sunnudagur, 26. nóvember 2006

Sænskir aular

Nokkrir sænskir aular eiga það lag sem er það alferskasta í dag:

Peter, Björn and John - Young Folks

fimmtudagur, 16. nóvember 2006

Stórkostlegur árangur. Fyllumst nú þjóðarstolti saman. Ef ég vissi ekki betur héldi ég að þetta væri frétt af Baggalúti.

miðvikudagur, 15. nóvember 2006

Sjónvarpsauglýsing Vodafone

Hver kannast ekki við auglýsingu Vodafone í sjónvarpinu sem ber fyrir augu bæði á kristilegum og ókristilegum tíma? Auglýsingin fjallar um dægurfluguna, sem er skv. auglýsingunni græn fluga sem kann að lifa lífinu. Hún lifir bara í einn dag og nýtur lífsins í botn, "gerir bara það sem hún vill" eins og maðurinn segir. Þetta felst í því að hún flýgur um allt og spilar síðan tennis við aðra dægurflugu.

Gott og vel. En hvað kemur þetta Vodafone við? Ef maður er viðskiptavinur Vodafone, getur maður þá flogið og spilað tennis við dægurflugu? Breytist maður kannski í dægurflugu? Er það að lifa lífinu, að fljúga og spila tennis?

Er þessi auglýsing kannski bara argasta bull frá upphafi til enda?
-----------
En eitthvað þungt slæst nú ítrekað í glugga hérna í húsinu. Kannski vissara að athuga hvað er á seyði. Svo verður það önnur andvökunótt því enginn heilbrigður maður getur sofnað í svona roki.

Gnauðandi vindur

Það eru ár og dagar síðan ég hef verið mikið andvaka og jafnglaðvakandi að nóttu til. Alltaf frekar erfitt að festa svefn þegar vindurinn gnauðar utan við gluggann með tilheyrandi látum, böndum að slást í fánastengur o.fl. Þetta er samt alls ekkert slæmt. Ég hef nýtt tímann frekar vel núna og lesið í alþjóðastjórnmálabókinni. Var að lesa kafla um internetbyltinguna, sem er mun merkilegra fyrirbæri en ég hef nokkurn tímann pælt í. Þetta er þrusuvel skrifað og maður opnar augun fyrir ótrúlegustu hlutum sem maður hafði aldrei áður tengt við netið, bæði kostum og ókostum. Svo eru skemmtilegar vangaveltur um hvað frekari þróun muni hafa í för með sér.

Í kaflanum segir m.a. að nú til dags sé það venjan að 'gúggla' þá sem maður hittir. Mikið til í þessu.

Iceland Express ekki hættir að skíta upp á bak

Ágætisfrétt til að minna mann á að beina viðskiptum sínum aldrei aftur til Iceland Express.

Eins og fram hefur komið áður (líka hér) fordæmi ég það fyrirtæki og framkomu þess við viðskiptavini.

mánudagur, 13. nóvember 2006

Úrslit dagsins

Lengi á eftir var ekki minnst á Liverpool.

laugardagur, 11. nóvember 2006

Strútastefnan

Veit að ýmsir sem að öllu jöfnu lesa þessa síðu nenna ekkert að fylgjast með þessum málum, en enginn er heldur skyldugur til að lesa það sem á eftir fer.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir skrifar í niðurlagi greinarinnar Við erum öll innflytjendur á síðu sinni:
"Íslenskt samfélag er orðið alþjóðlegra og opnara á síðustu árum. Hingað hefur komið fólk annars staðar að út heiminum sem hefur auðgað menningu okkar og sett skemmtilegan blæ á samfélagið. Áhrifin á matargerð, menningu. listir og margt annað hefur gert samfélagið ríkara en ella. Og hvaða leyfi hefur Jóni Magnússon til að nota orðið ?við? um alla Íslendinga? Ég vil ekki búa í samfélagi fordóma og kreddna - ég vil búa í alþjóðlegu samfélagi þar sem allir fá að njóta sín, hvaða trúar eða litarháttar sem er. Að því eigum við að vinna í sameiningu, búa til regluverk sem tekur á málefnum útlendinga þegar þeir koma til landsins, auka möguleika til íslenskunáms, ýta undir gagnkvæman skilning og virðingu á ólíkum lífsháttum og nýta okkur möguleikana sem felast í fjölmenningunni. Við eigum ekki að auka á fordóma, illvilja og öfund eins og þessir tveir talsmenn Frjálslyndra gerðu í dag."

Þarna gefur hún mjög sterklega til kynna að Frjálslyndi flokkurinn vilji ekki auðga menningu landsins, ekki gera samfélagið ríkara en ella o.s.frv. Og í sambandi við það sem ég feitletraði, er það eitthvað annað en þingmenn F hafa talað um, er það ekki einmitt hluti þess sem þeir hafa sagt? Var Steinunn kannski bara ekkert að hlusta?

Af því sem ég hef séð í umræðunum tala Frjálslyndir um að nýta hefði átt fyrirvara um að galopna landið til 2009 eða 2011. Röðin hafi verið röng, fyrst hefði átt að gera ráðstafanir til að taka á móti nýju fólki, og síðan að opna upp á gátt. Sú leið var ekki farin, fyrst var allt opnað og svo á í mjög litlum skrefum að taka vel á móti. 2000 manns af þeim fjölda sem hefur komið til landsins frá áramótum er hvergi á skrá og enginn veit hvað það fólk er að gera. Bendir það til þess að allt hafi verið vel undirbúið? Fréttir bárust af því fyrir skömmu að börn innflytjenda voru send heim úr skólum vegna þess að þau höfðu ekki kennitölu. Bendir það til þess að allt hafi verið tilbúið til að opna upp á gátt?

Ríkisstjórnin ákvað fyrir tveimur dögum að leggja 100 milljónir til íslenskukennslu. Að auki ákvað hún á dögunum að nýta fyrirvara gagnvart Rúmeníu og Búlgaríu. Hvað er þetta tvennt annað en viðurkenning á málstað Frjálslynda flokksins? Ég veit að þeir munu samt aldrei viðurkenna að svo sé.

Hrafn Jökulsson sagði m.a. á Rás 2 í gær (Síðdegisútvarpinu) að hann óttaðist heift í garð útlendinga í svörum á síðu Magnúsar Þórs .Ég las þessi svör og kannski voru tvö eða þrjú sem bentu til rasisma. Þarna skrifa margir í skjóli nafnleysis og þar að auki er fráleitt að ætla að ummæli allra þar endurspegli viðhorf Magnúsar eða Frjálslynda flokksins yfirhöfuð. Vill Hrafn kannski skamma Framsóknarflokkinn líka fyrir það að Lalli Johns er yfirlýstur stuðningsmaður flokksins? Eða vill hann agnúast út í þann flokk sem nýtur mests stuðnings fanga á Litla hrauni?

Í sama þætti minntist Þorfinnur Ómarsson á að Jón Magnússon og Magnús Þór hefðu notað orðin "þetta fólk" og spurði hvaða fólk væri "þetta fólk". Margir virðast einmitt agnúast út í einstaka orð eða orðasambönd sem eru notuð en hafa minni rök gegn málstaðnum sjálfum. Að sjálfsögðu skiptir máli að virðing sé borin fyrir fólki í umræðunni. Hins vegar veit ég ekki alveg hvernig má tala um svo ýmsum háheilögum líki. "Erlent vinnuafl" er einnig orðasamband sem margir hafa agnúast út í F-lista fyrir. Frumvarpið sem um var rætt (þar sem ákveðið var að nýta ekki fyrirvara til 2009 eða 2011) fjallar um erlent vinnuafl, og það var ekki lagt fram af Frjálslyndum. Ég veit ekki hver hefur sagt að erlent vinnuafl geti ekki líka verið fólk. Mikill hluti umræðunnar fjallar einmitt um vinnu erlendra ríkisborgara hér og íslenska atvinnurekendur, og þá er enginn að segja að ekki sé um að ræða fólk. Tilheyrum við ekki öll hinum og þessum hópum sem eru kallaðir hitt og þetta til aðgreiningar? Sjálfum væri mér alveg sama hvort ég félli inn í hóp sem um væri rætt og í því samhengi væri t.d. talað um erlent/innlent vinnuafl vegna þess að málið snerist að miklu leyti um vinnu.

Ég hef týnt til nokkra stórkostlega frasa sem hafa notið mikilla vinsælda í umræðunum upp á síðkastið:
"Þeir ala á útlendingahatri!"
"Við vitum af fenginni reynslu að svona tal er bara byrjunin á öfgasinnuðum þjóðernisflokkum"
-Já! Ákveðum bara strax að Frjálslyndi flokkurinn verði öfgasinnaður þjóðernisflokkur af því að hann mun fylgja formúlunni sem "við þekkjum af fenginni reynslu".
"Þeir vilja loka landinu!"
-Hver hefur talað um að "loka landinu" hjá F?
"Þetta er stórhættulegur málflutningur!"

Margir eru farnir að minna mjög á strúta í þessari umræðu. Þeir stinga hausnum í sandinn og skjóta sér undan eðlilegum umræðum en kippa honum síðan upp úr með ákveðnu millibili til að hrópa einhvern hinna æðisgengnu frasa.
"Rasisti!"

Verði vart við rasisma í málflutningi Frjálslynda flokksins í innfl.málum, skal ég fyrstur manna gagnrýna hann. En ég ætla ekki að taka þátt í órökstuddum upphrópunum.

fimmtudagur, 9. nóvember 2006

Ómaklega vegið að Magnúsi Þór Hafsteinssyni

Hreint ótrúlegt hefur verið að fylgjast með umræðum um innflytjendamál undanfarna daga. Magnús Þór Hafsteinsson, Frjálslynda flokknum, vakti máls á innflytjendamálum á þingi. Þar talaði hann m.a. um að ekkert hefði gerst í þessum málum síðan nefnd var skipuð um málið, nefnd sem átti að vera búin að skila áliti fyrir nokkru. Á fjárlögum næsta árs er hvergi minnst á krónu til tiltölulega nýtilkomins Innflytjendaráðs. M.ö.o. stjórnvöld virðast enga stefnu hafa í málefnum innflytjenda. Engar ályktanir hafa komið fram um hvernig skuli bæta íslenskukennslu fyrir innflytjendur, engar áætlanir um hvernig hjálpa skuli fólki að aðlagast. EKKI NEITT.

Magnús spyr hvað eigi að gera þegar hægir á þenslunni og vinnuframboð minnkar á ný. Hann bendir á að margir innflytjendur hafa ekki forsendur til að kynna sér réttindi sín, m.a. vegna skorts á íslenskukunnáttu. Hann bendir á að fjöldi fyrirtækja nýtir sér það og ræður erlenda borgara á taxta sem eru jafnvel undir lögbundnum lágmarkslaunum. Réttindi um vinnutíma eru þverbrotin og svo framvegis.

Ég spyr, hvar er rasisminn? Hvernig væri nú að það fólk sem hefur haft uppi upphrópanir um rasisma í fjölmiðlum, á kaffistofum, á víðavangi o.s.frv. færi rök fyrir máli sínu?

Getur ef til vill verið að margir séu að flýja umræðuna? Þeim finnst hún einfaldlega óþægileg og beita þá þeirri leið að hrópa "rasisti! rasisti! úlfur! úlfur!". Ég fagna því að Magnús Þór hafi vakið máls á innflytjendamálum og ágætt væri að ýmsir færu að þrífa bjálkana úr augunum á sér og færa rök fyrir upphrópunum sínum, það er það minnsta sem þeir geta gert.
--------------
UPPFÆRT kl. 01:06 föstudag, 10.nóv.
Bendi sérstaklega á í þessu samhengi mjög góða grein Margrétar Sverrisdóttur um málið auk að sjálfsögðu upphafsræðu Magnúsar Þórs í utandagskrárumræðum í þinginu. Eftir mjög gaumgæfilega leit í þessum skrifum fann ég ekki meintan rasismann.

Borat og The Departed

Ég sé ástæðu til að fjalla um kvikmyndina Borat vegna þess oflofs sem hún hefur hlotið, einkum meðal gagnrýnenda. Gagnrýnendur hinna ýmsu fjölmiðla hafa ekki haldið hlandi yfir myndini. Yfirleitt rakka gagnrýnendur allar gamanmyndir niður en sú er ekki raunin með þessa. Einmitt þess vegna setti ég ákveðna varnagla við myndina áður en ég fór á hana - gamanmynd sem gagnrýnendur lofa, eitthvað hlaut að vera loðið við það.

Og viti menn, sú var raunin. Myndin er ekki "besta gamanmynd allra tíma" eins og einhver fjölmiðlagagnrýnandinn komst að orði (í fljótu bragði man ég t.d. eftir Jalla! Jalla! sem er óumdeilanlega betri. Hún er þó hin fínasta skemmtun og mínúturnar 84 voru elsdsnöggar að líða. Nokkrir ólgandi brandarar líta dagsins ljós en sumt er líka skot yfir markið. Gert er grín að sumum sem taka sig of alvarlega og þurfa mjög á því að halda að gert sé grín að þeim, t.d. hinir grafalvarlegu femínistar sem kappinn ræddi við.

Atriði með tveimur nöktum karlmönnum að slást í hótelrúmi og víðar var ansi mikið skot yfir markið. Að hverjum beindist það grín? Hver var tilgangurinn? Ég sá ekki annað en að hann væri eingöngu að hneyksla, ádeilan var engin og það þykir mér mjög grunnur tilgangur.

Niðurstaða og einkunn: Margir góðir punktar en líka skot yfir markið. 7,5.

The Departed sá ég fyrir tveimur vikum eða svo. Hún var mjög lengi að byrja og angraði það mig nokkuð. Þegar hún loksins byrjaði almennilega voru ýmis tvist og rjúkandi flétta. Endaði samt í fullmikilli fléttu fyrir minn smekk, eiginlega flækju. Leikur var góður.

Niðurstaða og einkunn: Fín spennumynd en hefur leiðan galla sem virðist vera kominn í tísku, að vera of löng. 8,0.

þriðjudagur, 7. nóvember 2006

Bílaauglýsingar

Hvers vegna er 90% bílaauglýsinga eins? Glansandi bíll á ferð einhvers staðar á hálendi eða á jansléttu og svo slagorð sem eru furðukeimlík. Ég get a.m.k. ekki nefnt eitt slagorð fyrir bíl sem er auglýstur þessa dagana. Gera þessar auglýsingar gagn? Auka þær í einhverjum tilfellum sölu á bílnum sem auglýstur er?

Ég man eftir tveimur bílaauglýsingum sem féllu ekki í þennan flokk. Lyklakyppa ársins, rennihurð ársins og hitt og þetta ársins og síðan bíll ársins - Yaris. Sú auglýsing hlýtur að hafa gert eitthvað gagn fyrst hún er eftirminnileg. Svo man ég eftir Eddu Björgvins í skrýtinni auglýsingu fyrir Daihatsu Charade. Fleiri bílaauglýsingum man ég ekki eftir, sem er furðulegt miðað við hversu stór hluti auglýsinga almennt þær eru, en ekki furðulegt miðað við hve stór hluti þeirra rennur saman í eitt.

fimmtudagur, 2. nóvember 2006

Talsett Vanish-auglýsing

Kona hellir fullu glasi af ávaxtasafa á buxur sem hún hefur á borði fyrir framan sig: "Það er ótrúlegt hvað buxur þurfa að þola á einum degi, ávaxtasafi...", hellir glasi af kókómjólk á buxurnar: "...kókómjólk...", hellir fullri skál af einhverju rauðu gumsi á buxurnar: "...og svo kvöldmaturinn. Með nýja Vanish [blablablablalba]"

Langt er síðan ég hef séð auglýsingu sem gerir jafnlítið úr viti áhorfenda. Þarna virðist vera gert ráð fyrir að áhorfandinn sé gjörsamlega gersneyddur skynsamlegri hugsun. Hver hellir fullu glasi af ávaxtasafa, fullu glasi af kókómjólk og kúffullum disk af rauðu gumsi á buxurnar sínar sama daginn? Hver skiptir ekki um buxur ef hann hellir t.d. fullu glasi af ávaxtasafa í þær? Gerir viðkomandi ráð fyrir að hann eigi eftir að sulla niður á sig kókómjólk og rauðu gumsi seinna yfir daginn? Gerir viðkomandi ef til vill í því að hella niður á sig sem mestu sulli af því að hann veit að hann á Vanish-þvottaefni sem mun hreinsa þetta allt saman fullkomlega burt?

Ég spyr, þú svarar.

Ugla

Þegar ég skráði mig inn á Uglu í morgun ómaði píanóglamur, afmælissöngurinn. Mundi þá að ég á afmæli.