laugardagur, 30. nóvember 2002

Þessir NATO-fundir eru frekar óþægilegir fyrir þig. Það er svo sem ágætt að kjósa alltaf eins og Bandaríkin og halda með Bush, en það er samt miklu skemmtilegra að vera bara heima á Íslandi.
Þar ert þú aðalkarlinn og þarft ekki að tala útlensku.Taktu "Hvaða stríðsæsingamaður ert þú?" prófið

fimmtudagur, 28. nóvember 2002

Alltaf þegar ég fór út að leika þegar ég var lítill sagði pabbi við mig "Passaðu þig á bílunum" áður en ég fór. Reyndar sagði hann þetta alveg þangað til ég var orðinn 12 eða 13 ára. Þá bjuggum við uppi í sveit þar sem komu aldrei neinir bílar (kannski einn bíll á tveggja tíma fresti eða eitthvað) en samt átti ég að passa mig. Ég hélt að hann væri hættur að segja þetta núna en þar skjátlaðist mér. Í gær var ég að fara á æfingu með ÍR sem fara átti fram á Leiknisvelli. Ég ætlaði að skokka á æfinguna, en á leiðinni þarf að fara yfir Breiðholtsbrautina. Þá sagði pabbi enn eina ferðina "Passaðu þig nú á bílunum."Þá sagði ég: "Æi, pabbi...""Já, það er hættuleg umferð á Breiðholtsbrautinni.""Ég veit það, pabbi" Ætli pabbi haldi að ef hann segi mér ekki að passa mig þá passi ég mig ekki og lendi í slysi. FRÉTTIR:"17 ára piltur liggur þungt haldinn á gjörgæsludeild Landsspítala í Fossvogi eftir að ekið var á hann á Breiðholtsbraut" og þá segir pabbi "Ooo, allt af því að ég gleymdi að segja honum að passa sig, hann er soddan sauður, drengurinn"

laugardagur, 23. nóvember 2002

Ekki má gleyma því að ég er kominn með bílpróf eftir mikið strit. Ég féll tvisvar á bóklega prófinu, með naumindum þó í bæði skiptin og á fimmtudaginn tók ég verklega prófið og náði í fyrstu tilraun, en með naumindum. Þannig að ég er kominn með ökuskírteini (eitthvað bölvað bráðabirgðabréfsnifsi).

Ég man þegar ég var lítill og fór í sunnudagsbíltúra með fjölskyldunni. Það var kannski sunnudagur og pabbi kom og spurði "Jæja sonur sæll, langar þig ekki í sunnudagsbíltúr?" "Jú, pabbi, hvert ætlum við?" "Ætli við förum ekki bara í Borgarnes." "Jibbí! Þangað hef ég aldrei komið! Eru risaeðlur í Borgarnesi?" "uhm...neeeeiiii." og svo fór öll fjölskyldan í sunnudagsbíltúr upp í Borgarnes.
Já, einu sinni var ég svona lítill og vitlaus.

En nú er ég orðinn stærri....og vitlausari. Og kominn með bílpróf. Nú get ég sjálfur farið í sunnudagsbíltúr upp í Borgarnes, alla sunnudaga! Geð'eikt!! Nei, vonandi get ég nýtt þetta bílpróf í eitthvað gáfulegra en svoleiðis bölvaða vitleysu.

föstudagur, 22. nóvember 2002

Í Morgunblaðinu í dag (fös. 22.nóv.) er grein sem heitir Fingurnir koma upp um persónuleikann sem fjallar um rannsókn sem vísindamenn frá Liverpool gerðu. 200 manns, karlar og konur tóku þátt í rannsókninni. Persónuleiki þessa fólks og eiginleikar voru bornir saman við lengd fingranna og niðurstöðurnar voru skýrar:
KARLAR:
1. Karlar með baugfingur lengri enn vísifingur hafa mikla fótboltahæfileika, glíma við samskiptaörðugleika og hafa mikla frjósemi.
2. Karlar með baugfingur og vísifingur svipaða að lengd eru orðheppnir og mælskir en hafa takmarkaða getu til að stunda íþróttir.
KONUR:
1. Ef baugfingur og vísifingur kvenna eru svipaðir að lengd bendir það til taugaveiklunar, hræðslu við að taka áhættu en viðkomandi á auðvelt með að umgangast annað fólk.
2. Séu baugfingur kvenna hins vegar lengri bendir það til samskiptaörðugleika, en ákveðni, einbeitni og hugrekki.

Kenningin var síðan sannreynd af blaðamanni Moggans á Ásgeiri Sigurvinssyni, einum besta knattspyrnumanni sem íslendingar hafa átt. Baugfingur Ásgeirs var talsvert lengri en vísifingurinn, sem renndi frekari stoðum undir kenninguna.

Þetta þótti mér merkileg grein og þar sem ég er nokkuð auðtrúa athugaði ég finguna á sjálfum mér. Í ljós kom að á vinstri hönd hef ég baugfingur lengri en vísifingur en á hægri höndinni voru þessir fingur jafnlangir. Ég hlýt þá að vera sér rannsóknarefni. Kannski er ég bara með miðlungsskammt af þessum hæfileikum/"ó"hæfileikum. Kannski er ég alveg hæfileikalaus.