fimmtudagur, 27. desember 2007

Jólatré

Margir Danir köstuðu jólatrjánum út í gær, annan jóladag. Maður vill heldur ekkert hugsa þá hugsun til enda hvað gæti gerst ef jólatréð er of lengi inni. Best er að vera tilbúinn á skeiðklukkunni þegar nálgast miðnætti á jóladag og þruma trénu beint út í tunnu þegar klukkan slær tólf.

miðvikudagur, 26. desember 2007

Skrifstofan lokuð

Einhverjir hafa reynt að ná í mig í síma. Ég er í Danmörku en mun væntanlega skila mér heim fyrir áramót.

sunnudagur, 16. desember 2007

Hræðilegt líf áður fyrr

Fyrir ekki svo löngu fannst stórkostlegt skólaverkefni frá mér síðan ég var 10 ára. Kennarinn lagði fyrir það verkefni í samfélagsfræði að taka viðtal við afa eða ömmu með stöðluðum spurningum sem hann hafði samið. Verkefnið hét Hvernig var lífið hér áður fyrr? Ég tók viðtal við ömmu. Þetta tvennt stóð upp úr:

Hvernig skemmti fólk sér?
"Jólaball var haldið fyrir börnin."
Tilkomumikið.

Eftirminnilegur atburður úr æsku?
"Amma var send í sveit 6 ára og átti að vera í eitt ár en þegar föðursystir hennar ætlaði að ná í hana var afleggjarinn að bænum fullur af vatni þá þurfti amma að vera þar þangað til hún var 22 ára en hún þekkti fólkið á bænum ekki neitt."

Tekið skal fram að ég skildi ekki alveg lýsingu hennar á atburðinum svo vafasöm túlkun mín fléttast inn í svarið. Ég sé fyrir mér hvernig líf hennar hefur verið í þessi 16 ár á bænum hjá ókunnuga fólkinu. Hvern einasta dag hefur hún vaknað, farið fram og séð eitthvað ókunnugt lið (hitt heimilisfólkið) og bara eitthvað "wtf?".

mánudagur, 10. desember 2007

Velvakandi

Jólabækur eru auglýstar grimmt í ljósvakamiðlum. Vakið hefur athygli ný bók úr seríunni Dagbók Berts. Slíkar bækur voru vinsælar á árum áður hjá "kókópöffskynslóðinni" eins og íþróttakennarinn kallaði bekkinn minn einn daginn þá við lítinn fögnuð viðstaddra.

Kunna höfundarnir sér ekki hóf? Ætla þeir aldrei að hætta þessu? Hvar endar þetta?

Bókaauglýsing árið 2050?:

  • "Bert er orðinn sjötugur og sveittur á elliheimili en hefur engu gleymt. Gamli grallarinn hefur aldrei verið betri."

Vinnukonugripin

Á fimmtudaginn lauk ég 11 vikna gítarnámskeiði hjá Ólafi Gauki, miklum meistara. Námskeiðið kallast forþrep og er fyrir algjöra nýgræðinga. Á námskeiðinu hef ég lært að spila tólf "vinnukonugrip" og glamra slatta af lögum með þeim.

Hvaðan skyldi fyrirbærið vinnukonugrip vera komið?
Á vetrarsíðkvöldum í gamla daga sat heimilisfólkið stundum inni í torfbænum og nartaði í súrt slátur og ábrysti. Þess á milli mátti heyra saumnál detta og fólkið mændi tómum augum út í náttmyrkrið. Einmitt þá rauf vinnukonan á bænum þögnina með orðinu "JÆJA!", reif upp gítarinn og spilaði Fyrr var oft í koti kátt og fleiri slagara með vinnukonugripunum til þess að rífa upp stemminguna.

sunnudagur, 18. nóvember 2007

Barnapían Boris

Little Britain eru mjög misjafnir þættir. Það sama er notað aftur og aftur og aftur, sbr. manninn í hjólastólnum og gæslumann hans. Sá þátt í gær með nýrri persónu, barnapíunni Boris. Það gæti verið besta atriðið úr þáttunum frá upphafi. Fann það síðan á Youtube:

miðvikudagur, 14. nóvember 2007

Lús í spilum

Þegar ég var yngri spilaði ég oft við ömmu. Ég var oft látinn stokka eins og gengur og gerist en stokkaði iðulega of mikið að hennar mati. Þá fleygði hún oftast fram frasanum:

"Stokkaðu nú ekki lús í spilin, drengur!"

Í gamla daga hefur sjálfsagt oft komið fyrir að spilastokkarnir væru lúsugir eftir að einhver hafði stokkað þá of lengi. Ekki ósvipað og þegar líf kviknar í mjölinu og svona. En þetta er góður frasi og mætti yfirfæra hann á fleiri hluti, til dæmis:

  • Við uppvask þegar vaskari virðist ætla að vaska pottinn of vel upp: "Vaskaðu nú ekki lús í pottinn!"
  • Við grillið þegar grillarinn virðist í þann mund að brenna borgarana: "Grillaðu nú ekki lús í borgarana!"
  • o.s.frv.

Brasilískt vax

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er frétt með fyrirsögninni Karlmenn verða háðir brasilísku vaxi og þar stendur að það njóti sívaxandi vinsælda. Reyndar ber þessi frétt sterkan keim af auglýsingamennsku því einhver kona á nafngreindri snyrtistofu lýsir þessu yfir og haft er eftir henni í fréttinni ýmislegt um ágæti vaxins.

Að því gefnu að þetta sé rétt, eftirspurn hafi snaraukist, er þetta enn eitt dæmið um ruglið sem virðist fylgja velmeguninni. Kannski voru það mistök að fá sjálfstæði frá Dönum um árið. Kannski er bara best að búa við skort og einbeita sér að því að hafa til hnífs og skeiðar, í staðinn fyrir að vaða upp fyrir haus í ruglinu sem fylgir miklu magni peninga í umferð, reynandi að kaupa lífsfyllingu með ýmsum leiðum. Þá eru menn a.m.k. ekki hlaupandi í brasilískt vax á milli þess sem þeir tryllast yfir opnun stærstu leikfangaverslunar landsins og kaupa nýan sportbíl á nýu bílaláni. Í staðinn kroppa þeir maðkana úr mjölinu og naga hálfsársgamla skreiðina, klæddir mölétnum klæðunum í hnipri í dimmu skúmaskoti inni í torfbænum með smá ljóstýru frá lýsislampanum og láta hugann reika um brasilíkst vax og stórar leikfangaverslanir.

þriðjudagur, 13. nóvember 2007

Framandi matargerð eða ólögleg loðnubræðsla

Leigjendur af erlendu bergi brotnir hafa hreiðrað um sig í kjallaraíbúð hússins fyrir fáeinum mánuðum. Undanfarnar vikur hefur gosið upp heiftarleg matargerðarlykt úr þeirri íbúð vikulega eða oftar. Lyktin er gríðarlega framandi, með kæstu ívafi og gjarnan keim af fúlum fiski.

Annar möguleiki sem mér hefur dottið í hug er að fólkið sé með ólöglegan rekstur, kannski loðnubræðslu eða aðra lyktsterka framleiðslu þarna niðri. En svo er spurningin hvað á að gera í svona málum. Kalla til heilbrigðiseftirlitið? Láta yfirvöld einangra kjallaraíbúðina? Eða bara banka upp á og lýsa frati á framandi matargerðina?

fimmtudagur, 8. nóvember 2007

Rannsókn: Varasamt að neyta málningar

Vísindamenn í Bretlandi hafa komist að þeirri niðurstöðu að varasamt sé að neyta málningar út á morgunkorn. Rannsóknin var gerð þannig að tveir 50 manna hópar með jöfnu hlutfalli kynja milli 20-30 ára voru skoðaðir. Annar hópurinn setti mjólk út á morgunkorn sitt í einn mánuð en hinn setti gula málningu. Ekki var unnt að greina verulegar breytingar á heilsu fyrri hópsins en þeir sem notuðu málninguna virtust verða varir við ýmsar aukaverkanir, t.d. höfuðverk, slappleika og dauða.

Niðurstaðan þótti mjög áhugaverð og tilefni til frekari rannsókna í þessum efnum.

Að gera rannsóknir á augljósum hlutum virðist vera það nýjasta, sbr. mbl.is:
"Rannsókn: Orkudrykkir hækka blóðþrýstinginn"

laugardagur, 27. október 2007

Kofi 1, 2, 3


Kofi Annan
Kofi Nelson Freeman?


Morgan Freeman
Kofi Fyrsta?

Nelson Mandela
Kofi Þriðja?

laugardagur, 20. október 2007

Vínmenning?

Ein helsta röksemd talsmanna afnáms einkaleyfis ríkisins á verslun með áfengi er sú að vínmenning sé svo slæm hér á landi og vísa þá sérstaklega í "ástandið í miðbænum um helgar". Þeir nefna þjóðir sunnar í álfunni þar sem verslun með áfengi er frjáls (s.s. Spán og Frakkland) og fara fögrum orðum um vínmenninguna þar. Sigurði Kára Kristjánssyni o.fl. talsmönnum nýs frumvarps virðist sérstaklega hugleikið að "geta kippt rauðvínsflösku til að hafa með steikinni heim úr búðinni".

Flutningsmenn nýs frumvarps segja að misnotkun sumra á áfengi eigi ekki að fá að hindra aðra í að kaupa það úti í búð. Þeir telja að áfengisverði verði ekki náð niður nema með þessum aðgerðum. Pétur Blöndal sagði að nauðsynlegt væri að "svipta áfengi þessum heilagleika sem það virtist hafa umfram aðrar vörur" á Alþingi um daginn.

Mér finnst mjög merkilegt að sú aðgerð að færa áfengi úr ÁTVR í matvöruverslanir eigi að bæta vínmenninguna á Íslandi eða "ástandið í miðbænum um helgar". Ég hef sjaldan heyrt hæpnari rök. Ég reyni að hugsa mér lögin ganga í gildi og vínmenninguna batna hratt í kjölfarið - hér verður fólk alemnnt brosandi út að eyrum með Bónusvín sem fékkst á frábæru verði í hönd, sitjandi úti í kvöldroðanum eftir ljúffenga steikina, hlustandi á gítarleik. Stór skærbleikur Bónusgrísinn á flöskunni brosir kumpánlega til fólksins og það dreypir aftur á vínglasinu. Í miðbænum sést ekki lengur óhófleg drykkja, heldur mun siðmenntað fólk, léttmarinerað í rauðvíni og bjór, marsera á milli skemmtistaða.

Áfengi er sveipað "þessum heilagleika" sem Pétur Blöndal nefndi vegna þess að það er ólíkt öðrum vörum. Fólk verður ekki drukkið af kornflexi og gulrótum. Af hverju vísa flutningsmenn sérstaklega til vínmenningar S-Evrópu? Af hverju taka þeir ekki frekar dæmi frá nágrannaþjóðum, sem eru líkari Íslendingum? Ég sá ástandið í miðbæ Kaupmannahafnar í ágúst, örstutt frá Strikinu voru hópar af 14 -16 ára unglingum sem sátu í hópum á götunni með bjór, væntanlega úr matvörubúðum. Þeir eldri voru margir gjörsamlega á eyrunum (svipað og í miðbæ Rvk. eða verra) og sóðaskapurinn var miklu verri en ég hef séð í miðbæ Reykjavíkur um helgar. Í Danmörku er áfengi selt í matvörubúðum. Þetta bendir mjög sterklega til þess að "ástandið í miðbænum" í Reykjavík tengist á engan hátt því hvort áfengi fáist í matvöruverslunum eða ekki. Auðvelt er líka að draga þá ályktun að einmitt vegna þess að það fæst í venjulegum búðum (þar sem erfitt er að halda úti ströngu eftirliti) í Danmörku, hafi verið svona mikið af krökkum að drekka fyrir allra augum.

miðvikudagur, 17. október 2007

Fíflagangur

Fáir hafa sjálfsagt tekið eftir að búið er að tilkynna úrslit í nafnasamkeppninni um Háskólatorg I og II auk tengibyggingar, á lóð Háskóla Íslands. Í frétt um málið á heimasíðu skólans segir að Háskólatorg I hlýtur nafnið Háskólatorg, en 15 manns stungu upp á því nafni. Einn heppinn var dreginn úr hópnum og fær 100.000 kr. í verðlaun.

Nú hlýtur sú spurning að vakna, til hvers var samkeppni um nafn á Háskólatorg I, ef nafnið Háskólatorg er síðan valið?

Hvar liggur snilldin? Var dómnefndin gjörsamlega bergnumin yfir snilli þessara 15 manns sem fengu þá flugu í höfuðið að senda inn vinnuheitið, en sleppa númerinu aftan við?

laugardagur, 13. október 2007

Gillette

Í helstu lágvöruverðsverslunum landsins, Krónunni og Bónus, eru seld rakvélablöð og aðrar rakstursvörur frá Gillette. Engar vörur í þessum flokki eru frá öðrum en Gillette. Fyrirtækið virðist hafa mjög sterka markaðsráðandi stöðu og í krafti hennar okra svínslega á vörum sínum, kannski er álagning íslensku búðanna á þeim líka allt of há. Í þessari frétt segir frá mönnum sem stálu þessari "munaðarvöru" úr verslunum á höfuðborgarsvæðinu að andvirði 900.000 kr. Ég get ekki verið hissa á að menn velji einmitt þessa vöru til að stela, ef tekið er tillit til verðsins. Hvort þeir ætluðu síðan að selja á lægra verði eða hvað hef ég ekki hugmynd um.

Síðast þegar ég gáði kostar pakki með fjórum venjulegum rakvélablöðum frá Gilette, um þúsund kall, bæði í Bónus og Krónunni. Einhver er að græða of feitt á þessu, sennilega Gillette. Fyrir nokkrum mánuðum var neyslustýringin farin algjörlega úr böndunum, því hvorki Krónubúðin né Bónusbúðin sem ég fór í átti venjuleg rakvélablöð né sköfur (tók eftir því þótt ég ætlaði bara að kaupa blöðin), eina sem þær áttu voru blöð fyrir rafdrifnar sköfur og slíkar sköfur. Ég keypti svona rafdrifna sköfu og blöð með, en það hefði ég betur látið ógert. Nú eru tveir möguleikar í stöðunni, skorturinn á venjulegum blöðum gæti hafa verið tilviljun eða þá að fyrirtækið var einfaldlega að stýra neyslu, þ.e. að fólk skyldi kaupa rafdrifnar sköfur eða ekki neitt.

Svo er annað, rafdrifnu sköfurnar eru miklu verri en hinar. Að nota rafdrifna sköfu er eins og að vera með vott af Parkinson sjúkdómnum og miklu líklegra að skera sig en ella. Þetta er jafnheimskulegt og að framleiða rafdrifin glös - þú telst heppinn ef sopinn fer rétta leið og ef brennandi kaffið skvettist ekki bara á þig og borðið og gólfið líka.

Kannski er góð hugmynd að hafa alla hluti rafdrifna. Gæti gert daglegt líf fullt af litlum en spennandi og ögrandi verkefnum - tekst raksturinn í dag án þess að skera sig?
Kem ég kaffinu úr spriklandi bollanum og ofan í maga?
Tekst mér að lesa víbrandi bókina?

þriðjudagur, 9. október 2007

Heima

Heimildarmynd um Íslandstúr hljómsveitarinnar Sigur Rósar sumarið 2006 nefnist Heima og er sýnd í Háskólabíói. Myndin sýnir alls kyns staði innanlands og frá tónleikum Sigur Rósar og Amiinu vítt og breitt. Tónlist leikur að sjálfsögðu stóran þátt eins og sjónarspilið og inn á milli sjást viðtalsbútar við liðsmenn sveitanna. Af þeim bútum fannst mér augljóst að þetta væri stórskrýtið fólk og komst ekki hjá því að velta fyrir mér hvar í ósköpunum það hefði hitt hvert annað í upphafi - svolítið eins og álfar út úr hól. Sá einmitt fyrir mér að eitt þeirra hefði labbað út úr hól, annað hefði rekið á land á Hornströndum, það þriðja hefði poppað út úr eyðibýli í afskekktri sveit, það fjórða lent með loftsteini uppi á fjalli, það fimmta rúllað út úr MH o.s.frv... Eftir þetta hefðu þau síðan öll hist fyrir furðulega tilviljun uppi á hálendi og ákveðið að stofna hljómsveitirnar tvær.

Í þessari mynd smellpassar tónlistin við myndina og það er eiginlega eins og landslagsmyndirnar séu einmitt það sem vantar upp á tónlistina og öfugt, þ.e. að þetta bakki hvort annað upp. Til þess að sannreyna þetta ímyndaði ég mér Korn, Limp Bizkit og Pink þenja raddböndin og hamra slagverkið í takt við íslensku náttúrumyndyrnar. Það gekk engan veginn upp og mér varð eiginlega flökurt þegar þessar blöndur komu upp í hugann.

Loks ber að geta þess að myndin hafði fáránlega róandi og afslappandi áhrif, sem veitti reyndar ekki af núna því síðustu tvær helgar hafa svo til eingöngu farið í heimanám auk virku daganna fyrir utan að það var próf sl. laugardagsmorgun. Þetta er líklega hin fullkomna mynd til þess að sjá eftir slíka törn. Myndin fær því bestu meðmæli.

Einkunn: 10/10.

þriðjudagur, 2. október 2007

Metnaður

Eigandi Steua Búkarest hefur ólgandi metnað fyrir félag sitt. Tapi liðið fyrir Arsenal í kvöld, verður þjálfarinn einfaldlega rekinn (heimild). Annað hvort er eigandinn flippaður grínari, eða snarsjóðandi sturlaður.

Ef allir eigendur liða í ensku úrvalsdeildinni beittu sömu hótun á knattspyrnustjóra liða sinna, væru sex þeirra búnir að missa starfið á þeim átta umferðum sem búnar eru. Ef hótunin virkar til þess að Steua vinnur, er augljóst að fleiri eigendur ættu að leika sama leik, því þá er akkilesarhæll Arsenal fundinn.

föstudagur, 28. september 2007

Búrma/Myanmar

Fjölmiðlar hafa undanfarið fjallað mikið um vargöld í Búrma vegna herstjórnar sem stjórnar með harðri hendi þar, í Myanmar.

En þetta er einmitt sami staðurinn, Búrma og Myanmar. Sjálfsagt hefur það valdið ruglingi meðal almennings, sem hlýtur að spyrja sig hvort óánægja með herstjórn sé í Búrma eða Myanmar eða bæði á sama tíma, tveir fyrir einn. Það sem veldur enn meiri ruglingi er þegar fréttamenn virðast ekki einu sinni sammála um hvernig eigi að bera fram Myanmar, þannig bera sumir fram [míanmar], aðrir [mjanmar] og enn öðrum er þetta allt saman gjörsamlega ofviða og reyna þá að klastra þessu tvennu einhvern veginn saman, sem hljómar þá kannski [míamjanmar].

Skyldu ritstjórar fjölmiðla leggja starfsmönnum línurnar á innanhússfundum -> "Skýr ritstjórnarstefna okkar fjölmiðils er að tala um MJANMAR, en ekki eitthvað bölvað búrma eða míanmar. Misbrestur hefur orðið á þessu hjá vissum fréttamönnum, taki það til sín sem eiga."

Mér finnst Búrma flottasta heitið, sé það notað þarf enginn að velkjast í vafa um framburðinn nema einhver sérvitringurinn kjósi að túlka nefnið sem Brúmma.

miðvikudagur, 26. september 2007

Tvennt

  1. Fékk bréf frá lífeyrissjóði. Þar stóð að ég hefði unnið mér inn rúmar þúsund krónur á mánuði í ellilífeyri frá sjóðnum við 67 ára aldur. Hvað á ég að gera með þær upplýsingar? Hlakka til? Fara strax að bíða eftir krónunum þúsund fullur eftirvæntingar? Verður þessi lífeyrissjóður yfirhöfuð til þegar ég verð 67 ára? Alltaf eru þessi bréf frá lífeyrissjóðum eins, þau segja frá lágri mánaðarlegri upphæð sem maður fær eftir nokkra áratugi. Með fylgir svokallað fréttabréf sem sýnir nokkur súlurit og hvernig viðkomandi lífeyrissjóður hefur skilað bestu ávöxtun allra lífeyrissjóða síðustu 10 ár, og þetta virðist gilda um alla lífeyrissjóði. Allir hafa þeir skilað bestu ávöxtun undanfarin ár með einhverri reiknireglu sem þeir búa sjálfir til.
  2. Mæli með Borgarhjólum á Hverfisgötu. Fór með hjólið í viðgerð þangað eftir að hafa nánast lent í sjálfheldu á því um daginn þegar ég var á fullu spani niður brekku og skyndilega virkuðu bremsurnar mjög illa. En þeir löguðu bremsurnar sem virka núna frábærlega og töluvert betur en þær gerðu þegar hjólið var nýtt og settu bretti á það í leiðinni eins og ég óskaði eftir. Þetta kostaði fimm þúsund kall, sem er bara aðeins meira en að kostar að fylla bensíntank einu sinni. Svo verð ég ekki nema fimm mánuði að safna fyrir þessari viðgerð þegar ég verð 67 ára með peningunum frá lífeyrissjóðnum góða.

sunnudagur, 23. september 2007

Hló þá imam


Ekki imaminn í Hvidovre, en imam þó.

Athyglisverðasti atburður Danmerkurferðarinnar í lok ágúst var líklega heimsóknin í moskuna í Hvidovre. Einn daginn römbuðum við fram á skilti sem vísaði á moskuna. Við biðum ekki boðanna heldur örkuðum sem leið lá þangað. Þegar komið var að moskunni var ekki um að villast, enda moskuleg með eindæmum. Í moskugarðinum stóð einkennisklæddur maður sem virtist vera vörður. Hann var frekar skuggalegur og horfði á okkur illu auga þegar við nálguðumst. Ekki var hægt að útiloka að hann væri vopnaður. Við ákváðum þó að tala við hann og þá bauð hann okkur velkomna og vísaði okkur inn. Svo fræddi hann okkur smávegis um moskuna og starfsemi og slíkt.

Við hittum merkilega vel á því vikulega bænaathöfnin (messan) var í þann mund að hefjast, eða klukkan hálftvö á föstudegi. Múslimar tóku nú að streyma inn og okkur var leyft að fylgjast með athöfninni, sátum í stólum aftast í hvelfingunni. Imam mætti í pontu og messaði yfir mannskapnum, til skiptis á dönsku og arabísku. Múslimarnir hlýddu á og báðu til Allah inn á milli með tilheyrandi beygjum og teygjum. Söngur á arabísku kom einnig við sögu, bæði hjá imam sjálfum og aðstoðarmanni.

Eftir athöfnina bauð aðstoðarmaður imamsins okkur í te og kökur inni á skrifstofu moskunnar, sem við þáðum. Þar talaði hann um slík trúarbrögð og tók skýrt fram að þeir tilheyrðu afar friðsamri grein islam (værum við í einhverjum vafa um það), þ.e. Ahmadiyya, en hvorki súnní eða sjía, en það mun vera þriðja stærsta grein Islam á eftir hinum tveimur en þó margfalt fámennari. Hann talaði um hvers vegna hann iðkaði þessi trúarbrögð og þar fram eftir götunum. Svo sagði hann að enginn í söfnuðinum kynni arabísku nema imaminn. Það þótti okkur nokkuð skemmtilegt í ljósi þess að hálf messan var á arabísku. Imaminn sjálfur mætti svona við og við inn á skrifstofuna og talaði aðeins við okkur líka.

Imaminn var frekar fyndinn því hann var skælbrosandi allan tímann.Tómas nefndi að kirkjurnar á Íslandi væru nánast tómar árið um kring nema á jólum og páskum. Hló þá imam. Tilhugsunin um tóm trúarhús hefur sjálfsagt verið skondin, enda moskan í Hvidovre troðfull alla föstudaga. Mér tókst að hella tei niður á mig því það var svo brennandi heitt og ég óviðbúinn. Imam var ekki á staðnum þá en hefði hann séð það hefði hann eflaust hlegið dátt.

Þegar við áttuðum okkur á því að aðstoðarmaður imamsins gæti líklega talað við okkur í nokkra daga samfleytt ákváðum við að drífa okkur, enda ekki ætlunin að eyða svo miklum tíma í moskunni þótt aðstoðarmaðurinn væri skemmtilegur, það vantaði ekki. Hann vildi sjálfsagt veiða okkur yfir í múslimatrúna. Að endingu gaf hann okkur bókina Islams svar på vor tids spørgsmål og sagði að í henni væri bæði komið inn á læknisfræði og stjórnmálafræði (hann hafði áður spurt okkur að því hvað við værum að læra), svo við hlytum að hafa gagn og gaman að. Ég reikna með að birta umfjöllun og ritdóm um bókina hér þegar ég verð búinn með hana. Við kvöddum að lokum og þökkuðum fyrir okkur, margs vísari og mettir af kökum og brennandi tei.

þriðjudagur, 11. september 2007

Sporlaust

Hluti íslensku þjóðarinnar virðist vera horfinn sporlaust. Það gæti maður að minnsta kosti haldið eftir að hafa komið við í verslunum og öðrum þjónustufyrirtækjum undanfarna daga. Í þeim öllum (kannski með örfáum undantekningum) hafa galvaskir útlendingar tekið við og standa vaktina við búðarkassann daginn út og inn. Verslanir biðja viðskiptavini afsökunar á skertri þjónustu vegna manneklu. Kaffiterían í Aðalbyggingu HÍ hefur verið lokuð frá því að skólinn byrjaði í ágúst - enginn hefur fengist í starfið/störfin. Það þarf engan fréttatíma til að segja fólki hvernig staðan er því hún blasir við út um allt.

En hvað varð um allt fólkið sem sinnti störfunum? Hvar er konan sem vann í kaffiteríunni? Hvar eru unglingarnir sem afgreiddu á kassanum í matvörubúðinni? Fyrst urðu Íslendingar of fínir til að vinna í fiski, nú virðist vera komið að algengustu þjónustustörfunum.

Ég kom við í bakaríi í gær. Þar afgreiddu tveir útlendingar. Ég giska á að þeir hafi ekki verið á landinu lengi, en þeir töluðu þó hrafl í íslensku og skildu viðskiptavini að mestu leyti miðað við það sem ég sá. Kona sem var á undan mér í röðinni var verulega pirruð á að fólkið skildi ekki um leið hvað hún vildi af bakkelsi og gaf glögglega til kynna við þau að þetta líkaði henni ekki. - En var eitthvað við fólkið að sakast? Það var líklega að vinna vinnu sem enginn annar hefur fengist í. Ef ekki hefði verið fyrir þetta fólk væri bakaríið lokað. Vildi konan það frekar? Ef ekki, hvers vegna í ósköpunum þurfti hún þá að láta svona?

Hvaða störf skyldu Íslendingar flýja næst í stórum stíl? Skrifstofustörf? Fjölmiðlastörf? Framleiðslustörf? Kennarastörf? Get ég átt von á því að mæta einn morguninn í tíma í Háskólanum og þar er enginn Hannes Hólmsteinn að kenna, heldur Hugo Chavez?

"Góðan daginn... í dag ætla ég að fjalla um sósíalismann"

fimmtudagur, 6. september 2007

Kúrsinn

Skráði mig í 2,5 eininga áfanga í hagnýtri ensku í háskólanum, aðallega vegna þess að ég þykist ætla út sem skiptistúdent næsta haust. Nema hvað, ég mæti í fyrsta tíma í slíkum kúrsi í morgun, þá eru þar mættir alls konar Frakkar og Þjóðverjar og Finnar og Grænlendingar og Kínverjar og Spánverjar og ég er eini Íslendingurinn fyrir utan kennarann.

Og ég bareikka' VÓ! WTF?

...eitthvað svoleiðis.

mánudagur, 3. september 2007

Mongolian Barbecue

Í nýafstaðinni Danmerkurferð borðuðum ég og Tómas á veitingahúsinu Mongolian Barbecue sem staðsett er í miðborg Kaupmannahafnar, n.t.t. á Stormgade 35, aftan við Tivoli. Matseðilinn er hlaðborð hússins og svo er hægt að velja um hina og þessa drykki. Starfsmenn veitingastaðarins eru að sjálfsögðu allir komnir í beinan karllegg af Genghis Khan, en Genghis var reyndar þekktur fyrir að stoppa á þessum stað til að nærast á ferðum sínum um Mongólska heimsveldið og sagði gjarnan við ferðafélagana "Djöfull væri maður til í einn föytan Mongolian Barbecue núna"

Okkur var vísað til borðs og óðum síðan beint í hlaðborðið eins og úlfar í afmæli. Vissum ekki alveg hvað við áttum að halda með kjötið því það var allt saman hrátt. Fengum okkur þó skerf af því ásamt úrvali grænmetis á diskinn. Þegar Tómas hafði fyllt disk sinn tók einn starfsmaðurinn diskinn af honum við talsverða undrun hans. Í ljós kom að þetta var sósumeistarinn sjálfur. Nú var komið að því að velja sósur á réttinn sem sósumeistarinn hellti síðan á eftir kúnstarinnar reglum. Tómas valdi sér tvær sósur og ætlaði að láta gott heita en það fór alls ekki vel í sósumeistarann sem krafðist þess að hann veldi fleiri. Þá valdi hann eina til og sósumeistarinn gat sætt sig við það. Sósumeistarinn afhenti síðan grillmeistaranum vel sósaðan réttinn. Grillmeistarinn var reyndar ekki með grill heldur sérhannaða pönnu sem er 300°C og steikir því matinn á örskotsstundu. Grillmeistarinn var kampakátur allan tímann við pönnuna og brosti út að eyrum í hvert skipti sem hann afhenti okkur diskana eftir að hafa flamberað réttina í smástund.

Eftir að hafa séð sósumeistarann að störfum ákvað Tómas að biðja hann að mæla með sósum handa sér í næstu ferð að hlaðborðinu. Það fór fram nokkurn veginn svona:
T: "Hvad anbefaler du?"/"Með hverju mælir þú?"
S: "Hvidløg(?)..." / "Hvítlauk (?)..."
T (var ekki viss um að sósumeistari hefði skilið spurninguna): "Nej, hvad anbefaler du?"
S (hljómaði pirraður): "JAH, HVIDLØG!"

Síðan jós sósumeistari einum 5-6 sósum á diskinn hans í viðbót og afhenti grillmeistaranum.

Skemmst er frá því að segja að maturinn þarna var afbragðsgóður og seremónían í kringum hlaðborðið býsna hressandi. Lærdómur okkar eftir þetta var að það borgar sig ekki að styggja sósumeistarann og því er nýjum gestum staðarins bent á að kynna sér venjur hans áður en farið er þangað.

Einkunn: 9,0.

fimmtudagur, 30. ágúst 2007

Þessir Danir

Fór á Bakken í gær. Pantaði bjór (á dönsku), í einni af ótal íssjoppum, fékk bjór minn og greiddi uppsett verð. Nema hvað, ég tek við bjórnum og afhendi féð og rymur þá ekki afgreiðslustúlkan upp úr sér einhverjum orðaflaumi á 100 km hraða og brosti síðan voða sætt. Ég stóð þarna framan við í smástund og velti fyrir mér hvað hún mögulega gæti hafa sagt, skildi ekki orð, brosti bara á móti, kinkaði kolli og fór.

Í lestinni til Álaborgar í dag kom líka kona og þvaðraði upp úr sér einhverri vitleysu. Ég skildi ekkert, góndi bara á hana álkulegur og eins og hver annar glópur. Þarna hafði hún augljóslega gert ráð fyrir að ég væri danskur og skildi mælt mál eins og aðrir. En það var nú öðru nær.

Dönum er því bent á að tala hér eftir hægt og skýrt, a.m.k. til að byrja með og gera ekki bara ráð fyrir að maður skilji allt þótt maður tali dönsku við þá.

mánudagur, 20. ágúst 2007

Til Akranesar, Selfossar og Akureyris

Davíð Þór Jónsson skrifaði góða bakþanka á sunnudagsblað Fréttablaðsins. Þar fjallar hann um nokkra eldheita aðdáendur Simpsons sem sjá rautt yfir íslenskri talsetningu myndarinnar sem þeir kalla m.a. "peningasóun". Eins og sumum er kunnugt þýddi hann og staðfærði myndina á íslensku. Besta efnisgreinin hjá honum er þessi:

"Að vísu virðist andúð fólks á talsetningunni vera meiri eftir því sem það er verr skrifandi á íslensku. Þannig agnúast einn netverji út í talsetninguna í næstu færslu á eftir frásögn af keppnisferð "til Akranesar". Guð forði honum frá að heyra íslensku talaða."
Þetta minnir mig á hvað mér finnst frábært þegar fólk er með stólpakjaft og talar bandvitlaust mál. Ósjálfrátt fer maður að bera virðingu fyrir slíku fólki og leggur við hlustir. "Þessi er efnilegur" hugsar maður og sér viðkomandi fyrir sér sem næsta forseta eða biskup. "Láttu hann heyra það!" langar mann að segja við mannvitsbrekkuna þar sem hún eys úr skálum reiði sinnar og visku, t.d. með því að beygja bæjarnöfn svona:
  • til Akranesar
  • til Selfossar
  • til Akureyris
Ég ákvað að fletta "Akureyris", "Selfossar" og "Akranesar" upp á Google. Niðurstöður voru þessar:
  • Akranesar (614 niðurstöður)
  • Akureyris (12.000!)
  • Selfossar (557).
Frábært.

Liverpool - Chelsea

Rob Styles dómari ætti líklega að fá rauða spjaldið fyrir frammistöðu sína í leik Chelsea og Liverpool í gær. Vítaspyrnudómur hans í stöðunni 1-0 fyrir Liverpool breytti augljóslega niðurstöðu leiksins, þar sem um var að ræða brot Chelsea-manns á Liverpool manni í teig Liverpool en ekki öfugt. En hann lét sér það ekki nægja, því nokkru síðar neitaði hann að hafa gefið Essien hans annað gula spjald í leiknum sem venjulega þýðir brottvísun, sem hann hafði þó gert og myndavélar geta staðfest. Hann var bara að teygja sig fyrir framan Essien og hélt óvart á spjaldinu um leið, er það ekki? Spjaldið sagði hann hafa verið ætlað John Terry. En Terry þykir ekki mjög líkur Essien svo þetta hljómar ansi hjákátlega.

Dómarar eru vissulega hluti af leiknum en stundum fer þetta út fyrir velsæmismörk. Skyldi Enska knattspyrnusambandið gera eitthvað í þessu?

Hitt er annað mál að Liverpool áttu að vera búnir að gera út um leikinn þegar gloríur dómarans gerðust æ verri, enda mun betri í þessum fjöruga leik.

miðvikudagur, 8. ágúst 2007

The Simpsons Movie

Dálítið eins og langur Simpsons þáttur. Sumir brandarar þunnir, aðrir elgferskir.

Einkunn:
7,0.

miðvikudagur, 1. ágúst 2007

Bíladella

Stundum verð ég vitni að umræðum um bíla. Menn skoða jafnvel myndir af hinum og þessum bílum með flunkunýjum spoilerkit, leðursætum og þráðlausu stýri.

"Varstu búinn að sjá nýja Audíinn, 7000 hestöfl, djöfull er hann flottur!"
"Já, þarna AFX 2007?"
"Já mar!" (bendir á mynd af nýjum Audi, máli sínu til sönnunar)
"Maður hefði nú ekkert á móti því að eiga 15 milljónir núna"
...

Bílar eru frekar algengt áhugamál hjá strákum og körlum. Einhvern veginn hef ég aldrei fengið bíladellu. Mér finnst þessar umræður oftast snúast um það hversu rosalegan bíl menn myndu kaupa sér ef þeir ættu ógeðslega mikinn pening...eða ef þeir fengju ógeðslega stórt bílalán hjá Lýsingu.

Ég held að skortur á bíladellu hjá mér skýrist að verulegu leyti á uppeldinu. Margir pabbar virðast nefnilega rækta delluna upp í sonum sínum nánast frá fæðingu:
"Stráksi, sjáðu! Reykspúandi Cadillac!" og stráksinn hugsar "Vó, ég ætla að fá mér reykspúandi Cadillac þegar ég verð stór!". Pabbi minn átti hins vegar Lödu Lux 1500 sem var eldri en ég alveg frá því ég man eftir mér og vel fram yfir aldamótin 2000. Aldrei benti hann mér á nýja Cadillacinn eða nýja Bimmann.

En skyldi ég vera að missa af einhverju? Er bíladella eftisrsóknarverð?
----
Allt öðru máli gegnir um vinnuvélar, mér fannst gröfur t.d. alltaf frábærar og finnst eiginlega enn. Ég væri alveg til í að eiga risastóra skurðgröfu og vörubíl og grafa síðan holur og hóla eða flytja hlass af jarðvegi á vörubílnum og sturta einhversstaðar.

Hver fúlsar við góðri gröfu?

fimmtudagur, 26. júlí 2007

Elliheimilið

Lítið hefur spurst til Kelis og Lil' Bow Wow undanfarin misseri. "Hvar er hún Kelis okkar?" og "Hvar er hann Lil' Bow Wow okkar?" spyrja gárungarnir á elliheimilinu sig um leið og þeir fussa yfir enn einu Scissor Sisters laginu á Popptíví.

Google myndaleit skilaði engri niðurstöðu þegar leitað var að Kelis brjálaðri að syngja slagarann "I hate you so much right now". Myndaleitin fann hins vegar þennan ósátta indjána og mun hann leysa Kelis af hér.

Lumar hann á fleiri smellum?

þriðjudagur, 24. júlí 2007

Lúkas

Þegar ég skrifaði síðustu færslu, um sjálfsvorkunnarköttinn, hafði ég lítið orðið var við stórfréttirnar af hundinum Lúkasi frá Akureyri. Svo var mér sagt frá fréttunum um hann, framhaldssögu fjölmiðla sem ku hafa farið fram marga undanfarna daga. Svo rak ég augun í þessa frétt framan á Fréttablaðinu frá því laugardaginn 21.júlí:

Lúkas lifir ekki veturinn af
"Svona hundur lifir ekki veturinn af nema hann sé innandyra," segir Björn Styrmir Árnason hundaatferlisráðgjafi.

„Tegundin er hárlaus og hefur enga vörn gegn kulda og bleytu. Svo hefur hún verið ræktuð þannig gegnum árin að hún hefur misst náttúrulega hæfni sína til að bjarga sér," segir hann.

Lúkas leggi sér því líklega til munns hvað eina sem að kjafti kemur, jafnvel rusl og skít. Þá sé ekki lengi að bíða ormasýkinga.

Hundsins hefur verið saknað síðan við maílok. Hann var sagður hafa verið drepinn á Akureyri um miðjan júní. Eigandi hans sá síðan til hans um síðustu helgi í Hlíðarfjalli, en hundurinn forðast mennina sem heitan eldinn.

Björn telur hundinn hafa orðið fyrir miklu sálrænu áfalli, fyrst hann haldi sig svo langt frá mannfólki. „Þegar hungrið sverfur að hjá þeim þá er það yfirleitt það fyrsta sem þeir gera að sækja til manna eftir öryggi og mat og hlýju," segir hann.

Þessi mikla fælni Lúkasar bendir til þess að eina úrræðið sé að fanga hann. „Fyrst hann er svona fráhverfur er ekki hægt að hefja endurhæfingu nema maður viti hvar hann er og geti gefið sér góðan tíma til að komast í námunda við hann. Þetta er nánast eins og að eiga við villt dýr, það þarf að yfirbuga óttann."

Jafnvel þótt það sé gúrkutíð, réttlætir það ekki slíkan fréttaflutning. Þetta er eins og fréttir fyrir leikskólabörn. Í því samhengi mætti kannski nefna að fæst leikskólabörn eru læs. Eflaust er sjálfsagt að eigendur hundsins minnist á þetta við ættingja og félaga, en þetta er langt frá því að vera efni í forsíðufrétt og varla fjölmiðlaefni yfirhöfuð.

Ég sé ekki betur en að ég ætti að láta fjölmiðla hafa upplýsingar um sjálfsvorkunnarköttinn - hvað skyldi kattaatferlisfræðingur segja um málið? Ég sé ekki betur en að þarna sé kominn forsíðumatur af bestu gerð.

sunnudagur, 22. júlí 2007

Sjálfsvorkunnarköttur

Kexruglaður köttur býr hér í nágrenninu. Ævinlega þegar ég mæti honum á vappi fyrir utan fer hann að emja eða mjálma ámátlega af slíkri innlifun að annað eins hefur varla heyrst. Í kvöld heyrði ég síðan heilan mjálmkonsert inn um gluggan. Ég vissi ekki hvað í ósköpunum væri á seyði og kíkti út um gluggann. Þá sat kötturinn í miðjum næsta garði og emjaði gjörsamlega linnulaust og þannig að bergmálaði um bæinn. Ég veit ekki hvort kötturinn á í einhvers konar innri sálarkreppu þessa dagana og reyni að fá smá útrás með eymdarlegu vælinu eða hvort hann gerir þetta bara vegna ástands heimsmála.

Rófuna vantar á blessaðan köttinn en hann missti hana fyrir löngu því ég hef séð hann við og við frá því ég flutti hingað fyrir þremur árum og alltaf rófulausan. En hver veit, kannski er hann að syrgja löngu horfna rófuna núna - dagana þegar hann var ungur og sprækur kettlingur og sveiflaði rófunni stoltur framan í gesti og gangandi. "Those were the days" gæti hann hugsað og brotnað gjörsamlega saman í kjölfarið.

En ef einhver kann að veita köttum sálfræðiaðstoð væri sá maður vinsæll hér.

--------
Nágrenni - Næsta umhverfi við tiltekinn stað.
Nágreni - Subbulegt húsnæði með líkum/subbulegt líkhús?

föstudagur, 20. júlí 2007

Sólarhringsvinna

Um daginn var ég í skautskiptum alla 12 tímana í álverinu. Keyrði skautbakka og mölbakka á lyftaranum, opnaði og lokaði pottum og sópaði. Þetta er sveittasta og skítugasta verkið í kerskálanum. Menn verða sótsvartir í framan eins og námuverkamenn. Þegar ég kom heim lét mamma mig bera viðurstyggilega og ókristilega þungan og umfangsmikinn svefnsófa upp í íbúðina með mági sínum. Eftir þetta borðaði ég og fór að sofa.

Þegar ég lokaði augunum til að fara að sofa um kvöldið sá ég strax bara skautbakka og ker. Svo dreymdi mig:

  1. Ég var að keyra á lyftara og kom að gríðarstórum haug af mölbökkum, sem enginn komst yfir nema fuglinn fljúgandi. Þeim var ekki staflað skipulega upp heldur voru allir á rúi og stúi. Ég þurfti einhvern veginn að brjóta mér leið í gegn. Handan haugsins hefur eflaust beðið verkefni, opna, loka, sópa, og flytja bakka af stað A á stað B. Ekki keyra bakkarnir sig sjálfir.
  2. Ég var að bera kleppþungan svefnsófa en vissi þó ekki hvert. Þetta var ferð án áfangastaðar.
Ætti ég ekki að vera á launum allan sólarhringinn þegar mig er farið að dreyma vinnuna eftir tólf tíma vakt? Er sem betur fer kominn í frí núna fram á miðvikudagsmorgun.

Stand by

Námsmenn ættu að kannast við hvað gerist á sumrin. Þá er heilinn settur á stand by. Sumarvinnan er unnin svo að segja sjálfvirkt. Svo fá menn áminningu þegar eitthvað kemur upp á, þá þarf aðeins að skrúfa upp í heilastarfseminni - í það minnsta tímabundið.

sunnudagur, 15. júlí 2007

Semi

Enska forskeytið semi- (ísl. hálf-) virðist hafa náð talsverðum vinsældum á landinu. Sumir eru ekkert að spara það, kannski ekki ástæða til.

Reyndar er semi-fyndið þegar menn eru farnir að troða þessu allsstaðar inn og segja t.d. að eitthvað hafi verið semi-leiðinlegt en eiga við mjög leiðinlegt, eða að e-ð hafi verið semi-skemmtilegt sem þeim fannst í raun fokkin' geðveikt. Eða hefðu þeir talað um hálfleiðinlegt/hálfskemmtilegt ef enska forskeytinu góða hefði ekki verið til að dreifa? Stundum gæti maður haldið að menn væru á samningi og fengju ákveðna upphæð fyrir hvert semi sem þeim tekst að skjóta inn í mál sitt.

Íslendingasögur:
Þá um kvöldið varð Egill hamrammur...

Íslendingasögur í nútímaþýðingu?:
Um kvöldið varð Egill semi-"hamrammur" (wtf?) og fór út að djamma.

föstudagur, 13. júlí 2007

Hætta!

Fuglaflensa!
Fuglaflensa!
Fuglaflensa!
Heimsfaraldur vofir yfir!

Hvar er fuglaflensan í dag? Ekki í fréttum. Heimsendaspárnar vekja athygli fjöldans. "Hvar er heimsendirinn sem fjölmiðlarnir lofuðu okkur?" spyrja menn í heita pottinum. Voru þetta kannski fjölmiðlar að kalla "úlfur, úlfur!"?

Stundum fara heimsendaspárnar að hljóma eins og treiler fyrir lélega bíómynd:
One man...
...one end of the world...
Can he survive?
This July...you are about to witness...

o.s.frv.

Lestur

Er að lesa býsna góða bók. Á sumrin gefst tími til frístundalesturs þegar námsbækur hafa verið lagðar á hilluna í þrjá mánuði. Meira um það síðar. Umrædd bók er kveikjan að eftirfarandi hugleiðingum.

Nú eru stjórnmál frekar asnaleg að ýmsu leyti. Menn þurfa helst að setja sig inn í sem flest mál, misáhugaverð og misskiljanleg fyrir Pétur og Pál.
Dæmi:Þingmaður Kristilega demókrataflokksins, Hrólfur, á að mæta í sjónvarpsviðtal um minnkun þorskstofnsins og hvernig best sé að takast á við vandann. Hrólfur er sérfæðingur í þessum málum, sprenglærður í þorskafræðunum - kann sitt fag. Síðan veikist hann daginn sem hann á að mæta í viðtalið og þá eru góð ráð dýr, hann er eini sérfræðingur flokksins í þessum málum. Þá þarf að hafa hraðar hendur og Rúrik er settur í málið. Þegar kemur að þorskstofni koma menn að tómum kofanum hjá honum, svo hann fær handrit, blað með tíu góðum frösum og einföldum skilgreininugum, sem á að vera nokkurnveginn sniðið að stefnu flokksins í málinu. Ef hann lendir í vandræðum í viðtalinu á hann bara að velja góðan frasa til að segja - með spekingssvip og horfandi yfir gleraugun til að sýnast gáfulegri og muna aldrei að svara beint því sem spurt er um, fara eins og köttur í kringum heitan graut:

  • Það þarf að setja gólf í dagróðrabátana!
  • Það er nægur fiskur í sjónum!
og ef hvorugur þessara virðist nægja fréttamanninum:

  • Hagvöxtur hefur aukist um 15% á einu ári, kaupmáttur um 23% og vísitala neysluverðs hefur aldrei verið hagstæðari en einmitt nú!
Alltaf að hafa allt eins einfalt og hægt er, en vera þó alltaf tilbúinn að kasta fram einu og einu flóknu orði til að virðast snjallari.

Og þegar áhorfandinn sér þetta hlýtur hann að hugsa:
Aaa, ég skil þetta ekki en þarna er greinilega maður sem kann sitt fag
-veit hvað hann syngur
-þekkir fræðin
-er eldri en tvævetur í bransanum.

þriðjudagur, 10. júlí 2007

Menn halda alltaf að þeir séu að finna upp hjólið

Hjólreiðar hafa aukist á götum Reykjavíkur undanfarin misseri. Hjólakappar spretta upp eins og gorkúlur og skjótast út úr næsta runna eða húsasundi á fljúgandi ferð. Bílstjórar eru margir hvumsa og kunna ekkert að bregðast við auknu framboði hjólreiðamanna. Sumir virðast líta á þá sem lægra setta og því megi svína á þeim að vild. Það er alrangt.

Hjólið sem ég fékk í stúdentsgjöf í fyrravor hefur reynst mjög vel og ég hef nýtt það óspart. Hjólaði í skólann í allan vetur ef veður var ekki þeim mun hryssingslegra eða hálka á götunum. Í sumar hef ég notað hjólið mikið enda veður gott. Um daginn hjólaði ég úr Vesturbænum og upp í Breiðholt (Fellahverfi), reiknaði fyrirfram með að það væri talsvert erfitt, en sú reyndist ekki raunin. Túrinn tók 45 mínútur á háannatíma, sem er ekki mikið meira en bíll fer þetta á í mestu traffíkinni. Einn kafli leiðarinnar tók aðeins á, að hjóla upp Elliðaárdalinn - að öðru leyti var þetta eins og að drekka vatn.

Hjólið hefur ýmsa kosti umfram bílinn, það eyðir ekki bensíni og þarf mun sjaldnar að stoppa á umferðarljósum (vegna undirganga) en eilíf stopp og tafir eru það leiðinlegasta við að keyra bíl hér í bænum. Stærsti kosturinn er þó líklega sá að það er miklu skemmtilegra að hjóla heldur en að keyra. Hins vegar mættu borgaryfirvöld sjá sóma sinn í að bæta aðgengi fyrir hjólreiðamenn, s.s. með fleiri undirgöngum o.s.frv. Það er komið yfirdrifið nóg af þessum andskotans mislægu gatnamótum og hringavitleysugöngubrúm (eins og yfir nýju Hringbraut). Bæta ætti strætókerfið og aðgengi fyrir hjólandi og gangandi. Bíllinn þarf ekki alltaf að vera númer eitt, tvö og þrjú þegar samgöngur eru skipulagðar í Reykjavík.

Lokaniðurstaða er sú að ég mæli eindregið með því að fólk hjóli eins mikið og hægt er, sérstaklega eins og veðrið hefur verið í sumar. Ekki hjóla bara einu sinni í vinnuna með sparibrosið í botni af því að það er "Vika hjólsins" og birtast á myndum í blöðunum eins og ónefndir stjórnmálamenn.

Jabba the Hut fær að slá botninn í þessa færslu.

þriðjudagur, 3. júlí 2007

Lyftaramyndband

Lyftaramyndbandið sem við sáum á lyftaranámskeiðinu um daginn kenndi hvað bæri að varast við notkun lyftara.

VARÚÐ:
  • Þýskt myndband frá svona 1982.
  • Of hressandi bakgrunnstónlist.
  • Ekki fyrir viðkvæma.

laugardagur, 30. júní 2007

Nauðsyn nútímatækni

Nútímamenn gera sér grein fyrir hve nútímatækni er nauðsynleg. Engum dettur í hug að hann geti lifað án farsíma, tölvu, sjónvarps, MySpace, MSN eða annarra nútímahluta sem halda lífi í mönnum nú til dags. Þegar einhver spyr: "Hvernig lifði fólk án GSM síma áður fyrr?" er eins og enginn muni það. Það verður fátt um svör. Fólk kemst að lokum að þeirri niðurstöðu að sennilega hafi líf ekki þrifist á plánetunni fyrir daga þessara hluta.

Dæmi: Pési spyr afa sinn: "Hvernig lifði fólk af í gamla daga án GSM, internetsins, msn, MySpace, fellihýsa og daglegra frétta af afrekum Paris Hilton?". Afi hans verður grafalvarlegur á svipinn og starir á hann í hálfa mínútu án þess að segja nokkuð. Svarar að lokum, lágri ógnandi röddu: "Lofaðu að spyrja aldrei um þann tíma aftur!"

fimmtudagur, 28. júní 2007

Á asnaeyrunum

Spennuþættirnir Lost njóta gríðarlegra vinsælda hér á landi og víðar. Þegar þeir hófu göngu sína fylgdist ég með og hafði bara nokkuð gaman að. Síðan þetta var hafa sennilega birst 10.000 þættir eða ég veit ekki hvað. Nú eru þættirnir meira og minna allir eins og ganga út á það eitt að teygja lopann. Áhorfendur, þeir sem eftir eru (og þeir eru reyndar mjög margir einhverra hluta vegna), eru teymdir í gegnum hvern þáttinn á fætur öðrum á asnaeyrunum þar sem látið er líta út fyrir að ótrúleg atburðarás eigi sér stað, gríðarleg spenna liggi í lofti og næsti þáttur? Tjah, hann verður sko enn meira spennandi - "you ain't seen nothing yet!"

Um daginn "neyddist" ég til þess að horfa á heilan þátt af þessu vegna þess að ég var staddur í húsi þar sem viðstaddir ákváðu að horfa á þáttinn. Ég hafði kannski einhverja möguleika í stöðunni:
  • Fá skyndilega herfilegt hóstakast og fá þá strax spurninguna: "Er allt í lagi með þig?" og svara inn á milli hósta: "...já...ekkert að mér...bara...ofnæmi...verð að fara...ofnæmislyfin.........heima..." og skakklappast síðan út.
  • Setjast með fólkinu fyrir framan imbann og þykjast horfa, en stara í staðinn allan tímann á hilluna við hliðina á sjónvarpinu og finna umhverfishljóð til þess að einbeita mér algjörlega að á meðan, s.s. suð í flugu eða umferð fyrir utan. Þetta hefði verið mjög erfitt því að tónlistin í þáttunum er svo hádramatísk að maður hefði líklegast ekki haldið út að einblína á flugnasuðið.
Hver einasti maður á eyðieyjunni þar sem þátturinn á að gerast virðist eiga gjörsamlega ótrúlega fortíðarsögu. Stuttar glefsur úr fortíð hvers og eins eru sýndar í þáttunum og eiga að varpa ljósi á atferli viðkomandi við ákveðnar aðstæður. Og það bregst ekki að fortíðarglefsan er eitthvað gjörsamlega yfirgengilega ótrúlegt:
Í fortíðinni vann Andy sem garðyrkjumaður heima hjá Tiger Woods. Einn daginn var hann að klippa runnana þegar þrír grímuklæddir menn komu askvaðandi utan að götu, rændu honum og fóru með hann í rússnesknan frystitogara og notuðu hann sem gólfmoppu til þess að skúra vélarúmið. Síðan mundi hann ekkert fyrr en hann vaknaði upp, bundinn á höndum og fótum, í loftræstiröri í verslunarmiðstöð einhversstaðar í Bandaríkjunum

Eftir að slík endemisvitlaus fortíðarglefsa hefur verið sýnd er áhorfandanum ætlað að hugsa: "Aha, þetta útskýrir ýmislegt!"

Þessi glataði þáttur var í gangi þegar ég kveikti á sjónvarpinu í kvöld og að sjálfsögðu var tónlistin með dramatískasta móti og einhver kona sýndi eyrnalokk sem hún hélt á í lófanum, en þetta var sko enginn venjulegur eyrnalokkur, hann tengdist atburðarás sem áhorfendur hefði aldrei getað órað fyrir og svo fylgdu óborganleg viðbrögð viðstaddra í atriðinu við eyrnalokknum, sem var svo miklu meira en bara eyrnalokkur:








Hvað þarf kjaftæðið að ganga langt í þessum þáttum til þess að áhorfendur láti ekki bjóða sér meira?

sunnudagur, 24. júní 2007

Ævintýralegir tónleikar The Who á Glastonbury

Vaknaði á hádegi í dag. Dagurinn hefur að mestu leiti farið í að þvo þvott ásamt öðrum tilfallandi húsverkum ásamt því að reyna að lesa blöðin með mismikilli einbeitingu. Hef verið frekar afundinn og þreyttur eftir helgina og það var eins og ég hefði farið vitlausum megin fram úr "í morgun".

Í kvöld hef ég síðan fylgst með Glastonbury tónleikahátíðinni á BBC 2, BBC 3 og BBC 4. Sá hluta af Kaiser Chiefs, Manic Street Preachers og sonum Bob Marley að flytja slagara eftir föður sinn. Þetta var allt saman gott og blessað og ég svona fylgdist með með öðru auganu og öðru eyranu. Eitt og eitt lag var grípandi. En klukkan tíu var röðin komin að The Who að stíga á stokk í beinni. Á meðan ég fylgdist með fyrsta laginu var ég ekki alveg sannfærður um að kommbakk þeirra eftir áralangt hlé (sem reyndar hófst formlega í fyrra ef ég veit rétt) hefði verið góð hugmynd. Rödd söngvarans virtist hafa látið á sjá og þeir virkuðu allir hálfstirðir og stirðbusalegir. Það kom ekkert endilega á óvart, kommbökk eru oft flopp. Svona u.þ.b. í miðju öðru lagi sem þeir tóku, Who Are You? virtist söngvarinn vera að ná fyrri raddstyrk og hinir voru mjög þéttir í spilamennskunni. Veit ekki hvernig hann fór að þessu, hlýtur að hafa staupað WD-40 til þess að smyrja raddböndin eða eitthvað og hinir hafa sturtað í sig Lýsi og Liðamíni til að losna við stirðleikann. Ég fann hressleikann koma yfir mig við þetta. Frá og með þessum tímapunkti var ekki veikan blett að finna á þessum tónleikum. Þessir gömlu karlar hikuðu ekki við að stökkva fram og aftur um sviðið og söngvarinn sveiflaði hljóðnemasnúrunni eins og hann væri að fara að snara mannýgt naut á milli þess sem hann söng. Áður en þeir tóku lagið Relay minntust þeir á að það hefðu þeir samið árið 1971, og þetta var líka örugglega eins og þeir væru komnir aftur á gullaldarskeiðið fyrir tæpum fjörtíu árum. Slögurunum var rúllað út á færibandi - Baba O' Reilley, Pinball Wizard, Won't Get Fooled Again, Relay, The Seeker og svo framvegis og svo framvegis.

Þetta var hreinlega magnað að sjá og heyra og ég hefði gefið mikið fyrir að vera á staðnum. Sjaldan eða aldrei man ég eftir að tónlist hafi breytt skapi mínu eins mikið og núna. Áður en ég varð vitni að þessu var ég þreyttur og afundinn, en núna er ég orðinn dúndrandi hress og óþreyttur. Tónlistarmenn ættu að taka sér þessa tónleika The Who til fyrirmyndar, en þetta verður varla toppað. Enda náðu þeir múgnum algjörlega á sitt band með frammistöðunni og voru vel að því komnir, höfðu sjálfir greinilega mjög gaman að því að spila þarna og það smitaði út frá sér. Ég get ekki ímyndað mér annað en að þetta hafi verið hápunktur Glastonbury-hátíðarinnar þetta árið.

Einkunn: 10. Engin spurning.

sunnudagur, 17. júní 2007

Á mannamótum

Margir kannast við að mæta fólki á förnum vegi sem heilsar, án þess að geta með nokkru móti komið því fyrir sig hver heilsar eða frá hvaða samhengi menn þekkja viðkomandi. Ég þykist vera frekar glöggur á að þekkja fólk þótt ég hafi ekki séð það lengi. Ég hef samt lent í þessu - einhver heilsar kumpánlega, "Nei, blessaður Guðmundur!..." o.s.frv. Við slík tækifæri verður gjarnan einhver innri togstreita, spurningarnar dynja inni í heilabúinu:
  • Hver í fjáranum er þetta?
  • Af hverju veit hann/hún hvað ég heiti?
  • Á ég að þekkja þennan/þessa?
Svo fara menn að reyna að hraðskanna í upplýsingum í heilabúinu allt það fólk sem þeir hafa umgengist yfir ævina, beita útilokunaraðferð og reyna að finna viðkomandi á óralöngum lista fólks. Þetta getur verið erfitt og flókið ferli að fara í gegnum á einu augnabliki.

En þetta er ekki allt, því að einhverra hluta vegna virðast flestir hafa þau ósjálfráðu viðbrögð í aðstæðunum að þykjast þó muna eftir þeim sem heilsar, sem gerir allt saman enn flóknara. Erfitt getur verið að þykjast þekkja viðkomandi og reyna af veikum mætti að halda uppi einhverju spjalli af viti, flestir koma einmitt upp um sig þegar á þetta reynir. Fólk getur þá gert aðstæðurnar pínlega vandræðalegar og haft spjallið mjög almennt með spurningum eins og "Hva, alltaf í boltanum?" og síðan haldið áfram á fullu að reyna að skanna listann og finna út hver sá "ókunni" er.

Sumir vilja forðast allan misskilning og segja alltaf í byrjun hverjir þeir eru og hvaðan þeir þekkja mann. "Blessaður, ég er afi þinn, þú heimsóttir mig í síðustu viku" - þarna er afinn sniðugur og kemur strax í veg fyrir allan misskilning og pínleg augnablikin sem hefðu getað litið dagsins ljós ef Brjánn sonarsonur hans hefði ekki þekkt hann þegar þeir mættust úti á götu. Líkurnar á því voru kannski hverfandi, en afinn vill greinilega halda sig "on the safe side" í þessu tilviki, hann hefur lært af áralangri reynslunni að kæfa vandræðin í fæðingu.

laugardagur, 16. júní 2007

Niðri í bæ

Fór í bæinn í gærkvöldi í fyrsta sinn síðan reykingabannið (eða forræðishyggjan eins og sumir kjósa að kalla það) tók gildi. Hef verið með hálsbólgu undanfarna daga og áfengir drykkir í bland við slíkt hafa aldrei þótt sterkur leikur. Fékk bullandi viskírödd mjög fljótlega, hefði samt án efa verið verra ef reykingar væru enn leyfðar.

Ég man ekki hver útgangspunkturinn og þungamiðjan áttu að vera í þessari færslu. Því síður hvað átti að draga vagninn. Þá enda ég þetta bara hér.

föstudagur, 15. júní 2007

Gjöf fyrir gjöf

Niðri í miðbæ í dag mætti ég manni sem gaf sig á tal við mig. Veifaði hann lítilli bók að nafni Greið leið til annarra hnatta. Síðan lýsti hann því ítrekað yfir að hann væri ekki að selja neitt og hvernig bókin leiddi menn í allan sannleika um innri frið og ég veit ekki hvað og hvað. Lét hann fylgja máli að bók þessi kostaði 1500 krónur út úr búð en í dag hefðu hann og menn hans ákveðið að gefa hana á götum úti. Enn fremur að nú væri hún loksins fáanleg á íslensku.

Mér þótti einhver skítafýla af þessu öllu saman og kom það á daginn. Bókin var ekki gefins í hefðbundnum skilningi þess orðs heldur fór hann fram á ölmusu í skiptum fyrir bókina. M.ö.o. var hann að selja bókina. Ég sagði honum að þessi bók væri til heima (sem var satt, hef séð hana í hillu hjá systur minni) og þá spurði hann hvort ég vildi nú ekki samt "þiggja" bókina, kannski þekkti ég einhvern sem hefði gaman að lestri, og lýsti því hvað fólk gæfi í staðinn, sumir gæfu hundraðkall, sumir þúsund kall, sumir nammipoka úr vasanum eða þess háttar. Þá fór ég að velta fyrir mér hvernig ég segði nægjusemi á ensku, því ég ætlaði að segja honum að ég væri svo nægjusamur að ég vildi ekki þessa bók þegar slík væri til á heimilinu (eflaust hefði það fallið vel að slíkum trúarbrögðum). Mundi það ekki svo ég tók upp veskið, vitandi að í því væri svo gott sem ekki neitt í reiðufé og fiskaði upp það sem þar var, fjórar krónur og lét hann hafa. Mér fannst ég greina ákveðin vonbrigði í svip hans en ekki gat hann hætt við að láta mig hafa bókina eftir fyrri yfirlýsingar. Hann fór frekar flatt út úr þessum viðskiptum og hafði í raun sóað tíma sínum til einskis. Hins vegar sóaði hann mínum tíma líka, auk þess sem ég hef ekkert með þessa bók að gera.

Man næst að segja strax "nei takk" við slíka menn og labba í burtu.

Þessi prangari var ekki jafnferskur og sá sem stendur stundum í Austurstrætinu, otandi bókum framan í fólk, hrópandi "LJÓÐ!". Langt síðan hann hefur látið sjá sig.

miðvikudagur, 13. júní 2007

Spánskt fólk

Sumt fólk sem verður á vegi mínum kemur gríðarlega spánskt fyrir sjónir. Þannig var að í morgun átti ég að mæta á stað hér í borginni á vegum vinnunnar til þess að fara á lyftaranámskeið. Þegar á staðinn var komið byrjaði ég að leita að innganginum. Hann fann ég fljótlega og gekk inn í húsið sem var á nokkrum hæðum og innihélt nokkur fyrirtæki, banka, skrifstofur o.fl. Þar kom kona aðvífandi og tilkynnti mér öskupirruð í óspurðum fréttum: "BANKINN OPNAR EKKI FYRR EN KLUKKAN NÍU!" og þrammaði síðan rakleiðis niður stiga svo glumdi í klossunum og bergmálaði í veggjunum. Í nokkrar sekúndur á eftir stóð ég kyrr og gapti af undrun. Síðan labbaði ég upp stigann þar sem námskeiðið átti að vera.

Ef konan hefði mætt mér þarna urrandi brjáluðum að berja á dyr bankans, gargandi: "HVERNIG ER ÞAÐ, ER ENGIN AFGREIÐSLA HÉRNA?!...ER ÉG AÐ BORGA FYRIR ÞESSA ÞJÓNUSTU?!" o.s.frv. hefði ég skilið stundarbrjálæði hennar. Þá hefði tilkynning hennar líklega róað mig niður og ég hefði sagt: "ó..úbbs...afsakið..." og hrökklast á brott. Þetta var hins vegar ekki þannig, eina tilefnið að viðbrögðum konunnar var það að ég gekk inn í þriggja hæða byggingu, pollrólegur, á leið á lyftaranámkeið og það vildi svo til að banki var staðsettur í sama húsi. Það virtist konan nánast túlka sem stórfellda árás.

Kannski er daglegt brauð að kolvitlausir viðskiptavinir bankans mæti á staðinn fyrir níu með uppsteyt og ókvæðisorð. Kannski þarf konan sífellt að flæma slíkt fólk burt og er farin að beita fyrirbyggjandi aðgerðum, þ.e. að æsa sig við þá áður en þeir fara að berja á dyr og garga. Kannski hef ég drepið köttinn hennar í fyrra lífi eða eitthvað. Kannski átti hún bara slæman dag. Hvað veit maður? Hitt er annað mál að ég hafði frekar gaman að þessari uppákomu og mátti passa mig að hlæja ekki að konunni. En sem betur fer gerði ég það ekki því þá hefði hún eflaust steinrotað mig á staðnum.

miðvikudagur, 6. júní 2007

Vaktavinna

Í sumar starfa ég í álveri í vaktavinnu. Það þýðir að ég vinn tvær helgar í mánuði þangað til skólinn byrjar aftur í haust. Unnar eru 12 tíma vaktir í fimm daga törnum og ég er á svokallaðri A-vakt, sem hefur vaktaplan langt fram í tímann eins og hinar vaktirnar, B, C og D. Á mánudagsmorgun kláraði ég síðustu næturvakt í þeirri fimm daga törn, sem innhélt tvær dagvaktir og þrjár næturvaktir. Mér virðist koma betur og betur í ljós að með þessu fyrirkomulagi missi ég nokkurn veginn af öllu í sumar. Þar sem ég var að vinna um liðna helgi missti ég t.d. af einni stórveislu. Ef gluggað er í vinnuplanið lengra fram á sumarið kemur í ljós að ég missi algerlega af verslunarmannahelginni sökum vinnu, en þá var ég búinn að 80% lofa að mæta á Mýrarboltamótið á Ísafirði. Líklega verður ekkert af því. Einnig missi ég af litlu verslunarmannahelgi sumarsins, þ.e. fyrstu helginni í júlí. Ég sá auglýsta afar spennandi tónleika í dag með Dúndurfréttum og Sinfóníunni 29.júní (flutt verður verk Pink Floyd, The Wall), leit síðan á vaktaplanið og hvað kom í ljós? Júbb, vinna. Svona mætti áfram telja, sennilega missi ég bara af öllu þetta sumarið. Veit að minnsta kosti ekki af neinum atburði sem hittist þannig á að ég missi ekki af honum, en það hlýtur að koma.

Hitinn á milli kera getur orðið nánast óbærilegur og rykið og drullan eru ekki alltaf af skornum skammti.

Kostirnir við slíka vinnu eru einnig fyrir hendi, t.d. kann ég frekar vel að meta þessi fimm daga frí inn á milli, a.m.k núna eftir fyrstu rimmuna og býst við að svo verði áfram. Kaupið er rjúkandi gott og svo er matur í boði fyrirtækisins á staðnum og kaffipásurnar eru frekar margar og stundum mjög langar (reyndar stundum of langar). Það mun reyndar væntanlega breytast fljótlega, þegar föstu starfsmennirnir fara að detta í sumarfrí einn af öðrum.

sunnudagur, 3. júní 2007

Óskir viðskiptavina

Fréttablaðið í dag greinir frá:

Nýtt leiðakerfi Strætó bs. tekur gildi í dag. Tíðni ferða minnkar og aka nú allir vagnar á 30 mínútna fresti, nema leiðir 23 og 27. Þegar vetraráætlun tekur gildi munu ákveðnar leiðir aka á 15 mínútna fresti.
[...]
Breytingarnar eru, samkvæmt upplýsingum Strætó bs, til þess fallnar að spara rekstrarkostnað og koma til móts við óskir viðskiptavina.
Gaman er að sjá hvernig þeir flétta þessi tvö markmið listilega saman; spara rekstrarkostnað og koma til móts við óskir viðskiptavina! Ég get ímyndað mér hvernig óskir viðskiptavina hafa hljómað. Eitthvað á þessa leið:

Bjarni: "Mér finnst ótrúlega gaman að bíða. Helst vildi ég bíða allan daginn. Mér finndist að Strætó bs. ætti að koma til móts við okkur fólkið sem hefur gaman að óralangri bið. Þið gætuð t.d. haft strætóferðir á hálftímafresti í stað 20 mín."

Kolbrún: "Ég ræð ekkert við þessa biðáráttu mína. Strætó á hálftíma fresti!"

Svavar: "Svavar hér. Ég er áhugamaður um sparnað, sérstaklega sparnað hjá ríkinu. Ég tek strætó og vil að hann gangi sjaldnar en hann gerir nú til þess að spara fé skattborgara"

Snjólaug: "Ég talaði við miðilinn minn í gær. Hann sagði að lífið mundi ganga betur ef strætó færi að ganga á hálftíma fresti."

laugardagur, 26. maí 2007

Ruslpóstur og áreiti

Ruslpóstur hefur snaraukist á undanförnum árum. Fyrir utan allskonar Hagkaupsbæklinga, Bónusbæklinga og Ikeabæklinga dælast Fréttablaðið og Blaðið inn um lúgur flestra landsmanna. Þeir sem kaupa áskrift að Mogganum sitja enn verr í súpunni hvað þetta varðar. Maður er farinn að fá martraðir þar sem maður upplifir hroðalegan dauðdaga, í lokuðu herbergi með engu nema einni lítilli bréfalúgu, þar sem inn flæða hvers konar bæklingar og blöð og maður drukknar að lokum.

Blaðastaflarnir hlaðast upp á örfáum dögum og fólk getur ekki farið í frí án þess að fá holskefluna yfir sig af bæklingum þegar það opnar dyrnar heima hjá sér að fríi loknu. Svo er predikað fram og aftur um að þetta þurfi að endurvinna. Fólk skuli fara með þetta allt saman samviskusamlega út í næsta blaðagám. Menn segja upp vinnunni og vinna kauplaust í fullri vinnu við að rogast með allt blaðaruslið í gáma eða tunnur. Blöðin og bæklingarnir virka nefnilega þannig í flestum tilvikum að flett er í gegnum þau einu sinni og búið, þetta eru ekki eigulegir gripir og ekki stofustáss.
---
Skylt efni
Það fer í taugarnar á mér að sjá fólk kasta rusli úti á götu, enn meira fer í taugarnar á mér þegar fólk kastar rusli út úr bílunum sínum á ferð. Eitt handtak og það er laust við alla ábyrgð, þarf ekki að sjá þetta rusl oftar. Gerir fólkið þetta líka heima hjá sér? Þarna er kjörið tækifæri fyrir tækninýjung - rusl með innbyggðum nemum sem virka þannig að ef því er hent á víðavangi en ekki í ruslatunnur ofsækir það viðkomandi. Þetta gæti einnig verið gott skemmtiefni fyrir viðstadda. Dæmi: Maður ekur eftir hringveginum, gæðandi sér á gómsætu Snickers. Eftir síðasta bitann skrúfar hann niður rúðuna og kastar bréfinu út, í góðri trú um að þetta sælgætisbréf þurfi hann aldrei að sjá aftur. En honum að óvörum kemur bréfið inn um miðstöðina í bílnum og flýgur beint í augað á honum, hann reynir að bægja því frá en það er eins og segull og fer hvergi, honum til mikillar mæðu og truflunar við aksturinn.
Dæmi 2: Jónatan hefur oft kastað rusli úti á ferðum sínum. Einn daginn er hann gangandi í skóginum með glóðvolgan Mc'donalds borgara í frauðplastumbúðum. Hann hendir umbúðunum eftir neyslu, en það hefði hann ekki átt að gera því þá kemur strókurinn á eftir honum, allar umbúðir sem hann hefur kastað á víðavangi yfir ævina á eftir honum, eins og reitt býflugnager og ræðst á hann.

Þetta mundi virka. Mótmælir einhver?

föstudagur, 18. maí 2007

Lúxusvandamál

Hver kannast ekki við að vera akandi frá Hvalfjarðargöngum og sem leið liggur í bæinn og iðandi umferð er úr bænum? Síðan lendir maður á eftir einhverju finngálkni sem ekur á 70-80, m.ö.o. lestarstjóra. Síðan safnar þessi lestarstjóri halarófu af bílum fyrir aftan sig vegna þess að enginn getur tekið fram úr honum sökum umferðar úr hinni áttinni. Við það verða allir gargandi sturlaðir nema lestarstjórinn sjálfur sem situr örugglega glaður í sínum bíl, sáttur með að vera forystusauður, flautar lítið lag og spilar trommusóló á stýrið og mælaborðið.

Þetta var lúxusvandamál dagsins.

þriðjudagur, 15. maí 2007

Kjósendur hafðir að fíflum?

D'Hondt kosningakerfið í óviðjafnanlegri blöndu með kjördæmaskipan sýndu stórkostleg tilþrif í nýliðnum kosningum.
Dæmi: Reykjavík Norður: Sjálfstæðisflokkur 36,4% -> 4 menn.
Samfylking 29,2% -> 5 menn.

Svo var það þannig að fengi Frasmóknarflokkurinn ellefu atkvæðum meira í einu kjördæminu (man ekki hverju) hefði það fellt stjórnina vegna reglna um jöfnunarsæti. Svo mætir maður á kjörstað og kýs stjórnarandstöðuflokk í góðri trú um að maður sé að vinna stjórnarandstöðunni gagn. Kannski hefði mátt vinna henni mest gagn með því að kjósa Framsókn og stuðla þannig að falli stjórnarinnar.

Þetta er svona svipað og að spila vist og reyna að safna slögum í stórum stíl, en komast síðan að því sér til mikillar mæðu að spilað er nóló en ekki grand.


Lét d'Hondt kosningakerfið hafa sig að fífli.

Stjórnarmyndun

Snemma á kosninganótt sagði formaður Framsóknarflokksins í viðtali við kosningasjónvarp RÚV að flokkur sinn væri ekki stjórntækur með svo lítið fylgi sem fram kom í fyrstu tölum. Það sama hafði hann sagt við fjölmiðla varðandi fylgi flokksins í skoðanakönnunum skömmu fyrir kosningar. Þegar líða tók á kosninganótt virtist sem honum hefði snúist hugur (líklega hafa einhverjir valdagráðugir flokksmenn verið búnir að ræða við hann, ósáttir við orðin sem hann lét falla). Þá skyndilega fór hann að tala um "að skorast ekki undan ábyrgð" og því um líkt.

Í viðtölum við fjölmiðla daginn eftir sagði Jón nokkuð sem hefur náð vinsældum meðal Framsóknarmanna upp á síðkastið, nefnilega að kenna öðru en flokknum sjálfum um ófarir sínar. "Fjölmiðlaofbeldi" og jafnvel einelti voru hlutir sem flokksmenn höfðu mátt þola. Ekki getur hugsast að flokkurinn beri sjálfur ábyrgð á óförum sínum? Jafnvel að hann sé sjálfum sér verstur?

Nú standa síðan yfir viðræður Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um hugsanlegt framhald á lífdögum ríkisstjórnarinnar um enn eitt kjörtímabilið. Þetta minnir óþægilega mikið á þegar Framsóknarmenn hoppuðu upp í með Sjálfstæðisflokki í borgarstjórn síðastliðið vor, þrátt fyrir að hafa rétt svo náð inn einum manni. Ekki var það beinlínis til að auka hróður flokksins. Það má í raun segja að kjósi flokkurinn að halda áfram í ríkisstjórn eftir gríðarlegan ósigur í kosningum, sé hann að gefa skít í þorra kjósenda.

Ef þessi ríkisstjórn heldur áfram má segja að það sé staðfesting á því sem ágætur kennari minn í stjórnmálafræði sagði (og eflaust hafa fleiri sagt það áður): Það skiptir engu máli hvað maður kýs, alltaf kemur Framsókn upp úr kössunum.

föstudagur, 11. maí 2007

Forvitni

Nú hefur maður heyrt þetta með kollsteypuna sem verður eftir kosningar ef vinstrimenn komast að. Gott og vel - gefum okkur að þessi meinta kollsteypa verði að veruleika. Hvernig virkar hún? Ég er orðinn ansi forvitinn að sjá það. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir þessu, ég held að ég verði að sjá kollsteypu í framkvæmd til að skilja hana.

Ég hef þó einhverjar óljósar hugmyndir í kollinum. Þetta byrjar allt saman á því að Vinstri grænir og Samfylking gera stjórnarsáttmála (Frjálslyndir mögulega með ef með þarf upp á meirihlutann). Fljótlega eftir að stjórnarsáttmálinn er handsalaður stækkar Ögmundur Jónasson á óútskýranlegan hátt, verður á stærð við risa. Það sama kemur fyrir Steingrím J. og Ingibjörgu Sólrúnu rétt á eftir, jafnvel fleiri flokksmenn - ég átta mig ekki alveg á því. Svo þramma þau hvert í sína áttina, Steingrímur þrammar út á land, stefnir að Kárahnjúkum. Ögmundur Jónasson arkar af stað í áttina að Kirkjusandi, Ingibjörg hefst handa við að knésetja ríkissjóð með handaflinu einu saman.

Á Kirkjusandi, nánar tiltekið í höfuðstöðvum Glitnis, situr gleiðbrosandi þotuliðið í silkigöllunum og býr til peninga. Rétt eins og Kjartan galdrakarl í strumpunum hatar strumpa, þá hatar Ögmundur þotuliðið. Þotuliðinu verður nokkuð bilt við þegar það sér risastórt auga Ögmundar stara á það inn um gluggann á sjöundu hæð. Skelfing grípur um sig þegar hann hrifsar nokkra silkigallaklædda af handahófi út úr byggingunni og kremur eins og hver önnur skordýr. Því næst rífur hann höfustöðvarnar upp með rótum og fleygir þeim lengst út í hafsauga. Svo ber hann sér á bringu og hlær illkvitnislega.


Ögmundur á þaki höfuðstöðva Glitnis?

Á meðan á þessu stendur er Steingrímur J. á Kárahnjúkum. Hann er að brjóta niður Kárahnjúkastífluna. Hann einn veit líka um staðinn þar sem handbremsan er, handbremsan til að stöðva hjól atvinnulífsins. Eftir gott dagsverk á Kárahnjúkum laumast hann á leynistaðinn með handbremsunni, iðandi í skinninu af eftirvæntingu, nú verður sko bremsað!

Er ég nálægt lagi með þessar hugmyndir? Verður þetta svona? Er einhver sérfræðingur í kollsteypu sem getur frætt mig um málið?
----

Lokaorð: Hvað sem öðru líður finnst mér of margt neikvætt hafa komið út úr sitjandi ríkisstjórn. Ég held að ýmsir hafi gleypt við hræðsluáróðri stjórnarliða meira en góðu hófi gegnir og hræðist því breytingarnar að ástæðulausu. Ég vil stjórnarskipti. Ef þau verða síðan til þess að hagur þegna landsins versnar á fleiri sviðum en hann batnar, er sjálfsagt að sparka nýju stjórninni eftir fjögur ár.

þriðjudagur, 8. maí 2007

Spekingar í spjalli

Örfáir dagar eru til kosninga. Fólk ræðir málin á kaffistofum og götuhornum, "Jæja, hvað á svo að kjósa?" segja menn og sötra kaffið og bíta í kringlu með osti. Svörin eru misjöfn og sumir blóta "gjörspilltri Framsókn", aðrir "Frjálslyndum rasistum", enn aðrir "Samfylkingu með enga skoðun". "Blóðrauðu kommarnir!" og "bölvað íhaldið!" eru önnur viðkvæði sem fá að flakka manna á milli og svo svelgist þeim á kaffinu og kringlan stendur í þeim.

Áróðursmeistarar stíga á stokk og mála skrattann á vegginn úr öðrum flokkum en þeirra eigin. Misjafnt er hve vel tekst til. Ég vissi varla hvaðan á mig stóð veðrið í kaffistofuspjalli um daginn. Ég var spurður hvað ég ætlaði að kjósa. Ég svaraði eftir bestu vitund og með góðri samvisku. Spyrjandi var frændi minn sem vinnur verkamannavinnu og svaraði tilsvari mínu svona: "Nú? Til þess að ég verði atvinnulaus?". Jú, þarna hitti hann naglann á höfuðið, einmitt til þess að hann verði atvinnulaus! Ég spurði á móti hvernig hann fengi það út og þá svaraði hann: "Ef það kemur vinstristjórn missi ég vinnuna". Virkilega öflug röksemdafærsla þarna á ferð. Orsakasamhengið er sem sagt nokurn veginn svona samkvæmt honum:
Ég kýs vinstri flokk -> hann missir vinnu.

Ég kalla þetta að vera ginnkeyptur fyrir áróðri og ekkert annað. Því meira sem ég sé og heyri af slíkum arfavitlausum áróðri, þeim mun ákveðnari verð ég í minni afstöðu. Ég skil ekki hversu mikið umræðan byggist á hræðsluáróðri í garð annarra flokka. Þó virðist slíkur áróður koma í meira mæli frá fylgjendum núverandi ríkisstjórnar, sem fara sumir út fyrir öll velsæmismörk í bulli og varnaðarorðum um vinstristjórn. Kannski væri betra að hver flokkur talaði fyrir sig og lýsti eigin áherslum, í stað þess að lýsa fjálglega hvað hinir flokkarnir muni gera, fái þeir aðstöðuna. Þetta er ekki alveg þannig að einn flokkurinn þýði himnaríki og hinir helvíti, þótt maður gæti haldið það ef maður hlustar of mikið á áróðursmeistara.


Eftir snarpa umræðu á kaffistofunni?

föstudagur, 4. maí 2007

Sturlun Steingríms

Þeir sem stöðugt tala niður Vinstri græna fengu aldeilis vatn á myllu sína í gærkvöldi. Í viðtali Kastljóss við Steingrím J. sagðist hann vilja lengja fæðingarorlofið í 12 ár (þáttastjórnendur hváðu og þá reyndi Steingrímur að bakka út úr þeim forarpytt sem hann var kominn í og sagði afsakandi "12 mánuði" (eins og einhver trúi því)).

Jájá, svo ætlar hann víst að stofna netlöggu eins og hvergi þekkist nema í kommúnistaríkinu Kína.

VG ætla víst að þjóðnýta bankana aftur.

Handbremsur á atvinnulífið hef ég heyrt.

Svo munu þeir skattpína þjóðina svo menn munu þurfa að herða sultarólina, jafnvel þiggja þróunaraðstoð að utan.

Þeir hafa að vísu ekki sagt þetta sjáfir, en maður sér alltaf glitta í illskuna og Sovétdýrkunina hjá kommunum. Þeir munu fella grímuna og sýna sitt rétta eðli eftir kosningar, fái þeir til þess umboð.

Hér verður kollsteypa ef á kemst vinstristjórn. Sporin hræða. Við vitum hvernig vinstrimenn stjórna.

Áróður? Kjaftæði? Þvættingur? Spuni? Gott ef ekki.

þriðjudagur, 1. maí 2007

Liverpool í úrslit Meistaradeildar Evrópu 2007

Að slá Chelsea út er frábært, sérstaklega út af hrokanum í Mourinho og heimskulegum ummælum hans alla tíð. Ef einhver hefur gott af því að fá kalda vatnsgusu í andlitið er það hann.


Í úrslitum munu mætast Liverpool og AC Milan eins og 2005, þótt möguleikar Liverpool á sigri í úrslitaleik væru líklegast ívið meiri gegn Manchester United en AC Milan.


Meistari. Það sama verður ekki sagt um stjóra Chelsea.

föstudagur, 27. apríl 2007

Guesthouse Guðmundar

Ég hef á tilfinningunni að það sé oftar hringt í minn síma í skakkt númer en hjá flestum öðrum svona almennt. Undanfarna þrjá daga hafa hringingarnar hins vegar náð nýjum hæðum því gistiheimili í Hveragerði virðist hafa beint hringingum þangað í minn síma. Þetta hefur þýtt þó nokkur undarleg símtöl síðustu daga. Nú rétt áðan hringdi Frakki og tilkynnti mér að "Yes, hello we are three french people and want to book a room at your guesthouse". Svo hringdi rútufyrirtæki í mig í gær út af túristahóp eða slíku. Þar fyrir utan hafa komið fleiri undarlegar hringingar þar sem ég hef m.a. verið sakaður um að hafa hringt í viðkomandi rétt áður, einnig var ég sakaður um að heita Knútur, sem er langt frá sannleikanum.


Knútur?

Um daginn hringdi líka einn, sagði til nafns, og tilkynnti mér að hann ætlaði að kaupa af mér íbúð á 23 milljónir. Þótt ég hefði fús viljað þiggja þessar 23 milljónir gat ég því miður ekki látið hann hafa íbúð í staðinn.
------------
UPPFÆRT kl.15:43: Síðan ég skrifaði færsluna fyrr í dag hef ég fengið fimm ruglhringingar og nú er mælirinn fullur. Reyndar voru bara fjórar þeirra í tengslum við gistiheimilið (tveir hringdu tvisvar), þriðja hringingin var maður sem spurði hvort þetta væri Dr. Gunni, ég neitaði. En nú er ég sumsé búinn að hringja í tvö þjónustuver út af þessu, fyrst til Sko þar sem ég er með símann og síðan til Símans (var vísað þangað þar sem gistiheimilið ku vera með sitt númer þar). Nú á að vera búið að klippa á tengsl míns númers við blessað gistiheimilið og þá þarf ég vonandi ekki að segja "This is not a guesthouse!" oftar.


Dr. Gunni?

Ég var farinn að halda að einhver væri að gera at í mér, sérstaklega þegar spurt var hvort þetta væri Dr. Gunni, eftir allar gistingapantanirnar. En eftir að ég fletti númerinu sem þá var hringt úr upp og kunni engin deili á eiganda þess virðist þetta allt saman bara hafa verið fáránleg tilviljun. Gistiheimilið tengdi bara á rangt númer og svo hlýt ég að vera með svipað númer og Dr. Gunni eða eitthvað. Nú er spurning hvort gistiheimilið góða hefur ekki misst af nokkrum viðskiptavinum út af þessum gjörningi. Eða munu túristarnir reyna oftar að hringja í gistiheimilið þegar alltaf virðist svara pirraður maður sem neitar þeim um gistingu og segir enn fremur að þetta sé ekki einu sinni gistihús? Ekki mundi ég láta bjóða mér slíkan dónaskap oft ef ég væri að leita að gistingu.

Gistiheimili?

fimmtudagur, 26. apríl 2007

Tilraunastarfsemi

Spá mín reyndist röng um leik Man. U. og Milan. Ástæðurnar voru einkum tvær, í fyrsta lagi nýttu Milan menn sér ekki vængbrotna vörn Utd. sem skyldi og í öðru lagi misstu þeir tvo lykilmenn í meiðsli þegar mest á reyndi í leiknum. Raunar var spá mín um úrslit í leik Chelsea og Liverpool í gærkvöldi líka röng, þótt hún hafi ekki birst hér. Þá dreg ég þá ályktun að ég sé vanhæfur til að spá fyrir um úrslit leikja í undanúrslitum Meistaradeildar.

Að því sögðu ætla ég að spá Chelsea 3-0 sigri gegn Liverpool á Anfield í næstu viku, í síðari leik liðanna. Svo vona ég að sjálfsögðu að sú spá reynist kolröng.

þriðjudagur, 24. apríl 2007

Spá

Man. Utd. - AC Milan í Meistaradeildinni verður í kvöld.
Man. Utd. verða með vængbrotna vörn (sjá hér), Milan nokkurn veginn með sterkasta lið -> Sigur AC Milan er næsta vís á Old Trafford. Stuðullinn er 3,15 á lengjunni. Ég væri til í að setja 5000 kr. á þetta en það er aðeins of mikið ef svo ólíklega vill til að það klikki, læt þúsundkall duga.

Væntanleg úrslit: 1-2
Mörk Milan: Gilardino og Kaká.
Mark Man. Utd.: Scholes.

sunnudagur, 22. apríl 2007

Wilson Muuga

Flutningaskipið Wilson Muuga hefur nú verið dregið af strandstað á Hvalsnesi. Í fréttum hefur komið fram að fjórir hefðu áhuga á að kaupa skipið. Fréttahaukum láðist að nefna áhuga minn á þessum eigulega grip, hugsanlega vegna takmarkaðra fjárráða og lítilla umsvifa í viðskiptalífinu hingað til.

Gefum okkur að ég hefði fulla vasa fjár og ætti hæsta boð í skipið góða. Þá væru eftirfarandi möguleikar inni í myndinni:
  • Geyma skipið úti í garði og láta það ryðga. Útilokað -> lítill garður.
  • Kaupa jörð undir skipið, lappa upp á það og hafa einhvers konar starfsemi þar innan borðs, s.s. veitingastað, útsýnispall, álver, olíuhreinsistöð eða túristagildru.
  • Fá skipsstjórnarréttindi og sigla á skipinu yfir heimshöfin án þess að vitað nokkuð hvert förinni væri heitið.
  • Breyta skipinu í gamaldags sjóræningjaskip og auglýsa eftir áhugasömum til að vera í áhöfn. Það væri atvinnuskapandi eins og annar kosturinn.

fimmtudagur, 12. apríl 2007

Bein útsending

Um daginn keypti ég danskt Rivo kaffi á 99 kr. í Krónunni. Nú ætla ég að smakka kaffið í beinni útsendingu á meðan ég skrifa þessa færslu.

  1. Óhefðbundin lykt kaffisins fangar strax athygli mína. Til öryggis hef ég skál við höndina á meðan smökkun fer fram.
  2. Ég dreypi á kaffinu úr bollanum. Ógeðslega rammt bragðið fangar strax athygli bragðlaukanna.
  3. Kaffið fær ekki að rata ofan í maga, heldur í skálina sem reyndist góður gripur í þessari tilraun.
Niðurstaða: Rivo kaffi er bragðvont og rammt.
Einkunn: 4,0.

2.tilraun - Rivo kaffi með kaffirjóma.
Önnur tilraun felst í að bæta kaffirjóma út í áður en dreypt er á drykknum. Niðurstaðan reynist nú vera drykkjarhæft kaffi. Kaffirjómi virðist því gera varla drykkjarhæft kaffi drykkjarhæft.

Einkunn: 6,5.

þriðjudagur, 3. apríl 2007

Vafasöm samsæriskenning

Ég var viss um að samsæriskenningar kæmu fram á hvorn veginn sem kosningin um álverið í Straumsvík færi. Svo kom á daginn að baráttusamtökin Hagur Hafnarfjarðar veltu upp þeim möguleika að brögð hefðu verið í tafli eftir að niðurstaðan varð ljós -"rökstuddur grunur" þeirra um að 700 manns hefðu skráð lögheimili sitt í Hafnarfirði undanfarið, eingöngu til þess að kjósa gegn stækkun. Hvurs konar fíflalæti eru þetta?

  1. Talan er allt of há til þess að þetta væri möguleiki. Íbúum Hafnarfjarðar hefur fjölgað um 676 síðan 10.mars 2006. Gáðu forystumenn samtakanna ekki einu sinni að þessu áður en þeir sendu frá sér þessa fáránlegu samsæriskenningu?
  2. Ef 700 andvígir hefðu skráð lögheimilið í Hfj. undanfarið, hversu margir hlynntir skráðu sig þá til þess að fá kosningarétt?
Hvað í ósköpunum á svo að þýða að eftir að niðurstaða liggur fyrir um að álverið fái ekki að stækka, að segja að samt hafi þeir heimild til að stækka, bara ekki alveg eins mikið og til stóð? Það var víst eitthvert smátt letur í þessu öllu sem "gleymdist" að segja frá fyrir fram ef marka má nýjustu fréttir. Var sem sagt tilgangurinn með kosningunni bara að gera at í fólki? Einn stór Hafnfirðingabrandari?

laugardagur, 31. mars 2007

Karókí

Í gær fór ég í skemmtilegustu vísindaferðina síðan ég byrjaði í háskólanum. Mikið var um dýrðir í mekka kapítalismans og auðhringjanna, Valhöll. Eftir þá dýrindis skemmtun fórum við á einn af börum bæjarins í dúndrandi karókí. Ég hef ekki sungið í slíku síðan ég ásamt tveimur öðrum góðum drengjum fórum mikinn í útskriftarferð sem tríóið Bluessandi. En nú fór ég upp tvisvar og hafði gaman að. Ég söng í bæði skiptin við annan mann enda hefði einsöngur verið of mikið af því góða. Þótt ég hafi haft gaman að, reikna ég síður með að áheyrendur hafi notið söngsins, enda held ég að ég hljómi eins og stunginn grís að syngja eða belja í húðstrýkingu. En er ekki einmitt tilgangurinn með karókí að fólk geri sig að fífli?

Á mínum yngri árum í grunnskóla var ég í skólakór. Mér er sérstaklega minnisstætt atvik frá þeim tíma þegar ég hef verið átta ára eða svo. Það var þannig að litli skólakórinn úr sveitinni æfði af kappi vegna þess að við áttum að syngja í sjálfri höfuðborginni, nánar tiltekið í Perlunni fyrir múg og margmenni. Eftirvæntingin óx eftir því sem nær dró. Á síðustu æfingu fyrir atburðinn mikla bað kórstjórinn mig og stelpu úr kórnum að vera eftir, hún þyrfti að ræða við okkur í einrúmi. Erindi hennar var að biðja okkur tvö að syngja mjög lágt í Perlunni, helst áttum við að hvísla. Ástæðan var að sjálfsögðu hörmulegar skrækar söngraddir okkar tveggja (þótt hún hafi ekki sagt það hreint út, heldur pakkað því aðeins inn svo það hljómaði eilítið betur). Mig minnir reyndar að til viðbótar við að vera yfirgengilega skrækróma og laglaus krakkaskratti hafi ég sungið manna hæst í þessum kór. Þessi skilaboð kórstjórans voru auðvitað algjört "boozt" fyrir sjálfstraustið á þessum tíma. Reyndar get ég að vissu leyti skilið kórstjórann ágætlega því ég hef séð myndband af sjálfum mér á þessum árum þar sem skrækróma röddin er í aðalhlutverki og allt annað en kórsöngsvæn. Ég man ekki hvort ég hlýddi beiðni kórstjórans eða hvort hún var mér hvatning til að syngja enn hærra og skrækar í Perlunni en venjulega, sem hefði vissulega verið tilkomumikið fyrir viðstadda.

Ömmerr

Noh. Missti því miður af keppninni.

fimmtudagur, 29. mars 2007

Dáleiðsla?

Tæmdu út allar hugsanir. Horfðu bara á hringinn snúast

snúast

snúast

snúast...

og búmm! Nú veistu hvað þú átt að kjósa í vor.

Gott kosningatrix.

UPPFÆRT 31.mars: Nú er þessi færsla úrelt því dáleiðsluhringurinn er farinn af síðu Íslandshreyfingarinnar og annað efni komið í staðinn.

miðvikudagur, 28. mars 2007

Lausar skrúfur

Nú hef ég setið í um fjóra tíma og unnið verkefni í Opinberri stjórnsýslu með mjög litlum hléum inni á milli. Önnur aðalheimildanna í verkefninu er lagasafnið á heimasíðu Alþingis. Að gramsa í þessu lagasafni svona lengi virðist gera mann ansi vanheilan, enda er textinn með þurrara móti, sbr: "Forstöðumaður ákveður vinnutíma þeirra starfsmanna sem starfa hjá stofnun að því marki sem lög og kjarasamningar leyfa.
Skylt er starfsmönnum að vinna yfirvinnu sem forstöðumaður telur nauðsynlega. Þó er engum starfsmanni, nema þeim er gegnir lögreglustörfum eða annarri öryggisþjónustu, skylt að vinna meiri yfirvinnu í viku hverri en nemur fimmtungi af lögmæltum vikulegum vinnutíma."
.

Allt er þetta í svipuðum dúr. Af hverju hafa þeir ekki textana aðeins hressilegri? T.d. mætti skipta Forstöðumaður út fyrir Kjeppinn og þá gæti ein greinin t.d. hljómað: "Kjeppinn má ekki mismuna umsækjendum only because they iz black..." o.s.frv. Það mætti hafa þetta svona í anda Ali G.

sunnudagur, 25. mars 2007

Þjóðhátíð '85

Vífilfell hefur ákveðið að taka gosdrykkinn TaB af markaði. Ég þekki engan sem drekkur þann drykk. Mig rámar í að hafa smakkað drykkinn '91 eða '92 hjá einhverju fólki þar sem ég var gestkomandi ásamt foreldrum. Ég man ekkert eftir bragðinu, en umbúðirnar og heitið þóttu mér framandi. Það var ekki bragð sem situr í mér alla tíð eins og bragðið af Werther's Original.

Án þess að vera sérfróður um þessi mál held ég að TaB sé svipuð tímaskekkja og Framsóknarflokkurinn. Og þótt ég hafi ekki verið fæddur þegar Þjóðhátíð í Eyjum '85 fór fram gæti ég trúað að þar hafi ríkt sannkölluð Tab-stemming. Allur krakkaskarinn hefur setið í brekkunni í lopapeysunum með bítlafaxið, glamrandi á gítarinn, syngjandi Sísí fríkar út og skálandi í tvöföldum gin í TaB.

laugardagur, 24. mars 2007

Austur í klaustur

Landsbyggðin verður æ fýsilegri kostur fyrir ungt fólk á framabraut. Nú liggja fyrir áætlanir um að byggja klaustur á Kollaleiru í Reyðarfirði. Á Reyðarfirði rís einnig álver Alcoa sem kunnugt er. Þetta tvennt bætist við magnþrungið aðdráttarafl Lagarfljótsormsins sem felur sig í Leginum á Hallormsstað að ógleymdum Hallormsstaðaskógi.

Nú liggur beint við að hætta í skóla, flytja austur, ganga í klaustur og starfa sem verkamaður fyrir Alcoa inni á milli. Gott ef það er ekki bara tilgangur lífsins. Svo gæti maður vappað þarna upp á fjöll og skotið sér hreindýr í sunnudagssteikina.