Víkverji skrifar...
Víkverji fór í sund í gærkvöldi. Heyrði hann á tal pottverja:
Pottverji 1 (yfirgnæfði aðra pottverja): "Svo er það Ögmundur, hann er kommúnisti!"
Pottverjar töluðu síðan allir í einu, uppi varð fótur og fit og menn fóru mikinn og tróðu marvaðann í lausnum í efnahagsmálum.
Pottverji 2 (hátt og snjallt yfir hópinn): "Heyrðu, hvað var hann Hörður Torfa að rífa sig í sjónvarpinu í gær?"
Aftur varð uppi fótur og fit meðal pottverja, sem töluðu hver í kapp við annan og vörpuðu fram fleiri gráupplögðum lausnum á slíkri kreppu.
Lausnin gæti verið sú að skipa pottverja sem seðlabankastjóra og skipta út núverandi ríkisstjórn fyrir ríkisstjórn pottverja. Enn fremur má hugsa sér pottverja í útrás á komandi árum.