mánudagur, 28. nóvember 2005

Hlé

ÞEssi síða er hér með komin í hlé. Enginn veit hve langt.

sunnudagur, 27. nóvember 2005

Íslenski bachelorinn

Flestir virðast sammála um að botninum sé náð í íslenskri dagskrárgerð. Kynnirinn er líklega mesti amatör sem sést hefur í íslenskum þætti fyrr og síðar. En þetta skiptir ekki máli. Þatturinn fær áhorf og það er væntanlega aðallatriðið fyrir stjórnendur Skjás eins. Fólk horfir á þetta til að sjá hvað þetta er lélegt, hlær að þessu og hneykslast.

Var það ef til vill tilgangur þáttarins?

Þorsteinn Guðmundsson komst nokkuð vel að orði á Edduverlaunahátiðinni um daginn: "Í íslenska Bachelornum keppast fimmtán einstæðar mæður um smið með varalit. Ég þarf ekkert að horfa á það í sjónvarpinu, ég get alveg séð það bara niðri á Kaffi Reykjavík"

föstudagur, 25. nóvember 2005

Vafasamar athugasemdir

Um daginn flutti ég fyrirlestur í íslensku ásamt nafna mínum um íslenskt skáld. Í dag fékk ég síðan skriflegan dóm um fyrirlesturinn frá kennaranum. Kennarinn gerði athugasemd við orðalag mitt að skáldið hefði verið "allur í kerlingunum" sem var þó satt. Einnig gerði kennarinn athugsemd við að ég skyldi segja að hann "nennti ekki lengur að standa í þessu bulli og flutti heim" um það þegar skáldið flutti aftur til Íslands frá Vesturheimi.

Kennaranum finnst greinilega ekki við hæfi að reyna aðeins að halda nemendum vakandi í slíkum fyrirlestrum. Fátt er leiðinlegra en að hlusta á of hátíðlega fyrirlestra um einhverja svona fokkin gaura nema gaurarnir hafi verið þeim mun ferskari. Þá sofna oftast nokkrir. Þeir sem þó halda sér vakandi horfa út um gluggann og pæla í einhverju allt öðru.

fimmtudagur, 24. nóvember 2005

Ríki og kirkja

Almennt er ég á móti einkavæðingu. Ég er á móti mikilli einkavæðingu í skólakerfinu og ég er á móti einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Aðskilnaður ríkis og kirkju þykir mér hins vegar ljómandi góð hugmynd. Ég tel ekki nauðsynlegt að hafa eina ríkistrú og finnst að menn eigi að fá að stunda "kukl" og blót og fleira ef þeir kjósa það. Ríkið gæti sparað nokkuð mikið á því að setja kirkjuna út á markaðinn. Flestir íslendingar stunda kirkjuna lítið. Helst til að gifta sig, jarða sig, skíra sig og fara í jólamessu. Fyrir utan þessa viðburði standa kirkjurnar gapandi tómar árið um kring.

Heilbrigð samkeppni á trúarmarkaðnum væri mjög hressandi. Það væri nú gaman ef bisnisskarlar ættu þjóðkirkjuna. Þjóðkirkjan færi að auglýsa:

Hefur þú bragðað messuvínið okkar?
-Þjóðkirkjan

Nýir og þægilegir bekkir í næstu kirkju
-Þjóðkirkjan

Svo færu stórkaup að sjást á hinum frjálsa trúarmarkaði og fyrirsagnir blaðanna væru:

Þjóðkirkjan kaupir Fíladelfíusöfnuðinn

Ásatrúarfélagið hf. kaupir Óháða söfnuðinn

Þjóðkirkjan skilar hagnaði á öðrum ársfjórðungi
Þjóðkrikjan hf. skilaði 1,5 milljarða hagnaði á öðrum ársfjórðungi samanborðið við þriggja milljarða tap á fyrsta ársfjórðungi. Hagnaðinn nú má þakka hagræðingu og kaupum Þjóðkirkjunnar á Fíladelfíusöfnuðinum...

Þetta er of freistandi til að sleppa því.

miðvikudagur, 23. nóvember 2005

Antiklám

Megas spurður í Kastljósi hvort ekki væri klám á nýju Megasukk-plötunni: "Nei, það er antiklám"

Antíkklám hugsanlega?

mánudagur, 21. nóvember 2005

Gagnrýni: White Stripes í Laugardalshöll

Eftir að íslensk kúkahljómsveit (dæmigerð íslensk kúkarokkhljómsveit þar sem hljóðfærunum ægir saman í graut og söngvarinn galar eitthvað kjaftæði) að nafni Jakobínarína hafði spreytt sig á sviðinu í dágóða stund stigu Meg White og Jack White á svið. Meg settist við trommusettið og Jack stóð með gítarinn. Það var kátt í höllinni þegar þau byrjuðu fyrsta lagið, Blue Orchid, sumir fengu vægar hjartsláttartruflanir við dynjandi taktinn. Svo komu tvö eða þrjú eldri lög sem voru ekkert svakaleg og eins og oft brást hljóðkerfið eitthvað (furðulegt að þessi hljóðkerfi virðast alltaf klikka eitthvað). Jack var mikill meistari á gítarinn og ekki síður að syngja. Meg var mjög fyndin á trommunum, ruggaði allan tímann og var eins og kjáni, en stóð sig þó vel. Þau lög sem stóðu upp úr voru:
Blue Orchid
Jolene
Red Rain
Seven Nation Army
Hotel Yorba
My Doorbell
Little Ghost
I Just Don't Know What To Do With Myself
Ball And A Biscuit

En ég saknaði nokkurra laga á þessum tónleikum, uppáhalds White Stripes lags míns, Hypnotize og einnig:
The Air Near My Fingers
Fell In Love With A Girl
In The Cold, Cold Night (Meg syngur)
Well It's True That We Love One Another (bæði syngja)
Girl, You Have No Faith In Medicine

Hefðu mátt setja þessi lög inn í prógrammið og henda nokkrum af þessum elstu út því þau voru einfaldlega ekki jafn góð í upphafi ferilsins. Að öðru leyti var þetta dúndurgott. Meg söng bara stutta lagið sitt af Get Behind Me Satan, Passive Manipulation.

Einkunn:8,7

sunnudagur, 20. nóvember 2005

Halló halló

Klukkan er 9:04 á sunnudagsmorgni. Ég væri ekki vaknaður nema út af því að ég vaknaði við babblið í þeim gömlu á hæðinni fyrir neðan (þær gera greinilega ekki ráð fyrir að nágrannar sínir hafi verið í blússandi sveiflu í gærkvöldi). Held að þær hafi verið með gamlar kerlingar í heimsókn hjá sér. Svo heyri ég aldrei orðaskil, nema eitt og eitt orð og það er greinilega ein kerling sem talar manna mest og manna hæst. Ég heyri líka á tóninum í röddinni að henni er mikið niðri fyrir, greinilega að tala um eitthvert þjóðþrifamál. Annars hljómar þetta einhvernveginn svona: "Já, því að babbalabbalabbababb..."

Hún ætlar bara aldrei að þagna, kerlingin.

laugardagur, 19. nóvember 2005

Svakalegur


Flottur jakki
(Raggi Bjarna)

Eb
Tvirilidirilidí...
G# Bb
Tvirilidirilidí... (x3)

Eb
Ég fékk eitt sinn jakka og ég fór í hann
og flestar stelpur þráðu heitt að hitta þennan mann.
Sem vildi bara hlusta á hið villta bít,
ég vildi bara jakka úr tvít, tvít, tvít.

G#
Flottur jakki... (tvít, tvít, tvít)
Eb
Flottur jakki... (tvít, tvirilídí)
Bb
Ég átti lakkrísbindi
G# Eb
og skyrtan hún var skjannahvít.

Helst ég vildi alltaf hlusta á þetta bít,
ef heyrist þessi taktur út á gólfið ég þýt.
Í úrhelli eða sól
alltaf vil ég heyra rock ?n ról.

Flottur jakki... (tvít, tvít, tvít)
Flottur jakki... (tvít, tvirilídí)
Ég átti lakkrísbindi
og skyrtan hún var skjannahvít.

Sóló...

G#
Buxurnar hjá okkur voru þröngar þá,
Eb
og þá var jafnað skótauið með mjóa tá.
G#
Með briljantín í hárinu ég steig á stokk
Bb
og stelpurnar þær vildu bara heyra rokk.

Ég fékk eitt sinn jakka og ég fór í hann
og flestar stelpur þráðu heitt að hitta þennan mann.
Sem vildi bara hlusta á hið villta bít,
ég vildi bara jakka úr tvít, tvít, tvít.

Flottur jakki... (tvít, tvít, tvít)
Flottur jakki... (tvít, tvirilídí)
Ég átti lakkrísbindi
og skyrtan hún var skjannahvít.

Buxurnar hjá okkur voru þröngar þá,
og þá var jafnað skótauið með mjóa tá.
Með briljantín í hárinu ég steig á stokk
og stelpurnar þær vildu bara heyra rokk.

Ég fékk eitt sinn jakka og ég fór í hann
og flestar stelpur þráðu heitt að hitta þennan mann.
Sem vildi bara hlusta á hið villta bít,
ég vildi bara jakka úr tvít, tvít, tvít.

Flottur jakki... (tvít, tvít, tvít)
Flottur jakki... (tvít, tvirilídí)
Ég átti lakkrísbindi
og skyrtan hún var skjannahvít.

föstudagur, 18. nóvember 2005

Kafteinn Flygenring

Þeir sem horfðu á Edduverðlaunin halda e.t.v. að Silvía Nótt sé aðalsjónvarpsstjarna Íslands í dag. Þar skjátlast þeim. Hver er það sem hefur sölsað undir sig bæði RÚV og 365 ljósvakamiðla? Mikið rétt, kafteinn Flygenring. Kafteinn Flygenring er aðalmaðurinn í Kallakaffi sem sýnt er RÚV og vakið hefur heimsathygli. Ekki nóg með það, heldur er kafteinninn stjórinn á Ástarfleyinu sem sýnt er á Sirkus við frábærar undirtektir. Eru það ekki nægar sannanir fyrir því hver aðalmaðurinn er í dag?

Ég hef ákveðið að taka mér þennan meistara til fyrirmyndar. Alltaf ef ég lendi í klípu spyr ég sjálfan mig: "Hvað skyldi kafteinn Flygenring gera í þessari stöðu?". Ef ég veit ekki hvernig skal svara einhverri spurningu: "Hvernig skyldi kafteinn Flygenring svara þessu?". Þetta hugarfar kemur alltaf til bjargar á ögurstundu.

fimmtudagur, 17. nóvember 2005

Gagnrýni: Corpse Bride

Hef séð tvær frábærar myndir frá Tim Burton (Charlie and the Chocolate Factory og Big Fish). Corpse Bride er ekki leiðinleg. Hins vegar vantar eitthvað upp á söguna, hún er auk þess of tilviljanakennd. Svo er of mikið af söngatriðum sem hafa mjög takmarkað skemmtanagildi. Brandararnir hefðu mátt vera betri. Eftir stendur að Tim Burton getur gert betur.

Einkunn: 7,5.

mánudagur, 14. nóvember 2005

Í strætó um árið

Strætó stoppar á skiptistöðinni í Mjódd. Ranglandi fullur maður og enn fyllri kona búa sig undir að stíga um borð.
Bílstjórinn: "Bíðið við, þið fáið ekki að koma inn"
Maðurinn: "Af hverju ekki?"
Strætóbílstjórinn: "Af því að hún er full"
Maðurinn: "Neinei, hún er ekkert full"
Maðurinn við konuna: "Ertu nokkuð full?"

En konan hafði gefist upp og tók ekki þátt í leiknum lengur. Og öllum er ljóst að þessi maður er galinn.

Rakvélablöð

Gilette-fyrirtækið er gott dæmi um það að einokunarstaða á markaði er ekki æskileg. Það er enginn metnaður til að gera betur og betur. Hvenær ætla þessir andskotar að koma fram með rakvélablöð sem bíta bara á skegg, ekki húð? Ég er brjálaður, enda var ég að skera mig föytast á splunkunýju flugbeittu rakvélablaði.

Ái.

laugardagur, 12. nóvember 2005

Kastljós ársins

Ég var að sjá núna á netinu "viðtal" við Kára Stefánsson úr Kastljósi RÚV. Þetta er eitt það óborganlegasta sem ég hef séð. Lokaorð Kára eru æðisleg: "Þetta mistókst gjörsamlega". Þeir sem misstu af þessu ættu að kíkja á þetta. Þetta var í sama þætti og snarbilaði DNA-heilarinn kom fram. Þarna er augljóslega kominn Kastljósþáttur ársins 2005 og fer í flokk með þættinum þar sem Kristján Jóhannsson talaði um rauðu brjóstin að ógleymdum mögnuðum þætti með Árna Johnsen þegar hann spurði spyrilinn "Hvaða siðferði hefur þú?"

Spaugstofan reyndi að gera grín að þessu Káraviðtali en það varð ótrúlega aumt því engu var við að bæta.

Höfðinglegt boð

Farsíminn hringir. Guðmundur svarar. Tölvukvenrödd: "Notandi 86bleble hefur boðið þér að taka þátt í samtali á þinn kostnað"

Höfðinglegustu boðin eru alltaf þau sem maður sjálfur ber kostnað af. Næst þegar ég held stórveislu ætla ég að bjóða fullt fullt af gestum og auðvitað allt á þeirra kostnað. Eftir veisluna fá þeir sendan gíróseðil með sundurliðuðum upplýsingum um kostnaðinn sem af þeim hlaust, dæmi:
Heitur réttur, 50 grömm - 432 krónur
Súkkulaðikaka, 17 grömm - 202 krónur
Húshitunarkostnaður, 1/267 af reikningi mánaðarins - 15 kr.
Slit á gólfefnum - 1 króna og 13 aurar
Klósettpappír, 10 blöð - 12 krónur
o.s.frv.

DNA heilun?

Konan í þessu viðtali veit einstaklega lítið um hvað hún er að tala. Kastar fram vafasömum fullyrðingum um að hún geti bara breytt erfðamengi mannsins (DNA). Undir lok viðtalsins segir konan "Það skiptir engu máli hvort þetta eru kallaðar skottulækningar eða ekki. Málið er að það er enginn maður sem getur heilað annan mann. Við heilarar erum aðeins farvegur fyrir orku alheimsins. Í alheimsorkunni er mikill heilunarkraftur og við sækjum þangað heilunarkraft til þess að gera okkur heil. Ég hef trú á því jú, að við getum heilað hvað sem er í okkur sjálfum og það er mín trú, það er trú margra. Ég er ekkert að segja öðrum að trúa því. Það verður hver og einn að finna það".

Í upphafi var hún nokkuð kokhraust en eftir það er hún sífellt afsakandi og segir oft: "Við þurfum ekki að taka þessu svona hátíðlega". Svo segir hún framarlega í viðtalinu: "Við getum öll heilað, við höfum öll í okkur þennan mátt að heila". Hún fer nokkrum sinnum í þversögn við eigin orð. Það er líka athyglisvert að sjá hvernig læknirinn, sem er andstæðingurinn í viðtalinu, horfir á hana.

Var hún á einhverju í þessu viðtali.

miðvikudagur, 9. nóvember 2005

Robbie Williams?

Glataður.

Það skipar enginn mér að leyfa sér að skemmta mér (sbr. lagið Let Me Entertain You). Ef ég væri bóndi og ætti nokurra hektara land og Robbie Williams kæmi og stigi fæti inn á mitt landsvæði segði ég við hann: "Burt af minni landareign!" og sendi hundinn á hann.

Nei, bara svona í framhjáhlaupi á meðan ég læri fyrir sögupróf.

þriðjudagur, 8. nóvember 2005

Gagnrýni: Wallace & Gromit - The Curse of The Were Rabbit

Sá þessa mynd fyrir einni eða tveimur vikum. Hún er blússandi. Hressandi karakterar.

Einkunn: 9,0

mánudagur, 7. nóvember 2005

Klassatexti

Magnaður texti við lagið Sveitaball sem er m.a. til í flutningi KK og Magga Eiríks á plötunni 22 ferðalög.

sunnudagur, 6. nóvember 2005

Gagnrýni: Saybia - These Are the Days
Danska hljómsveitin Saybia hefur vakið töluverða athygli og var valin besta hljómsveiin á Nordic Music Awards um daginn. Þeir spila frekar rólega tónlist og fara líklega í flokk með Radiohead og Coldplay og slíkum. Af þessari plötu að dæma eru þeir betri en báðar þessar sveitir og það þó nokkuð. Söngvarinn er ekki svona djöfulsins gaulari eins og Chris Martin og hefur mjög kröftuga rödd. Mjög góðar melódíur og góð lög og góður söngvari. Lögin eru hvert öðru betra en ef nefna á eitt lag sérstaklega væri það I Surrender, angurvært og hressandi (lesandi: "Ha, munnangurvært?" Nei, hálfviti, bara angurvært.) Best er platan eftir nokkrar hlustanir. Ég er ekki frá því að það sé erfiðara að gera góða rólega tónlist en góða fjöruga tónlist vegna þess að þessu rólega hættir svo oft til að ferða flatt (sbr. flatan bjór, hver vill drekka flatan bjór?) Hljómsveitin ku vera frábær á tónleikum og ég er ekki frá því að stefnan sé bara sett á tónleika í Danaveldi næsta sumar.

Niðurstaða: Platan er ekki fullkomin en kemst mjög nálægt því.

Einkunn: 9,7

Um blóm og partý og blómabörn

Sumir afmælisveislugestir settu út á umhirðu blómanna. Töldu þeir að ég vanrækti þau. En það er bara hluti af skýringunni. Það kom lús í flest blómin, sama hvað hver segir og svo voru þau ekki umpottuð síðasta vor, mamma taldi það óþarfa. En það vakti lukku þegar ég fór að vökva blómin "í beinni" í partýinu með könnuna í annari og bjórinn í hinni. Handlaginn húsfaðir.

Veislan gekk nánast snuðrulaust fyrir sig. Ekki mikið um pústra og ölvun í meðallagi. Það eru hins vegar blöðrur og hnetur hér um öll gólf og upp um veggi (afmælisgjafir). Ég er að hlæja núna að ofvirku upptrekktu véldýri sem ég fékk. Óvenju gaman að leika sér að þessu svona þunnur.

Síðustu menn út voru ég, nafni og Sepinn og fórum við rakleiðis á Prikið. Þar var leiðinlegt. Menn skvettandi bjór yfir mig og reykjarkóf og vafasamir menn berir að ofan að dansa uppi á borði. Hljómar ekki eins og mín uppskrift að góðri skemmtun. Ég held að það sé bara skemmtilegt niðri í bæ í eitt af hverjum hundrað skiptum. Hitti gamlan félaga niðri í bæ sem var ekki sáttur við að hafa ekki verið boðinn. En þegar ég lofaði að bjóða honum í þrítugsafmælið tók hann gleði sína á ný.

föstudagur, 4. nóvember 2005

Að haga sér eins og fífl

Skelfilega er það bjánalegt þegar fólk tekur æði og verður að sjá einhverja hljómsveit spila af því að "allir eru að fara" og það verður örugglega "gegt" en ekki vegna þess að það er aðdáendur.

Ég fer á White Stripes enda er ég aðdáandi.

miðvikudagur, 2. nóvember 2005

20 ára, nýr maður

Vaknaði nýr maður í morgun. Það tók smá tíma að átta sig á hvers vegna, en svo fattaði ég, í morgun varð ég nefnilega tvítugur. Strákapör æskuáranna eru liðin tíð. Eftir tvítugt gerir fólk aldrei mistök. Þá hagar það sér eins og fullorðið fólk.

Fyrsta skref tvítugs manns er að sjálfsögðu að fara í ríkið. Allir gera það á afmælisdaginn, líka bindindissjúklingar. Þeir kaupa þá bara brennivín til að bjóða gestum eða fara í ríkið og kaupa ekkert. Fólk þarf ekkert að kaupa frekar en það vill, það getur líka bara sest á gólfið og dregið djúpt andann og farið síðan beint út aftur. Lykilatriðið er þetta: að fara í ríkið á afmælisdaginn.

þriðjudagur, 1. nóvember 2005

Peter Crouch grínið

Peter Crouch grínið heldur áfram leik eftir leik. Maðurinn klöngrast og skakklappast um völlinn, klúðrar boltum og skorar aldrei, en samt er hann í byrjunarliði leik eftir leik. Mögnuð taktík, Benítez, mögnuð.

En í kvöld er óþarfi að kvarta og kveina, Liverpool malaði Andelecht 3-0 og uppáhalsdsleikmaðurinn minn, Djibril Cissé, rak smiðshöggið. Við það tækifæri mynduðu myndatökumennirnir Peter Crouch á bekknum (sem hafði einmitt farið út af fyrir Cissé á 70. mín.), sem var alveg eins og kind í framan, grey karlinn. Góður sigur og aftur er komin vonarglæta í liðið eftir magra daga. Morientes skoraði meira að segja. Ólgandi.