sunnudagur, 31. ágúst 2008

Heilbrigði?Mynd af mbl.is

Svona var víst um að litast á sýningu á myndinni Mama mia! með ABBA lögunum í aðalhlutverki. Fólkið á myndinni getur varla talist heilbrigt, eitthvað hlýtur að hafa farið úrskeiðis i höfðinu á því, en það söng með lögunum og skemmti sér konunglega eins og sjá má. Ég er ólýsanlega feginn að hafa ekki verið viðstaddur.

Frétt Mbl.is

laugardagur, 23. ágúst 2008

Ekki lítið land

"Ísland ekki lítið land, Ísland stórasta land í heimi!" sagði forsetafrúin við RÚV eftir að forsetinn hafði talað um smæð Íslands í nokkra stund eftir sigurinn á Spánverjum.

Þetta er nú þegar orðið frasi og ætti að fara sem áletrun á boli til stuðnings liðinu.

mánudagur, 18. ágúst 2008

Það kemur ekki fyrir mig

Að fara niður í bæ á skrall og týna yfirhöfn og síma er nokkuð sem kemur ekki fyrir mig. Ég passa upp á hlutina. Ég legg ekki símann frá mér einhvers staðar í reiðileysi og skil hann eftir. Ég hef skipulag á þessu, símann alltaf í sama vasa og tékka nokkuð reglulega á því hvort hann er á sínum stað eins og veski og lyklar.

Það var samt nákvæmlega þetta sem kom fyrir um helgina hjá mér, ég týndi farsíma og jakka niðri í bæ. Fattaði það ekki einu sinni fyrr en daginn eftir. Þá var ekkert annað að gera en að hringja á þá staði sem ég fór á. Enginn staðanna þriggja sagðist hafa hlutina tvo. Fór til öryggis á staðina líka og spurðist fyrir, en án árangurs. Ég rifjaði upp hvar ég hefði tekið upp símann síðast og mundi að þar hafði ég líka lagt hann frá mér á borðið. Svo hafði ég staðið upp frá borðinu og vinur minn líka til þess að fara á barinn, líklega hef ég þá skilið símann eftir á borðinu. Fólk á næsta borði sýndi af sér nokkuð undarlega hegðun eftir á að hyggja, sem ég setti samt ekki í samhengi þá, enda hugsaði ég ekkert út í hvort ég væri með símann eða ekki. Það fólk liggur því undir vissum grun en ég get líklega afskrifað símann. Ætla samt að gera aðeins meiri leit að honum, ef hann verður ekki fundinn í vikulok fæ ég mér nýjan.

Fyrsta verk í leitinni var að sjálfsögðu að hringja í símann. Þá komst ég að því að enn var kveikt á honum en enginn svaraði. Það þýðir að ekki var búið að skipta um kort í honum. Nú tveimur dögum seinna kemur hins vegar strax talhólf, sem þýðir að hann er rafmagnslaus eða að búið er að skipta um kort. Ég geri mér samt veika von um að góma einhvern talandi í símann minn og í jakkanum mínum úti á götu, það væri skemmtilegast.

Þetta þýðir semsagt að það næst ekki í mig í farsíma sem stendur. Fólk sem á erindi við mig verður að gera það eftir öðrum leiðum. Ég er feginn að hafa þó ekki týnt veski og lyklum líka. Svo verð eg bara að vona að ég hafi ekki gleymt vitinu líka í miðborginni á aðfararnótt sunnudags.

föstudagur, 15. ágúst 2008

Spádómskúlan

Blaðamannafundur 1.des. 2008

"Komiði sæl og velkomin. Ég hef boðað ykkur hingað til fundar til þess að tilkynna um fimmta meirihlutann í Reykjavík á kjörtímabilinu. Ég var eini maðurinn sem var eftir sem var nógu geðveikur til þess að ganga meirihlutasamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn. Nýji meirihlutinn mun hafa sömu einkunnarorð og sá fráfarandi: "Höldum áfram (ruglinu)!". Eins og fram kemur í glæsilegum málefnasamningi okkar munum við halda áfram óráðsíu, spillingu og innri slag sem við munum láta bitna á kjósendum. Átjándu aldar götumynd Laugavegar* kemur við sögu og flugvöllur. En fyrst og fremst munum við kappkosta að láta ekki nægja að gefa skít í kjósendur, heldur munum við moka skít yfir þá. Þetta munum við gera bara af því að við getum leyft okkur það, bara af því að þið, kæru kjósendur, getið ekki losnað við okkur fyrr en eftir tvö ár. Það má gera margan óskundann á þeim tíma"

Jókerinn glottir síðan nánast djöfullega, svipað og Hanna Birna gerði við kynningu nýs meirihluta í gær.

*"Átjándu aldar götumynd" hljómar jafnvel enn betur en nítjándu aldar og verður því notað hjá þessum verðandi meirihluta.

mánudagur, 11. ágúst 2008

Gott veganesti út í helgina

Þegar ég keyrði út úr bænum á föstudag fyrir verslunarmannahelgi varð mér litið á steypuveginn neðan við Esjurætur sem hefur frá því að ég man eftir mér lengst af haft áletrunina:

FLATUS LIFIR! (síðar "Flatus lifir enn!")

en sú áletrun hafði einmitt verið hulin með risauglýsingu frá sparisjóði þegar ég fór í veiðiferð með hóp af góðum drengjum fyrstu helgina í júlí. Þá vorum við allir í bílnum sammála um að þetta væri svívirða og kom til tals að fara einhverja nóttina og smella áletruninni góðu á veginn aftur, þótt enginn okkar eigi feril að baki í veggjakroti. Þó vissi enginn okkar hver eða hvað Flatus væri. Ég ákvað að gúgla "Flatus lifir" og fann umræður um hvað þetta þýddi. Fljótt á litið virtist það umdeilt og talsvert á reiki þótt ýmsir hafi þóst vita hið sanna í málinu. Það er líka betra þannig, ef enginn veit með vissu hið sanna um söguna að baki eða merkinguna.

Þegar ég fór út úr bænum um verslunarmannahelgi sá ég ekki áletrunina, en hún var komin á sinn stað þegar ég ók framhjá á sunnudagskvöld, sem var talsverður léttir, enda veitir hún öryggiskennd. Óvissuástand ríkir í þjóðfélaginu ,efnahagsástand fer versnandi, stór gjaldþrot, uppsagnir og svo framvegis. Við slíkar aðstæður er smá huggun harmi gegn að vita þó að Flatusinn lifir hvað sem á dynur. Flatusinn lætur ekki banka eða aðrar kapítalískar gróðamaskínur drepa sig.

Nú básúna sumir þá skoðun sína að "varðveita beri 19.aldar götumynd Laugavegarins", ekki síst borgarstjórinn sjálfur. Margir hafa bent á tvískinnunginn í þeim hugmyndum, þar sem sárafá hús á Laugavegi séu frá 19.öld. Málið er líklega það að "20.aldar götumynd" hljómar ekki nógu tilkomumikið, það er of stutt síðan tuttugasta öldin var. Þessar verndunarhugmyndir ná ekki síður til bölvaðra hjalla (sem tilheyra meintri 19.aldar götumynd), en flottra húsa. Þetta er því allt hið undarlegasta mál.

Spurningin er sú hvort ekki væri nær að byrja á að friða áletrunina "FLATUS LIFIR!" á steypuveggnum en að standa í þessu rándýra brölti í miðbænum. Hvað segir borgarstjórn við því? Ólafur? Hanna Birna? Gísli Marteinn? Hvaða siðferði hafið þið? - svo ég noti orð Árna Johnsen frá því um árið.

laugardagur, 9. ágúst 2008

"Sveittur göltur reyndi að pranga inn á mig láni"

Ég hjóla til vinnu í sumar. Leiðin er 6,5 km og meðfram Sæbrautinni. Reglan er sú að setja upp gleraugun og fara í endurskinsgulan vinnustakk áður en lagt er í hann, ásamt því að setja upp býsna aulalegan hjálm. Fyrstu vinnudagana reyndi ég að taka strætó en það reyndist vera algjör vitleysa því þá þurfti ég helst að vera lagður af stað 50 mín. áður en ég átti að mæta. Að jafnaði tekur 25 mínútur að hjóla, auk þess sem ég þarf ekki að bruna um einhverja óþarfa ranghala, eins og með strætó, hledur get farið beina leið.

Í dagblöðunum eru oftast nokkrar síður helgaðar "Heilsu og lífsstíl" eða álíka. Það eru undantekningalaust með lélegustu síðum blaðanna. Eina sem ég man eftir að sé lélegra eru öftustu síðurnar sem greina frá því hvort Britney snoðaði sig, var full eða dópuð um helgina eða allt þrennt, eða frá áhyggjum af yngri systur Lindsey Lohan - það stefnir víst bara í óefni með hana. Gæti gengið lengra en eldri systirin í ruglinu...Á "Heilsa og lífsstíll" síðunum má einkum finna örstutta og innihaldslausa texta. Dæmigerð klausa hljómar einhvernveginn svona:
Gaman í berjamó

Nú er berjatíminn genginn í garð. Þá getur öll fjölskyldan farið í bíltúr út fyrir borgina í berjamó. Að tína ber gefur góða og holla hreyfingu og blessuð börnin hafa líka svo gaman að því. Berin má nota í sultur, saft eða bara ein sér, með smá rjóma!

Á þessum sömu síðum er oft rekinn áróður fyrir hjólreiðum og textinn yfirleitt settur í það ljós að hjól sé einhvers konar allsherjar lausn sem fararskjóti. "Krökkunum finnst gaman að hjóla" - "Öll fjölskyldan getur farið saman út að hjóla" - "Hjólreiðar eru hollar og svo þarf ekkert að borga fyrir dýran bensíndropann!" - "Sparnaðurinn finnst fljótt á buddunni!" og svipaðar setningar má finna í slíkri umfjöllun.

Hjól eru langt frá því að vera einhver allsherjar lausn. Foreldri sem þarf að skutla krökkum og dóti hingað og þangað gerir það ekki á hjóli. Bankastarfsmaðurinn sem býr í Grafarvogi hjólar ekki í vinnuna niðri í bæ í jakkafötunum. Það virkar varla mjög vel að vera löðursveittur í því starfi, eða hvað? "Heyrðu, það var einhver löðursveittur göltur í bankanum að kynna fyrir mér það sem hann kallaði lán á afar hagstæðum kjörum""
"Og ætlarðu að taka lánið?"
"Nei, maður tekur nú ekki mark á sveittum göltum"

En flest er hægt með skipulagi, skv. þessu.