fimmtudagur, 31. júlí 2003

Miðagrín og kerrugrín

Það er vinsælt í vinnunni að taka miðagrín í bakaríinu í Mjóddinni. Alltaf hressandi. En það er alveg sama.

Ég mun ekki leggja land undir fót um Verslunarmannahelgina (eða versló eins og sumir kjósa að kalla hana. En það er ljótt og minnir ískyggilega mikið á ógeðfelldan skóla hér í bæ). Bara miðinn á Eyjar er 8500 kall og í Galtalæk 6 eða 7 þúsund. Ólöglegt verðsamráð? Eða verðgrín? Gæti verið. En það kostar ekkert á Akureyri. Ég verð í Reykjavík. Ekki hef ég fengið mér miða á Innipúkann svo líklega sleppir maður honum. Geitungar hafa leikið margan góðan drenginn grátt síðustu daga. Í dag hékk einn stærðar geitungur utan í mér í lengri tíma og var ekki fáanlegur til að fara þrátt fyrir að ég gerði honum ljóst að nærveru hans væri ekki óskað. Um daginn sló ég með orfi í tvö geitungabú. Geitungarnir fóru þá á stjá í tugatali og einn fór inn á dreng í hópnum og stakk hann. Ekki hressandi fyrir drenginn, það.

Ég fékk endurgreiðslu frá skattinum.

Bara út á kantinn og inn á miðjuna félagi.

þriðjudagur, 29. júlí 2003

Liverpool-Arsenal

Liverpool keppti við Arsenal í dag og tapaði 1-2. Ég sá fyrri tvö mörkin. Fyrra mark Arsenal kom eftir óréttmæta aukaspyrnu. Liverpool voru töluvert betri og sóttu linnulaust allan tímann sem ég horfði. En ekki gátu þeir drullað boltanum í netið nema einu sinni. Pressan eykst á Houllier. Tveir tapleikir í röð.

mánudagur, 28. júlí 2003

Kelduhverfi og krúnurakstur

Þegar ég kom heim úr vinnu á föstudaginn var það síður en svo ætlunin að keyra norður í land. Það var þó það sem ég gerði því móðir mín linnti ekki látum og heimtaði að ég færi með norður. Ég hafði ætlað að fara niður í bæ og eitthvað en það varð ekkert úr því. Þess í stað fór ég út á land í heimsókn til afa og ömmu í Lóni í Kelduhverfi. Ég fór í golf í fyrsta sinn í tvö ár. Það var á golfvellinum í Ásbyrgi. Mér hefði ekki veitt af að æfa mig því árangurinn var ekki sérstaklega góður. Svo fór ég ásamt frændum mínum í Lund í Öxarfirði og þar var bjór drukkinn og brennivín í kaffi með sykri, sem að sögn kunnugra smakkast eins og kúmenhorn. Ég drakk ekki deigan dropa þar sem ég var dræver. Það var slatti af fólki í Lundi og sæmilegasta stemning.

Ég ákvað að láta snoða mig á sunnudag þannig að nú er ég sköllóttur. Það er ákveðið frelsi fólgið í því að vera svona sköllóttur en það er samt eins og það vanti eitthvað á mann, enda vantar á mann hárið.

Alltaf erum við hressir í vinnunni, maður.Snilld. Gissur er hættur að vinna og ég náði ekki að hefna mín á honum fyrir grikkinn sem hann gerði þarna um daginn. Skandall.

Ég sá mjög gott tilboð í Bónus um daginn. Stór kippa af skemmdum bönunum á 50 kall. Þeir voru kallaðir matreiðslubananar ætlaðir til matreiðslu. Nú bíður maður bara eftir að geta keypt myglað brauð á tíkall. Hver segir að það sé hátt verð á matvörum á Íslandi?

miðvikudagur, 23. júlí 2003

Skrýtinn heimur

Hvernig stendur á því að valdamesti maður heims (Bush Bandaríkjaforseti) er stríðsóður fæðingarhálfviti? Hann er án alls vafa með fleiri líf á samviskunni en Saddam Hussein og synir hans með stríðsrekstri sínum. Svo er ríkisstjórn Íslands lítið annað en strengjabrúður Bush og stjórnar hans.

Sjálfstæðismenn eru búnir að grafa eitthvað upp um Þórólf Árnason borgarstjóra. Hann er skotspónn þeirra vegna meintrar aðildar hans að verðsamráði olíufélagannna. Ég trúi ekki þessu bulli þeirra. Þetta er bara dæmi um málefnafátækt þeirra. Svipað og þegar þeir reyndu að grafa eitthvað upp um Hrannar og Helga Hjörvar. Ég held að Þórólfur sé úrvalsmaður. Það er ekkert hægt að kvarta undan honum sem borgarstjóra.

Einn, tveir og elda

Gufuböð eru djöfulleg. Ég gæti ímyndað mér að það að vera í helvíti sé svipað og að vera í gufubaði. Gufubaðið í Kópavogslaug skal sérstaklega nefnt til sögunnar í þessu samhengi en það er versta gufubað sem ég hef komið í síðan ég fór í gufubaðið á Laugarvatni hérna um árið. Fyrir utan það að öndun sé illmöguleg í því gufubaði (Kópavogs) steikir það lappirnar á fólki svo um munar. Fær það gufubað hér með mínus í kladdann. Svo svitnar fólk gjarnan í gufubaði og þarf í sturtu áður en það fer í laugina aftur. Fyrir utan þetta gufubað er Kópavogslaug mjög hressandi laug. Ja, kannski líka fyrir utan það að heitu pottarnir eru gjarnan pakkaðir af gömlum konum. Þær mættu gjarnan víkja fyrir yngra kvenfólki og fara í gufubaðið. Ekki það að ég sé á móti gömlum konum eða vilji þeim illt. En ég kysi samt frekar að hafa þennan háttinn á. Ég fór í Kópavogslaugina um daginn. Þangað hef ég ekki farið síðan í hittífyrra og var eiginlega búin að gleyma því að það er góð laug. Svo í hádegishlénu í vinnunni í dag fór hópurinn í Breiðholtslaugina. Það var bara fínt þrátt fyrir rigningu. Það mun hafa verið í fyrsta skipti sem ég fer í þá laug og ekki er loku fyrir það skotið að ég fari einhvurn tímann þangað aftur.

Elvar á afmæli í dag og fær hann hamingjuóskir af því tilefni. Ég klikkaði hins vegar á gjöf til pilts. Hvernig er það. Verða engir aukatónlekar á Foo Fighters?

Ég hef verið hálfsúr síðustu daga og eru ónefndar ástæður fyrir því.

Yfir og út.

laugardagur, 19. júlí 2003

Allsber í Öskjuhlíð

Ég fór í Nauthólsvík í fyrsta skipti í dag. Veður var ákjósanlegt til slíkrar tilraunastafsemi. Margir voru staddir þarna. Pjakkurinn og Henrik fóru með. Fyrst gengum við um til að kynna okkur svæðið og það fyrsta sem ég hugsaði var: "hér er samansafn af hálfvitum". Maður fer ekki á sólarströnd á Íslandi. En ég var þarna líka svo ég var bara einn af hálfvitunum, svo þetta slapp allt fyrir horn. Við sáum að þarna voru prýðisgóðir klefar og aðstaða til fataskipta. En einn galli var á gjöf Njarðar. Það kostaði 200 krónur að fá klefaaðstöðu. Það fannst Pjakknum óþarfa fjáraustur og vitleysa. Alltaf gott að spara. Svo við ákváðum að nýta okkur ekki aðstöðuna. Þess í stað sáum við okkur leik á borði að hafa fataskipti inni í skóginum í Öskjuhlíð, rétt hjá. Þannig að ég hljóp umsvifalaust inn í skóginn og hafði fataskipti. Þegar ég stóð þarna á Adamsklæðunum einum fata fór ég að pæla í því ef fólk sæi mig. Þá hefði ég líkast til verið talinn versti pervert. Að maður tali nú ekki um ef ljósmyndari Séð og heyrt hefði verið á staðnum og ég hefði komið á forsíðu næsta blaðs undir fyrirsögninni: "Pervert í Öskjuhlíð" og "Guðmundur leikur lausum hala!" Ég vona að það hafi ekki gerst. Maður leggur nú ýmislegt á sig til að spara tvöhundruð kall.

Ísland er án efa eina landið í heiminum þar sem maður á það á hættu að kvefast á sólarströnd. Þegar maður fer í sjóinn þarna er líka hressandi að stíga á allskonar kræklinga og renna jafnvel í mannaskít. Svo er líka gaman að synda, svo finnur maður vatnið allt í einu hitna svolítið og fer að velta því fyrir sér hvaðan þessi indælis varmi komi. Þá er líklegast að litli strákurinn rétt hjá hafi verið að míga í vatnið.

fimmtudagur, 17. júlí 2003

Verra en ógeð

Nýtt og "betra" Fanta er verra en ógeð. Það er ekki bjóðandi saklausu fólki. Sjálfsagt er einnig að nefna að þjóðhátíðardrykkurinn Eldgos er ódrekkandi sull. Mountain Dew er eina sem virkar eða Egils appelsínið eina sanna. Annars er maður lítið í gosinu.

Ákveðinn maður í vinnuhópnum lét mig gera mig að fífli í dag þegar hann sagði mér að einhver Klaus hefði spurt um mig. Það var þannig að hópur fólks var staddur rétt hjá þar sem við vorum að vinna að taka upp auglýsingu fyrir danskan banka (Það veit enginn hvað þeir eru að gera í íbúðahverfi í Breiðholti að taka upp danska auglýsingu). Þessi ákveðni samstarfsmaður kom síðan til mín þar sem ég var að slá og sagði mér að einhver Klaus þarna hefði spurt um strákinn á orfinu (það var ég í þessu tilfelli). Ég trúði þessu eins og nýju neti því ekki fór ég nú að trúa saklausum vinnufélaga til að gera mér grikk. Svo fór ég að athuga með þetta. Fyrst stóð ég á tökustaðnum eins og hálfviti og allir horfðu á mig. Ég var að athuga hvort umræddur Klaus kæmi ekki til að koma máli sínu á framfæri. Ekki kom hann. Þá fór ég og spurði einhvern þarna í á upptökustaðnum hvar þessi Klaus væri sem hefði spurt um mig. Ég fékk svarið: "Ha, það er enginn Klaus hérna, þú hefur eitthvað verið gabbaður núna". Það er gefið að ég þarf að upphugsa einhvern góðan grikk til að hefna mín á samstarfsmanninum og góðar hugmyndir eru að sjálfsögðu vel þegnar.

miðvikudagur, 16. júlí 2003

Köttur í bóli bjarnar

Það er einhver kettlingur farinn að venja komur sínar heim til mín. Á síðustu dögum hefur hann komist fjórum sinnum inn í húsið, inn um opinn glugga eða dyr.

Flugur eru gjarnan hvimleiðar á sumrin. Ég er mjög vinsæll meðal flugna. Fátt gleður flugur meira en að fljúga inn í eyrun á mér eða augun. Stundum enda þær líf sitt á þann hátt. Síðustu daga hefur verið óvenju mikið um svona nokkuð stórar flugur með rautt á löppunum sem oft stoppa í loftinu og eru alltaf með hangandi lappir. Ég veit ekkert hvað þessi flugnategund heitir en Pjakkurinn kallar þetta hassflugur og ég ætla að gera það líka. Það er út af hegðun þeirra (hangandi löppunum og því). Það er eins og þær hafi stundað hassreykingar í mörg ár og séu verulega dofnar af þeim sökum. Í gær gómaði ég tvær svona flugur í hárinu á mér. Þær höfðu flækt sig þar og voru áreiðanlega önnum kafnar við hreiðurgerð og hugðust verpa á þessum ákjósanlega varpstað, hárinu á mér. Þegar ég varð flugnanna var drap ég þær báðar umsvifalaust. Ég veit ekki hvort þær hafa náð að koma fyrir eggjum þarna en ég kemst að því fljótlega ef ég finn að litlar hassflugnalirfur eru skríðandi í hárinu á mér. Ef það gerist verða þær miskunnarlaust teknar af lífi samstundis. Rómantískur fundur flugnahjónanna í hári mínu varð þeim að bana. Þær sem höfðu sett sér það markmið að ala ógeðfelld afkvæmi sín þarna. Allt til einskis hjá blessuðum flugunum. Ég, illa innrætta mannkvikindið, hef gert drauma þessara litlu flugna um glæsta framtíð að engu.

Strengjabrúður ákveðinna manna

"Reykjavík: Skyggni ágætt, hiti 19 stig". Ég var úti í allan dag, enda um að ræða besta veðurdag sumarsins. Eftir vinnu í dag fór ég í Laugardalslaugina og hafði meðferðis Pjakkinn, sem var ferlegur að vanda, og Garcia, sem var geggjaður að vanda. Ég var hins vegar sjálfur eðlilegur í alla staði eins og við var að búast. Margt var um manninn í lauginni. Eitt vaktri þó sérstaka athygli, en það voru tveir Danir í lauginni, annar röflaði og röflaði samfleitt í tíu mínútur og hinn kinkaði kolli á meðan af miklum áhuga og sagði ekkert. Þetta var eitthvað um "lufthavnen", hun ventede i fire timer" og svona. Þetta var fínasta sundlaugarferð en það er orðið ár síðan ég fór síðast í sund. Handklæðinu mínu var síðan stolið sem vakti gríðarlega kátínu mína og stökk ég hæð mína af gleði.

Þegar ég var staddur við vinnu mína í gær í Bökkunum, var að raka, kom þó nokkuð undarlegur gamall maður að máli við mig. Hann hafði frá ýmsu að segja, enda hafði ég aldrei hitt hann áður, og því var ýmislegt sem hann átti eftir að segja mér. Það var því alveg tilvalið að hann stiklaði á stóru í ævisögu sinni og segði mér skoðun sína á málefnum líðandi stundar. Hann sagði mér frá ferðum sínum í Moskvu og föngunum þar, sem byggðu einhvern turn og "þeir höfðu styttri vinnutíma en fólk hér á Íslandi hefur í dag" "Vinnuvikan hérna á Íslandi er allt of löng". Ég skaut svona inn í á réttum stöðum í ræðu mannsins "uss" og "ljótt að heyra" og Gissur í hópnum mínum skaut því að að þetta væri Davíð Oddsson og ríkisstjórn hans sem stæðu fyrir þessu öllu. Þá sagði gamli: "Já, ekki vera að nefna nein nöfn í þessu samhengi" og svo hélt hann áfram ræðu sinni um Moskvu og garðinn sinn: "þegar ég var að setja niður staurana hérna"(svo benti hann eitthvað út í loftið) og hvað hann hefði þurft að þola í gamla daga og hvað hann þurfti að sjá um stórt svæði og ýmislegt fleira. Ansi gaman var að því að hann labbaði í burtu svona fimm sinnum en kom síðan alltaf aftur og hélt áfram frásögn sinni. Svo hélt hann í öxlina á mér nokkrum sinnum og sagði síðan: "þú verður alþingismaður" Ég veit ekki af hverju hann dró þá ályktun. Toppurinn var samt þegar hann hóf hendur á loft og kyrjaði "Hver á sér fegra föðurland" fyrir okkur. Já, fyrst þegar hann kom skelltum við eitthvað aðeins upp úr og þá heyrðist í gamla: "Já, ekki að vera að gera grín að mér því ég veit nú hvað ég syng". Kleppur er víða.

laugardagur, 12. júlí 2003

Getraun?

Ætti ég að hafa hressandi getraun með veglegum verðlaunum eins og ónefndur lesandi síðunnar stakk upp á?

Fíll í postulínsbúð

Er mikil fávísi að vita ekki hver Peter Sellers er? Ég vissi það ekki en veit það núna. Ég veit þó hver Steven Seagal er og Robert De Niro og Laddi. Mér finnst það nú bara nokkuð gott. Af hverju heitir þessi texti fíll í postulínsbúð? Það veit enginn.

föstudagur, 11. júlí 2003

Kim Larsen og danskar fyllibittur

Kim Larsen er mjög góður tónlistarmaður (ekki grín. Hann er að gera góða hluti). Ég sá hann spila í Danmörku. Það er mikið af fyllibittum í Danmörku, sem oft á tíðum eru mjög hressar. Ein þeirra veifaði mér og röflaði eitthvað óskiljanlegt þegar ég var þar. En Danmörk er fínt land og spurning hvort maður flytur ekki bara þangað í nokkur ár eftir menntaskóla og fer í háskóla þar. Það væri ekki vitlaust. Rosaleg gúrkutíð er alltaf í fréttunum á sumrin. Áðan horfði ég á sjónvarpsfréttir í fyrsta sinn í langan tíma og ein fréttin var um blettótta belju og önnur var um eitthvað enn ómerkilegra sem ég man ekki hvað var. Björn Friðrik frændi sagði heldur ekkert merkilegt í íþróttafréttunum. Bara gúrkutíð. Þeir gætu alveg sagt fréttir bara annan hvern dag yfir sumartímann.

Audioslave eru að gera góða hluti. Svo þarf ég að fara að hlusta á Mars Volta. Ég keypti diskinn þeirra um daginn.

fimmtudagur, 10. júlí 2003

Ekki gott

Ég held að það sé ekki gott að kaupa risastóran stauk af Mentos Fruit sælgætismolum í fríhöfninni og hakka þá síðan næstum því alla í sig sama daginn. En þetta er einmitt það sem ég hef verið að gera núna. Það verður örugglega ekki gaman þegar ég verð orðinn spikfeitur og kominn á elliheimili með falskar tennur og í hjólastól. Þá ætla ég að kenna Mentos Fruit um. Það verður gaman.

Nú er mitt lið, ÍA 2-0 undir gegn ÍBV á heimavelli. Ég vona að Óli Þórðar lesi ærlega yfir þeim ef þeir tapa þessu.

þriðjudagur, 8. júlí 2003

Danskt FM-hnakkaspik af nýslátruðu

Í gær kom ég heim frá Kaupmannahöfn. Ferðin var stutt en skemmtileg. Ýmislegt gerði ég mér til dundurs í Danaveldi. Ég fór á Bakken á laugardaginn og prófaði ýmis tæki, Fire-ball bar hæst, en það er magnaðasta tækið á Bakken. Merkilegt var að heyra ekki í neinum íslendingum öðrum en okkur á Bakken, en svo heyrðist í þeim á fáförnum stöðum niðri í bæ. Einu tækinu sjórnaði mesti FM-hnakki sem ég hef séð. Þið kannist við íslenska FM-hnakka en þið viljið ekki vita hvernig þeir dönsku eru, þeir eru enn verri, a.m.k. þessi. Hnakkasólgleraugun og allt í stíl. Hann var gríðarlega hress og nú mun ég sérhæfa mig í að leika danska hnakka. Svo var hann að sjálfsögðu með FM-tónlist í botni meðan tækið snérist hring eftir hring.

Þegar maður fer til Danmerkur er skylda að fá sér kúluís. Hann lét ég ekki vanta í þetta skiptið. Þrjár kúlur í brauðformi með "syltetøj", klikkar ekki.

Ég fékk besta bjór sem ég hef smakkað í ferðinni, Royal Faxe, og skilst mér að hann fáist ekki á Íslandi. Magnað við Danmörku að hægt er að kaupa bjór úti í matvörubúð og það fyrir einungis fimmtíu krónur eða svo, stykkið.

Flugfreyjur eru mögnuð stétt. Í flugvélinni fylgdist ég með atferli þeirra. Og nú er komið að flugfreyjugagnrýni. Byrjum á flugfreyjunum á leiðinni til Danmerkur. Einu tók ég eftir sem ég hef ekki tekið eftir áður: Alltaf í flugi er ein yfirflugfreyja ("leading stewardesse" var það á enskunni). Yfirflugfreyjan í þessu flugi var eitthvað yfir fimmtugt á að giska. Hinar flugfreyjurnar voru ungar. Það sem var skemmtilegt var að ungu flugfreyjurnar brostu nánast allan hringinn, alla leiðina en yfirflugfreyjan brosti aldrei og var grafalvarleg. Ég veit alveg af hverju það var. Ungu flugfreyjunum fannst svo gaman en yfirflufreyjunni fannst leiðinlegt og var orðin hundleið á starfinu. Hún kallar örugglega ungu flugfreyjurnar "gemlingana" og þar sem hún var yfirflugfreyja þurfti hún að hafa hemil á þeim og mátti varla líta af þeim eitt andartak. Það olli henni eflaust þungum áhyggjum og hugarangri. Meira að segja þegar ungu flugfreyjurnar lokuðu farangurshólfunum skælbrostu þær. Það er af því að það fannst þeim svo ofsalega gaman. Þær voru örugglega búnar að hlakka til í marga klukkutíma að fá að loka farangurshólfunum enda sást á þeim að þær réðu sér vart fyrir kæti þegar þær gerðu það:"Jess, ég er að fara að loka farangurshólfum á eftir. Ég er svo spennt!". Yfirflugfreyjan lokaði aftur á móti hólfunum grafalvarleg. Henni fannst það skemmtilegt þegar hún var ung og var að byrja í bransanum en nú var hún greinilega orðin hundleið á því. Þjónustan var mjög góð.
Einkunn: þrjárog hálf stjarna af fimm mögulegum.

Flugfreyjurnar á leiðinni til baka voru rosalegar. Helga Möller söngkona var flugfreyja í þessu flugi. Það hlýtur að teljast plús. Svo voru tvær karlflugfreyjur, svokallaðir flugþjónar. Þeir voru báðir ansi hommalegir. Fátt finnst mér hommalegra en svona flugþjónar. Ég veit að það eru fordómar en þetta finnst mér nú samt. Þjónustan var hins vegar mjög góð og Helga Möller stóð sína vagt prýðisvel.
Einkunn: fjórar stjörnur af fimm mögulegum.

Við erum stödd í Danmörku, nánar tiltekið í eyranu á Guðmundi nokkrum. Þar er Mia mýfluga stödd. Við hittum hana fyrir að snæðingi, en hún er að gæða sér á blóði úr eyranu og svolgrar í sig í gríð og erg. Svona byrjar kynningin á heimildarmynd um dönsku mýfluguna Miu, en ég mun framleiða þá mynd fljótlega. Já, ég slapp ekki við helvítis skorkvikindin í Danmörku frekar en fyrri daginn og einhver feit mýfluga flaug inn í eyrað á mér um nótt þegar ég var sofandi og fékk sér blóðsopa. Gaman hvað þessi kvikindi velja alltaf skemmtilega staði til að stinga mann og bíta. Einhvern tímann í annarri Danmerkurferð sem ég fór í stakk geitungur mig í augað og það var eitt það versta sem ég hef upplifað. Þvílíkur sársauki.

Ég mun hugsanlega skrifa meira um Danmerkurferðina síðar.

fimmtudagur, 3. júlí 2003

Boris drekka.

Sumir óskapast yfir því að einhver moldríkur Rússi hafi keypt knattspyrnuliðið Chelsea. Ég sé ekki að það sé neitt slæmt. Skuldirnar greiddar upp og hellings fjármagn í nýja leikmenn. Það verður gaman að sjá hvaða menn liðið kaupir og sjá hvort kaup á rándýrum stórstjörnum skili sér í bættum árangri liðsins. Þeir hafa einmitt verið duglegir að punga út vænum fúlgum fjár fyrir stórstjörnur, en það hefur alls ekki skilað sínu. Bara vonandi að Eiður Smári verði fastamaður í byrjunarliði Chelsea á næstu leiktíð og raði inn mörkunum. Ég vil endilega að Liverpool fái harða samkeppni um titilinn á næstu leiktíð, en nú er komið að því að bikarinn komi á Anfield Road. Ég er samt ekki alveg sáttur við að Liverpool kaupi Harry Kewell, ég hefði frekar viljað David Dunn en það þýðir ekki að deila við Houllier knattspyrnustjóra.

miðvikudagur, 2. júlí 2003

Dr. Sívertsen

"Þetta var drungalegur haustdagur. Dr. Sívertsen hafði nýlokið við að þróa nýjar kjötbollur sem áttu að stöðva öldrun. Hann prófaði þær á tilraunadýri sínu og hló illkvitnislega."

Svona hljómar byrjunin á nýrri vísindaskáldsögu. Eða ekki.

Vinnudagurinn í dag var ágætur. En Ólafur Þórisson lét okkur vinna ókristilega mikið í dag. Einn mánudag fyrir skömmu lét hann okkur vinna enn meira. Afköstin hafa verið gríðarleg. Það er mjög gaman að aka um bæinn og sjá fagurgrænar, vel slegnar umferðareyjur og minnast þess að þetta sló maður sjálfur. Gaman að sjá hvað maður er farinn að hafa mikil áhrif á útlit borgarinnar. Maður fyllist stolti. Þetta var nú meira bullið.

Í gær kom einhver klikkuð kerling, sem lét eins og hún væri verkstjórinn okkar, og sagði okkur að slá hitt og þetta. Við gerðum eins og hún sagði. En þegar við vorum búin að slá og taka mest allt grasið og setja í poka sagði hún okkur að sópa stéttina líka því: "þetta er verra en ógert" eins og hún orðaði það svo skemmtilega. Við reyndum að útskýra fyrir henni að við værum sláttuhópur og sópuðum ekki. Hún hótaði öllu illu og ætlaði að hringja og kvarta, svo það endaði með því að við sópuðum líka. Svo áttum við að hafa keyrt yfir blómin hennar og ég veit ekki hvað og hvað. En þetta var skemmtilegt.

Á meðan á öllu þessu stendur er Andrés Þorleifsson bara staddur í Þýskalandi í fóstri hjá einhverri Suður-Afrískri fjölskyldu. Hann er örugglega bara blindfullur núna. Það mætti segja mér það, á einhverju torgi í Munchen. Nei nei. Svo er hann að fá 18 evrur á dag þarna fyrir að gera ekki neitt. Þetta er auðvitað skandall. Ég fékk útborgað í gær og það var varla upp í nös á ketti.

þriðjudagur, 1. júlí 2003

Breyting

Þetta var handónýt gestabók sem ég var með. Ég henti henni og fékk mér nýja. Ég afritaði allar gömlu færslurnar og límdi yfir í nýju þannig að það virðist sem allir hafi skrifað í dag. Svo er ekki. Nú birtir gestabókin íslenska stafi.