Hló þá imam
Ekki imaminn í Hvidovre, en imam þó.
Athyglisverðasti atburður Danmerkurferðarinnar í lok ágúst var líklega heimsóknin í moskuna í Hvidovre. Einn daginn römbuðum við fram á skilti sem vísaði á moskuna. Við biðum ekki boðanna heldur örkuðum sem leið lá þangað. Þegar komið var að moskunni var ekki um að villast, enda moskuleg með eindæmum. Í moskugarðinum stóð einkennisklæddur maður sem virtist vera vörður. Hann var frekar skuggalegur og horfði á okkur illu auga þegar við nálguðumst. Ekki var hægt að útiloka að hann væri vopnaður. Við ákváðum þó að tala við hann og þá bauð hann okkur velkomna og vísaði okkur inn. Svo fræddi hann okkur smávegis um moskuna og starfsemi og slíkt.
Við hittum merkilega vel á því vikulega bænaathöfnin (messan) var í þann mund að hefjast, eða klukkan hálftvö á föstudegi. Múslimar tóku nú að streyma inn og okkur var leyft að fylgjast með athöfninni, sátum í stólum aftast í hvelfingunni. Imam mætti í pontu og messaði yfir mannskapnum, til skiptis á dönsku og arabísku. Múslimarnir hlýddu á og báðu til Allah inn á milli með tilheyrandi beygjum og teygjum. Söngur á arabísku kom einnig við sögu, bæði hjá imam sjálfum og aðstoðarmanni.
Eftir athöfnina bauð aðstoðarmaður imamsins okkur í te og kökur inni á skrifstofu moskunnar, sem við þáðum. Þar talaði hann um slík trúarbrögð og tók skýrt fram að þeir tilheyrðu afar friðsamri grein islam (værum við í einhverjum vafa um það), þ.e.
Ahmadiyya, en hvorki
súnní eða
sjía, en það mun vera þriðja stærsta grein Islam á eftir hinum tveimur en þó margfalt fámennari. Hann talaði um hvers vegna hann iðkaði þessi trúarbrögð og þar fram eftir götunum. Svo sagði hann að enginn í söfnuðinum kynni arabísku nema imaminn. Það þótti okkur nokkuð skemmtilegt í ljósi þess að hálf messan var á arabísku. Imaminn sjálfur mætti svona við og við inn á skrifstofuna og talaði aðeins við okkur líka.
Imaminn var frekar fyndinn því hann var skælbrosandi allan tímann.Tómas nefndi að kirkjurnar á Íslandi væru nánast tómar árið um kring nema á jólum og páskum. Hló þá imam. Tilhugsunin um tóm trúarhús hefur sjálfsagt verið skondin, enda moskan í Hvidovre troðfull alla föstudaga. Mér tókst að hella tei niður á mig því það var svo brennandi heitt og ég óviðbúinn. Imam var ekki á staðnum þá en hefði hann séð það hefði hann eflaust hlegið dátt.
Þegar við áttuðum okkur á því að aðstoðarmaður imamsins gæti líklega talað við okkur í nokkra daga samfleytt ákváðum við að drífa okkur, enda ekki ætlunin að eyða svo miklum tíma í moskunni þótt aðstoðarmaðurinn væri skemmtilegur, það vantaði ekki. Hann vildi sjálfsagt veiða okkur yfir í múslimatrúna. Að endingu gaf hann okkur bókina
Islams svar på vor tids spørgsmål og sagði að í henni væri bæði komið inn á læknisfræði og stjórnmálafræði (hann hafði áður spurt okkur að því hvað við værum að læra), svo við hlytum að hafa gagn og gaman að. Ég reikna með að birta umfjöllun og ritdóm um bókina hér þegar ég verð búinn með hana. Við kvöddum að lokum og þökkuðum fyrir okkur, margs vísari og mettir af kökum og brennandi tei.