föstudagur, 27. ágúst 2004

Guðmundur sögukennari ansi hress á þessari mynd

sunnudagur, 22. ágúst 2004

Skall í gólf

Nú eru nokkrir dagar síðan ég kom heim úr steiktri útskriftarferð til Króatíu. Ekki var laust við að mig langaði að fá miðann endurgreiddan þegar ég kom í Leifsstöð og beið eftir flugi til Trieste. Þar var ömurleg stemmning sem lofaði síst góðu fyrir útskriftarferð. Margir voru strax farnir að hella í sig.

Við lentum í Trieste og fórum með rútu í gegnum Slóveníu. Landamæravörður skoðaði vegabréf okkar. Ég fékk illt auga frá verðinum því ég hafði vegabréfið mitt lokað þegar hann ætlaði að líta á það. Komum síðan eftir miðnætti á hótelið. Sumir fóru strax að sofa en aðrir slökuðu alls ekki á í drykkju. Annað kvöldið drukku flestir. Gunni nokkur Jó teygaði ófáa sopana og var orðinn skrautlegur. Við mættum honum á gangi og sagðist hann ekki komast inn í íbúð sína, íbúðarfélagarnir hefðu læst hann úti (sem var misskilningur). Við leyfðum honum að gista í okkar íbúð. Það var merkilegt að hann reyndi eftir bestu getu að haga sér prúðmannlega þrátt fyrir að vera ekki í ástandi til þess. Reyndar hljóp hann beint í fyrsta rúm sem hann sá í íbúðinni og ætlaði að hvílast. Við blésum vindsæng upp fyrir hann. Þegar vindsængin var uppblásin tilkynntum við Gunna það og bjuggumst alveg eins við að hann væri sofnaður en nei, hann spratt á fætur, sagði "jájá", sá vindsængina á gólfinu og kastaði sér niður DUNK! Æ, æ hann skellti sér á gólfið við hliðina á vindsænginni og brakhljóðið var hátt. En hann kveinkaði sér ekki, heldur steinsofnaði á gólfinu og fór að hrjóta og það hátt. Svaf síðan vært og ljómandi vel á gólfinu en við sváfum ekki eins mikið fyrir hrotunum. Þetta var bara byrjunin á mjög steiktri ferð.

föstudagur, 20. ágúst 2004

Af illri nauðsyn

Í starfi mínu sem vinnumaður í sumar hef ég oft þurft að hafa samskipti við fóstrur á leikskólum eða leikskólakennara (sem er fallega fræðiheitið). Oft koma útköll frá leikskólum til okkar og okkar bíða verkefni á borð við að laga rólur eða negla spýtur. Leikskólakonurnar eru oft algjörar beyglur. Þær eru frekar, dónalegar og leiðinlegar. Margar þeirra láta líka sem þær sjái ekki þegar kastast í kekki milli barnanna. Það kemur þeim ekki við þótt börnin hárreyti hvert annað og lemji í slagsmálum um leiktæki. Þetta gildi að sjálfsögðu ekki um allar fóstrurnar, sumar eru öðlingar og gull af mönnum. Er skrýtið að mörgum krökkum þyki leiðinlegt á leikskóla þegar fóstrurnar eru svona andskoti leiðinlegar? Ég og vinir mínir strukum nú einu sinni af leikskóla þegar við vorum ungir af því að þar var ekkert fjör. 'Eg legg til að leikskólabeyglur verði reknar.

Krökkunum finnst mjög merkilegt þegar vinnumenn koma á leikskólann. "Hvað eruð þið að gera?" er spurning sem glymur þegar við mætum. Svo þarf alltaf að tilkynna okkur ýmislegt: "Ég á Nemo" "Pabbi minn er sköllóttur eins og þú" o.fl.

fimmtudagur, 12. ágúst 2004

Dolgar, delar og durtar

Nu er ferdin rumlega hafnud. Her er mikid um meli og durta sem reyna ad hlunnfara ferdamenn. Tjonn nokkur a veitingastad a hotelinu reyndi um daginn ad stela af mer pening. Sa er kalladur Mottan og er alraemdur fyrir svindl og svinari. Endadi tannig ad vid trir piltarnir forum a svartan lista a stadnum, sem var ekki rettlatt. Helvitis Mottan hefdi hins vegar matt fa kjaftshogg.

miðvikudagur, 4. ágúst 2004

Tvöfalt líf Óla Palla

Óli Palli á Rás 2 er útvarpsmaður sem flestum ætti að vera kunnugur. Almennt er hann vel liðinn og veit mikið um tónlist. Hann tekur oft viðtöl við þekkta tónlistarmenn. Þeir eru færri sem vita að Óli Palli þessi vinnur hjá Gatnamálastjóra í Breiðholti og það fulla vinnu. Sumum kann að þykja þetta skjóta skökku við en svona er þetta. Hvernig hefur hann þá tíma til að vera í útvarpinu? Ég held að hann sé einfaldlega þúsundþjalasmiður. Það er mögulegt að moka, helluleggja eða malbika og tala í útvarpið um leið. Tækni nútímans, t.d. handfrjáls búnaður gerir það kleyft. Gæti trúað því að þegar fólk heldur að Óli Palli sé að taka viðtöl við Mick Jagger eða slíkt sé hann bara að tala við einhvern karlanna á stöðinni á ensku. Kannski Örn eða Skúla. Það er spurning.

Kannski er þetta ekkert Óli Palli þarna á bækistöðinni. En ef svo er ekki á Óli Palli tvífara hjá Gatnamálstjóra. Þeir gætu verið eineggja tvíburar.

þriðjudagur, 3. ágúst 2004

Þrír Frakkar

Borðaði á veitingastaðnum Þremur Frökkum í gær. Við næsta borð sátu fjórir Frakkar. Fékk skötusel í púrtvínssmjörsósu og kartöflur, sem var hnossgæti. Fimm stjörnur af fimm. Nokkrir þjónar voru á staðnum, allir kvenkyns. Nema hvað, við áttum pantað borð fyrir sex manns. Þegar komið var á staðinn var bara tilbúið borð fyrir fjóra. Obbosí, fjórir er ekki sama og sex. Ein þjónustustúlkan reyndi að klína þessu klúðri veitingastaðarins á okkur, sem var afar óviðeigandi framkoma. Hún virtist vera leiðindaskjóða almennt. Hinar voru mjög almennilegar og tóku alla ábyrgð á klúðrinu. Sú sem aðallega þjónaði okkur til borðs var mjög almennileg og myndarleg í þokkabót og brosti allan tímann. Þeir sem þjóna á veitingastöðum eiga að vera svoleiðis. Gott er að eiga feiksmælið gamla góða þegar fólk vinnur slíka vinnu. Leiðindaskjóðuna sáum við hins vegar ekki aftur. Mig grunar að hún hafi verið færð inn í eldhús og tjóðruð þar við staur. Ekki er ósennilegt að í eldhúsi staðarins sé staur fyrir óþægt starfsfólk, sem trónir yfir grautarpotti sem mallar og kokkurinn hrærir í við og við. Þar má slíkt fólk dúsa og svitna og sjá eftir framkomu sinni. Það verður að minnsta kosti á mínum veitingastað, ef ég opna slíkan. En það er einmitt gamall draumur að verða kokkur og eiga veitingastað. Þá yrði ég akfeitur kokkur því þeir eru bestir.

Nokkur atriði sem njóta sívaxandi vinsælda


1. Langar sögur með engu "punchline". Allir hafa gaman að því að vera komið á óvart (hvort sem það er á neikvæðan eða jákvæðan hátt). Að segja fólki fimm til tíu mínútna sögu þar sem það er farið að búast við rosalegu "punchline" en svo kemur ekkert er mjög
vinsælt þessa dagana.

2. Bara punchline. Margir eru svo uppteknir nú á tímum. Fólk hefur engan tíma til að hlusta á aðra segja langar sögur. Þá er sívinsælt að segja bara "punchline". T.d.:
"...heyrðu, svo var þetta bara frænka mín"
"svo endaði kvikindið bara í hakkavélinni"
Getur ekki klikkað. Þá geta hlustendurnir sjálfir sett það sem þeir vilja í eyðuna framan við.

3. Að segja hluti í óspurðum fréttum. Helst að segja e-ð í óspurðum fréttum (eina setningu) og fara svo og gefa viðmælanda ekki færi á að svara. Nokkrar gullnar setningar til að segja í óspurðum fréttum:
"Ég var bara með kleinur í gær!"
"Ég gat ekki lært heima því hamsturinn minn dó í gær"
"Ömmubróðir minn er með þvagteppu".

4. Að tala um hluti sem allir eru sammála um eða allir vita. Mér finnst stórskemmtilegt að heyra fólk tala um slíkt og undra mig alltaf á hve mikið er hægt að ræða um slíka hluti. Eitthvað svona:
"Æ, hvað það er nú yndislegt þegar sumar er og gott veður. Það er nú ólíkt skemmtilegra en í öllum snjónum á veturna" "Já, satt segirðu, það er svo skemmtilegt að geta bara grillað úti svona á sumrin í góðu veðri og borða með fjölskyldu eða vinum" og "Þetta var nú öðru vísi hérna í gamla daga, þá voru engar tölvur...blablabla" o.s.frv.

Svaraði kallinu

Vafaluast muna margir eftir dramtísku lagi sem Herbert Guðmundsson sendi frá sér fyrir þremur árum eða svo þar sem hann gólaði "Svaraðu kallinu..." o.s.frv.

Fyrr í sumar svaraði ég kalli Herberts og keypti ís í ísbúð sem hann rekur í Síðumúla undir nafninu Stikkfrí. Síðan þá hef ég svarað kallinu nokkrum sinnum og verslað þarna (Ég reikna með að Herbert hafi verið að kalla eftir viðskiptavinum í búðina). Herbert afgreiddi sjálfur í fyrstu tvö skiptin og var mjög þreytulegur að sjá. Ódýr og góð ísbúð. En fyrst ég minnist á ís er besti ís sem ég hef smakkað ítalski kúluísinn á Ís café, Suðurlandsbraut. Kiwikúlur eru bestar.

Árni Long er ferskur vinnumaður á bækistöð í Breiðholti sem var með mér í vinnuhóp í tvær vikur eða svo í sumar. Hann hefur sett tengil á síðu mína og launa ég það hér með.

Hrvatski

Nú er örstutt í að flugvél haldi með stóran hóp af vitleysingum til Króatíu. Ég verð í hópnum. Tólf laugardagar í röð verða hjá hópnum frá og með fimmtudegi. Ég vil minna fólk á að gera ekki væntingar því þá verða engin vonbrigði. Ekki þetta "Ooo, ég hlakka svo til!" kjaftæði. Rétti andinn er að halda að ferðin verði eins og tólf dagar í bíl með miðstöðina á mesta mögulegum hita og Rás eitt glamrandi í útvarpinu allan tímann. Ef fólk hugsar þannig verða engin vonbrigði. Þetta verður ömurleg ferð.

Svo má alltaf spyrja: Hver borgar rúmar sjötíuþúsund krónur fyrir að sitja í bíl með miðstöðina á fullu og Rás 1 glamrandi?

Væntingar = 0. "Þetta er rétti andinn strákar!" eins og knatsspyrnuþjálfarar segja.