heim þannig að ég var mikið bara að spá og spekúlera í ýmsum hlutum. Ég velti því meðal annars fyrir mér hvað það hlýtur að vera hundleiðinlegt að vera flugfreyja. Hin dæmigerða flugfreyja er 34 ára, ljóshærð, og orðin töluvert krumpuð af of mikilli ljósabekkjanotkun.
Svona kemur starf flugfreyju mér fyrir sjónir (sett fram á leikritsformi):
Farþegar ganga um borð.Flugfreyja brosir svokölluðu "feiksmæli" (gervibrosi eins og sumir kalla það) á meðan hún býður farþegum góðan daginn.
Flugfreyja:(á röðina)Góðan dag. Góðan dag. Góðan dag...
Farþegar setjast í sæti sín. Ekki líður á löngu þar til flugfreyja fer að bjóða drykki.
Flugfreyja:(gengur á röðina)Hvað má bjóða þér að drekka?
Flestir farþegarnir biðja um áfengi. Sumir biðja líka um gos, safa eða vatn.
Flugfreyja dreifir mat á bökkum
Eftir matinn gengur flugfreyjan enn á röðina:
Flugfreyja:Kaffi? Kaffi? Kaffi?...
Og aftur:
Flugfreyja:Te? Te? Te?...
Fimm mínútum síðar:
Flugfreyja:Saga boutique? Saga boutique? Saga boutique?...
(afhendir farþegum Saga boutique bæklinga)
Farþegi hringir þjónustubjöllu. Flugfreyjan fer til hans. Farþeginn rausar um eitthvað helvítis krem sem fæst í Saga boutique og spyr heimskulegra spurninga. Kaupir síðan ekkert.
Annar farþegi hringir þjónustubjöllu. Biður um meira áfengi. Flugfreyja selur honum áfengi.
Aftur er komið að því að ganga á röðina:
Flugfreyja:Vatn eða meira kaffi? Vatn eða meira kaffi? Vatn eða meira kaffi?...
Farþegi:
(kallar hátt) Hei fröken! Viltu skenkja mér meira romm hérna í glasið.
Flugfreyja kemur og skenkir honum romm í glasið. Farþeginn er orðinn nokkuð vel hífaður og kominn með rauðglansandi augu. Hann klípur flugfreyjuna í rassinn þegar hún er að fara og hlær hátt.
Enn eina ferðina gengur flugfreyjan á röðina:
Flugfreyja:Má bjóða þér að versla í Saga boutique? Má bjóða þér að versla í Saga boutique? Má bjóða þér að versla í Saga boutique?...
Einn farþeginn kastar upp af óhóflegri drykkju í vélinni í bland við flugveiki. Flugfreyja gefur farþeganum vatn og nýjan ælupoka og spyr hann reglulega hvort honum líði ekki betur, það sem eftir er flugsins.
Drukkinn farþegi hringir þjónustubjöllu. Flugfreyjan flýtir sér til hans:
Farþegi:Ég var að gera bjölluat. Hahahaha.
(farþegi hlær hátt að eigin brandara)
Farþegi hringir þjónustubjöllu, kvartar síðan hástöfum undan óætum mat í vélinni.
Margir farþegar eru orðnir sauðdrukknir og mjög háværir (sumir syngja) og ástandið í vélinni fer ekki batnandi og svona heldur þetta áfram allt flugið.
Ég ætla aldrei að verða flugfreyja.